25.10.1960
Neðri deild: 10. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í C-deild Alþingistíðinda. (1933)

50. mál, bann gegn vinnustöðvun íslenskra atvinnuflugmanna

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég varð dálítið undrandi á því, hvað hæstv. ráðh. var tregt um að svara ýmsum þeim spurningum, sem fyrir hann voru lagðar, og vildi helzt gera það úr, að það væri svo heimskulega spurt, að vitringur gæti ekki úr leyst. En þessu var ekki svo farið. Það var ekkert heimskulegt að spyrja um það, hvort lögin um verkfallsbann hefðu líka þýtt afnám samningsréttarins. Flugmennirnir vildu, þegar lögin voru komin, halda áfram að reyna að leysa ágreininginn um kaupgjaldið og kjörin við samningaborðið, en fengu það svar hjá flugfélögunum: Það er ætlun ríkisstj. með þessum lögum að koma í veg fyrir hækkun á kaupi og kjarabætur, og við teljum okkur það ekki heimilt. — Og þá var það, sem þeir vildu fara á fund ráðh. og fá að ræða það við hann, hver væri hans skilningur. Þeir voru svona heimskir. Þeim fannst, að þeir þyrftu að fá að vita, hvað löggjafinn sjálfur hefði meint með þessu. Var hann bara að banna verkfallið, sem átti að hefjast klukkan tólf á miðnætti þann 6. júlí, eða var hann líka að banna flugfélögunum að halda áfram samningum um kjarabætur? En ráðh. hafði ekki tíma daginn eftir, hann hafði ekki tíma næstu daga. Þið getið komið næsta miðvikudag, þegar almenningur kemur til viðtals, það var svarið, sem þeir fengu þá. Hann var þá eins og nú heldur tregur til að svara þessu, hvort hann hefði afnumið með verkfallsréttinum samningsrétt. Og það er ekkert hégómamál. Það er fyllilega einnar spurningar virði, og 5 lýðræðislandi á maður heimtingu á að fá svarað slíkri spurningu.

Ég vék að því í framsöguræðu minni áðan, að það hefði komið í ljós að kvöldi þess sama dags, sem lögin voru sett, kvöldi 5. júlí, að einn af stuðningsmönnum ríkisstj. á Alþingi hefði við atkvgr. tekið afstöðu á móti þessari lagasetningu, og hann er þannig settur, að gegn hans atkvæði í Ed. Alþingis gæti frv. ekki verið samþ. Hvað þýðir það? Það þýðir það, sem hv. 1. þm. Austf. (EystJ) vék einnig að, að það er full ástæða til þess að ætla, að lögin hafi aldrei stuðzt við þingræðislegan meiri hl. á Alþingi Íslendinga, og það er líka alvarlegt mál. Ráðh., sem leyfir sér að gefa út sem brbl. lagaákvæði, sem styðjast ekki við meiri hl. á Alþingi, er ekki löggjafi. En hvað er hann þá? Þá er hann ofbeldisseggur og ekkert annað. Þess vegna er það grundvallaratriði lýðræðis og þingræðis, að ríkisstj., sem hefur sett brbl., sem fá ekki staðfestingu á löggjafarsamkomunni, á að segja af sér tafarlaust og hypja sig heim. Það er ekkert minna, sem þar liggur við. Ríkisstj., sem hefur sett brbl. og fær þau ekki staðfest á löggjafarsamkomunni, er skyldug til þess samkvæmt alþjóðlegum lýðræðis- og þingræðisreglum að segja af sér, hvort sem brbl. eru meiri háttar eða minni háttar, af því að þá hefur hún ekki starfað sem löggjafi, heldur sem ofbeldisaðili. Og það er full ástæða tiI þess að ætla, að þetta hafi hún gert hér.

Það er því fjarri því, að ég vilji hindra, að þetta frv. fari með þingræðislegum hætti í gegnum Alþingi. Ég vil gjarnan, að hér verði um það þrjár umr. í þessari d., það fái sína meðferð í n., og það er sjálfsagt ekki mikið vandamál, a.m.k. ekki fyrir stjórnarliða, að fjalla um þessa sjálfsögðu löggjöf. Þeir þurfa líklega ekki langan tíma til þess. Það gangi síðan til Ed, og verði sannprófað, hvort stjórnin hefur þarna verið að framkvæma verknað, sem hún hafði þingræðislegan stuðning til, eða hvort hún var að fremja ofbeldisverk. Og ég hefði haldið, að það væri full ástæða til þess, að ríkisstj. sjálf vildi, að málið gengi sinn gang í gegnum þingið, en ekki að það færi hér í gegnum þessa d. eina umr., yrði svo vísað til n. og kistulagt þar og aldrei fengist úr því skorið, hvort hún hefði verið löggjafi á s.l. sumri eða ofbeldisseggur.

