20.03.1961
Neðri deild: 78. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í C-deild Alþingistíðinda. (1974)

35. mál, skólakostnaður

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. menntmn. fyrir að hafa þó að lokum skilað áliti um þetta mál. Ég hygg, að því hafi verið vísað til n. 21. okt., svo að það hefur tekið alllangan tíma. En með því að n. er sammála um afgreiðslu málsins, þykist ég mega vænta þess, þótt liðið sé langt á þingtímann, að koma megi málinu í Ed. Það hefði hins vegar verið æskilegt, að þetta mál hefði komið miklu fyrr hér til umr. í deildinni, svo að það hefði mátt reyna á það, hvort hægt yrði að gera það að lögum.

Ég vil fyrir hönd okkar flm. lýsa því yfir, að við getum fallizt á þær brtt., sem fram eru settar á þskj. 527, og að málið verði afgreitt þannig.

Ég sé, að hv. fundaskr. n. hefur skrifað undir með fyrirvara, en geri ekki ráð fyrir, að hann sé svo alvarlegur, að það verði neinn ágreiningur um málið þess vegna.

En í tilefni af þessu vildi ég mega beina orðum mínum til hæstv. forseta, sem hefur einnig skrifað undir þetta nál., um að setja þegar að loknum þessum fundi annan fund og taka málið til 3. umr., því að það er sýnilegt, að ef það verður ekki gert, muni málið tæplega komast í gegn. Það verður sjálfsagt ekki deildarfundur á morgun, og þá verða ekki fundir fyrr en á fimmtudag. En ef málið væri tekið hér til 3. umr. og það afgr. frá þessari hv. d., þá gæfist Ed. tími til þess að afgreiða málið, þar sem enginn ágreiningur hefur verið um það. Ég vil vænta þess, að hæstv. forseti verði við þessum tilmælum, þar sem enginn ágreiningur er um málið og hann hefur sjálfur skrifað undir nál. ágreiningslaust.