16.02.1961
Neðri deild: 64. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í C-deild Alþingistíðinda. (1817)

38. mál, loðdýrarækt

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. landbn. fyrir það nál, sem hún hefur lagt hér fram á þskj. 355. Mér finnst nál. vera ýtarlegt, og ég tel, að hv. landbn. hafi tekið rétta stefnu að sýna mikla varúð, að minkaeldi verði ekki leyft, nema gerðar séu öruggar ráðstafanir í sambandi við vörzlu dýranna.

Hv. alþm., sem hér hafa talað gegn samþykkt nál. af ótta við það, að þeir bindi þar með afstöðu sína til frv., sem væntanlega verður lagt fyrir hið háa Alþingi á næsta þingi, — ég tel þau andmæli byggð á röngum forsendum. Þegar þess er gætt, að nágrannaþjóðir okkar á Norðurlöndum, Danir, Svíar og Norðmenn, flytja út minkaskinn fyrir 1300 millj. íslenzkra króna á árinu 1959, og þegar við höfum það í huga, að minkabúaeigendur í þessum löndum verða að flytja svo og svo mikið af fóðri til sinna búa frá öðrum löndum, þá má það einstakt heita, að það skuli koma andmæli hér á landi gegn því, að minkaeldi verði leyft. Ég er kunnugur því, að héðan frá Íslandi eru fluttir út tugir þúsunda tonna af fiskúrgangi til Norðurlanda sem minkafóður. Ég er einnig kunnugur því, að minkabúaeigendur á Norðurlöndum eru fúsir til þess að leggja fram stórfé í minkabú hér á landi, af því að þeir telja, að aðstaða hér sé svo miklu betri en hjá þeim, bæði hvað snertir öflun fóðurs og að tíðarfar hér á landi sé hagstæðara fyrir feld dýranna en í Danmörku sérstaklega og Suður-Svíþjóð.

Þrátt fyrir þessa góðu aðstöðu finnast þó menn hér á hinu háa Alþingi, sem telja alveg fráleitt, að minkaeldi sé leyft. Ég veit, að það er enginn hv. þm., sem vill meiða Búnaðarfélag Íslands eða búnaðarþing. En það undrar mig, að það hefur komið hér fram í umr. gagnrýni á því, að hv. landbn. hafi ekki beðið eftir umsögn búnaðarþings. En á meðan ekki er lengra farið en raun er á, þá tel ég engu þar um spillt, og ég er þess fullviss, að búnaðarþing, sem kemur senn saman, mun fá tækifæri til að segja álit sitt um þetta frv., sem hér liggur fyrir til meðferðar og væntanlega fær afgreiðslu samkv. nál. því, sem hér liggur fyrir.

Ég vil þó sérstaklega benda á það, að hv. landbn. hefur sent frv. til umsagnar Sambandi ísl. samvinnufélaga og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, og báðir aðilar hafa mælt með, að minkaeldi yrði leyft hér á landi. Ég verð að segja, að ég tel, með allri virðingu fyrir Búnaðarfélagi Íslands, þá komi þetta í raun og veru enn þá meira til kasta Sambands ísl. samvinnufélaga og Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, sem hafa mjög ríkra hagsmuna að gæta í sambandi við það, hvort minkaeldi verði leyft hér á landi eða ekki.

Einn hv. þm. ræddi um það, að það gæti orðið hætta á því, að það yrði offramleiðsla á minkaskinnum. Ég hef töluverða þekkingu á þessum málum, þ.e.a.s. ég hef mikið verið viðriðinn bæði minkaeldi og refaeldi hér á landi, og það er óhætt að fullyrða, að síðustu þrjátíu árin hafa engin loðskinn haldið jafnvel velli í harðri samkeppi eins og minkaskinn. Við vitum það, að silfurrefaskinn, blá- og hvítrefaskinn hafa fallið mjög á heimsmarkaðinum á undanförnum árum. En þrátt fyrir stórkostlega aukningu í framleiðslu minkaskinna hafa minkaskinn farið hækkandi ár frá ári, þar til nú á uppboðinu, sem var í desember og janúar, þá heyri ég, að þau muni hafa fallið um allt að 10%, sem er mjög lítið verðfall, þegar þess er gætt, hvað þessi skinn eru í óeðlilega háu verði, eins og kemur fram í skýrslu Árna G. Eylands, sem hv. landbn. hefur látið prenta með nál.

Ég endurtek þakklæti mitt til hv. landbn. fyrir nál., og ég vona, að hv. Alþingi beri gæfu til þess að samþykkja till. nefndarinnar.