Eitt er það atriði, sem mér finnst og nokkru skipta í sambandi við þetta mál, og það er það: Tók hæstv. ríkisstj. það upp hjá sér sjálfri að setja þessa eindæma löggjöf, eða var hún beðin um það? Báðu flugfélögin hana um það? Ég vil fá svar við þessari spurningu. Var það ósk flugfélaganna í landinu, að þessi löggjöf var sett til að firra þau einhverjum voða, eða tók ríkisstj. þetta upp hjá sjálfri sér, af því að hana langaði til þess að breiða sína landsföðurlegu verndarvængi yfir flugfélögin?

Það er vissulega svo, að það horfði mjög vænlega með samninga um daginn 5. júlí. Flugmennirnir trúðu því þá sjálfir, að það tækist með tilslökun af þeirra hendi, og þeir gengu til fundarhaldsins með því hugarfari, það er mér kunnugt um, að slaka til. Þá vonuðust þeir eftir, að þeim yrði svarað af sanngirni og eitthvað slakað til a.m.k. með öryggismálin. En ég sagði frá því áðan, hvað gerðist þá. Á þessum fundi, 5. júlí, er byrjað á því að tilkynna, að öll tilboð flugfélaganna séu tekin aftur og liggi ekki lengur fyrir. Og þegar brbl. komu, vissu allir, að það var af því, að þá höfðu flugfélögin fengið vitneskju um, að lögin yrðu sett. Þannig var höggvið á samningaþráðinn. Það var tekið fyrir, að það væri til þrautar reynt að semja, og það er sök hæstv. ráðh. Miðnættið mátti a.m.k. koma, það mátti reyna á það, hvort ekki næðust samningar, áður en verkfallið skylli á: Það var ekkert tjón, sem gat orðið af því. En það var ekki gert. Og svo er gripið til þess fánýta og fávíslega úrræðis að segja, að í vinstri stjórninni hefði þeim dottið í hug, þeir hefðu ætlað að setja lög til þess að koma í veg fyrir verkfall. Hæstv. ráðh. sagði, að það hefði verið í sambandi við flugmannaverkfallið. Fyrir því er enginn fótur. Flugmennirnir gerðu kröfur, á meðan vinstri stjórnin sat, um lagfæringu á kjörum, og þeir fengu þau, og það var ekki dreginn neinn almennur lærdómur af því af verkalýðsfélögunum. Þetta er ekkert sambærilegt. Aðrir hafa haft uppi ásakanir í okkar garð fyrir það, að við höfum ætlað að setja löggjöf, þegar farmannadeilan stóð, allur farskipafloti Íslands var búinn að vera stöðvaður vikum saman. En þá var það aðeins þetta, að andstæðingarnir höfðu sagt: Þeir ætluðu að gera þetta. — En sá er munurinn, að það var ekki gert, meira að segja ekki áður en verkfall hófst, ekki heldur þegar verkfall var búið að standa nokkrar vikur, þjóðin í miklum vanda, farskipaflotinn stöðvaður, aðflutningar til landsins stöðvaðir, ekki bara að nokkrir útlendingar hefðu einhver óþægindi. Nei, það var reynt á samningarétt beggja aðila, og það tókst, — þeir sömdu, þeir sömdu frið.

Þegar hæstv. ráðh. var áðan spurður að því, hvort hann væri viss um, að þeir hefðu haft meiri hl. hér á Alþingi fyrir þessari lagasetningu, þá fór hann allur hjá sér, en sagði: Ríkisstj. stóð öll að þessu. Er það ekki alveg fullnægjandi svar? — Ég spyr aftur: Hvað kemst ríkisstj. langt, þótt hún sé skipuð sjö mönnum, hér á Alþingi Íslendinga, ef hún ein réttir upp hendurnar með málum? Það tryggir henni ekki meiri hl. um mál. Ef þeir hafa ekki átt neitt víst sem stuðning á bak við sig nema bara eigin atkvæði, sjö, þá er það ekki jákvætt svar við því, að þeir hefðu vitað, að þeir hefðu þingmeirihluta á bak við sig. Þetta virðist mér benda til þess, að þeir hafi skellt þessum lögum á án þess að ræða um það við nokkurn mann í sínum flokkum og ekki vitað neitt um fylgi við frv. nema innan ríkisstj., 7 atkvæði. Ég geri þó miklu fremur ráð fyrir því, að þeir hafi yfirleitt kannað þetta, en þeim hefur a.m.k. láðst að kanna þetta til þrautar, þannig að þeir vissu, hvort þeir hefðu meiri hl. á Alþingi, og það var það, sem máli skipti. Hafi þeir ekki meiri hl., þá er hér ekki um lagasetningaratriði að ræða, þá er hér um ofbeldisverk að ræða.

