23.02.1961
Neðri deild: 68. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í C-deild Alþingistíðinda. (1889)

8. mál, Iðnaðarmálastofnun Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Frv. það um nýskipan rannsóknarmálanna, sem hv. þm. gat um í ræðu sinni, hefur verið til athugunar í ríkisstj., vandlegrar athugunar, en ákvörðun hefur ekki enn verið um það tekin, hvort frv. verður flutt á þessu þingi eða flutningur þess eða annars frv. um sama efni verði látinn bíða til næsta þings. Ég tel því ekki neina ástæðu til þess, að afgreiðsla þessa máls bíði eftir því, að Alþingi fái hitt frv. til meðferðar, því að augljóst er, að þó að það eða annað frv. um sama efni yrði lagt fram á þessu þingi, þá er um svo veigamikið mál að ræða og Alþ. enn svo ókunnugt, að vonlaust mætti telja, að það næði afgreiðslu á þessu þingi. Þess vegna sé ég ekki ástæðu til þess, að afgreiðsla þessara tveggja mála verði tengd saman.