24.10.1960
Sameinað þing: 6. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í B-deild Alþingistíðinda. (182)

1. mál, fjárlög 1961

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það fer vissulega vel á því, að það skuli vera tveir af ráðherrum vinstri stjórnarinnar, sem veljast til þess hér í kvöld að halda uppi árásum á viðreisnina og þær ráðstafanir, sem nauðsynlegt var að gera í efnahagsmálum, vegna þess að þeir erfiðleikar, sem nú steðja að ýmsum vegna efnahagsaðgerðanna og ég lýsti í minni frumræðu, stafa auðvitað að mjög verulegu leyti af aðgerðum og framferði vinstri stjórnarinnar. Ýmsir af þeim erfiðleikum, sem nú steðja að, eru fyrst og fremst arfur fyrri ára og ekki sízt arfur frá vinstri stjórninni. Og mér er spurn, ef þessi uppbyggingarstefna Framsfl., sem hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, var að lýsa, hafði borið svo stórkostlega glæsilegan árangur á undanförnum árum, eins og hann lýsti, hvernig stóð þá á því, að vinstri stjórnin undir forustu Framsfl., sem hafði haldið uppi þessari glæsilegu, ágætu uppbyggingarstefnu, gafst upp við að stjórna landinu í desembermánuði 1958? Og hvernig stendur á því, að þessir tveir hv. þm., hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, og hv. 4. þm. Austf., Lúðvík Jósefsson, báðir miklir áhrifamenn í vinstri stjórninni, gáfust gersamlega upp við að stjórna landinu? Í rauninni eiga þessir þm. alveg eftir að skýra þá afstöðu sína. Og þegar þessir menn leyfa sér að koma hingað með blekkingar og taumlausar árásir og rangfærslur um efnahagsaðgerðir núv. ríkisstj. og stjórnarflokka, þá halda þessir menn, að allur almenningur á Íslandi sé búinn að gleyma því, að það voru þeir, sem stjórnuðu landinu og gáfust upp við að stjórna því fyrir tveimur árum.

Af þeim atriðum, sem hér hafa komið fram í umr., skal ég svara nokkrum.

Í fyrsta lagi, — og í rauninni er hægt að taka ádeilur þessara tveggja þm., Eysteins Jónssonar og Lúðvíks Jósefssonar, nokkuð saman vegna þess, hve þær voru skyldar, eins og yfirleitt öll málfærsla, málflutningur og blaðamennska og starfsemi þessara tveggja flokka er, eins og þar sé einn flokkur að verki, — í fyrsta lagi talaði hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, um hina gífurlegu hækkun fjárlaga„ og hann segir: Fjárlagafrv, er um 700 millj. kr. hærra en fjárlögin voru fyrir tveimur árum. —

Nú eru þessar tölur náttúrlega mjög villandi og blekkjandi. Hvernig stendur á því, að þessir tveir þm. telja aldrei með í tekjum eða útgjöldum ríkisins frá 1958 þær geysilegu álögur, sem runnu í útflutningssjóð, og þau gjöld, sem úr honum fóru? Þeir telja þetta aldrei með nema að örlitlu leyti. Þeir pilla út einhverjar smáupphæðir af tekjum og gjöldum útflutningssjóðs og búa svo til einhver dæmi á þeim grundvelli. Nú er það þannig, að útgjöld útflutningssjóðs voru t.d. á árinu 1959, árið áður en hann var lagður niður, hvorki meira né minna en 1135 millj. kr. Tekjur útflutningssjóðs voru fyrst og fremst yfirfærslugjöldin, fyrst 16% og síðan 55%. Þessar tekjur voru notaðar til útflutningsuppbóta. Ef það er rétt að telja aldrei með nema örlítið af tekjum og gjöldum útflutningssjóðs í samanburði við fjárlögin nú, þá er það í rauninni ekkert annað en viðurkenning þessara tveggja fyrrv. ráðh. vinstri stjórnarinnar á því, að vinstri stjórnin hafi tvisvar sinnum framkvæmt gengislækkun á sínum stutta valdaferli. Ef álagning 16% yfirfærslugjaldsins og síðar 55% á tímum vinstri stjórnarinnar á ekki að teljast til skatta eða útgjalda, eins og aðrar tekjur og gjöld ríkissjóðs, þá er þetta hrein viðurkenning á því, að vinstri stjórnin hafi framkvæmt tvær gengislækkanir á þeim 21/2 ári, sem hún sat að völdum. Hingað til hafa a.m.k. fulltrúar Alþb. ekki viljað viðurkenna það.

