25.10.1960
Neðri deild: 10. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í C-deild Alþingistíðinda. (1929)

50. mál, bann gegn vinnustöðvun íslenskra atvinnuflugmanna

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég vonaðist eftir því, að hæstv. landbrh. mundi færa fram einhver ný og gild rök fyrir því óyndisúrræði og því ofbeldisverki, sem hann framdi á s.l. sumri gagnvart verkalýðshreyfingu Íslands. En það var fjarri því, að maður fengi nein ný rök að heyra frá hans hendi. Hann flutti skýrslu um vöxt og viðgang flugfélaganna. Allt um það hygg ég, að þm. hafi verið kunnugt. Hann játaði, að við ættum vel þjálfað fluglið, hvað okkur mun einnig hafa órað fyrir eða verið að einhverju leyti kunnugt. En í því sambandi minntist hæstv. ráðh. ekki á það, að þetta mjög þjálfaða og vel hæfa fluglið ætti í raun og veru rétt á því að fá sambærilegt kaup og stéttarbræður þess í öðrum löndum. Það fannst honum vera mjög svo eðlilegt, að flugmenn annarra og ríkari þjóða hefðu allt annað og hærra kaup en hið ágæta íslenzka fluglið. En þar erum við ekki á sama máli.

Aðalrökin voru sem fyrr þau, að til þess hefði verið gripið að banna boðað verkfall flugmanna vegna þess, hversu mikilvægt það hefði verið, að flugvélar hinna íslenzku flugfélaga gætu haldið áfram starfi. Mikil lifandi ósköp mundi það ekki vera mikilvægt fyrir íslenzkan þjóðarbúskap, að íslenzkur sjávarútvegur gæti haldið áfram starfi? Hafa ekki verið gerð verkföll í þeim atvinnuvegi? Eru það ekki lögleg verkföll? Hefur það ekki gerzt í Bretlandi, móðurlandi lýðræðisins, hefur það ekki gerzt í öllum lýðræðislöndum, að verkföll hafi verið gerð, jafnvel í hinum þýðingarmestu atvinnuvegum, jafnt þeim sem öðrum? Er það nokkuð þýðingarmeira fyrir íslenzkt þjóðfélag, að 2–4 flugvélar haldi áfram rekstri, heldur en allur farskipa- og fiskveiðafloti Íslendinga? Slíkt er auðvitað ekki nokkur rökstuðningur fyrir banni verkfalla, nema það vaki fyrir þeim sömu herrum að banna verkföll almennt. Ég mun inna nánar eftir því síðar, hvort það sé kannske tilgangurinn, að það eigi bara við þarna, að á mjóum þvengjum sé byrjað.

Þegar leið á ræðu hæstv. ráðh., virtist mér rökstuðningur hans helzt hníga að því, að verkfallsbannið hefði verið gert fyrir flugmennina, þ.e. til þess að bjarga sóma þeirra. Þvílíkt bjargræði! Ætli hæstv. ráðh. hafi ekki borizt þakkarávörp frá flugmönnunum fyrir það, að hann skyldi bjarga sóma þeirra? Ég hygg, að hann hafi ekki fengið neitt slíkt þakkarávarp, enda var hann ekki að bjarga sóma þeirra.

Það er rétt, að það stóð í stappi um launakjör íslenzkra flugmanna. Þeir sátu annars vegar við samningaborð og eigendur flugfélaganna hinum megin og Vinnuveitendasamband Íslands á næstu grösum. Og þetta var þeirra lýðræðislegi réttur. Þeir ætluðu að semja um verðið á vinnu sinni, og það er heimilað í íslenzkum lögum. Samningar tókust svo ekki, segir hæstv. ráðherra. Það var aldrei reynt til hlítar að ná samningum. Við vitum það ósköp vel, sem í samningum höfum staðið við atvinnurekendur, að það er þeirra háttur og venja að neita af allt of mikilli óbilgirni öllum kröfum, sem verkalýðsfélögin bera fram, þangað til á síðustu stundu, þegar verkfallsvopnið vofir yfir þeim og það á alveg að fara að byrja. Þá er venjulega reynt að leysa svolítið frá pokahorninu og byrja að ganga inn á eitthvað í sanngirnisátt. En á þetta var ekki reynt. Ofbeldissverði verkfallsbannsins var brugðið á loft, áður en það væri fullreynt, hvort næðust samningar með friðsamlegum hætti við flugfélögin eða ekki.

Hæstv. ráðh. sagði: Vinnustöðvunin var boðuð í trausti þess, að samningar næðust. — Þetta hygg ég, að sé alveg rétt hjá hæstv. ráðh. Verkalýðsfélögin boða alltaf til verkfalls í trausti þess, að ef ekki hafa náðst samningar með friðsamlegum hætti, þá muni þeir þó nást, þegar verkfallshættan vofir yfir. Vissulega boðuðu flugmennirnir til verkfalls í því trausti, að með því að láta það liggja við, að verkfallið með öllum þess afleiðingum skylli á flugfélögunum, ef þau gerðu ekki neitt í þá átt að ganga í sanngirnisátt móti óskum þeirra, þá yrðu þau fyrir því tjóni, sem hlytist af verkfalli. Og þetta gerðu þeir þrátt fyrir það, þó að þeir óskuðu einskis frekar en flugfélögin gætu haldið áfram störfum, vildu aðeins fá það fram, að þeirra þriggja ára gamli kjarasamningur yrði endurskoðaður og leiðréttur nokkuð vegna mjög breyttra viðhorfa og aðstöðu, bæði að því er snerti flugvélakost félaganna og vinnutíma og afköst í sambandi við það og svo um kaupgjaldshliðina sjálfa. En mjög hafði, eins og allir vita, breytzt aðstaða á þessum þremur seinustu árum, að því er snertir verðlag í þessu landi og þar með í raun og veru rétt manna til verulegra breytinga á kaupgjaldi.

