17.02.1961
Neðri deild: 65. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í C-deild Alþingistíðinda. (1825)

38. mál, loðdýrarækt

Frsm. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. v. beindi þeirri fsp. til mín við umr. í gær, hvort ég vildi kynna mér, hvort landbn. gæti fallizt á nokkra aðra afgreiðslu þessa máls, t.d. að afgreiða það með rökstuddri dagskrá. Landbn. var á fundi í morgun að ræða allt önnur mál, en ég bar þetta undir hv. meðnm. mína, og við komumst að þeirri niðurstöðu, að við teldum enga þörf á því, að n. breytti afstöðu sinni til afgreiðslu málsins.

Það urðu hér í gær nokkrar umr. um þetta mál. Að vísu voru menn, að því er mér virtist, samdóma um þá till. landbn., að þessu máli verði vísað til ríkisstj. Það var aðeins að mönnum sýndist sitt hvað um orðalag nál. Ég get náttúrlega vel fallizt á, að það hefði mátt orða nál. með öðrum hætti. Íslenzk tunga er svo orðfrjó, að það má orða sömu hugsun á margvíslegan hátt. En aðalatriðið er þetta, sem fyrir okkur vakir, að vísa málinu til ríkisstj. í trausti þess, að málið verði rækilega athugað og að ríkisstj. geri svo það, sem henni þykir skynsamlegast í málinu. Ég býst ekki við, að það sé hægt að krefjast meira af henni, og það gerum við ekki heldur.