16.02.1961
Neðri deild: 64. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í C-deild Alþingistíðinda. (1812)

38. mál, loðdýrarækt

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég er sammála hv. frsm. landbn. um það, að ekki sé tímabært að samþykkja það frv., sem hér liggur fyrir um breytingu á lögunum um loðdýrarækt. Og ég get einnig verið því samþykkur eftir atvikum, að málinu verði vísað til ríkisstj., og greitt atkvæði með því. En ég vil taka það fram a.m.k. fyrir mitt leyti, og geri ég raunar ráð fyrir, að það liggi í augum uppi, að í atkvgr. um það að vísa þessu máli til ríkisstj. felst engin atkvgr. um hugleiðingar hv. landbn. í nál. á þskj. 355 og engin afstaða til þeirra hugleiðinga, sem þar koma fram.

Það er nú ekki mjög langt síðan mjög var rætt um minkarækt hér í hinu háa Alþ., og ég býst við, að ýmsum, sem hér eiga nú sæti, séu þær umr í fersku minni, sem þá fóru fram. Niðurstaða þeirra umr, varð sú, að minkarækt hér á landi var bönnuð með lögum og hefur verið síðan. Og það þarf ekki að rekja þær ástæður, sem færðar voru fyrir þessu lagaboði. Það var svo mikið rætt og ritað um minkinn hér á landi á þeim tíma, að það þarf ekki að skýra þær ástæður. Nú er hins vegar komið það viðhorf hjá ýmsum hér í landinu, að rétt sé að aflétta þessu banni á minkarækt og minkainnflutningi, og svo er komið, að frv. um það efni liggur nú hér fyrir í þessari hv. deild, og mundi ýmsum hafa þótt saga til næsta bæjar á þeim tíma, þegar verið var að samþykkja hér bannið gegn minkarækt. Ég geri ráð fyrir því og þykist skilja, að ástæðan til þess, að slíkum tillögum er nú hreyft, sé verðfallið, sem orðið hefur á fiskmjöli og er mjög tilfinnanlegt fyrir sjávarútveginn, eins og sakir standa, og svo sögur, sem mönnum hafa verið sagðar frá öðrum löndum um mikla hagnaðarvon af þessum búpeningi, eins og nú er farið að kalla minkinn í ræðu og riti. Og það er ekki nema eðlilegt, þegar slík áföll koma fyrir, eins og verðfallið á fiskmjöli, að þá leiti menn úrræða.

Að svo komnu máli ætla ég ekki að fara langt út í þetta mál, enda ekki ástæða til þess, þar sem hér liggur fyrir sú till. frá nefndinni, sem ég nefndi áðan. En mig langar til þess, áður en þessari umr. lýkur, að spyrja hv. frsm. landbn. örfárra spurninga til upplýsingar þessu vandamáli. Ég vil þó, áður en ég geri það, geta þess, að ég tók svo eftir hjá hv. frsm., að frv. hafi verið sent Búnaðarfélagi Íslands til umsagnar og að Búnaðarfélag Íslands hefði farið þess á leit, að umsögn þess mætti dragast, þangað til það hefði getað ráðgazt við búnaðarþing, sem á að koma saman nú í febrúarmánuði. Ég vona, að ég hafi skilið þetta rétt, að frsm. segði svo frá. Ég verð að segja það, að ef ég hef skilið þetta rétt, og sérstaklega þar sem um hv. landbn. er að ræða, þá þykir mér það bera vott um nokkra óþolinmæði hjá nefndinni, að hún skyldi ekki doka við þennan tíma, sem ekki er mjög langur, þangað til búnaðarþing kemur saman, til þess að fá álit búnaðarþings á þessu máli, því að hingað til hefur verið litið á það sem landbúnaðarmál og virðist vera litið enn, fyrst og fremst, þar sem því var í þessari hv. deild vísað til landbn. Og ég vildi þá spyrja um það, hvernig á því standi, að nefndin skuli ekki hafa séð sér fært að bíða eftir áliti búnaðarþings, úr því að hún hafði í huga till. um afgreiðslu, sem ætti ekki að þurfa að taka langan tíma hér á Alþ.?

Í öðru lagi vildi ég spyrja um það, hvort leitað hafi verið umsagnar náttúrufræðinga um þetta mái. Ég held, að það hafi verið gert hér áður, þegar málið var á döfinni, a.m.k. hafa þeir látið þetta mál töluvert til sín taka, sem eðlilegt er, því að koma minksins hingað virðist hafa haft töluverð áhrif á það dýralíf, sem fyrir var í landinu og hefur verið. Ég vildi spyrja um þetta, hvort leitað hafi verið álits íslenzkra náttúrufræðinga og þá sérstaklega þeirra náttúrufræðinga, sem venjulega eru beðnir að segja álit sitt um slík mál.