Sannast að segja bjóst, held ég, enginn við því, að hæstv. ríkisstj. bannaði verkfall flugmannanna. En þetta mun samt hafa verið gert í trausti þess, að þarna væri um fámenna stétt að ræða og að í krónutölu hefðu þessir menn hærra kaup en almennt verkafólk. En engum heilvita manni mundi nú detta í hug að ætla að miða kaup manna, sem kostuðu eins mörgum árum ævi sinnar til sérnáms og flugmenn hafa gert, né manna, sem hafa eins skamma starfsævi og flugmenn hafa sökum þess, hversu strangar líkamlegar kröfur eru gerðar til hæfni þeirra, að jafna kaupi þeirra við kaup ófaglærðra verkamanna, og þar með væri líka öll ástæða fallin burt fyrir því, að kaupbreyting til þessarar stéttar hefði getað orðið nokkurt algilt fordæmi fyrir verkalýðsstéttina almennt. Verkfallsbannið er þess vegna algert vindhögg út í loftið, klámhögg, sem er þeim til skammar, sem greiðir, að fornum skilningi, hafi það verið ætlunin að taka þarna prinsip-afstöðu almennt gagnvart verkalýðnum í landinu. Þarna var um stétt að ræða, sem hafði verulega sérstöðu á margan veg. En þetta högg var látið ríða. Það var látið heita svo, að þetta hafi verið greitt einu litlu stéttarfélagi í Alþýðusambandi Íslands. En það hefur ekki dulizt verkalýðshreyfingunni frá því kvöldið 5. júlí, að brbl. voru sett, að höggið var greitt verkalýðshreyfingunni allri í heild, og hanzkinn hefur verið tekinn upp af verkalýðshreyfingunni almennt vegna þessarar árásar á flugmennina.

Það væri vissulega synd að segja, að samtök alþýðustéttanna á Íslandi hafi verið í náðinni eða átt upp á pallborðið hjá þessari hæstv. ríkisstj. Á hendur þeim hefur hver árásin rekið aðra. Fyrst varð samvinnuhreyfingin fyrir hverju högginu á fætur öðru. Það var tekin upp sú nýbreytni, sem byggist á engu réttlæti, að skattleggja viðskipti félagsmanna innan samvinnuhreyfingarinnar. Og það var tekin upp sú nýlunda að heimta helminginn af sparifjáraukningu í innlánsdeildum kaupfélaga úti um allt land til þess að flytja þetta til Reykjavíkur til geymslu og frystingar hér í Seðlabankanum. Frekar hafði þó á undanförnum árum þótt þurfa að gera stjórnmálaaðgerðir í þá átt að dreifa fjármagninu út um landsbyggðina heldur en að safna því saman utan af landsbyggðinni og safna því til Reykjavíkur, þangað sem öll þjóðfélagsþróunin safnar fjármagni þjóðarinnar um of. Og þá kom röðin að verkalýðshreyfingunni, hinni fjöldahreyfingu hins vinnandi fólks. Í fyrsta lagi var það í tíð ríkisstj. Emils Jónssonar, þegar 27 vísitölustig voru skorin burt og kaup verkamannsins þar með lækkað um kr. 3.19 á klst. og kaup verkakonunnar um kr. 2.48 á klst. Það hafa ekki allir innbrotsþjófarnir í Reykjavík, sem hafa verið að stelast hér inn í búðir, farið með myndarlegri summu út en tekin var þarna í burtu með lagaákvæðum af árstekjum verkamanna og verkakvenna. En þetta var gert af löggjafanum. Þetta var þó ekki nóg. Það varð að fylgja betur eftir, og þá var ákveðið að afnema alla vísitölu á kaup, slíta kaupgjaldið í landinu úr tengslum við verðlagið, tryggja það, að verkamenn fengju helzt engar bætur í kaupgreiðslum, hvað sem verðlagið þyti upp á við. Fiskverð sjómanna var bundið með lögum, þótt ný gengisskráning gæfi tilefni til hærra fiskverðs. Það skyldi falla í hlut útgerðarmanna, eftir því sem vissir herrar skömmtuðu þeim þó, en sjómennirnir skyldu sitja með sama fiskverð og þeir höfðu, áður en gengislækkunarlögin voru sett á. Það var kveðjan til þeirra. Og svo kom verkfallsbannið, sem er ekkert sérmál flugmannanna einna, heldur mál verkalýðshreyfingarinnar allrar. Það er árás ríkisstj. Íslands á verkalýðshreyfinguna í landinu og ekkert annað.

Ég held, að hæstv. landbrh. hefði ekki farið út á þessa braut, ef hann hefði gert og gerði sér fulla grein fyrir því, hvað verkfall er eða hvernig á verkföll og verkfallsrétt er litið hjá lýðræðisþjóðum yfirleitt. Það er ekkert nýtt mál erlendis, að verkföll séu viðurkennd sem helgur réttur verkalýðsstéttarinnar í sjálfsvarnarskyni, og hér á landi hefur þessi réttur verið viðurkenndur líka með setningu laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Og þessi réttur hefur ekki verið tekinn af verkamönnum með löggjöf, svo að ég minnist, fyrr en þessi hæstv. landbrh. gerði það.

Það er einn af dýrmætum ávöxtum stjórnarbyltingarinnar miklu í Frakklandi, að þá var viðurkennt og leitt í lög almennt athafnafrelsi í því landi. Í því hugtaki fólst m.a. það, að verkamenn skyldu vera frjálsir að því að selja vinnu sína á því markaðsverði, sem ákvarðaðist af framboði og eftirspurn. Þeir skyldu enn fremur vera frjálsir að því að neita að vinna fyrir þetta verð, og verkamennirnir skyldu enn fremur vera frjálsir að því að leggja niður vinnu og fara heim, hvenær sem þá lysti, ef þeir gætu ekki samþykkt þetta lágmarksverð.

