14.02.1961
Neðri deild: 63. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í C-deild Alþingistíðinda. (1853)

100. mál, fæðingarorlof

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Þegar þetta frv. kom til 1. umr. hér í d. á fyrra hluta þingsins, þá gerði ég við það athugasemd. Ég benti á galla, sem ég taldi vera á frv. Ég taldi það vera galla á því, að aðeins þær konur, sem taka laun fyrir vinnu sína, ættu að njóta fæðingarorlofs samkv. frv. Allar hinar komurnar, sem helga heimilunum alla starfskrafta sína, vinna þar að heimilisstörfum og m.a. að uppeldi barnanna, ættu engra réttinda að njóta samkvæmt frv. Ég benti á það, að þessar konur, sem vinna eingöngu á heimilunum, gegna ákaflega þýðingarmiklu hlutverki í þjóðfélaginu, og ég hélt því fram, að það væri rangt að gera rétt þeirra minni en annarra kvenna.

Ég vil vekja athygli á því í sambandi við umræðu um þetta atriði, að fyrir allmörgum árum var svipað mál hér til meðferðar á þingi, sem nokkur ágreiningur var um í fyrstu. Þegar frv. um almannatryggingar var lagt fyrir hér á þingi 1945, var ein grein þess um fæðingarstyrk. Ákveðið var í þeirri grein, að allar konur skyldu fá 80 kr. styrk við hverja barnsfæðingu. Þar að auki áttu þær, sem stunduðu vinnu utan heimilis, að fá til viðbótar 140 kr. á mánuði í þrjá mánuði, gift kona þó því aðeins, að maður hennar gæti ekki séð heimilinu farborða. En þær, sem stunduðu ekki vinnu utan heimilis, áttu að fá 120 kr. upp í kostnað, sem fæðingin hefur í för með sér, eins og það er orðað, til viðbótar áður nefndum 80 kr. Ákvæðin voru því þannig, að þær, sem unnu eingöngu á heimilum sínum, gátu fengið 200 kr., en hinar, sem stunduðu vinnu utan heimilis, gátu fengið 500 kr. í fæðingarstyrk. Ég bar fram brtt. þá þegar um þetta atriði og lagði til, að þarna yrði gerður jöfnuður á, — lagði til, að við hverja barnsfæðingu ætti móðirin rétt á að fá greiddar 300 kr., allar jafnt. Þessi till. mín var þá felld, en frv. samþykkt með þessum ákvæðum óbreyttum.

Á næsta þingi, 1946, bar ég fram frv. um nokkrar breytingar á tryggingalögunum og m.a. sömu tillöguna og ég hafði flutt á þinginu áður um, að þetta yrði jafnað, allar mæður fengju jafnan fæðingarstyrk. Að því sinni var málið afgreitt með rökst. dagskrá, sem heilbr.- og félmn. Nd. bar fram. Í þeirri dagskrártillögu var því beint til ríkisstj., að hún beitti sér fyrir endurskoðun á tryggingalöggjöfinni í heild að fenginni nokkurri reynslu.

Á Alþingi 1947 bólaði ekki á neinum tillögum frá ríkisstj. um breytingar á lögunum. Þá fluttum við 6 þm. hér í Nd. tillögur um nokkrar breytingar á löggjöfinni. M.a. var þar tekin upp tillaga mín óbreytt frá tveimur þingum næst á undan. Meðflutningsmenn að þessu frumvarpi á þinginu 1947 voru þeir Páll Þorsteinsson, Jón Sigurðsson, Pétur Ottesen, Jón Gíslason og Steingrímur Steinþórsson. Þetta frumvarp okkar dagaði uppi. Af þessum sexmenningum, sem fluttu það frv., erum við nú tveir á þingi, ég og hv. 5. þm. Austf. (PÞ), en þar sem hann á sæti í hv. Ed., gat hann ekki orðið meðflm. minn að þeim brtt., sem ég hef hér lagt fram.

