17.10.1960
Neðri deild: 5. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í C-deild Alþingistíðinda. (1919)

44. mál, áburðarverksmiðja

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil taka það fram í upphafi orða minna hér, að ég er í höfuðatriðum samþykkur því frv., sem liggur hér fyrir á þskj. 44, sem er frv. til 1. um breyt. á lögum um áburðarverksmiðjuna, en ég hef borið fram brtt. á þskj. 51, sem nú hefur verið útbýtt, og vildi segja um hana nokkur orð.

Brtt. mín er við 13. gr. frv., þannig að á eftir 13. gr. komi þrjár nýjar málsgr., er orðist svo: „Hlutafjársöfnun er engum takmörkum háð, og skal jafnan gefa út ný hlutabréf á nafnverði án tillits til efnahags félagsins á hverjum tíma.

Nú er hlutafjáreign annarra hluthafa en ríkissjóðs meiri en helmingur alls hlutafjárins, og takmarkast þá atkvæðisréttur ríkissjóðs svo sem fyrir er mælt í lögum um hlutafélög, nema því aðeins, að lán þau, sem á félaginu hvíla og ríkissjóður er í ábyrgð fyrir, að viðbættu hlutafé ríkissjóðs, séu hærri en hlutafjáreign annarra hluthafa.

Þótt slíkar breytingar verði á hlutafjáreign, gefur það ekki meiri hluta hluthafa rétt til þess að setja félaginu ný lög eða breyta þessum lögum, sem aðeins verður gert á Alþingi.“

Ég tel, að það sé höfuðnauðsyn fyrir áburðarverksmiðjuna að safna svo miklu hlutafé sem mögulegt er, og ég tel, að í fyrirtæki eins og áburðarverksmiðjan er byggð upp eigi aldrei að loka hlutafjársöfnun, heldur leyfa aðilum að kaupa, hvenær sem er, á hvaða tíma sem er, hlutafé fyrir nafnverð. Það gæti vel komið til mála, að þá þyrfti að breyta því ákvæði í lögunum, að vextir skyldu greiddir 6%, en í staðinn setja venjulega útlánsvexti, en um það hef ég ekki gert brtt. á þessu stigi málsins.

Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að ef þetta ákvæði hefði verið gert að skilyrði við hlutafjársöfnun í Eimskipafélagi Íslands á sínum tíma, sem raunverulega var eign allrar þjóðarinnar og óskabarn hennar, eins og sagt var á þeim tíma, þá hefði ýmislegt farið miklu betur í sambandi við okkar samgöngur á sjó, bæði milli landa og umhverfis landið, og að það hafi verið stærstu mistökin í því máli að stöðva nokkru sinni hlutafjáraukninguna. En það var einmitt gert á þeim tíma, þegar félagið átti miklu meiri eignir en skuldir og menn fóru að spekúlera í því að gera uppkaup á hlutafénu og hugsuðu sér að græða þannig á hlutafjárkaupunum. Ég hygg, að ef við þá hefðum haft slíkt ákvæði eins og hér um ræðir, þá hefði aldrei komið til mála, að ríkissjóður hefði þurft að hafa slíka byrði af strandferðasiglingum eins og hann hefur haft öll árin, og ýmislegt fleira, sem hefði farið betur í okkar þjóðfélagi.

Það er sýnilegt, að meiri hluti Alþingis hefur óskað eftir því, að áburðarverksmiðjan væri stofnuð og rekin sem hlutafélag, þar sem bæði einstaklingum og félögum er gefinn kostur á að kaupa hlut í félaginu. Það er að vísu takmarkað við 10 millj. kr. En stofnkostnaðurinn, að því er mér skilst, mun vera 130 millj. og verksmiðjan mun auk þess nú þurfa allmikið fé til þess að koma upp nýjum vélum, sumpart til endurnýjunar á sínum gömlu vélum og sumpart til þess að búa til annan og fjölbreyttari áburð en hún gerir í dag, svo að það er engin vanþörf á því að auka hlutaféð, og þá held ég að það eigi að vera leyfilegt öllum þegnum þjóðfélagsins að leggja fram til þess fé.

Það er hins vegar enn í lögunum, að félagið má ekki selja framleiðsluna dýrar en svo, að hún sé með framleiðsluverði, og þess vegna er eðlilegt, að haldið sé því ákvæði, að ekki sé hægt að breyta félaginu í almennt hlutafélag, eins og venjulega er gert samkvæmt hlutafélagalögum, og þess vegna hef ég gert till. um, að þetta verði ekki gert, þótt ríkissjóður verði í minni hluta hvað hlutafé snertir.

Þá er einnig eðlilegt, að því sé haldið í lögunum, að ríkissjóður hafi sérstöðu um atkvæði, svo lengi sem hann annars vegar á meiri hluta í fyrirtækinu, eða — eins og ég hef gert tillögu nm. — hlutabréfaeign ríkissjóðs samfara þeim ábyrgðarupphæðum, sem ríkissjóður er fyrir á hverjum tíma, er meiri en hlutafé annarra hluthafa í félaginu.

Mér þótti rétt að láta þessa brtt. koma fram strax við 1. umr., svo að hv. fjhn., sem fær málið nú til meðferðar, gæti einnig tekið hana til athugunar, og þótti þá einnig rétt að segja þessi orð um það, áður en málið fer til n. og 2. umr.

Ég skal svo ekki tefja þetta mál lengur á þessu stigi málsins og vænti, að hv. n. sjái sér fært að taka þessa till. til greina við afgreiðslu málsins.