25.10.1960
Neðri deild: 10. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í C-deild Alþingistíðinda. (1928)

50. mál, bann gegn vinnustöðvun íslenskra atvinnuflugmanna

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hinn 5. júlí s.l. voru gefin út bráðabirgðalög þau, sem hér um ræðir, eins og öllum hv. þdm. er kunnugt um.

Eins og vitað er, eru hér á landi tvö flugfélög, sem starfa af miklum myndarskap og dugnaði. Þessi flugfélög eiga, sem eðlilegt er, oft og tíðum í fjárhagskröggum, þar sem þau verða að kosta miklu til rekstrar og viðhalds flugvéla og annarra eigna, sem nauðsynleg eru rekstrinum. Við höfum verið svo heppin að eignast vel þjálfað og duglegt fluglið, sem hefur gert mögulegt fyrir bæði þessi félög að hasla sér völl ekki aðeins hér innanlands, heldur einnig á erlendum vettvangi.

Flugfélag Íslands gegnir tvíþættu hlutverki. Það annast samgöngur hér innanlands, flýgur til 25 staða reglulega að sumrinu, og hefur þannig rofið algerlega einangrunina. Það hefur komið hinum fjarlægustu og afskekktustu stöðum landsins í gott samband við aðra staði. Þetta er svo mikilvægt, að menn telja nú, að það sé ekki hægt án þess að vera, enda er stöðugt að því unnið að byggja nýja flugvelli og koma fleiri og fleiri stöðum í samband við flugið. Flugfélag Íslands hefur einnig reglubundið áætlunarflug til margra landa í Evrópu og hefur, eins og kunnugt er, tveimur ágætum vélum á að skipa, og hefur með ári hverju farið vaxandi farþegafjöldinn með þessum flugvélum, og sérstaklega nú á s.l. sumri var það áberandi, hversu margir útlendingar flugu með Flugfélagi Íslands. Starfsemi Flugfélags Íslands, bæði í utan- og innanlandsflugi, er svo mikilvæg, að stöðvun á þeim vettvangi mundi valda miklum óþægindum, skaða og vandræðum fyrir fjölda manns, enda er það svo, að a.m.k. sá hluti landsmanna flýgur innanlands með Flugfélagi Íslands.

Flugfélagið Loftleiðir annast eingöngu, eins og kunnugt er, flutning á milli landa, þ.e. til Bandaríkjanna og ýmissa landa í Evrópu. Nú á s.l. vori var byrjað að fljúga til Finnlands, og virðist það ætla að gefa góða raun. Farþegafjöldi með flugvélum Loftleiða hefur aldrei verið meiri en nú s.l. sumar. Og það eru mestmegnis útlendingar, sem fljúga með Loftleiðum. Á s.l. vori var búið að bóka far með flugvélum flugfélagsins Loftleiða langt fram á haust, enda hafa vélarnar alltaf verið fullar yfir hafið, og má segja, að það sé ótrúlegt, að þetta litla félag skuli geta haslað sér völl í samkeppni við auðfélögin, og það er sannarlega mikils virði fyrir okkur, ef þetta má halda áfram.

Það er nauðsynlegt, að ekkert það komi fyrir, sem getur hindrað það, að framgangur flugfélaganna beggja og efling geti haldið áfram. Það má ekkert það koma fyrir, sem getur valdið okkur álitshnekki út á við og hindrað það, að útlendingar haldi áfram að panta far með íslenzku vélunum.

Nú var það svo á s.l. vori, að það kom upp deila á milli flugfélaganna og flugmannanna. Flugmenn gerðu kröfu um bætt kjör, og það er út af fyrir sig mál, sem ég ætla ekki að blanda mér í að ræða um. Ég skal líka láta hjá líða að fella nokkurn dóm um réttmæti þessara krafna flugmannanna. Það má vel vera, að þeir hafi haft nokkur rök, a.m.k. þegar þeir bera sig saman við þau kjör, sem starfsbræður þeirra hjá auðfélögum erlendis hafa. Ég býst við, að það sé rétt, að auðfélögin, sem eru í samkeppni við okkar tvö fátæku félög, borgi sínum flugmönnum hærra kaup, og sama býst ég við að megi segja um ýmsa hærri launaflokka, að þeir, sem eru taldir í betri launaflokkum hér og hærra launaðir, hafi alls ekki sambærileg laun við það, sem gerist erlendis. Það er t.d. alveg vitað, að verkfræðingar og læknar eru betur launaðir erlendis en stéttarbræður þeirra hér á landi. Það er líka vitað, að launamismunurinn er miklu meiri erlendis en hér á landi. Það er ekki í nokkru landi, sem er eins mikill launajöfnuður og hér. Og þetta er kannske vegna þess, að við erum svo fámennir, við þekkjum hver annan, og það er kannske kostur okkar, að við viljum, að fólkið hafi sem jöfnust og bezt kjör.

