16.02.1961
Neðri deild: 64. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í C-deild Alþingistíðinda. (1815)

38. mál, loðdýrarækt

Skúli Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Af því nál., sem hér liggur fyrir á þskj. 355, virðist mér alveg ljóst, að þeir, sem sæti eiga í hv. landbn. nú, séu ekki í neinum vafa í þessu máli. Það kemur ótvírætt fram í niðurlagsorðum þeirra í nál., að þeir telja það alveg sjálfsagt, að hér verði stofnað til minkaeldis, svo fljótt sem unnt er. Þeir tala um, að það megi ekki hraða málinu svo, að ekki gefist tóm til þess að undirbúa innflutninginn og framkvæmd minkaræktarinnar svo vandlega sem kostur er á og af þeirri kunnáttu, sem til þarf. Það er aðeins þetta, sem stendur á. Þeir telja ekki hægt að samþykkja frv. á þessu þingi, vegna þess að enn skortir þennan undirbúning. En þeir eru ekki í nokkrum minnsta vafa um það, ef maður virðir fyrir sér orðanna hljóðan, að þetta sé það, sem koma skuli, að leyfa innflutning á minkum og taka hér upp minkaeldi. Þeir leggja til, að frv. sé vísað til ríkisstj. í trausti þess, að hún láti endurskoða lög um loðdýrarækt, svo og lög um innflutning búfjár, og leggja fyrir næsta reglulegt Alþingi frv. til laga um þetta efni með tilliti til þess, að innflutningur minka og minkaeldi verði leyft hér á landi. Það er glöggt, hvað þessir menn vilja. Ég er ekkert að ásaka þá fyrir það, þótt þeir láti sitt álit og sína skoðun koma fram hreinlega á málinu. Það er virðingarvert. En ég lít svo á, að það sé ekki hægt fyrir aðra að greiða atkv. með þessari till. n. en þá, sem eru jafnsannfærðir og nm. um það, að það eigi að taka upp minkarækt hér á landi. Það er ekki hægt fyrir aðra en þá að greiða atkv. með því að leggja fyrir ríkisstj. að undirbúa frv. um minkaeldi.

Hv. frsm. sagði, að það hefði gætt uggs hjá n. og hún hefði viljað fara gætilega. En uggurinn hefur þó ekki verið meiri en þetta, að þeir eru reiðubúnir til að slá því föstu nú þegar, að þetta skuli gert, að hefja hér minkaeldi.

Nú kom það fram í ræðu hv. frsm., hv. 2. þm. Norðurl. v., að ein af þeim aðilum, sem nefndin hefði leitað eftir umsögn hjá um málið, væri Búnaðarfélag Íslands. Þetta sést að vísu ekki í þeirra nál., — ég held, að þeir láti þess ekki getið þar, — en hv. frsm. segir, að Búnaðarfélagsstjórnin hafi lagt áherzlu á það, að búnaðarþing fengi að fjalla um málið, áður en ákvörðun væri tekin. Og mér skildist á hv. frsm., að hann teldi eðlilegt, að búnaðarþing fengi málið til athugunar. En er þá ekki óviðfelldið af Alþingi að samþykkja það, örfáum dögum áður en búnaðarþing kemur saman, að ríkisstj. skuli undirbúa fyrir næsta Alþingi frv., sem feli það í sér að leyfa hér minkainnflutning og minkaeldi? Ég tel, að það væri eðlilegra, ef menn annars meina það, að þeir vilji, að búnaðarþing fjalli um málið, og ætla að líta eitthvað á það, sem kann að koma fram á búnaðarþingi, að það væri ekki, áður en þeirra álit liggur fyrir, tekin hér raunveruleg ákvörðun um, að það skuli stefna að því eða a.m.k. undirbúa það, að lög verði sett á næsta þingi um innflutning minka og minkaeldi.

Ég hefði vel getað fallizt á það að vísa þessu máli til hæstv. ríkisstj., en aðeins með því móti, að óskað væri eftir, að ríkisstj. léti athuga málið nánar, án þess að segja nokkuð um það, hvaða stefnu hún skyldi taka í málinu. Það finnst mér ekkert óeðlilegt, og þá gæti hæstv. stjórn m.a. fengið umsögn búnaðarþings og fleiri aðila, ef henni sýndist. Ég vildi því skjóta því til hv. frsm. landbn. og n., hvort hún vildi nú ekki taka málið til nánari athugunar, hvort hún gæti t.d. ekki hugsað sér að breyta þessu á þann veg að leggja til, að málið yrði afgreitt með rökstuddri dagskrá, sem fæli aðeins í sér það að óska eftir, að ríkisstj. léti athuga málið og m.a. leitaði um það umsagnar búnaðarþings, en því væri á engan hátt slegið föstu, hvaða stefnu ríkisstj. ætti að taka í málinu, eins og óneitanlega er gert í nál. hv. n. Ég vildi beina því til hv. frsm., hvort hann gæti ekki á það fallizt, að n. tæki þetta til nánari athugunar einmitt á þessum grundvelli.