Þessi samanburður og þessi tilbúnu dæmi hv. 1. þm. Austf., Eysteins Jónssonar, að fjárlögin hafi hækkað um 700 millj. kr., er allt saman byggt á sandi. En það má í þessu sambandi, auk þess sem ég hef áður getið um yfirfærslugjaldið og útflutningssjóðinn, geta þess, að á þessum tíma hafa framlög til félagsmála, fyrst og fremst til aukinna almannatrygginga, hækkað um hvorki meira né minna en 252 millj. kr.

Hv. 4. þm. Austf., Lúðvík Jósefsson, minntist lítið á fjárlfrv., sem fyrir liggur. Ræða hans fjallaði að mestu um annað. En þegar hann tók sig til að fara að nefna fjárlfrv., þá virtust ádeilur hans í þeim efnum bera vott annaðhvort um, að hann hefði lítið lesið í frv., eða hann hefði ekki heyrt eitt einasta orð af því, sem ég sagði í minni frumræðu, eða, sem ég vil ekki ætla honum, að hann hafi farið viljandi með rangt mál. Hann segir í fyrsta lagi, að stjórnin vilji í fjárlfrv. lækka framlagið til landhelgisgæzlunnar um 3 millj. 750 þús. Ég skýrði það í minni frumræðu, að kostnaður við rekstur landhelgisgæzlunnar hækkaði í frv. um 345 þús. En þessi lækkun, 3.7 millj. rúmar, er eingöngu afborganir af láni vegna kaupa á varðskipinu Óðni, vegna þess að hagkvæmara lán fæst til þess að greiða kostnað við skipið. Svo leyfir þessi hv. þm. sér eftir þessar blekkingar að setja það í samband við einhverjar fyrirætlanir, sem stjórnin hafi í landhelgismálinu.

Annað, sem þessi sami hv. þm. leyfir sér að segja, er það, að nú eigi að draga úr jarðborunum fyrir hitaorku um 3.6 millj. Þetta segir hann nokkrum mínútum eftir að ég er búinn að upplýsa það hér í ýtarlegu máli, að það er ekki meiningin að draga úr jarðborunum, heldur auka þær, og fjár á að afla á annan veg til nokkurs hluta af kostnaðinum.

Í þriðja lagi segir þessi hv. þm., og hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, tók undir það með honum, að það eigi að skera niður hafnarframkvæmdir um 1.9 millj. Báðir þessir þm. vita betur. Á síðasta þingi var ákveðið að veita alveg sérstök fjárframlög úr hafnarbótasjóði, annars vegar til Akraness og hins vegar til Ólafsfjarðar, annars vegar til þess að standa undir alveg sérstaklega erfiðum greiðslum vegna fyrri framkvæmda á Akranesi og hins vegar til að bæta skemmdir vegna óveðurs í höfninni í Ólafsfirði. Allir þm. vissu það, að þessar tvær fúlgur, samtals 1.9 millj., átti að veita eingöngu í eitt skipti. Framlög til hafnarframkvæmda eru ekki skorin niður, það er tilbúningur.