Ég get ekki að mér gert, að mér finnst málflutningur hæstv. ráðh., sem sjálfsagt er málflutningur allrar ríkisstj., verða ærið kátlegur, þegar þeir segja: Við settum lögin til að bjarga sóma flugmannanna. Við vorum að bjarga heiðri flugmannanna. Við gerðum það fyrir flugmennina að setja þetta verkfallsbann á. Tveir ræðumenn aðrir en ég hafa vikið að þessu, og þetta er auðvitað staðfesting á því, í hvílíkum vandræðum, í hvílíkri örvæntingu ríkisstj. er að réttlæta á nokkurn hátt þetta tiltæki sitt. Það sjá allir menn, að ekki er til meiri fjarstæða en sú, að þetta ofbeldisverk gegn flugmönnunum hafi verið framið þeirra vegna, til að bjarga heiðri þeirra. Það sýnir öllu öðru betur, að ríkisstj. er í algeru rökþroti að verja það, hvers vegna hún hafi gefið þessi brbl. út.

Og svo rak hæstv. ráðh. upp mikinn undrunarsvip út af því, að nokkur maður skyldi geta verið svo hlálegur að bera ríkisstj. á brýn svik, svik við yfirlýsta stefnu sína, svik við hvítu bókina, að hún skyldi gefa út þessi brbl., sem afnámu samninga og verkfallsrétt stéttarfélaganna, afnámu ákvörðunarrétt verkalýðssamtaka til þess að ákveða kaup og kjör. En ég las áðan yfir ráðherranum, ekki aðeins á einum stað í þeirri hvítu bók, heldur tvisvar, þar sem ég tók það fram svo skýrt, að hvert barn í smábarnaskóla skilur það, nema auðvitað hæstv. ráðherra, að það lögmál skyldi gilda áfram, að grunnkaup í landinu yrði ákveðið af samtökum verkalýðsins og atvinnurekenda. Á bls. 4 var þessi kenning uppi höfð með þessum orðum:

„Hins vegar eru ekki í tillögum stjórnarinnar nein ákvæði um grunnkaup. Það er stefna ríkisstj., að það sé og eigi að vera verkefni samtaká launþega og atvinnurekenda að semja um kaup og kjör,“ — ekki ríkisstjórnarinnar, heldur samtaka launþega og atvinnurekenda. Var það gefið eftir félagi atvinnuflugmanna og flugfélögunum að semja um kaup og kjör? Nei, það var gripið fram fyrir hendurnar á báðum aðilum og þeim sagt: Þið hafið ekki um neitt að semja meir, hér eru lög um það, að þessum samningum er lokið. — Eru þetta svik við stefnuna, eða er þetta staðfesting á stefnunni? Þetta eru svik.

Aftur er sagt á bls. 23: „Ákvörðun grunnlauna verður eftir sem áður háð frjálsum samningum á milli atvinnurekenda og stéttarfélaga.“

Fengu þeir frjálsu samningar að leiða deilu flugmanna og flugfélaganna til lykta? Nei, á hana var bundinn endi með því að afnema frelsið með lagaboði. Og svo kemur ráðherrann og leikur heilagan sakleysingja, skilur ekkert í þessum mönnum, að þeir skuli vera að bendla sig og ríkisstj. við svik, þegar þeir hafa afnumið hinn frjálsa samningsrétt með lögum.

Svo var eitthvað út af því, að það hneykslaði hans viðkvæmu sál, hæstv. ráðh., að grein, sem ég skrifaði um flugmannadeiluna í sumar, birtist í Tímanum og Þjóðviljanum sama dag. Það er því alrangt hjá honum, að greinin hafi verið birt upp úr öðru blaðinu í hinu. Mér fannst málið þýðingarmikið. Mér fannst það vera skylda mín sem formanns alþýðusamtakanna að gera tilraun til þess að koma á framfæri hlutlausum skýringum á málsatvikum í þessari deilu, því að hér var líka um einstakt ofbeldisverk að ræða, og því vildi ég líka lýsa og koma því til sem flestra. Hitt veit ég vel, að þetta fór í taugarnar á hæstv. ráðherra, og það átti líka að gera það. Það er líka ekkert leyndarmál, að yfirleitt munu framsóknarmenn, eins og Alþýðubandalagsmenn, hafa verið stórhneykslaðir á því, að það skyldi ekki vera staðið við hina yfirlýstu stefnu ríkisstj. um það, að frelsi atvinnurekenda og verkalýðssamtaka yrði í heiðri haft og þeim ætlað það hlutverk að semja um kaup og kjör.

