16.02.1961
Neðri deild: 64. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í C-deild Alþingistíðinda. (1814)

38. mál, loðdýrarækt

Frsm. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Mér fannst gæta nokkurs uggs í huga hv. 3. þm. Norðurl. e., ef leyfa ætti minkaeldi aftur hér á landi. Ég skil mætavel sjónarmið hv. þm., og ég álasa honum alls ekkert fyrir það, því að sannleikurinn var sá, að þessa sama uggs gætti mjög í landbn. Þess vegna er það, að við leggjum til, að farið sé með gát í þessu máli.

Hv. 3. þm. Norðurl. e. bar fram 2–3 fyrirspurnir. Sú fyrsta var út af umsögn Búnaðarfélagsstjórnarinnar. Það var með þessa umsögn, eins og ég skýrði frá áðan, að Búnaðarfélagsstjórnin svaraði þannig, að hún óskaði eftir, að málið yrði lagt fyrir búnaðarþing, en sagði hins vegar ekkert um það, hvort hún væri með eða móti þessu frv. En eins og ég gat um áðan, þá sýnist mér opin leið fyrir búnaðarþing að fjalla nm þetta mál, ef það fær þá afgreiðslu, sem nefndin leggur til. Vitaskuld getur búnaðarþingið tekið þetta mál til athugunar á næsta þingi og sagt þar um það sitt orð. Ég vil því álíta, að það hafi ekki verið um neina óþolinmæði að ræða hjá landbn. og enn síður ókurteisi við Búnaðarfélagsstjórn og búnaðarþing.

Þessi hv. þm. spurði um, hvort landbn. hefði sent málið til umsagnar náttúrufræðinga. Þetta gerðum við ekki. Það kom aðeins til tals í n., þá er við tókum málið fyrst til meðferðar og ræddum um, hverjum við ættum að senda það til umsagnar, en samkomulag varð um að senda málið þeim fjórum aðilum, sem ég skýrði frá áðan. Það var Sambandið, Sölumiðstöðin, Búnaðarfélagið og svo veiðistjórinn. Þá spurði hv. þm., hvert væri álit veiðistjóra um það, hvort hægt væri að útrýma þessu dýri úr landi okkar eða ekki. Það kemur ekkert fram um þetta í umsögn veiðistjórans. En mér er nær að halda og mig minnir fastlega, að það hafi komið fram í viðtali, sem ég átti við hann, að hann væri sömu skoðunar og ég um það, að minknum yrði ekki útrýmt úr landinu, meðan við þekktum engin önnur tæki til þess en við þekkjum nú. En eins og ég sagði, þá er nú svo málum komið, að við getum haldið minknum allvel í skefjum. Það sé ég glögglega, þegar ég lít heim til míns héraðs. Fuglalíf var nær þorrið af eylendi Skagafjarðar fyrir 3–4 árum, en eftir að menn fóru að veiða minkinn með hundum og eftir að verðlaun voru hækkuð, þá hefur svo brugðið við, að minkurinn er mikið til horfinn úr þessu héraði og fuglalíf orðið mikið í Skagafirði, og ég vænti þess, að sama verði reynslan víðast í landinu. Að vísu mun vera mjög miklu hægara að veiða þessi dýr í Skagafirði en í hraunlendum, eins og t.d. í Mývatnssveit og hér á Reykjanesskaga. En það er eins og ég sagði áðan, ég fæ ekki skilið það, úr því að við höfum þennan djöful að draga, hvers vegna við þurfum þá endilega að vera að banna að ala mink í búrum.

Það var eitthvað fleira, sem hv. þm. minntist á. Já, hann minntist á offramleiðsluna. Vitaskuld getur orðið offramleiðsla í þessari atvinnugrein eins og í svo mörgum öðrum atvinnugreinum. Þess er skemmst að minnast, að offramleiðsla á vörutegund hefur mjög komið við okkur Íslendinga. Þar á ég við fiskmjölið. Þannig getur þetta vitaskuld orðið í ótalmörgum framleiðslugreinum, að við eigum við að glíma offramleiðslu. Ég vil leyfa mér út af þessum orðum hv. þm. að benda honum á orð á 5. bls. í skýrslu Árna G. Eylands, þar sem hann einmitt minnist á offramleiðsluna. Þar stendur svo, með leyfi hæstv. forseta :

„Verði samkeppni og framleiðsla svo mikil að verð lækki, verður það tvennt, sem mestu ræður um afkomu loðdýraræktarinnar í hinum ýmsu löndum. Annað er fóðrið, hvaða lönd standa bezt að vígi með gnótt af góðu og ódýru fóðri. Á því sviði ætti hlutur íslenzkra loðdýraræktarmanna að geta verið flestum betri. Hitt atriðið er þekking og kunnátta.“

Hér er okkur bent á, að ef til þessarar atvinnugreinar kemur í þessu landi, þá stöndum við alveg sérstaklega vel að vígi með annað höfuðatriðið, hvað snertir einmitt offramleiðsluna, en það er það, hvað við eigum mikið af ódýru og góðu fóðri. Hitt er svo annað, sem við þurfum að afla okkur, og einmitt af þeim sökum er afgreiðsla hjá okkur í landbn. á málinu slík, — við þurfum að afla okkur þekkingar og kunnáttu.

Hv. þm. minntist eitthvað á tízkuna. Vitaskuld vitum við það eins vel og hann, að tízkan breytist. Hún er alltaf að breytast. Við það fáum við aldrei ráðið. En mín hyggja er sú, að a.m.k. í okkar norðlæga heimi og það í kringum allan hnöttinn verði grávara ætíð mikið notuð og í miklu verði.

Ég var hálfhissa á orðum hv. 4. þm. Austf. Það, sem nefndin leggur til, er að ríkisstj. láti undirbúa frv. og leggja fyrir næsta þing. Það frv. kemur vitaskuld fyrir þingið, og þá greiða menn um það atkv. Mér virðist, að ef ætti að fara eftir skoðun hans, þá þyrfti ekkert að leggja það frv. fyrir þingið, ef þessi till. okkar yrði nú samþ. En vitaskuld verður það frv. lagt fyrir þingið, og þá hafa auðvitað þm. alveg óbundnar hendur, hvort þeir samþykkja það frv. eða ekki.