Þá segir hv. sami þm., 4. þm. Austf., að það beri vott um hug stjórnarinnar til líknarmálanna, að strikaður sé út 100 þús. kr. styrkur til Blindrafélagsins. Í núgildandi fjárlögum hafði Blindrafélagið 100 þús. kr. byggingarstyrk, sem var tekinn inn í meðförum þingsins, eftir að félagið hafði sent umsókn til fjvn., og ég veit ekki betur en allir þm. hafi staðið að því. Það er þannig um ýmsa styrki, sem teknir voru inn í meðförum þingsins af fjvn. á síðasta þingi, að þeir eru ekki teknir upp í frv. nú, þegar af þeirri ástæðu, að engar umsóknir lágu fyrir um þessa styrki, t.d. þennan, þegar fjárlfrv. var samið. Þegar fjárlfrv. nú var samið, lá ekki fyrir nein umsókn frá þessu félagi um styrk og engin greinargerð um þessi mál. Ég tel alveg víst, að ef þetta félag og önnur líknarfélög, sem hafa haft einhverja styrki, sækja um það til fjvn., þá verði því tekið með velvilja og skilningi eins og jafnan áður. Auk þess vil ég geta þess í þessu sambandi, að hér er sérstakur sjóður til í landinu, erfðafjársjóður, sem hefur margra milljóna fjármagn, og honum er sérstaklega ætlað að veita lán og styrki til slíkra framkvæmda, eins og þessi ágæti félagsskapur, Blindrafélagið, hefur með höndum. Hér er lagzt nokkuð lágt hjá Lúðvík Jósefssyni í slíkri ádeilu og blekkingu.

Loks segir sami þm., eftir að hann hefði átt að heyra það, sem ég sagði um breyt. á starfsemi og skipulagi Skipaútgerðarinnar, að nú ætli stjórnin að draga úr þjónustunni við dreifbýlið um þriðjung eða jafnvel um helming.

Það var auðheyrður tónninn í hv. 1. þm. Austf., Eysteini Jónssyni, þegar hann talaði um hagsýslu og það, sem til sparnaðar mætti verða. Allt það, sem unnið hefur verið að, allt það, sem undirbúið hefur verið, allt það, sem ég skýrði frá hér í minni frumræðu, allt er það ómögulegt. Vegna hvers? Er það vegna þess, að hv. þm. hefur ekki minnsta snefil af áhuga á neinni aukinni hagkvæmni í rekstri ríkisbúsins eða áhuga á því að lækka útgjöld? Þegar lagt er til, að Alþingi sitji nokkru skemur en undanfarin ár og þannig sé spöruð 1 millj. kr., þá þýðir það á málí Eysteins Jónssonar, að við ætlum að gera Alþingi að málamyndaþingi. Veit ekki þessi hv. þm., að á tíma vinstri stjórnarinnar var það orðið Alþ, og ríkisstj. þáv. til algerrar háðungar, hvernig farið var með Alþ. Mánuðum saman eru alþm. látnir sitja hér aðgerðalitlir eða aðgerðalausir, meðan ríkisstj. var að rífast innbyrðis og reyna að koma sér saman við 19 manna nefnd og 6 manna nefnd svo og Alþýðusambandið um, hvað ætti að gera í efnahagsmálum. Á meðan er Alþingi haft hér gersamlega valdalaust, meðan beðið er eftir, hvort einhverjum nm. í 19 manna eða 6 manna n. þóknast að segja já eða nei. Var þetta til þess að auka virðingu þjóðarinnar fyrir Alþ.? Nei, ég er sannfærður um það, að vegur Alþ. mundi vaxa, ef það starfaði skemmri tíma, en af meiri myndarskap og röskleik en gert var á tímum vinstri stjórnarinnar.