Á sama hátt fékkst þá einnig viðurkenning fyrir því, að atvinnurekendur skyldu vera frjálsir að því að borga verkamönnum lægstu laun, sem hægt væri að fá þá fyrir, bæði karla og konur og börn, og þeir skyldu vera frjálsir að því að segja þeim upp vinnu, hvenær sem þeim sýndist svo.

Með þessu var viðurkennt, að vinnan eða vinnuaflið bæri að verðleggja á sama hátt eins og aðrar vörur. Þarna færi fram kaup og sala milli atvinnurekendanna og verkamannanna. Verkamaðurinn væri seljandi vinnunnar, vinnuseljandi, og atvinnurekandinn vinnukaupandi. Með þessu var launakerfi nútímans í rauninni komið á fót. En þegar svona var komið, hófst næsta ójafn leikur, því að þetta gagnkvæma frjálsræði veitti atvinnurekendum miklu sterkari aðstöðu til þess að verðleggja vinnuna en eigendum sjálfrar vinnunnar, verkamönnunum. Gagnvart atvinnurekendunum stóð verkamaðurinn einsamall, veikur og vanmáttugur, og víða í löndum var aðstaða atvinnurekendanna auk þess styrkt með lagaákvæðum, sem bönnuðu öll samtök verkamanna. Þannig gat atvinnurekandinn oftast ákveðið einn verð vinnunnar, en ekki eigandi vinnuaflsins, verkamaðurinn. Ef verkamaðurinn hikaði eða neitaði að taka boði atvinnurekandans, gat sá síðarnefndi venjulega annaðhvort beðið eða fengið aðra menn í verkið. Verkamaðurinn gat hins vegar í fæstum tilfellum beðið. Hann gat verið knúinn til að ganga að hvaða kostum sem var þegar í stað, og það, sem rak hann áfram, gat verið margt. Það gat t.d. verið atvinnuskortur, það gat verið stór fjölskylda að baki honum eða það gat beinlínis verið sulturinn.

Verkamennirnir urðu því að heyja langa og harða baráttu fyrir því að mega stofna til samtaka sín á milli, svo að þeir stæðu ekki einir gagnvart atvinnurekendavaldinu, þ.e.a.s. þeir urðu að berjast fyrir réttinum til að mega koma sér saman um ýmsar sameiginlegar kröfur og jafnvel um að neita að vinna eða það, sem við köllum að gera verkfall. Þessi réttindi fengu verkamenn viðurkennd í móðurlandi lýðræðisins, Englandi, í byrjun 19. aldar, 1824, í Frakklandi nokkru seinna, 1864, og í Þýzkalandi með atvinnulöggjöfinni, sem var lögleidd árið 1869. Og þetta var strax í áttina. En það reyndist ekki nóg. Verkamenn sáu fljótt, að tímabundin samtök og samkomur af tilviljun leystu ekki þeirra vandamál. Þeir þurftu að öðlast rétt til þess að stofna fastmótuð félög, sem héldu uppí merkinu og störfuðu áfram til langframa. Þennan rétt öðluðust verkamenn í Englandi á undan öðrum löndum, árið 1871, og í Frakklandi 1884. Á Norðurlöndum fer verkalýðshreyfingin fyrst að ná nokkrum þroska eftir 1880. Danska alþýðusambandið er stofnað í ársbyrjun 1898, hið sænska síðar sama ár, norska alþýðusambandið 1899 og það finnska 1907 og Alþýðusamband Íslands 1916.

Ég hef verið að leitast við að lýsa aðstöðu verkamannsins gagnvart atvinnurekandanum og hvernig þessi aðstaða hefur þróazt, jafnazt nokkuð, einkanlega með réttinum til þess að mega stofna stéttarfélög og síðan að mega styrkja aðstöðu stéttarfélags síns með stofnun stéttarsambanda og enn fremur með stofnun alþjóðasambanda og þátttöku aðal-landssambandanna í þeim. Í stað samninganna við hvern einstakan verkamann um kaupið, sem venjulega þýddi sjálfsákvörðun atvinnurekandans, eins og ég sagði áðan, eru nú komnir og löghelgaðir samningar við félagssamtök verkamanna. Samtökin eru það, sem gera verkamanninum kleift að neita að vinna. Þau útiloka hættuna á því, að annar verkamaður geti hlaupið í skarðið og tekið vinnuna fyrir lægra kaup. Og til þess að verkamennirnir þoli bið, meðan á samningum eða deilu stendur, leggja verkamenn venjulega til hliðar dálítið af litlu kaupi sínu, mynda verkfallssjóði, svo að ábyrgðin gagnvart fjölskyldunni og sulturinn reki þá ekki alltaf strax til óyndisúrræða og uppgjafar. Og þá er komið að verkfallshugtakinu, sem ég held að hæstv. ráðh. vanti algerlega skilning á.

Ég vil leyfa mér að tilfæra skoðanir eins af kunnustu hagfræðingum Frakka í lok 19. aldarinnar um hugtakið „verkföll“. „Verkföllin eru,“ segir hann, „oft álitin vera aðaltilgangur og takmark stéttarfélaganna. En það er í rauninni misskilningur. Stéttarfélag, sem vel er stjórnað, getur vel unnið sigra án verkfalla, og það gera þau raunar oftast, alveg eins og góður herforingi getur stýrt liði í leiðangri, án þess að til bardaga komi. En samt sem áður,“ segir hann, „er verkfallið síðasta og tilþrifamesta úrræðið, þegar allt um þrýtur og önnur ráð reynast ónóg. Og hvað er þá verkfallið í raun og veru?“ spyr hann. „Það er ekki fólgið í því einu að neita að vinna. Það er ekki heldur fólgið í því einu að hætta við byrjað verk. Verkfallið er þvingunarráðstöfun, sem annar aðilinn beitir til þess að neyða hinn aðilann til þess að fallast á breytingar á ýmsum samningsatriðum, sem ekki hafa náðst að öðrum kosti, t.d. til að hækka umsamin vinnulaun. Þegar um verkfall er að ræða, felst þvingunin í stöðvun vinnunnar og því tjóni, sem hún getur haft eða hefur í för með sér fyrir atvinnurekandann. Verkfall er því aðeins ráð, sem dugir, að margir taki þátt í því, t.d. allir verkamenn í verksmiðju undantekningarlaust eða allir verkamenn í einni og sömu atvinnugrein, og þá er verkfallið vissulega hættulegt vopn, því að atvinnurekendurnir geta þá ekki veitt hver öðrum stuðning, eða þá loks, að allir verkamenn í öllum atvinnugreinum taka þátt í því, og er það þá orðið að allsherjarverkfalli, sem er enn hættulegra vopn og bitrara í höndum verkamanna. Það, sem alltaf einkennir verkföllin, eru undanfarandi samtök, sem verkamenn bindast. Verkfallið er því eins konar hernaðarráðstöfun, þar sem markmiðið er að koma því fram með þvingun, sem fæst ekki með góðu, samningum eða neinum öðrum úrræðum.“