Hvað eftir annað víkur hæstv. ráðh. að því í sinni svarræðu, að það sé ekki von til þess, að okkar litla, fátæka þjóð geti borgað flugmönnum eins hátt kaup og útlend, auðug flugfélög. Þau eru nú ekki öll auðug. Þau eru sum á hausnum, þau útlendu einmitt. En þau borga hærra kaup en íslenzkum flugmönnum er borgað. Það er skjalfest staðreynd, enda reyndi hæstv. ráðherra ekki að andmæla því, að útlendur flugmaður í undirtyllustöðu hjá Loftleiðum var á hærra kaupi en íslenzki flugstjórinn við hliðina á honum. Og svo er hann að tala um það, hæstv. ráðherra, að þetta sé svona í fleiri tilfellum. Þetta er einsdæmi. Ef útlendur maður, hvort sem hann er verkfræðingur eða verkamaður, vinnur hér á Íslandi, hvað gerist þá? Þá lýtur hinn útlendi maður íslenzkum launakjörum og býr við þau, svo lág sem þau eru. Þarna var bara útlendingurinn hafður á þeim launum, sem giltu hjá hans félagi, og var þannig sem undirmaður hærra launaður en yfirmaður hans í flugvélinni. Og þetta var því meira ósamræmi en í nokkru öðru tilfelli, sem mér er kunnugt um, þar eð laun undirmannsins voru þarna hærri en laun yfirmannsins.

Enn er eitt, sem mig langar til þess að vita um, og það er í tilefni af því, að ég spurði fyrr: Hvað hefur unnizt við þetta verkfallsbann? Er málið leyst? Ég fæ ekki séð annað en vandinn sé nákvæmlega sá sami, nema ef til vill að deiluatriðin eru torleystari en þau voru í sumar. En í framhaldi af þessu dettur mér í hug: Þegar þessi lög falla úr gildi 1. nóv., verður þá fitjað upp að nýju? Verður þá beitt verkfallsbanni á ný við flugmennina? Þeir taka vafalaust upp sína samninga, þegar þeim er það frjálst á ný. Eða er leikurinn búinn? Er hæstv. ríkisstj. búin að fá nóg af þessu? Og verður svo að láta samninganefndir útkljá málið eftir allt saman? Mér þætti fróðlegt að vita, hvort það væri ætlunin kannske að höggva á ný á þráðinn með verkfallsbanni, þegar samningar verða vafalaust teknir upp eftir 1. nóv. Eða mega flugvélarnar þá stöðvast? Þarf þá ekki að afstýra voðanum af sömu orsökum og í sumar?

Ég skal svo láta lokið máli mínu. Ég tel það fyllilega þess virði, að um svona stórmál og einstætt sé rætt hér einn fundartíma á Alþingi frá kl. 1½ til 4. Mér finnst það ekki bera vott um málþóf eða tilraun stjórnarandstöðu til að koma í veg fyrir, að mál geti fengið þinglega meðferð. Ég óska þess, að þetta mál fái þinglega meðferð, verði hér við 3 umr. í þessari d. og fái sínar þrjár umr. og nefndarmeðferð í báðum d. og atkvgr. gangi um það, svo að það komi í ljós, hverjir það eru, sem vilja sætta sig við, að samnings- og verkfallsréttur verkalýðssamtakanna sé fótum troðinn. Það er vissulega svo, að ef hann er fótum troðinn, þá er verkalýðshreyfingin gerð máttlaus, svo framarlega sem hún beygði sig fyrir slíkri lagasetningu, og það efa ég stórlega, að hún sjái sér fært að gera. Ég þarf að sjálfsögðu ekki að taka það fram, að hvort sem það er tilætlun hæstv. ríkisstj., að þetta mál komi hér til umr. aftur eða ekki, þá tel ég sjálfsagt, að menn, sem yfirleitt vilja viðurkenna verkfallsréttinn og samningsrétt verkalýðssamtakanna, viðurkenna það, að kaupgjald í landinu eigi að ákveðast við frjálst samningaborð, að þeir greiði atkvæði á móti svona gerræðisfullri bráðabirgðalagasetningu, sem allar líkur benda til, að ekki hafi byggzt frá öndverðu á þingræðislegum stuðningi.