Þessi sami hv. þm. segir, að nú eigi að draga stórkostlega úr strandferðaþjónustunni, með því að tillögur liggi fyrir um það að taka strandferðaskipið Esju úr umferð. Jú, þetta er náttúrlega mikil árás á dreifbýlið. Ég vil þess vegna minna á það, að vinstri stjórnin setti á laggirnar sérstaka sparnaðarnefnd og þessi nefnd skilaði ýtarlegu áliti, mjög ýtarlegu. En náttúrlega var varla nokkur skapaður hlutur af hennar tillögum, sem vinstri stjórnin tók til greina eða treysti sér til að framkvæma, því að það hefur verið sama sagan með allar sparnaðarnefndir, sem Eysteinn Jónsson hefur átt hlut að, þær hafa verið látnar sitja að störfum, að kallað er, þær hafa verið látnar fá sinar greiðslur úr ríkissjóði, en tillögurnar hafa svo verið hunzaðar, vegna þess að áhugann eða manndóminn hefur skort til að koma þeim í framkvæmd. Þessi sparnaðarnefnd lagði m.a. til, að tekið sé til ýtarlegrar athugunar, hvort ekki sé rétt að selja Esju. Þeir gera grein fyrir því, hvers vegna þeir vilja selja Esju. Og þeir, sem að þessu stóðu, voru m.a. alþm. Ágúst Þorvaldsson, fulltrúi Alþýðubandalagsins, sem stundum situr á þingi sem varamaður, Ásmundur Sigurðsson, og aðalstarfsmaður n. var þm. Framsfl., Einar Ágústsson. Þessir menn stóðu að því. Og ég hef lesið þá till. þar fyrsta að taka þannig eitt strandferðaskipið til þess að spara rekstrarkostnað, en auðvitað byggt á því eins og nú að draga ekki úr þjónustunni við strjálbýlið. Það vill stundum verða þannig hjá þessum hv. þm., Eysteini Jónssyni, að þegar hann heldur, að hann sé að ráðast á andstæðinga sína, þá er hann að greiða högg sínum eigin samherjum.

Annars er rétt að minnast á það, þegar maður heyrir andann í þessum hv. þm. til sparnaðartillagna, þá er vel hægt að rifja það upp, að þegar hann tók við embætti fjmrh. 1950 og gengisbreyting var gerð, þá lagði hann fram í sinni fjárlagaræðu ýmsar till. um sparnað, sem hann sagði að væri þegar ákveðið að framkvæma. Ég hef nýlega farið yfir þennan sparnaðarlista hans. Hann er alllangur. En það er alveg undantekning, ef nokkuð af því, sem þessi hv. þm. talaði um og lofaði, var framkvæmt. Það var talað um að leggja niður þessa og þessa stöðu. Það var samþ. a.m.k. um eina. En sú sama staða var endurreist eftir eitt eða tvö ár af þessum sama hæstv. ráðh. Hann lagði m. a. fram frv. um það að sameina tóbaksverzlun og áfengisverzlun. Frv. dagaði uppi, vegna þess að hann fylgdi því ekki fram. Síðan, meðan hann hefur verið fjmrh., hefur hann tvisvar sinnum haft gullið tækifæri til að sameina þessar stofnanir, þegar forstjórastöður hafa losnað. Hvorugt tækifærið notaði hann, vegna þess að hann þurfti að koma einhverjum sínum mönnum að þessum störfum.

Þannig er það sama, hvar sem gripið er á, alltaf hefur verið sami áhuginn og viljinn hjá þessum hv. þm. til sparnaðar eða til að draga úr ríkisútgjöldum.

Ein sparnaðarnefndin, sem hann skipaði, athugaði vandlega allan bílakostnað og bílarekstur ríkisins, og hún lagði m.a. til og rökstuddi það mál mjög vel, að það væri rétt að selja 28 af bílum ríkisins. Hver var árangurinn hjá fjmrh.? Af þessum 28 bílum, sem nefndin mælti einróma með að væru seldir og ríkið hætti að reka, var seldur einn bíll, og nokkru seinna voru nokkrir nýir keyptir í staðinn.