Lengi vel og í flestum löndum voru verkföll talin refsivert athæfi og varðaði við lög, en nú er svo komið, að í flestum löndum er verkfallsrétturinn viðurkenndur í lögum, og það er hann einnig hér á landi.

Sami hagfræðingur og ég áðan vitnaði til, segir enn fremur um verkföll og verkbönn:

„Nú á dögum andmæla menn ekki lengur réttmæti verkfalla,“ — nema hæstv. ráðh. hérna á Íslandi, — „og frjálslyndir hagfræðingar voru fyrstir manna til þess að viðurkenna réttmæti þeirra og það löngu áður en það var viðurkennt að lögum.“ — Því ekki að fara til hagfræðinga í þessu tilefni, frjálslyndra hagfræðinga? — „Hvers vegna var verkfallsrétturinn viðurkenndur? Auðvitað af því, að þegar verkföllin fela í sér neitun um að vinna, enda þótt menn taki sig saman um það, þá gera menn þó ekkert annað með því en að nota frjálsræði sitt, og menn verða að viðurkenna réttindi verkamannastéttarinnar til þess að verja sig og hagsmuni sína með stríði, á meðan engir dómstólar eru til, sem dæmt geti í deilum milli fjármagnsins og vinnunnar, alveg eins og menn verða að viðurkenna rétt þjóðanna til ófriðar, til þess að verja sjálfstæði sitt og heiður eða til þess að skera úr deilumálum, meðan enginn æðsti dómstóll er til í heiminum, er geti dæmt í þeim efnum.“

„Þar að auki,“ segir hann, „væri það mikið ranglæti, sem væri í því fólgið að neita verkamönnum um rétt til verkfalla, þegar þess er gætt, að það er ekki unnt að neita atvinnurekendunum um sams konar rétt. Að minnsta kosti er það svo, að öll lög og refsiákvæði vegna verkfalla koma eingöngu niður á verkamönnunum, bitna á þeim og þeirra aðstandendum. Og þó að lögin gætu algerlega tekið fyrir það, að verkamenn undirbyggju verkfall með fundum, samkomum og kröfugöngum og öðru því, sem nauðsynlegur aðdragandi er, þá geta lögin hins vegar alls ekki stemmt stigu við því, að nokkrir atvinnurekendur komi saman á einum stað til þess að koma sér saman um að lækka vinnulaunin eða að lýsa yfir verkbanni. En verkbannið er, eins og kunnugt er, andstæða verkfallsins, vopn, sem atvinnurekendurnir beita gegn verkamönnunum. Þegar verkbanni er beitt, þá eru það atvinnurekendurnir, sem neita verkamönnunum um vinnu og geta gert það hæglega með samtökum, sem ekki er hægt að koma í veg fyrir. Þeir gera það bókstaflega með því að koma sér saman um að loka verksmiðjum sínum og verkstæðum samtímis eftir samkomulagi, sem áður er komið á á milli þeirra. Með þessu móti þvinga þeir verkamennina til undanlátssemi.“

Hinn frægi þjóðhagfræðingur, Adam Smith, hélt því fram, að atvinnurekendur hefðu alltaf samtök sín á milli, svo að lítið bæri á, og slíkt samband ættu þeir, benti hann á, miklu hægara með að gera en verkamenn, af því að þeir eru svo mörgum sinnum færri. Ef menn hefðu ekki neitt til þess að vega upp á móti þessum mikla aðstöðumun af verkamannanna hálfu, sagði hann, þá mundi það auðvitað leiða til þess, að þeir yrðu að vera áfram kúgaðir.

Þetta var nú svolítill pistill um verkföll og eðli þeirra og um rétt verkamannanna til að beita þeim og þeirri þvingun, sem í þeim felst, ekki síður en rétti atvinnurekenda til verkbanns.

Í hinni hvítu bók ríkisstj. var vikið nokkuð að því, hvaða vinnubrögðum hæstv. ríkisstj. ætlaði að beita viðvíkjandi kaupgjaldsmálum. Því var þar lýst yfir, að það skyldi verða óheimilt að miða kaupgjald við breytingar á vísítölu, en síðan sagði: „Hins vegar eru ekki í tillögum stjórnarinnar nein ákvæði um grunnkaup. Það er stefna ríkisstj., að það sé og eigi að vera verkefni samtaka launþega og atvinnurekenda.“ Og þess vegna spyr ég, — þetta er yfirlýst stefna í hinni hvítu bók, sem ber nafnið „Viðreisn“: Hvers vegna sveik hæstv. ríkisstj. þetta? Ég veit, að svarið er: Við urðum að svíkja það eins og allt annað. Það var ekki viðeigandi að láta það eitt standa eftir ósvikið.

