02.03.1961
Neðri deild: 71. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í C-deild Alþingistíðinda. (1874)

7. mál, löggilding bifreiðaverkstæða

Fram. meiri hl. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir til 2. umr., um löggildingu bifreiðaverkstæða, var flutt snemma á þessu þingi. Það er stjfrv., flutt af hæstv. dómsmrh., sem jafnframt er iðnmrh., og eins og segir í grg. fyrir frv., þá er það undirbúið af Iðnaðarmálastofnun Íslands og í samráði við Félag bifreiðaverkstæðaeigenda og Félag bifvélavirkja. Þessu frv. var vísað snemma á þinginu til hv. allshn., og hefur það verið þar til meðferðar síðan, en að það hefur legið svo lengi í meðförum n. og verið rætt á svo mörgum fundum, eins og segir frá í nál., stafar af því, að málið er mikið ágreiningsmál, bæði innan n. og meðal þeirra manna, sem hlut eiga að máli í landinu og þetta mál snertir.

Eins og kunnugt er, hefur á undanförnum árum verið flutt inn ákaflega mikið af bifreiðum, bæði fólksbifreiðum og vörubifreiðum, og samkvæmt skýrslu, sem fylgir þessu frv., voru 1. jan. 1959 til í landinu 18807 bifreiðar. Það svarar til þess, að hér á Íslandi sé til bifreið á hverja 9 íbúa landsins. Í Noregi er ein bifreið á hverja 12 menn, í Danmörku á 10 menn og Svíþjóð 7 memn. Það er þess vegna augljóst og raunar öllum mönnum kunnugt, að það að viðhalda og annast viðgerðir á bifreiðum hér í okkar landi er orðinn stórkostlegur atvinnuvegur, vandasamur og hefur mikla þýðingu í öllum samgöngumálum þjóðarinnar. Nú er það svo, að tilgangurinn með þessu frv. er, eins og á því er auðsætt, að koma betri skipun á þessi mál, koma því til leiðar, að þeir menn, sem stunda viðgerðir bifreiðanna, læri betur og hafi betri aðstöðu til þess að sinna sínum verkum á fullkomnari máta en verið hefur. Með þessu frv. er farið fram á það, að dómsmrn. sé gefin heimild til þess að löggilda bifreiðaverkstæðin sums staðar á landinu eða jafnvel alls staðar, eftir því sem ástæða þykir til. Með þessu er náttúrlega ekki sagt það, að það sé tilgangurinn að banna öllum öðrum en þeim, sem fá löggildingu, að gera við bifreiðar, enda mundi það ekki ná neinni átt. En í fyrsta lagi er að geta þess, að gera má ráð fyrir, að þau verkstæði, sem fá löggildingu til þessara starfa, hafi fullkomnari áhöld, fullkomnari húsakost og þess vegna sé líklegt, að allir, sem til þeirra þurfa að sækja, óski frekar að snúa sér til hinna fullkomnari verkstæða heldur en hinna, sem hafa verri aðstöðu.

Eins og sést á nál. bæði meiri og minni hl. allshn. hefur n. ekki orðið sammála um þetta frv. Meiri hl. leggur til, að það verði samþykkt, en áskilur sér þó rétt til að flytja eða fylgja brtt., er fram kynnu að koma, en minni hl., hv. 11. landsk., hefur, eins og nál. ber með sér, lagt á móti frv. og leggur til, að því verði vísað til ríkisstj., en einn nm., hv. 4. þm. Sunnl., var ekki staddur á fundi, þegar málið var afgreitt, og hefur þess vegna ekki tekið afstöðu til nál. Nú er það svo, eins og fram er tekið í nál. okkar, sem skipum meiri hluta í hv. n., að við mælum með samþykkt þessa frv. á þeim grundvelli, að heimildin, sem ætlazt er til að dómsmrn. fái, verði framkvæmd frjálslega, þannig að það verði ekki gerðar of miklar kröfur eða skapaðir of miklir örðugleikar fyrir þau verkstæði, sem hér eiga hlut að máli, svo að það verði ekki hætta á því, að hér skapist hvorki á einum stað né öðrum nein einokunaraðstaða, sem geti gefið tilefni til okurstarfsemi á þessu sviði. Okkur er alveg ljóst, að nái þessi heimildarlög lagagildi, er allt undir því komið, hvernig þau eru framkvæmd, eins og á sér stað um heimildarlög almennt. En samkv. þeim upplýsingum, samkv. þeim umsögnum og samkv. öllum þeim rökum, sem n. hefur fengið til stuðnings við þetta mál, viljum við láta reyna þetta og prófa, hvort það getur tekizt að bæta á þann hátt þau verk, sem þarna er um að ræða og eru ákaflega nauðsynleg, eins og öllum mönnum er að sjálfsögðu ljóst, sem hafa kynnt sér þessi mál.

Eins og sakir standa, hafa ekki verið lagðar fram neinar brtt., og þess vegna ekki þörf fyrir hv. dm. að taka afstöðu til neins slíks. En sem sagt, við í meiri hl. allshn. leggjum til, að frv. verði samþ., eins og það liggur fyrir.

Ég sé ástæðu til að minnast á eitt atriði í þessu sambandi, og það er, að sumir aðilar hafa lagt á það áherzlu að fella út úr 1. gr. þessa frv. orðin „gegn greiðslu“, en ég held, að mér sé óhætt að segja, að enginn í hv. allshn. sé samþykkur því. Það mundi hafa í för með sér, að það yrðu að koma undir þetta öll þau verkstæði, sem hafa með það að gera að inna af höndum viðgerðir fyrir einstök félög og fyrirtæki og ekki er ástæða til að okkar áliti að fella undir þessi lög.

Nú skal ég ekki að sinni hafa um þetta fleiri orð, en vænti þess, að frv. geti að þessari umr. lokinni gengið til 3. umr.