16.02.1961
Neðri deild: 64. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í C-deild Alþingistíðinda. (1821)

38. mál, loðdýrarækt

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það gætir dálítils misskilnings hjá hv. 1. þm. Norðurl. v., þar sem hann heldur því fram, að hv. landbn. fari ekki fram á það, að þetta mál verði frekar athugað. Ég hygg, að allir hv. þm. hafi þskj. fyrir framan sig, en ég vil eigi að síður — með leyfi hæstv. forseta — lesa hér síðustu mgr. í nál. Þar segir:

„Þegar rætt er um að leyfa á ný innflutning minka og minkaeldi, leggur nefndin höfuðáherzlu á, að því máli verði ekki hraðað svo, að ekki gefist tóm til að undirbúa innflutninginn og framkvæmd minkaræktarinnar svo vandlega sem kostur er á og af þeirri kunnáttu, sem til þarf.“

Hvað felst í þessu? Skyldi það ekki vera athugun? Skyldi það ekki vera rannsókn á því, hvað þarf að gera, til þess að það sé hættulaust fyrir þjóðina að taka upp aftur þennan atvinnuveg? Er hægt að skilja þetta öðruvísi? Ég veit, að hv. 1. þm. Norðurl. v. skilur það ekki öðruvísi.

En hvers vegna þá, þótt hann hafi tekið, þessa afstöðu í fyrstu ræðu sinni, að vera að berja hér í brestina? Ég get haldið áfram — með leyfi hæstv. forseta: „Mistökin þarf að forðast og tjónið, sem af því leiðir,“ segir hv. nefnd. Hvernig er hægt að forðast mistökin og tjónið nema gera sér fulla grein fyrir því, hvað þarf að gera til þess að koma í veg fyrir það? Verður það gert nema með athugun? Ætli nokkur hv. þm. sé með því að framkvæma þetta, án þess að því fylgi athugun? Ég held ekki, nema ef það væri hv. 1. þm. Norðurl. v.

Ég get haldið áfram, með leyfi hæstv. forseta, enda þótt ljósið sé dauft og ég þyrfti nú að fara að fá mér gleraugu. Hv. n. segir, að það sé nauðsynlegt að athuga lög nr. 38 8. marz 1951, um loðdýrarækt, svo og lög nr. 15 8. marz 1948, um innflutning búfjár. Það þarf að athuga lögin. Það þarf að athuga, hverju þarf að breyta, til þess að þau verði alveg pottheld og komið verði í veg fyrir þau mistök, sem áður hafa átt sér stað. Er nú hægt að kveða fastar að orði með athugun og undirbúning á þessu máli en. hv. landbn. gerir? Ég undrast það, að hv. 1. þm. Norðurl. v. telur, að það sé ekki í þessari mgr. talað um athugun og rannsókn frá hendi hv. landbn., og ég undrast enn fremur, að hv. 3. þm. Norðurl. e. kveður sér hljóðs enn á ný til þess, að ég hygg, að taka í sama streng og hv. 1. þm. Norðurl. v.

Hv. 1. þm. Norðurl. v. talaði um, að það væri verið að leggja fyrir ríkisstj., hvernig frv. hún ætti að semja. Það er alveg þveröfugt. Það er það, sem hv. landbn. einmitt segir, að athuga skuli og rannsaka málið til hlítar, áður en frv. er samið, og frv. verður svo byggt á rannsókninni og athuguninni.

Þá talar hv. þm. um, að það sé nauðsynlegt, að búnaðarþing fái málið til meðferðar. Það er einmitt það, sem það mun fá, og áður en frv. verður samið, þá vitanlega liggur fyrir álit búnaðarþings, sem kemur saman nú í lok þessa mánaðar.

Það er ástæðulaust að vera að fjölyrða meira um þetta á þessu stigi. Það er alveg rétt, sem hv. 2. þm. Sunnl. sagði hér áðan, að það, sem nefndin leggur til, er það, að málið sé athugað nákvæmlega, að ríkisstj. láti fara fram. nákvæma athugun á þessu máli til þess að koma í veg fyrir þau mistök, sem hafa átt sér stað áður, þegar minkaeldi var hér, til þess að þessi atvinnuvegur, ef hann verður tekinn upp, geti orðið okkar þjóðarbúi til framdráttar, eins og á Norðurlöndunum, og við megum ekki leggja út í þennan atvinnuveg, nema við höfum áður girt fyrir allar hættur í þessu efni. Og ég undrast það, ef það þarf að vera ágreiningur um afgreiðslu málsins á þessum grundvelli. Vissulega ættum við að hafa annað við tímann að gera í hv. Alþ. en að vera að búa til deilur um aukaatriði.