En það var víðar vikið að þessu máli í hinni hvítu viðreisnarbók, því að á bls. 22 er sérstakur kafli um flugmenn, farmenn og námsmenn, og þar er játað, að það standi alveg sérstaklega á með flugmenn og farmenn og námsmenn, því að þeir verði fyrir nokkuð þungum búsifjum af viðreisninni, þar sem þeir hafi áður notið þeirra fríðinda að fá erlendan gjaldeyri keyptan með 30% álagi eða miklu ódýrar en annað fólk í landinu, og manni skildist, að einmitt vegna þessara sérstöku flugmanna, farmanna og námsmanna stæði til að gera einhverjar ráðstafanir þeim til verndar, þeim til hagsbóta, en ekki, að sú yrði framkvæmdin að níðast á flugmönnum, farmönnum eða námsmönnum. En sú varð raunin. Og þegar þessi pistill hefur verið lesinn niður bls. 22 og byrjað er á bls. 23, þá kemur aftur það, sem nú skal greina, með leyfi hæstv. forseta: „Ákvörðun grunnlauna verður eftir sem áður háð frjálsum samningum á milli atvinnurekenda og stéttarfélaga.“ Það er eins og þegar lygnir menn eru að segja: Þetta er satt, — og leggja alveg sérstaklega mikið við, að nú sé verið að segja satt. Þeir í viðreisninni endurtaka þetta, að grunnkaup eigi framvegis að vera háð frjálsum samningum milli atvinnurekenda og stéttarfélaga. Af hverju eru þeir að endurtaka þetta? Af því að þeir ætluðu sér að svíkja það. Þessu er sem sé marglofað, að við hinum frjálsa rétti verkalýðsfélaga til að semja um grunnkaup við atvinnurekendur skuli ekki vera hróflað, það skuli standa, þó að mönnum kannske þyki þungt að búa undir vísitöluafnáminu, þá skuli þó þessi réttur standa óskertur.

En Adam var ekki lengi í paradís, og þessi loforð stóðu ekki lengi. Mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðh. alveg hreint og krókalaust aftur: Hvers vegna taldi ríkisstj. sig nauðbeygða til þess að svíkja þessi loforð?

Samningar flugmanna stóðu yfir meginhluta júnímánaðar. Þeir höfðu sett fram sínar kauphækkunar- og kjarabótakröfur. Flugfélögin höfðu gert þeim gagntilboð, og þegar svo stóðu sakir, var bilið ekkert orðið geysilega mikið á milli þess, sem félögin buðu, og þess, sem flugmennirnir kröfðust. Það var að vísu liðið nokkuð að þeim degi, að flugmennirnir höfðu boðað verkfall. Það var komið fram á daginn 5. júlí, og verkfall skyldi hefjast 6. júlí. En það var einmitt sá dagur, sem helzt var hægt að gera sér vonir um að samningar kynnu að nást, að bilið, sem var á milli enn þá, yrði brúað. Og það töldu samningamenn flugmannanna, að með því að þeir slökuðu nokkuð til á þeim fundi, sem átti að byrja um kvöldið, þá væntu þeir, að þetta skryppi saman og ekki yrði úr verkfalli. En þegar þeir komu á þann fund um kvöldið þann 5. júlí, hvað gerðist þá? Þá gerðist það í upphafi fundar, að flugfélögin tilkynna: Við tökum til baka öll þau tilboð, sem við höfum gert, þau eru ekki lengur fyrir hendi, — í stað þess að flugmennirnir væntu, að það yrði lagt fram nýtt tilboð eitthvað í tilslökunarátt, örlítið í tilslökunarátt, svo að þeir gætu komið með örlítið í tilslökunarátt líka. Nei, öll tilboð flugfélaganna voru tekin aftur í byrjun þessa samningafundar, sem gat ráðið úrslitum. Hvað hafði gerzt? Það vissu flugmennirnir ekki. Það vissi enginn, þangað til um kvöldið, að í útvarpinu var tilkynnt, áður en félagi flugmanna var tilkynnt það, að landbrh. á Íslandi, Ingólfur Jónsson, hefði sett brbl., sem bönnuðu hið boðaða verkfall flugmanna. Þá skildu menn, hvernig í öllu lá. Á þeirri stundu, sem flugfélögin fengu að vita um, að ráðh. og ríkisstj. væru ákveðin í að banna verkfallið, þóttust þau ekki þurfa neitt að bjóða, enga sanngirni að sýna lengur, þá væri hægt að standa í skjóli við löggjafann og sýna hnefann.

Forsendurnar, sem birtar voru fyrir þessum brbl., voru á þann veg, að í fyrsta lagi yrði ráðh. að banna verkföllin, vegna þess að þau mundu valda algerri stöðvun á flugi þeirra tveggja íslenzkra flugfélaga, sem halda uppi reglubundnu áætlunarflugi. Vitanlega, ef til verkfallsins hefði komið, hefði það stöðvað flugvélarnar. En þar lá svo mikið við fyrir flugfélögin, að það var ekki hægt að ætla annað en að þau vildu vinna það til að gera einhverjar breytingar á 3 ára gömlum samningi við sína góðu starfsmenn. Og það verð ég að segja, að það var skoðun flugmannanna, að flugfélögin vildu sjálf fá að lagfæra kjör sinna manna. Og það var enn fremur skoðun flugmannanna, sem stóðu í samningunum, að það hefði verið Vinnuveitendasamband Íslands, sem hefði bannað þeim það, tekið af þeim ráðin. Og svo fékk Vinnuveitendasamband Íslands stoð ríkisvaldsins. Þannig skyldi þetta litla félag kúgað.