Enn fremur vildi ég spyrja um það, hvort það sé álit veiðistjóra, sem nefndin virðist hafa haft viðræður við og fengið umsögn hjá, að ekki sé hægt að útrýma villiminknum úr landinu, — hvort hann hafi látið það álit í ljós við nefndina og hvaða rök hann hafi fært fyrir því, að það sé ekki hægt.

Ég sé, að þessu nál. fylgir ýtarleg grg. eða skýrsla frá íslenzkum manni búsettum í Noregi um minkarækt í Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Þetta er allýtarleg grg. og sagt þar frá mörgu. Þetta virðist vera mjög fróðlegt, og fylgja því talnatöflur, sem þessi höfundur virðist hafa tekið saman. Þarna sé ég upplýsingar um félagsskap minkaeigenda í þessum löndum, um útflutning og útflutningsverðmæti, um tölu þessa búpenings í löndunum o.s.frv. Það er tekið fram hér í nál. á 1 bls., að Svíar hafi árið 1959 flutt út minkaskinn fyrir 79 millj. sænskra króna, Danir fyrir 75,5 millj. d. kr. og Norðmenn fyrir 72,2 millj. n. kr., og nefndin kemst að þeirri niðurstöðu, að þetta séu háar upphæðir og sýni, eins og það er orðað í nál., að hér sé um að ræða gagnsama atvinnugrein fyrir þessar þjóðir. Síðan segir nefndin, að þessi atvinnugrein muni að vísu vera háð tízkufyrirbrigðum og verðsveiflum og geti af þeim sökum orðið áhættusöm, en sama megi segja um ýmsar aðrar atvinnugreinar og oft mundi litið aflast, ef á ekkert væri hætt.

Rétt er það, að útflutningsframleiðsla okkar Íslendinga er háð verðsveiflum, en ég held, að framleiðsla okkar, sem yfirleitt er matvælaframleiðsla, sé ekki sérstaklega háð tízkufyrirbrigðum. En þessi fyrirhugaða framleiðsla á skinnum er óneitanlega að flestra dómi háð tízkufyrirbrigðum. Og ég vildi spyrja nefndina um það, hvort hún eða þeir, sem hún hefur ráðgazt við, telji ekki, að það geti verið, að tízkan breytizt, og jafnvel þó að tízkan breytist ekki í sjálfu sér og minkaskinn verði góð og gild, hvort það kunni þá ekki að vera hætta á offramleiðslu á þessari vöru. Þeir virðast, frændur okkar í Noregi, Svíþjóð og Danmörku, leggja mikla alúð við þessa búgrein og fjölgun þessa búpenings. Þeir virðast nú orðið kunna gott lag á því, eftir því sem segir í álitsgerðinni, að framleiða góða vöru. Og þar af leiðandi hafa þeir áhuga á að fjölga þessum búpeningi sínum. En telja ekki þeir menn, sem hv. landbn. hefur rætt við, hættu á því, ef við Íslendingar bætumst nú í hópinn og þessar eldri loðdýraræktunarþjóðir halda áfram að fjölga sínum búpeningi, að þá verði um offramleiðslu að ræða á þessari tízkuvöru, jafnvel þó að ekki verði hætt að nota minkaskinn? Annars er mörgum það í fersku minni, hvernig farið hefur með íslenzk refaskinn. Ég man eftir því fyrir 40 árum, að þá var hægt að selja falleg skinn af mórauðum refum, villirefum, sem unnir voru á víðavangi, fyrir 3–4 hundruð krónur, ef ég man rétt, og af hvítum refum fyrir 100–150 kr. Þetta svarar til nokkuð hárrar upphæðar nú. En nú mun varla vera hægt að selja þessi skinn, alveg sams konar skinn, fyrir hærri upphæð í krónum en hægt var að selja þau fyrir í krónum fyrir 40 árum, þrátt fyrir breytingu á verðgildi krónunnar. Svona hefur farið um þetta tízkufyrirbrigði.

Þetta var það, sem mig langaði til að fá upplýsingar um, ef það er á valdi nefndarinnar að veita þær. En sé það ekki og telji nefndin ekki þörf á því nú, þegar málinu verður vísað til ríkisstj., að veita svör við slíkum spurningum, má skoða þetta sem ábendingar um atriði, sem ég tel a.m.k. að þörf sé á að íhuga gaumgæfilega, áður en farið verður að nema úr gildi þær ráðstafanir, sem gerðar voru fyrir nokkrum árum hér á hv. Alþ.