Næst gerðist það í þessu máli, að á Alþingi 1949 var lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um almannatryggingar. Það var undirbúið af sérstakri nefnd, sem hafði starfað milli þinga. Í henni áttu sæti Gunnar Möller, sem var formaður n., Brynjólfur Stefánsson, Haraldur Guðmundsson, Kjartan Ólafsson, Sigfús Sigurhjartarson og Skúli Guðmundsson. Upphaflega var Helgi Jónasson, þm. Rang., kosinn í nefndina, en hann gat ekki sinnt nefndarstörfum, og kom ég í nefndina í hans stað. Í greinargerð, sem þessi endurskoðunarnefnd lét fylgja frv. sínu, gerðu einstakir nefndarmenn grein fyrir sérstöðu sinni um viss atriði. Ég hafði sérstöðu um einstök atriði, og eitt af þeim var þetta ágreiningsmál um fæðingarstyrkinn. Ég tók fram um það í grg.: „Ég tel að fæðingarstyrkur samkv. 34. gr. laganna eigi að vera jafn til allra mæðra. Tillaga um þetta, sem ég bar fram í nefndinni, var felld með 3:2 atkv.

Frumvarp þetta hlaut ekki afgreiðslu á þinginu 1949. En nú var þó komið að því, að þeir menn, sem vildu skipta konunum í tvo flokka, mismunandi réttháa, létu undan síga. Á þingi 1950 voru samþ. l. um breyt. á l. um almannatryggingar. Þar var loks tekið í lög, að fæðingarstyrkur samkv. 34. gr. l. skyldi vera jafn til allra mæðra, og átti hann að nema 600 kr. við hverja fæðingu.

Þannig tók það nokkur ár að fá viðurkenndan jafnan rétt allra mæðra til fæðingarstyrks. Fæðingarstyrkurinn mun nú vera 2160 kr., jafn til allra mæðra.

Þegar ég hef rakið þetta, ætti mönnum að vera ljóst, að það er ekkert undarlegt við það, þó að ég beri fram þessa brtt. mína nú um það, að allar konur skuli hafa sama rétt til fæðingarorlofs. Við, sem unnum að því árum saman að fá numið úr tryggingalögunum það misrétti, sem upphaflega var í þeim að því er snerti fæðingarstyrkinn, getum ekki látið það afskiptalaust, að lög um fæðingarorlof séu þannig úr garði gerð, að meiri hluti mæðranna hafi þar engan rétt.

Ég vil þá fara nokkrum orðum um brtt. mínar á þskj. 361.

1. brtt. er við 1. gr. og er um það, að niður falli úr gr. orðin „sem taka laun fyrir vinnu sína“, þannig að það verða allar konur, sem eiga rétt á orlofi vegna barnsburðar, ef mín brtt. verður samþ.

Þá legg ég til, að 2. gr. verði umorðuð og verði þannig:

„Við barnsfæðingu skal greiða hverri móður orlofsfé, sem nemur þrefaldri upphæð fæðingarstyrks samkvæmt 8. gr. laga nr. 13 1960, um breyt. á lögum nr. 24 1956, um almannatryggingar.“

Ég vil taka það fram, að það getur vitanlega verið mikið álitamál, hvað háa upphæð á þarna að setja. Ég sé í nál. hv. meiri hl. heilbr.- og félmn., að það er haft eftir forstjóra Tryggingastofnunarinnar, að til þess að ná sama marki með hækkun á fæðingarstyrknum þurfi að sexfalda hann. Nú veit ég ekki, hvernig þetta er reiknað út, og ég sé ekki heldur, að það sé hægt að reikna þetta þannig út. Er þarna miðað við það, að þær konur, sem mundu fá hæsta orlofsfjárupphæð skv. frv., fái jafnmikið með þeirri aðferðinni? Það er svo misjafnt samkv. frv., hvað konur fá mikið orlofsfé. Það er eftir því, hvaða tekjur þær hafa eða hvaða laun þær hafa. Ég sé ekki, hvernig hægt er að reikna þannig út, eins og þarna er gert, ef þetta styðst við einhverja útreikninga. En ef mín brtt. yrði samþykkt, yrði það fjórföldun á fæðingarstyrknum, en ekki þreföldun, eins og kom fram í ræðu hv. frsm. minni hl., af því að fæðingarstyrkurinn mundi haldast óbreyttur. Það yrði sama sem fjórföldun á honum og þannig nokkru meira en hv. frsm. minni hl. talaði um, því að hann talaði um þreföldun, held ég, á fæðingarstyrknum. En eins og ég segi, þá getur það verið álitamál, hvaða upphæð þarna á að setja. Ég geri ráð fyrir því, að þær konur, sem hæst laun taka, mundu fá eitthvað minna, ef mín till. verður samþ., en aftur er mér það ljóst, að mjög margar konur, sem vinna utan heimilis, mundu fá meira samkv. minni till. en samkv. frv. óbreyttu, þær sem vinna aðeins að nokkru leyti utan heimila sinna.