Önnur ástæðan var sú, að rekstrarafkoma þessara félaga mundi ekki þola slíka stöðvun og væri því framtíð þeirra teflt í mikla hættu, ef starfsemi þeirra yrði þannig stöðvuð. Það var þeim í sjálfsvald sett að leysa sig úr þessum vanda með því að sýna nokkra tilhliðrunarsemi. Ég fullyrði það, að flugmennirnir voru ekki með svo óbilgjarnar kröfur, að það hefði ekki verið fullsómasamlegt fyrir flugfélögin að ganga að þeim. Þeir voru fullir sáttfýsi, eins og ráðh. sagði hér áðan. Þeir vildu, að flugfélögin stöðvuðust ekki í starfsemi sinni. Þessi verkfallsboðun var engin fjandskaparráðstöfun gegn flugfélögunum. Hún var gerð eins og verkföll eru yfirleitt gerð og er í fullum rétti að gera af verkalýðshreyfingum allra landa, — gerð til þess að knýja á til úrslita um vissar kröfur.

Það voru engar líkur til, að þarna yrði langvarandi verkfall, eiginlega ekki neinar líkur fyrir því, að það kæmi til vinnustöðvunarinnar, ef ekki hefði verið gripið þarna inn í. Slík stöðvun var þriðja ástæðan. Það var þriðja ástæðan, að slík stöðvun mundi, er þúsundir erlendra ferðamanna höfðu pantað far hjá vissum félögum, verða flugfélögunum og þjóðinni allri álitshnekkir og stórspilla samkeppnisaðstöðu íslenzkra flugfélaga á alþjóðavettvangi. Útlendingar áttu þarna í hlut. Þeir máttu ekki missa af farkostinum. Það yrði til álitshnekkis fyrir flugfélagið. — Þetta er alger misskilningur á eðli verkfalla. Verkföllin eru talin algerlega óviðráðanlegt atvik af hendi atvinnurekenda. Þeir verða fyrir engum álitshnekki við það, þótt þeir verði að boða truflun á sinni starfsemi, vegna þess að þeir hafi lent í verkfalli. Og það eru áreiðanlega til þeir lögfræðingar í hæstv. ríkisstj., að þeir vita, að það er talin alveg fullgild afsökun fyrir fyrirtæki, sem það verður ekki fyrir ámæli af. Það verður ekkert brezkt skipafélag fyrir ámæli, þó að skip þess stöðvist og farþegar missi af farkosti vegna verkfalls, eða brezk flugfélög eða flugfélög neinna þjóða. Þau hafa fulla afsökun, þau hafa ekki svikið neinn, þó að stöðvun verði vegna verkfalls. Þetta er vitnisburður um allt of mikla fáfræði um eðli verkfalla og engin röksemd fyrir verkfallsbanninu, fyrir utan það, að það sé alvarlegra, ef útlendingur verður fyrir vonbrigðum, missir farkost, heldur en ef það væri íslenzkur maður. Verður það nokkuð verra, þó að útlendur maður komist ekki með Gullfaxa, heldur en íslenzkur. Hvers konar óæðri sess eiga Íslendingar að skipa þarna? Það er aðalröksemdin, að útlendir menn verði fyrir vonbrigðum. Það mátti ekki ske.

Loks mundi stöðvun á starfsemi flugfélaganna, þar með á flugi á innlendum flugleiðum, valda innlendum aðilum tilfinnanlegum óþægindum og tjóni. Þetta er rétt auðvitað. Verkfall veldur tjóni þeim, sem verður fyrir því. Og það er þess vegna, sem verkfallsvopnið er áhrifaríkt vopn. En viðkomandi aðili á alltaf að meta það, hvort hann veldur sér meira tjóni með því að semja eða með því að þola afleiðingar verkfallsins.

Nei, röksemdirnar fyrir þessu verkfallsbanni eru hégómi einn og fyrirsláttur. Lagasetningin stendur á brauðfótum. Lagasetningin er þessi, felst í 1. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Óheimilt skal að hefja verkfall það, sem Félag íslenzkra atvinnuflugmanna hefur boðað til hjá íslenzkum atvinnuflugmönnum 6. júlí 1960, svo og aðrar slíkar vinnustöðvanir af öðrum íslenzkum atvinnuflugmönnum fyrir 1. nóvember 1960.“

Sem sé, þessi lög bönnuðu boðað verkfall flugmanna á tímabilinu frá 6. júlí til 1. nóv. Þegar sá tími væri liðinn, hefur hæstv. ríkisstj. líklega ályktað sem svo, að þá yrði ekki svo mikið að gera hjá íslenzku flugfélögunum, að það varðaði þau miklu, þó að þau lentu þá í verkfalli, því að eftir 1. nóv. virðist verkfallsrétturinn vera fenginn þeim aftur í hendur, þá líklega af því að hann sé gagnsminni en hann var þeim í sumar. En ef við lítum á allar þessar fjórar ástæður, fyrstu, aðra, þriðju og fjórðu, þá eru þær allar þess eðlis, að þessar mundu afleiðingarnar alltaf vera í hverju einasta tilfelli, þegar verkfall væri boðað. Þær gætu valdið viðkomandi fyrirtæki, sem stöðvaðist, tjóni. Menn, innlendir eða útlendir eða jafnvel hvort tveggja, fengju af því óþægindi. Það gæti orðið þungt í skauti fjárhag fyrirtækis, sem stæði lengi í verkfalli. Þessar röksemdir falla allar saman niður, nema því aðeins að þær eigi að sýna, að ríkisstj. sé reiðubúin til að banna öll verkföll, banna verkföll, ef atvinnutæki einstaks atvinnurekanda er stöðvuð, banna sjómannaverkföll, ef sjávarútvegurinn ætti sína hagsmuni undir því að geta verið rekinn án stöðvunar, banna farskipaverkföll, banna öll verkföll. Kannske hæstv. ríkisstj. vilji færast það í fang? Ég hygg, að hún geri það ekki, eftir að hún er búin að þreifa á reynslunni af þessu tiltæki sínu, því að vandamálið, sem hún ætlaði að leysa með þessu verkfallsbanni sínu í sumar, er óleyst enn, og það getur vel farið svo, að það sé torleystara nú, það vandamál, sem þá stóð til að leysa, heldur en ef hefði verið gengið í það að leysa það fyrir miðnætti 6. júlí.

