10.03.1961
Neðri deild: 73. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í C-deild Alþingistíðinda. (1864)

100. mál, fæðingarorlof

Fram. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Þegar mál þetta var til 2. umr., var óskað eftir því, að heilbr.- og félmn. tæki það til athugunar á ný, af því að fram hefðu komið brtt., sem nefndin vildi gjarnan athuga, og auk þess hafði komið ósk um það, að rætt yrði nánar við forstjóra Tryggingastofnunarinnar um sérstök atriði. Ég var fjarverandi, eins og kunnugt er, um 14 daga skeið, en hæstv. forseti hefur tekið málið á dagskrá 28. f.m., og var það þá hér til umr. N. hefur hins vegar ekki haft tækifæri til þess að halda fund um málið, og forstjóri fyrir Tryggingastofnuninni er erlendis sem stendur. Ég vildi mega mælast til þess, að hæstv. forseti tæki málið út af dagskrá og frestaði umr., svo að n. fengi tækifæri til að athuga þau atriði, sem óskað hefur verið eftir.