16.02.1961
Neðri deild: 64. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í C-deild Alþingistíðinda. (1813)

38. mál, loðdýrarækt

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það var ekki ætlun mín að fara að ræða þetta mál á almennum grundvelli eða almennt um efni þessa frv., heldur aðeins víkja örfáum orðum að afgreiðslu hv. landbn. á þessu máli.

Megintill. n. er um það, að frv. verði ekki samþ. að þessu sinni heldur verði því vísað til ríkisstj. Ég fyrir mitt leyti get verið samþykkur því. En það kemur fram í afgreiðslu n. og er tekið fram mjög skýrt, að n. leggur til, að þessu máli verði vísað til ríkisstj. til þess, að hún undirbúi frv. um málið og leggi það fyrir Alþingi með tilliti til þess, að innflutningur minka og minkaeldi verði leyft hér á landi, eins og stendur í grg. Ég óttast það nokkuð líka vegna þess, hvernig orð féllu hér hjá frsm. landbn., að það kunni ef til vill að vera ætlun þeirra, sem mikinn áhuga hafa á að fá frv. lögfest, að slá því föstu, að hér hafi verið tekin afstaða á Alþingi um það, hvort menn vilji láta lögfesta efni frv. um að leyfa minkaeldi í landinu eða ekki, og að frv. hafi fengið þá afgreiðslu hér á Alþingi, að því hafi verið vísað til ríkisstj. með fyrirmælum um það, að ríkisstj. legði fyrir Alþingi frv. um að heimila minkaeldi, og ættu þm. eftir að standa frammi fyrir því nokkru síðar, að þeir hafi sjálfir tekið afstöðu til þess á Alþingi að óska eftir því, að lög yrðu sett um það, að minkaeldi yrði leyft hér.

Ég vil fyrir mitt leyti taka það fram, að ég þykist vita, að það sé það mikill ágreiningur meðal alþingismanna enn eins og reyndar áður um það, hvort rétt sé að leyfa hér minkaeldi eða ekki, og ég tel með öllu óviðeigandi, að tekin sé efnisafstaða um slíkt mál sem þetta á þennan hátt, ef það er ætlun einhvers með því orðalagi, sem þarna kemur fram í ályktunarorðum hv. landbn.

Ég mun fyrir mitt leyti greiða atkv. með því að vísa þessu máli til ríkisstj., en vil undirstrika það um leið, að þar með hef ég ekki á nokkurn hátt tekið afstöðu til þess, hvort rétt sé að lögfesta minkaeldi eða ekki, og ég vil líta svo á, að samþykkt þess að vísa þessu máli til ríkisstj. feli ekki í sér neina yfirlýsingu frá Alþingi um afstöðu til efnis málsins. Það er mín skoðun á þessari atkvgr.