Það var óhyggilegt í mesta máta að grípa fram í þetta kvöld með bráðabirgðalagasetningunni. Það var þetta kvöld, sem mestar vonir stóðu til að geta leyst málið friðsamlega. Það var ekki einu sinni búið að gera það, sem gera ber í hverri deilu, áður en gripið er til óyndisúrræða, og það er að bera fram miðlunartill. í nafni sáttasemjara. Það var ekki gert í þessari deilu. Til þess ætlast þó íslenzk löggjöf meira að segja.

Fyrir svona lagaboði er ekkert fordæmi, að ég muni, í íslenzkri löggjöf, ekkert hliðstætt dæmi þessu í sögu íslenzkra verkalýðssamtaka.

Hver urðu nú viðbrögð flugmannanna við þessu? Þeir ákváðu fyrst um sinn að hlíta þessari ofbeldiskenndu löggjöf. Þeir töldu, að í henni fælist þó ekki annað en bannið við að hefja þetta verkfall. Þeir fóru því á fund flugfélaganna daginn eftir og vildu ganga úr skugga um það, hvort flugfélögin vildu ekki halda áfram samningaviðleitni enn og freista þess þrátt fyrir lagasetninguna eð leysa málið á friðsamlegan hátt. Hvert var svar flugfélaganna? Það var það, að þau litu svo á, að með lagasetningunni um verkfallsbannið væri þeim einnig bannað að semja um allar kjarabætur til flugmannanna, ríkisstj. ætlaði með þessari lagasetningu að koma í veg fyrir kauphækkanir, þeim væri því ekki frjálst, að þau töldu, að semja. Þá var það, sem þeir vildu ganga betur úr skugga um, hver væri skilningur hæstv. ráðh. á þessu, sem hafði sett lögin, og vildu eðlilega fá viðtal við hann, þóttust eiga við hann nokkuð gilt erindi, sem mig skal ekki furða. En ráðh. hafði ekki tíma. Hann sendi þeim þau boð snúðugt, að þeir gætu fengið að tala við sig næsta miðvikudag, þegar almenningur kæmi í viðtal til hans. Þarna var bætt svona gráum lagði ofan á svart, og er það hæstv. ráðh. til einskis sóma.

Spurningin er þessi: Felst ekki aðeins bann við verkfalli í þessum lögum? Felst einnig það í lögunum, að viðkomandi aðilum, sem þarna áttu hlut að máli, og þá öðrum, væri ekki frjálst að semja, að samningsrétturinn væri tekinn af þeim líka? Var, — ég spyr beint, — var það skilningur hæstv. ráðh., að flugfélögunum væri með þessari lagasetningu bannað að semja um nokkrar kjarabætur til sinna manna, flugmannanna? Eða voru flugfélögin bara þarna að skjóta ráðherranum fyrir sig sem skildi? Það væri strax bót í máli, ef við fengjum að vita það, að þeim hefði verið alfrjálst að semja þrátt fyrir verkfallsbannið, semja um kjarabætur til sinna manna.

Þetta sama kvöld, sem lögin voru birt í ríkisútvarpinu, boðaði miðstjórn Alþýðusambands Íslands til fundar og ræddi þetta mál, því að þetta var einstæður og alvarlegur áburður í verkalýðssögunni. Mönnum kom þar saman um, að verkfallsbannið væri ekki einkamál þessa félags, það væri mál, sem snerti alla verkalýðshreyfinguna og hennar rétt í kjarabaráttunni. Þess vegna var það, að miðstjórnin gerði svo hljóðandi ályktun, með leyfi hæstv. forseta:

„Miðstjórn Alþýðusambands Íslands hefur á fundi sínum rætt um bráðabirgðalög ríkisstjórnarinnar, sem banna boðað verkfall atvinnuflugmanna. Miðstjórnin mótmælir harðlega setningu þessara bráðabirgðalaga og lýsir því yfir, að hún telur lagasetninguna óréttmæta og harkalega árás á helgasta rétt verkalýðssamtakanna. Skorar miðstjórnin því á ríkisstj. að nema lögin þegar úr gildi.“

Flugmennirnir sjálfir — atvinnuflugmennirnir — héldu auðvitað líka fund í sínu félagi og samþ. þar mótmæli. Sú mótmælaályktun er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Fundur Félags íslenzkra atvinnuflugmanna, haldinn 6. júlí 1960, leyfir sér að mótmæla setningu bráðabirgðalaga frá 5. júlí 1960, um bann við verkfalli atvinnuflugmanna. Sérstaklega lítur fundurinn alvarlegum augum á, ef nefnd bráðabirgðalög verða m.a. til þess að hindra samninga um vakttíma við flug, en flugmenn leggja ríka áherzlu á að fá hann styttan af öryggisástæðum, og lagaákvæði þar að lútandi eru ekki til í íslenzkum lögum eða reglugerðum frá því opinbera. Fundurinn skorar á hæstv. ríkisstj. að nema bráðabirgðalög þessi nú þegar úr gildi.“

Þarna sýna atvinnuflugmennirnir, hvaða atriði það var, sem þeir lögðu ríkasta áherzlu á og þeir hefðu metið mikils, ef flugfélögin hefðu gengið inn á það atriði, það var að takmarka vakttíma við flug — og það beinlínis af öryggisástæðum. Það hefði þó ekki kostað flugfélögin neitt ofsafjármagn, það hefði ekki spillt áliti þeirra, hvorki hjá erlendum né innlendum mönnum. Það hefði aukið traust og tiltrú til þeirra. En spurningin er: Höfðu flugfélögin rétt til þess, heimild til þess, eftir að verkfallsbannið var komið á, að semja við sína menn um eitt eða neitt? Höfðu þau samningsréttinn? Svo mikið er víst, að ekki einu sinni þetta ákvæði fékkst leyst með samningum. Síðan bárust mótmælaorðsendingar, mótmælasamþykktir frá verkalýðsfélögum víðs vegar um land og frá fjórðungssamböndum, og verð ég að segja, að þetta er sú almennasta sjálfkrafa mótmælaalda, sem risið hefur í verkalýðshreyfingunni, svo að ég muni. Blöð stjórnarinnar voru stundum að gera því skóna, að þetta væru allt saman pöntuð mótmæli. Það er síður en svo. Þetta kom frá félögunum sjálfum og félagsstjórnunum og fulltrúaráðum þeirra, trúnaðarráðum, af því að þau fundu öll þegar í stað, að málið var stórt, þarna var mikil réttindaskerðing á ferðinni, það var verið að svipta félögin sinu skæðasta vopni í sinni kjarabaráttu. Þau fundu, að þetta mál varðaði þau öll.

