17.10.1960
Neðri deild: 5. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í C-deild Alþingistíðinda. (1807)

38. mál, loðdýrarækt

Flm. (Einar Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Þetta frv., sem var flutt á síðasta þingi, en varð þá ekki útrætt, hefur nú verið lagt fram á ný og felur í sér þá breytingu á lögum um loðdýrarækt, að niður falli úr lögum þær málsgreinar í 1. gr. 1. lið, sem banna minkaeldi.

Margar þjóðir hafa, sem kunnugt er, miklar tekjur af loðdýrarækt og ekki sízt af minkaeldi. Minkaskinn þykja einhver fallegustu skinn, sem eru á markaðnum. Það hefur verið bannað hér um nokkurra ára skeið að hafa minka í eldi, þrátt fyrir það að hér eru góð skilyrði til minkaeldis. Loftslag er hér gott og nægilegt af fóðri fyrir dýrin, bæði úrgangur úr fiski og eins úrgangur úr sláturhúsum. Nágrannaþjóðir okkar, sem hafa mjög mikið af minkum, verða að kaupa sitt fóður miklu dýrara verði en við þyrftum. Þær kaupa t.d. dýrafóður af okkur, bæði fiskúrgang og eins úrgang úr sláturhúsunum. Er þetta vitaskuld miklu kostnaðarsamara en að hagnýta fóðrið hér, þar sem það er á staðnum. Mjög mikill vöxtur hefur verið í minkaskinnaframleiðslu alls staðar í heiminum nú undanfarið, og virðist ekki vera neitt lát á eftirspurn eftir minkaskinnum. Á Norðurlöndum hefur verið margfölduð tala dýra, sem eru á fóðrum, núna á mjög fáum árum. Það er svo að segja sama, hvar gripið er niður, sérstaklega hjá fiskveiðiþjóðum, alls staðar hefur verið mjög mikill vöxtur í þessum atvinnurekstri. Japanir t.d. eru nú að fara út í minkarækt í stórum stíl. Rússar hafa mjög mikla loðdýraframleiðslu og Kanada- og Bandaríkjamenn, og svo mætti lengi telja. Íslendingar hafa ekki efni á því að sinna ekki þessum mikilvæga atvinnurekstri og láta þær tekjur, sem af honum gætu verið, fara fyrir ofan garð og neðan hjá sér. Það má ekki láta hleypidóma ráða hér gerðum manna, — hleypidóma, sem hafa skapazt ef því, að illa tókst til með minkaeldi hér, þegar það var reynt, vegna vanþekkingar.

Það er einnig önnur hlið á þessu máli, sem er ekki síður mikilvæg og snýr að sjávarútveginum. Sjávarútvegurinn mundi fá góðan markað fyrir sinn fiskúrgang, einmitt með því að láta minkinn éta hann. Nokkuð hefur verið flutt út af minkafóðri og fengizt fyrir það miklu hærra verð en með því að framleiða úr því mjöl, en eins og kunnugt er, er úrgangurinn úr fiskinum, sem unninn er t.d. í frystihúsunum, um 35 hlutar af fiskinum. Það mundi vissulega mjög létta undir með sjávarútveginum, ef hann gæti losnað við sinn fiskúrgang fyrir svo gott verð sem þeir virðast geta greitt, sem hafa slíka minkarækt með höndum. En eins og kunnugt er, er einmitt verðfallið á fiskimjölinu mesta vandamál íslenzks sjávarútvegs nú, en það er vegna hins mikla framboðs á mjöli frá Perú. Markið er kannske ekki sett of hátt, þó að Íslendingar hugsi sér á næstu árum að hafa jafnmarga minka í eldi og nágrannaþjóðir þeirra hér á Norðurlöndum, Danir, Svíar og Norðmenn, en þeir hafa allir svipaða framleiðslu af minkaskinnum og þó líklega Danir einna mest. Þeir framleiða sjálfsagt minkaskinn árlega fyrir sem svarar 500–750 millj. íslenzkra króna. Það mundi að sjálfsögðu taka nokkurn tíma fyrir Íslendinga að ná því marki.

Það er stundum talað um, að nauðsynlegt sé að fá til landsins erlent fjármagn. Vafasamt er, að hægt væri að benda á nokkra atvinnugrein, sem útlendingar væru fúsari til að leggja í fé nú, eins og ástatt er, frekar en minkarækt. Það má deila um, hversu æskilegt það er að fá erlent fjármagn inn í landið. Ýmsar raddir eru uppi um, að það eigi að gera, og aðrar aftur, að það eigi ekki að gera. Það er náttúrlega ýmislegt, sem þar þarf að taka tillit til, t.d. eins og vinnuaflsins í landinu, hvort það er nóg til þess að fara í þann atvinnurekstur, sem um væri þá að ræða að útlendingar legðu fé í. En það er svo með minkarækt, að hún krefst ekki mikils vinnuafls. Einn maður getur t.d. gætt 500 dýra, en þau mundu gefa af sér um 1500–2000 skinn árlega, eða verðmæti fyrir 1–1½ millj. kr. Þegar við berum þetta saman t.d. við vélbát, tiltölulega lítinn vélbát, þá mundi hann ekki skila öllu meira aflaverðmæti en þessi eini maður gæti skilað með minkarækt. Og ég geri ráð fyrir, að það sé mun minni stofnkostnaður við 500 minka nú en við byggingu tiltölulega lítils vélbáts, en mér er ekki kunnugt, hvað slík bú kosta. Ef þessi dýr væru hins vegar seld til undaneldis eða sem lífdýr, mundi verð þeirra vera um helmingi meira.