Ég þekki svo mikið íslenzka flugmenn, að ég veit það, að þeir vilja á allan hátt vinna að framgangi og eflingu flugfélaganna. Ég þekki þá svo vel, að ég veit, að þeir vilja alls ekki, að það komi til nokkurra mála, að álit félaganna út á við bíði hnekki, og verkfallið, sem flugmennirnir boðuðu á s.l. vori, var boðað í trausti þess, að það næðust samningar. Nú stóð þetta í stappi á milli flugfélaganna og flugmannanna, og samningar höfðu ekki tekizt að kvöldi hins 4. júlí. Það lá þess vegna ekkert annað fyrir að morgni 5. júlí en það yrði stöðvun, að flugvélarnar hættu að fljúga, að tugþúsundir útlendinga, sem höfðu pantað sér far með flugvélunum, mundu kippa til baka sínum pöntunum, að allur rekstur flugfélaganna kæmist á ringulreið og að þau yrðu fyrir varanlegu tapi og varanlegum álitshnekki út á við, þannig að það mátti reikna með því, að útlendingar gætu ekki á eftir treyst því að panta far með íslenzkum flugvélum, vegna þess að það væri ekki hægt á það að treysta, að áætlunin stæðist. Þetta var háskalegt. Og það var ekki þetta, sem íslenzkir flugmenn stefndu að. Engir vildu þetta síður en þeir. En þeir vildu fá bætt kjör, og þeir vildu ná samningum, en samningar tókust ekki, það var staðreynd.

Hvernig átti þá að koma í veg fyrir þann skaða og það tjón, sem hlaut að verða af stöðvuninni? Hvernig átti að gera það? Það var ekki, úr því sem komið var, önnur leið en sú, sem var farin, og sú leið var ekki sársaukafull fyrir flugmennina. Sú leið að láta stöðvun koma til framkvæmda er miklu sársaukafyllri fyrir þá og miklu meira á móti þeirra skapi, því að vinnustöðvunin var boðuð í trausti þess, að það yrði samið, í trausti þess, að ekki kæmi til stöðvunar. Nú er það svo, að samninganefndin, sem átti að semja fyrir hönd flugmannanna, var í nokkrum vanda. Þegar boðað er til verkfalls, er erfitt að snúa aftur nema hafa fengið eitthvað upp úr krafsinu. Nú lá það ekki fyrir, að samninganefndin hefði þau tilboð á hendi frá flugfélögunum, sem nægðu til þess að bjarga heiðri flugmannanna og samninganefndarinnar. Þess vegna voru það bráðabirgðalögin, sem hjálpuðu samninganefndinni út úr ógöngunum og björguðu heiðri hennar gagnvart stéttinni. Bráðabirgðalögin komu líka í veg fyrir, að það ætti sér stað, það sem flugmennirnir vildu allra sízt, stöðvun á fluginu, það tjón, sem flugfélögin mundu verða fyrir, ef það yrði stöðvun. Lögin komu þess vegna í veg fyrir stöðvun og urðu þess valdandi, að flugið hélt reglulega áfram s.l. sumar, að íslenzkt flug hefur nú enn sem fyrr möguleika til þess að halda áfram í erfiðri samkeppni við erlend auðfélög. Og Loftleiðir hafa nú gert ráðstafanir til þess að kaupa þriðju Cloudmaster-flugvélina, og veitir ekki af. Ef fram heldur því, sem verið hefur undanfarið, þá er hér enn vitanlega möguleiki til þess að auka farþegafjöldann, auka hróður íslenzkra flugfélaga og íslenzkra flugmanna, og það er það, sem ég er sannfærður um, að við hv. þingmenn viljum allir. Við höfum allir gert okkur það ljóst, hve mikið óbætanlegt tjón hefði getað orðið af því, ef stöðvun hefði orðið á fluginu á s.l. sumri, með þeim farþegafjölda, sem í boði var s.l. sumar og verið hefur. Og flugið er nú á leiðinni með að verða ábatasamlegur atvinnuvegur. Það er sannarlega ánægjulegt að vita það, að okkar litlu félög eru að vinna á og fá fleiri og fleiri erlenda farþega þrátt fyrir hina hörðu samkeppni erlendra auðfélaga. Ekkert mistakaspor má stíga í þessu efni, því að þá getum við orðið undir í baráttunni, og það spor, sem sýnist vera aðeins í bili mjög lítið víxlspor, getur vissulega valdið varanlegu tjóni. Og hver trúir því, ef hinir erlendu farþegar, sem voru búnir að panta far með íslenzku flugvélunum á s.l. vori, hefðu vegna stöðvunar og verkfalls orðið að afturkalla það, — hver trúir því, að það hefði ekki haft áhrif næsta sumar og næstu sumur?

Við erum fámennir, við erum litlir í samkeppni við milljónaþjóðirnar og auðfélögin, og það er ekki mögulegt fyrir okkur að sigra í samkeppninni nema hafa traust og dugnað fram yfir það, sem milljónaþjóðirnar hafa.

Ég vil leggja til, að þessu frv. verði vísað til 2 umr. og hv. samgmn.