Það var líka þannig, að þessi afstaða mótaðist ekki af pólitískri afstöðu manna. Að því er snertir mótmælasamþykkt miðstjórnar Alþýðusambandsins um kvöldið 5. júlí, er hægt að upplýsa það hér, að að samþykktinni stóðu einnig fylgjendur ríkisstjórnarflokkanna, þ. á m. varaforseti Alþýðusambandsins, Eggert Þorsteinsson alþm., sem tók þannig afstöðu gegn þessari lagasetningu í verkalýðshreyfingunni sama kvöldið og lögin voru sett.

Það var verið að reyna að læða því út, að það væru kommúnistar einir, sem stæðu að þessum mótmælasamþykktum. En þá fór nú skörin heldur að færast upp í bekkinn, þegar Verkakvennafélagið Framsókn fékk á sig kommúnistastimpil, Múrarafélag Reykjavíkur og Iðja, félag verksmiðjufólks í Reykjavík, sömuleiðis, svo að nokkuð sé nefnt, sem gerðu ákveðnar mótmælasamþykktir á félagsfundum gegn lagasetningunni. Nei, þetta var ofbeldisverknaður, sem var fordæmdur langt inn í raðir stjórnarflokkanna, svo mikið er víst. Og í raun og veru var ekki hægt að sjá, að þessi lagasetning styddist við meirihlutavilja þingsins, þegar strax var vitað á fyrsta kvöldi, sem lögin áttu að gilda, að einn af þm. stjórnarliðsins, sá sem gæti valdið úrslitum í Ed.

Alþingis, hefði þegar snúizt gegn frv., — og þá var sæmst að verða við þeirri kröfu að fella lögin þegar úr gildi og ganga í það að ná samningum.

Það er staðreynd, að hjá öðru flugfélaginu voru norskir flugmenn starfandi við hliðina á þeim íslenzku og launakjörin voru þannig, að norski flugmaðurinn, sem var undir stjórn íslenzks flugstjóra, hafði hjá þessu fyrirtæki hærra kaup en flugstjórinn. Samrýmist þetta íslenzkum metnaði, að íslenzki yfirmaðurinn skuli vera á lægra kaupi en undirmaður hans útlendur? Gera þeir í hæstv. ríkisstj. svo mikinn mun á rétti útlendings og Íslendings, að þeim finnist það sómasamlegt, að Íslendingur, yfirmaðurinn, sé á lægra kaupi en undirmaðurinn? Ég spyr: Mér þykir það furðulegt metnaðarleysi, ef svo er. En þetta hafa þeir lagt blessun sína yfir. Ekki fékkst þetta leiðrétt frekar en öryggisákvæðin.

Og svo spyr ég að lokum: Hvað hefur unnizt með þessari ofbeldislagasetningu? Er málið leyst? Hefur fengizt lausn á málinu? Hefur réttlæti verið fullnægt? Hefur ríkisstj. komið í veg fyrir kaupgjaldsbreytingar á Íslandi með þessu tiltæki? Það er mikill misskilningur, ef hún heldur það. Það hefur ekkert áunnizt með þessu frumhlaupi til lagasetningar annað en að skapa úlfúð og að ríkisstj. er sönn að því að hafa sýnt verkalýðshreyfingunni í heild mikinn fjandskap.

Ég efa það stórlega, að þessi lausn mála, ef lausn skyldi kalla, hafi orðið nokkuð ódýrari flugfélögunum sjálfum en þó að þau hefðu gengið að einhverjum sanngjörnum kröfum flugmanna við samningaborðið.

Ég hallast helzt að þeirri skoðun, að þessi lagasetning hafi verið hugsuð á þann hátt eð hræða verkalýðshreyfinguna. Hún skyldi með þessu sjá, að ef eitthvert stéttarfélag leyfði sér að mögla yfir því, að það væri búið að niða kaupmátt launanna í landinu niður úr öllu valdi með því dýrtíðarfári, sem hafði verið hellt yfir þjóðina, þá skyldu þeir fá á sig verkfallsbann. En það er síður en svo, að neinn uggur hafi gripið verkalýðshreyfinguna út af þessu tiltæki. Einungis hefur hún orðið eindregnari í andúð sinni og andspyrnu við þessa hæstv. ríkisstj. og veit frekar eftir en áður, að hún á sér einungis ills von úr þeirri átt.

Mér þætti vænt um að fá að heyra það frá hæstv. landbrh., hvort það sé rétt, að það hafi verið megintilgangurinn með þessari lagasetningu að taka samningsréttinn og verkfallsréttinn af verkalýðshreyfingunni. Helzt gæti maður hugsað sér, að það hefði vakað fyrir þeim, þegar þeir réðust í þetta. En það vil ég fullyrða, að þá mundi fyrst allt fara í bál og brand, þá væri ekki beðið miklu lengur. Þá fengi sú ríkisstj., sem hefur brotið niður kaupmátt launanna hjá öllum launastéttum landsins, gert bændum lítt fært að búa í þessu landi og útgerðarmönnum ókleift að gera út og haft uppi tilburði ofan á allt annað til þess að svíkja þjóðina í landhelgismálinu.