17.10.1960
Neðri deild: 5. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í C-deild Alþingistíðinda. (1808)

38. mál, loðdýrarækt

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þetta mál mikið við þessa umr., en vegna reynslu undanfarinna ára af minkaeldi þykir mér rétt, að málið sé athugað nokkru nánar, jafnvel við 1. umr. málsins.

Hv. flm. heldur því fram, að þjóðhagslega sé mjög mikill hagnaður að því að leyfa minkarækt á ný á Íslandi. Um það skal ég ekki deila á þessu stigi málsins, en vildi skjóta því til hv. landbn., sem fær þetta mál til meðferðar eftir þessa umr., hvort hún mundi geta upplýst Alþingi um það, hver væri hinn raunverulegi kostnaður orðinn af því tjóni, sem minkaeldi hefur valdið hér á Íslandi. Það gæti a.m.k. haft áhrif á mitt atkv., þegar endanlega verða greidd atkv. um málið, hvort þær upphæðir eru lágar eða háar. Ég sé í grg., að hv. flm. telur, að þessi kostnaður sé orðinn nú þegar á fjórðu milljón króna, en hvort hann reiknar þar með beint tjón við útrýmingu minkanna eða einnig það tjón, sem orðið hefur á landinu vegna minkanna yfirleitt, þ.e.a.s. það tjón, sem bændur og aðrir hafa orðið fyrir, sést ekki í grg. En það væri ágætt, ef hv. nefnd vildi upplýsa það.

Ég sé einnig hér í grg., að hv. flm. telur, að það sé hægt að fyrirbyggja svo að segja að fullu, að minkar sleppi út úr búrum. En það þarf náttúrlega ekki nema eitt karldýr og eitt kvendýr til þess að gera hér usla síðar meir, ef út sleppa, eins og kunnugt er, svo að ég hefði nú haldið, að hann mundi taka enn dýpra í árinni og segja, að það væri hægt að fyrirbyggja það að fullu og öllu.

En í tilefni af þessu vildi ég mega spyrja, hvort hann mundi vilja sætta sig við sem flm., ef frv. yrði samþykkt, að inn í það yrði sett, að tekinn skyldi sérstakur tollur af minkaeldi, sem þannig yrði leyft, til þess að bera allan þann kostnað, sem væntanlega kynni af þessu að hljótast, og jafnframt taka á sig allan þann kostnað, sem við það yrði að útrýma villiminkunum. — Þetta vildi ég gjarnan biðja hv. flm. að athuga og einnig n. að athuga, hvort slíkt ákvæði þætti eðlilegt að setja í lögin. Og ef hv. flm. vildi fella sig við það og n. að öðru leyti þætti ástæða til þess að samþykkja frv., þá gæti það vel snúið mínum huga í þessu máli, en eins og sakir standa, er ég ekki ginnkeyptur fyrir því að fá þetta samþykkt svona fyrirvaralaust.

Þetta vildi ég láta koma fram hér við 1. umr. Ég sat lengi í fjvn., og mér var það vel kunnugt, hversu óskaplegt fé það var, sem ríkissjóður og þjóðin varð að greiða fyrir mistök á innflutningnum á karkúlfé á sínum tíma, og er ekki séð fyrir endann á því enn. Mér er líka nokkuð kunnugt um, hvaða blóðtaka hefur verið hjá þjóðinni það tjón, sem minkurinn hefur valdið hér á undanförnum árum, og mér var líka kunnugt um það, að á meðan minkabúin voru hér og leyft var að ala upp minka, þá munu þeir hvergi hafa gefið nokkurn arð, nema þegar hægt var að selja minka til lífsuppeldis. Undireins og þrengdist um þann markað, gátu þessi bú engan arð gefið, nema síður sé. Og ef það er raunverulegt enn, að það sé aðeins von á að búin geti gefið arð með því að selja minkana lifandi til annarra búa, eins og var hér áður, en arðurinn takmarkist eða jafnvel hverfi, þegar þarf að fara að ala minkana upp bara til þess að selja skinnin, þá er því síður ástæða til þess að leyfa þetta aftur og hleypa þjóðinni í þá hættu, sem því fylgir.

Ég skil ákaflega vel hv. flm., að hann vilji með þessu reyna að bæta úr því áfalli, sem útvegurinn hefur fengið við það, að verðfall hefur orðið á fiskimjöli og fiskúrgangi. En ég vildi mega beina þeirri spurningu til hans, hvort það hefur verið athugað gaumgæfilega og til fulls, hvort ekki mætti notfæra sér þennan úrgang á þann hátt að setja hér upp fiskrækt frekar en minkaeldi. Það er áreiðanlegt, að þó að við misstum nokkra silunga út úr tjörnunum, þá mundu þeir ekki gera neinn usla hér í landinu, og það er líka alveg áreiðanlegt, að nágrannaþjóðirnar, m.a. Danir, sem vitnað hefur verið í hér, hafa ekki minni útflutning af regnbogasilungsrækt en af minkarækt. Þar hefur verið komið upp í svo stórum stíl regnbogasilungsrækt, að þar mun nema mörgum tugum milljóna útflutningur á ári á þeirri vöru. Og mér sýndist, að það lægi nær útvegsmönnum, ef þeir eru að hugsa um sína hlið á málinu, að athuga, hvort þeir geti ekki komið fiskúrgangi í hærra verð með því að stuðla að því að koma slíku í framkvæmd, en hugsa minna um minkaræktina.

Sem sagt, ég mun fylgja þessu máli til hv. landbn. og til 2. umr. Ég er sammála hv. flm. um, að það eigi að athuga málið fljótt og gaumgæfilega, og þegar þær athuganir liggja fyrir, þá kemur það sjálfsagt aftur hingað til d. til athugunar, og hefur þá skýrzt fyrir mönnum, hvaða afstöðu þeir taka til þess.