Þessi hv. þm. talar um það með mikilli fyrirlitningu, að það sé verið að sækja einhvern Norðmann til þess að skipuleggja strandsiglingar okkar hér heima. Hvað segir nú þessi hv. þm., þegar hann var fjmrh. 1950 og ætlaði að fara að spara allt og koma á betri vinnubrögðum? Þar segir hann í sinni fjárlagaræðu m.a. svo, með leyfi hæstv. forseta, eftir að hann er búinn að telja upp nokkrar sparnaðartill. sínar: „En sérstaklega“, segir hann, „er rétt að taka það fram, að ríkisstj. hefur gert ráðstafanir til að fá sérfræðing frá Bandaríkjunum til að skoða fyrirkomulag á starfrækslu ríkisins og alla vinnutilhögun ríkisins með það fyrir augum að koma á hagfelldari vinnubrögðum og bættu skipulagi. Það var ætlun stjórnarinnan, að þessi sérfræðingur gæti komið strax í sumar, en það hefur ekki reynzt mögulegt að tryggja aðstoð hans fyrr en nú, að hann er nýkominn til landsins. Munu till. hans verða teknar til íhugunar af ríkisstj., jafnharðan og þær berast, og ráðstafanir gerðar af ríkisstj. um þær breyt., sem hagfelldar virðast að slíkri athugun lokinni.“

Þarna var eitt aðaláhugamál hans að fá bandarískan sérfræðing til þess að gera till., ekki um eitt atriði, eins og nú var verið að gera í þessu tilfelli, heldur allan rekstur ríkisins, hvar sem er. Ég býst við, að þessi sparnaðarsérfræðingur hafi unnið sitt verk. En mér er ekki kunnugt um það, og fylgdist ég þó nokkuð með starfi hans þá, — mér er ekki kunnugt um það, að Eysteinn Jónsson fjmrh. hafi látið framkvæma eina einustu af þeim tili., sem frá honum komu. Annars er það svo með þennan sérfræðing, sem ég ræddi um í sambandi við Skipaútgerðina, að þar er um að ræða norskan verkfræðing, sem í fjölda ára hefur verið talinn þeirra fremsti sérfræðingur að því er snerti strandsiglingar og gert margar till. til stórfelldra umbóta við skipulagningar á strandferðum við Noreg, og m.a. þess vegna þótti rétt að nota hans miklu reynslu til þess að gefa ábendingar í þessu efni.

Hv. 1. þm. Austf. hneykslast mjög á því, að framlög til verklegra framkvæmda séu skorin niður. Ég hef athugað, hvernig hefur verið um framlög ríkisins til verklegra framkvæmda við þær tvær gengisbreyt., sem framkvæmdar hafa verið áður, 1950 og 1958, þegar þessi sami þm. var fjmrh., og þegar maður talar um verklegar framkvæmdir, þá, er venjulega átt við nýbyggingar vega, brúa, hafna og flugvalla. Þegar Eysteinn Jónsson leggur fram fjárlagafrv. 1951, næsta ár eftir gengisbreyt., þá eru þessi framlög til verklegra framkvæmda lækkuð í till. hans um 2.6 millj. frá fyrri fjárlögum. Í fjárlagafrv. sama fjmrh. fyrir árið 1959, sem var næsta fjárlagaár eftir lögfestingu 55% yfirfærslugjaldsins, eru fjárveitingar ekkert hækkaðar til vega, hafna og brúa, en um 1.8 millj. til flugvallagerðar. Í fjárlagafrv. því, sem hér liggur fyrir, sem er fyrsta fjárlagaárið eftir gengisbreyt., eru fjárveitingar til þessara verklegu framkvæmda hækkaðar um 8.7 millj., miðað við fjárlög ársins 1959, sem voru síðustu fjárlög fyrir gengisbreyt. Beri menn svo saman annars vegar framlög til verklegra framkvæmda eftir þessa gengisbreyt. og till. Eysteins Jónssonar fjmrh. við þær tvennar gengisbreyt., sem hann hefur staðið að.

