23.10.1960
Neðri deild: 8. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í C-deild Alþingistíðinda. (1966)

31. mál, efnahagsmál

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Þessi ræða hæstv. ráðh., langa ræða og flókna, sýnir, í hvaða ógöngur menn lenda, ef menn flytja mál sitt ógætilega og gefa rangar upplýsingar. Það þarf ekki langa ræðu til að sýna fram hvernig þetta er. Ég vil taka það fram, að ég vék aldrei að því í minni ræðu, það var alveg tilfundið hjá hæstv. ráðh., að sérfræðingar Ríkisstj. væru nokkuð varhugaverðir menn. Ég sagði ekkert í þá átt. Það sem ég sagði, var að hæstv. ríkisstj. hefði í fyrra, í grg. með frv. sínu, sagt, að greiðsluhallinn hefði 1958 numið samtals 208 millj., og ef menn vilja kynna sér þetta sjálfir, sem er mjög æskilegt, þá ættu menn að fletta upp á bls. 31 í grg. með efnahagsmálafrv. í fyrra. Þar stendur. „Yfirlit um greiðsluhallann við útlönd 1955–1958.“ Síðan er dæmið gert upp og stendur: „Greiðsluhalli samtals 208 millj.“ En núna kemur skjal frá Seðlabankanum, hagfræðideild hans vafalaust, í Fjármálatíðindum, þar sem stendur. „Samkvæmt töflunni var greiðsluhallinn á árinu 1959 139 millj. kr., sem er meira en nokkru sinni hefur verið áður, en á árinu 1958“ — taki menn eftir því — „nam hallinn 42 millj. kr.“ (Gripið fram í.) Greiðsluhallinn. (Gripið fram í: Bankanna, já.) Það stendur alveg orðrétt eins og ég las það: greiðsluhallinn á árinu 1959 nam 139 millj., en á árinu 1958 nam hann 42 millj. M.ö.o.: nú má kalla hlutina sínu rétta nafni, og það er hæstv. ríkisstj., en ekki ég, sem hefur leikið sér að því að kalla allt annan hlut greiðsluhalla í fyrra en nú er kallaður greiðsluhalli í þessu skjali frá Landsbankanum, sem ég hef lesið.

Hæstv. ríkisstj. lék sér að því í fyrra til þess að falsa það fyrir þjóðinni, hvernig ástatt væri, að kalla greiðsluhalla við útlönd það, sem var ekki greiðsluhalli við útlönd, þar sem, hún reiknaði alls ekki með innkomnum lántökum. En þá hét það, sem núna heitir greiðsluhalli á máli Landsbankans, í yfirlitinu, eins og hæstv. ráðherra sagði sjálfur, ekki greiðsluhalli, heldur halli á vörum og þjónustu. Og þeirri fjárhæð var ekki haldið á lofti sem greiðsluhalla, þó að það heiti núna greiðsluhalli í yfirliti Landsbankans. En það, sem gert er, er það, að það er allt önnur niðurstaða kölluð greiðsluhalli nú en var þá.

Það kom fleira fram, og ég bið menn, hv. þm. og aðra, ef þeir hafa áhuga fyrir því, til þess að sjá, hvernig þessi vefur er ofinn, að lesa annars vegar á bls. 31 í grg. með efnahagsmálafrv. og hins vegar á bls. 54 í Fjármálatíðindum, og þá sjá þeir, að nú er allt önnur niðurstaða í þessu kallaður greiðsluhalli en var í fyrra. Það, sem þá var kallað halli á vörum og þjónustu og ekki var talin nein endanleg niðurstaða, sem þyrfti að ræða, er nú kallaður greiðsluhalli. (Menntmrh.: Bankanna já, ekkert meira.) Það stendur: Greiðsluhallinn samkvæmt töflunni var á árinu. — Og það er verið að gera upp gjaldeyrisviðskiptin, það er verið að gera upp gjaldeyrisviðskipti þjóðarinnar. Hverjir hafa gjaldeyrisviðskipti aðrir en bankarnir? Hvað á þetta að þýða? (Gripið fram í.) Hefur það sín eigin gjaldeyrisviðskipti? Það er ekki satt. Það eru bankarnir, sem hafa gjaldeyrisverzlun og gjaldeyrisviðskipti í sínum höndum. Og hæstv. ráðherra væri sæmst að játa, að það, sem nú er kallað greiðsluhalli, var kallað halli á vörum og þjónustu og falið inni í millidálki í fyrra, en þá var greiðsluhalli kölluð allt önnur tala til þess að geta veifað því, að það hefði orðið halli á þjóðarbúinu yfir 200 millj. 1958 og 1000 millj. á 5 árum.

Nú segir þessi sami hæstv. ráðherra, sem er að fimbulfamba hér um, hvað sé raunverulegur greiðsluhalli, að það þurfi ekki að vera neitt fast samband á milli greiðsluhalla, eins og þeir töldu í fyrra, og afkomu þjóðarbúsins, það sé atriði, sem þurfi að íhuga alveg sérstaklega, m.a. í hvað lánin fara o.s.frv. En hvað sögðu þeir í fyrra? Þá dundi það í marga mánuði, að það hefði verið það, sem þeir kölluðu þá greiðsluhalla, lántökurnar meðtaldar, upp á 1050 millj. kr. á 5 árum, og það sýndi, að það hefði verið raunverulegur halli á þjóðarbúskapnum í 5 ár, sem nam 1000 millj. kr. Og hæstv. forsrh. er ekki kominn lengra en það, að hann lýsti því hér yfir í fyrradag, að þjóðin hefði étið út 200 millj. á ári, og hafði þá til stuðnings þessar skýrslur, sem hæstv. ríkisstj. blygðaðist sín ekki fyrir að láta fylgja efnahagsmálafrv. í fyrra og áttu að sýna, að það hefðu verið étnar út 200 millj. á ári, það hefði verið greiðsluhallinn.

Svo kemur hæstv. viðskmrh. hér og er að ásaka mig um, að ég nefni hlutina röngum nöfnum og nefni ekki sömu tölur greiðsluhalla nú og í fyrra. Það eru aðrir en ég, sem gera það. Það var hæstv. ríkisstj., sem kallaði greiðsluhalla í fyrra allt aðra niðurstöðu en nú er kallaður greiðsluhalli í Fjármálatíðindum. Þó að hæstv. ráðherra sé að reyna að rugla þessu með því að kalla, að þetta séu greiðslur bankanna út og inn, þá veit hæstv. ráðherra það mjög vel, að bankarnir hafa gjaldeyrisviðskiptin með höndum einir. (Gripið fram í.) Gjaldeyrisbankarnir. (Gripið fram í.) Þeir hafa gjaldeyrisviðskiptin einir. Þeir hafa einkarétt til sölu og kaupa á gjaldeyri, og það er alveg þýðingarlaust fyrir ráðherra að vera að reyna að gera villu úr þessu. Þetta er það, sem í þessu yfirliti er kallaður greiðsluhalli, en í fyrra var heildarniðurstaðan, sem við vorum að ræða, kölluð greiðsluhalli. Vill hæstv. ráðherra kannske mótmæla því, að því hafi verið haldið að þjóðinni, að þessi niðurstaða, sem hæstv. ríkisstj. kallaði greiðsluhalla í fyrra, sýndi, að þjóðin hafi eytt um efni fram 1000 millj. kr. á fimm árum? Vill hann kannske mótmæla því, að því hafi verið haldið fram?