Mér er líka kunnugt um af viðræðum við Norðmann, sem var hér í sumar og er einn af fremstu mönnum í loðdýrarækt Norðmanna, að hann væri fús til þess að koma hér á fót a.m.k. þremur búum með 500 dýrum hverju og leggja til þar sína reynslu og þekkingu og annað, sem væri hægt að byggja á fyrir þá, sem hefðu ekki farið í slíkan atvinnurekstur áður. En það er enginn vafi á því, að margir Íslendingar væru reiðubúnir til þess að leggja út í þennan atvinnurekstur. Ég hef orðið var við, eftir að ég flutti þetta mál á síðasta þingi, mikinn áhuga hjá mönnum einmitt á þessu. En þegar ráðizt væri í slíkt, ætti það að vera gert af myndarskap, og þá þarf að byggja á sérfræðilegri kunnáttu og reynslu þeirra þjóða, sem eru komnar lengst í þessu. Ég býst við, að Íslendingar gætu í þessum efnum svo að segja byggt sín bú alveg eftir fyrirmynd Dana, því að þeir hafa komizt mjög langt í minkaeldi.

Það væri mjög mikilvægt, ef unnt væri og vilji þingmanna væri fyrir, að þetta mái næði fram að ganga, að það væri afgreitt fljótt, til þess að hægt væri að koma á fót nokkrum minkabúum í haust. Það mundi gera það að verkum, að þau mundu geta látið í té lífdýr næsta haust. Við skulum t.d. segja, að þótt ekki væri komið upp nema þremur slíkum búum, þá fengjust um 5–6 þús. lífdýr næsta haust. Það sparaði allmikinn gjaldeyri, þó að það væri náttúrlega engan veginn nóg, því að bú eru mörg hér á Norðurlöndum með 8–10 þúsund dýrum, og minkarækt er rekin þar á vísindalegan hátt. En markmiðið þyrfti að vera, að Íslendingar hefðu ekki færri en 50 þús. lífdýr haustið 1962. Það mundi gefa af sér um 154–200 þús. skinn, að verðmæti um 100–150 millj. kr. í útflutningi, ef til vill 200 millj., því að ekki er óalgengt, að beztu minkaskinn seljist fyrir allt að 1000 kr. hvert og jafnvel meira.

Það er sama, hvernig á þetta mál er litið, hvort það er frá sjónarmiði þess, að þarna er um mikilvægan atvinnurekstur að ræða fyrir þá, sem í hann legðu, eða sem lyftistöng fyrir sjávarútveginn. Það er tvímælalaust rétt að fara út í minkaeldi hér og feta sömu slóðir og grannþjóðir okkar, sem hafa ábatazt prýðilega á þessari atvinnugrein. Það mundi stuðla að fjölbreytni í atvinnuháttum og þó nokkurri atvinnu, og það mundi gefa miklar gjaldeyristekjur.

Það veltur að sjálfsögðu mikið á afstöðu þess opinbera, þegar um það er að ræða að leggja í slíkan atvinnurekstur, sem byggja þarf frá rótum. Ég vil benda á það hér, að mjög mikilvægt væri, að hið opinbera beitti sér fyrir því, að völ yrði á tæknilegri aðstoð fyrir þá, sem vildu fara út í þennan atvinnurekstur, og enn fremur, að nokkur aðgangur yrði að fé, því að þetta kostar allmikið, ef það á að gera í stórum stíl.

Villiminkurinn er þyrnir í augum margra. Auðvitað er nauðsynlegt að halda honum í skefjum, eftir því sem hægt er, en sjálfsagt verður ekki unnt að útrýma honum. En það má ekki verða til þess, að menn þori ekki að leggja í minkarækt, þó að Íslendingar hafi haft vonda reynslu. Það þarf hins vegar að ganga örugglega frá búrunum, svo að minkarnir geti ekki sloppið út, enda mun það vera mjög fátítt, að slíkt komi fyrir, í nágrannalöndum okkar. Má t.d. segja frá því hér, að þessi búr eru nú byggð þannig, að það er tvöföld girðing og um eins metra bil á milli girðinganna, og þar er látinn hlaupa í svokallaður minkahundur til þess að sálga eða hirða, ef það kynni að koma fyrir að eitthvert dýr slyppi. Þannig er á allan hátt reynt að tryggja, að slíkt geti ekki komið fyrir, enda eru menn að sjálfsögðu ekki að ala mink til þess að sleppa honum.

Ég vona, að hv. þingmenn bregðist vel við þessu máli og afgreiði það sem fyrst sem lög, svo að þeir, sem hafa áhuga á minkaeldi, geti komið fyrir sig fótunum þegar í haust, en þurfi ekki að bíða til næsta hausts, ef frv. ætti á annað borð að ná fram að ganga. Það væri þess vegna mjög mikilvægt, ef frv. gæti orðið samþykkt í þessum eða næsta mánuði.

Ég legg svo til, að málinu verði vísað til 2. umr. og landbn.