Hér er mjög talað um það, að allar þessar aðgerðir stjórnarinnar séu á kostnað þeirra snauðu, það sé verið að koma á ríki þess fésterka, og Lúðvík Jósefsson talaði um auðhyggjuna, sem þessi stjórn stæði fyrir. Þar sem þessir tveir þm. voru ráðh. í vinstri stjórninni, þá er ekki úr vegi að líta aðeins stuttlega á, hvernig er nú búið að hinum fátæku, hinum öldruðu, hinum sjúku, öryrkjunum, einstæðum mæðrum og barnafólki, miðað við það, sem var í þeirra tíð. Ég vil bera saman framlögin til þessa fólks síðasta ár vinstri stjórnarinnar, 1958, annars vegar og framlögin í ár og næsta ár.

Ellilífeyrir til gamla fólksins nam árið 1958 66 millj. kr. Nú í ár er hann 121 millj. og verður næsta ár 148 millj. Lífeyrir og styrkir til öryrkja námu hjá vinstri. stjórninni árið 1958 22.4 millj., eru nú í ár 40 millj. og næsta ár 44 millj. Mæðralaun námu hjá vinstri stjórninni 3.2 millj., eru í ár 11 millj. og næsta ár 12 millj. Fjölskyldubætur til barnafólksins voru árið 1958 22.8 millj., í ár 122 millj. og næsta ár 156 millj. Þetta eru heildarupphæðirnar. En hvað kemur svo í hlut hvers einstaks? Lífeyrir til hjóna var t.d. í tíð vinstri stjórnarinnar 14758 kr. á ári, er nú 25920 kr., hefur hækkað um meira en 70% frá. tíð vinstri stjórnarinnar. Fjölskyldubætur vinstri stjórnarinnar til hjóna með 3 börn voru 1200 kr. á ári á fyrsta verðlagssvæði, en aðeins 900 á öðru verðlagssvæði, en eru nú alls staðar 7 800 kr. á árl.

Herra forseti. Ég sé, að tíma mínum er lokið, og skal því láta máli mínu lokið að þessu sinni. En ég vil aðeins að lokum geta þess, að ríkisstj. hefur í undirbúningi framkvæmdaáætlun fyrir næstu 5–10 ár, þar sem gert er ráð fyrir að gera áætlun um framkvæmdir, bæði til virkjunar vatnsorku, jarðhita, um hafnargerðir og vega, um kaup stórvirkra véla og um ný arðbær atvinnutæki á ýmsum sviðum. Þegar þessi áætlun liggur fyrir, er að sjálfsögðu ætlunin sú að leita fyrir sér um lántökur erlendis, lántökur á heilbrigðum grundvelli, en ekki eins og þær lántökur, sem t.d. í tíð vinstri stjórnarinnar voru framkvæmdar, því að það er öllum vitanlegt, að lántökur til Íslands með eðlilegum hætti, — á ég þá við lántökur eins og t.d. Alþjóðabankinn og ýmsar fleiri slíkar stofnanir veita. — engar slíkar lántökur hafa fengizt til Íslands síðan 1953. Í sjö ár hefur t.d. Alþjóðabankinn ekki talið fært að lána til verklegra framkvæmda á Íslandi. M.ö.o.: Ísland hefur ekki verið talið hæft til að fá lán með venjulegum hætti. Vinstri stjórnin sótti t.d. þá peninga, sem hún fékk, til Bandaríkjanna úr ICA-sjóði, alveg sérlegum sjóði, sem Bandaríkjaforseti hafði yfir að ráða í sérstöku augnamiði.

Þegar þessi framkvæmdaáætlun fyrir hin næstu ár liggur fyrir, þá mun að sjálfsögðu verða gerð nánari grein fyrir henni. En sú mun verða afleiðing þess, að ef efnahagsaðgerðirnar takast og þegar þær hafa borið árangur, þá opnast nýir og óvæntir möguleikar fyrir Ísland til þess að geta sótt fram til alhliða framkvæmda og aukinnar velmegunar á sem flestum sviðum og orðið gjaldgengur þátttakandi í þeim miklu framförum, sem að undanförnu og nú eiga sér stað um hinn frjálsa heim.