Nú er það svo, eins og þegar hefur verið rætt um og vitað er, að allmargar konur hafa rétt til fæðingarorlofs samkv. lögum eða samkv. starfssamningum, og ég geri ekki till. um neina breyt. á lagagreininni að því er það snertir, að þær konur, sem samkv. öðrum lögum eða samningum stéttarfélaganna njóta jafngóðra eða betri kjara um fæðingarorlof, halda þeim réttindum. Þetta helzt áfram. En þetta yrði þá þannig, ef mín till. yrði samþ., að þeir atvinnurekendur, sem hafa þær í sinni þjónustu, mundu aðeins þurfa að borga mismuninn, og vera má, að það þyrfti að setja um það, ef mín till. yrði samþykkt, gleggri ákvæði, þannig að það væri alveg skýrt. Þeir mundu þá aðeins þurfa að borga það, sem á vantaði, að þær fengju jafnmikið og þeim ber samkv. núgildandi samningum.

Þá er það loks 3. brtt. mín, við 3. gr., um fjáröflun til að standa straum af þeim kostnaði, sem af þessu leiðir, og þar legg ég til, að útgjöldunum verði skipt á þá aðila, sem bera útgjöld lífeyristrygginguna samkv. lögum frá síðasta þingi um breyt. á almannatryggingalögunum. En þar er þessum gjöldum skipt á fjóra aðila, eins og kunnugt er, þ.e. ríki, sveitarfélög, hina tryggðu og atvinnurekendur, og ég ætlast til, að þetta verði í sömu hlutföllum. Nú er á það að líta, að allmargir menn í þessu þjóðfélagi hafa tryggingu hjá sérsjóðum, sem hafa fengið undanþágu svokallaða eða viðurkenningu hjá Tryggingastofnun ríkisins, og þeir menn þurfa ekki að greiða nú til Tryggingastofnunarinnar jafnmikil iðgjöld og aðrir vegna, lífeyristrygginganna. En ef þetta yrði samþykkt, sem ég legg hér til, þá yrði það auðvitað þannig, að allir yrðu að taka sinn þátt í að bera þessi gjöld, vegna þess að allir ættu að njóta þarna sama réttar.

Ég held, að ég þurfi ekki að hafa fleiri orð um brtt., því að ég vænti, að öllum hv. þdm. sé ljóst, hvað í þeim felst.

Ég heyrði það á ræðu hv. frsm. minni hl. n., hv. 4. landsk., að hann var fús til að fallast á mínar brtt., og mér er kunnugt um það um meðnm. hans,, sem stendur að minnihlutaálitinu, hv. 4. þm.. Reykn., að hann er þeim einnig samþykkur, og fyrirvari hans, sem hann hafði í nál., er einmitt varðandi þetta atriði, hann hefur skýrt mér frá, því. Og mér þótti einnig gott að heyra það í framsöguræðu hv. 1. þm. Vestf., sem talaði hér fyrir meiri hl. n., að athugasemdir hans um frv. féllu, mjög í sama farveg og það, sem ég hef um það, sagt. Og ég vildi nú beina því til hv. 1. þm. Vestf., hvort hann gæti ekki á það fallizt sem formaður n. að taka málið á ný til meðferðar og athugaði um það, hvort það gæti einmitt ekki orðið samkomulag í n. um afgreiðslu málsins nú á þessu þingi á þessum grundvelli. Ég vildi beina þessu til hans. Það kom fram í ræðu hans, að hann taldi hér vera merkilegt mál á ferð, enda er það svo, að meiri hl. leggur ekki til að fella frv., — alls ekki, — heldur leggur meiri hl. til, að frv. verði vísað til hæstv. ríkisstj. til nánari athugunar, eins og segir í nál. Mér sýnist því allt benda til þess, að það verði unnið að því að koma á slíkri löggjöf mjög fljótlega. Ég hefði talið æskilegast, að samkomulag hefði getað orðið um það nú þegar á þessu þingi, ef hv. formaður n. og frsm. vildi taka þetta til athugunar. En hvernig sem um það fer nú, þá þykist ég sjá það af undirtektum, sem málið hefur fengið, að slíkt muni verða í lög tekið innan skamms, og brtt. mínar eru fram bornar til að leggja áherzlu á það, að þegar lög um þetta verða sett, — sem ég vildi óska að yrði á þessu þingi, en jafnvel þótt ekki verði fyrr en á því næsta, — að þannig verði frá því gengið, að konurnar, sem helga heimilunum alla starfskrafta sína, njóti ekki minni réttinda í löggjöfinni en aðrar.