07.12.1960
Sameinað þing: 22. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í B-deild Alþingistíðinda. (198)

1. mál, fjárlög 1961

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal láta mér nægja að fara fáum orðum um það, sem fram hefur komið í þessum umræðum, því að í sannleika sagt er ekki ýkja margt, sem hefur komið fram í framsöguræðum hv. frsm. 1. og 2. minni hl., sem gefur mér tilefni til þess að flytja hér langt mál, auk þess sem hæstv. fjmrh. hefur þegar svarað mjög rækilega ýmsum þeim atriðum, sem þar komu fram. Mun ég því spara mér að ræða

sérstaklega um það efni, en aðeins minnast á nokkur atriði, sem varða heildarmynd málsins.

Það er út af fyrir sig eftirtektarvert, og mér sýnist það nokkur vísbending um það, að meiri hl. fjvn. hafi farið nokkuð rétta leið í sambandi við afgreiðslu þessa frv., að raunverulega eru brtt. hv. minni hl. mjög smávægilegar. Þar er ekki um að ræða breytingar á neinum grundvallaratriðum frv., heldur er lagt til að hækka lítillega tiltölulega fáa liði, og þar er ekki um að ræða neinar stórar fjárhæðir. Hv. framsóknarmenn hafa t.d. ekki við afgreiðslu fjárlagafrv. nú tekið upp nein þeirra miklu útgjaldamála, sem þeir hafa flutt hér í þingi nú, og sýnist mér það benda til þess, að þeir hafi ekki ýkja mikla trú á, að möguleiki sé, miðað við fjárhagsafkomu ríkissjóðs nú, að leggja á hann slíkár byrðar sem þar er gert. Er þetta þeim síður en svo til lasts, og tel ég, að afstaða beggja minni hluta nú beri vott um miklu meiri skilning á raunverulegri aðstöðu til útgjaldahækkunar heldur en fram kom í till. þessara aðila í fyrra, einkum hv. framsóknarmanna, sem þá lögðu til að hækka útgjöld ríkissjóðs á annað hundrað millj. kr. frá því, sem meiri hl. fjvn. þá lagði til. Það er svo auðvitað ekki nema eðlilegt, að þessir frsm. stjórnarandstöðunnar láti þar fylgja með almennar hugleiðingar um það, að stefnt sé í ófæru með ríkisbúskapinn og að allt hefði verið á allt annan veg og miklu betra, ef þeirra flokkar hefðu ráðið, og svo skemmtiyfirlýsingar ýmsar, eins og þá, sem er að finna í nál. hv. 1. minni hl., að Framsóknarfl. hafi alltaf verið andvígur eyðslustefnu. Slíkar setningar eru skemmtilegar aflestrar og gera að sjálfsögðu engum neitt til og hafa enga þýðingu í sambandi við málið sjálft og eru sýnilega meira fram settar til þess að geta þó haft einhverja tilburði um það að gera einhvern ágreining um málið. Því er ekki einu sinni varpað fram af hálfu hv. stjórnarandstæðinga, að það séu fyrir hendi neinir möguleikar, eins og ástatt er, til að fella niður tekjustofna ríkissjóðs, sem þó hefur mjög verið haldið á lofti í þeirra málgögnum að bæri að gera nú. En ég hygg, að þessir aðilar hafi einmitt gert sér grein fyrir því, þegar þeir kynntust öllum aðstæðum málsins, að þess er því miður enginn kostur, eins og nú standa sakir.

Hv. stjórnarandstæðingar hafa því raunverulega í meginefnum fallizt á þau grundvallarsjónarmið, sem meiri hl. n. hefur haft í sambandi við afgreiðslu fjárlagafrv. nú, og er það vissulega vel. Að vísu eru þær tillögur, sem eru fluttar af þeirra hendi til þess að jafna þau auknu útgjöld, sem þeir leggja til, ýmsar næsta óraunhæfar, a.m.k. til þess að þær geti valdið þeim sparnaði, sem þar er getið um, strax á næsta ári. En látum það vera, það er þó allavega viðleitni sýnd til þess að jafna metin, og útgjaldahækkanirnar eru ekki svo miklar, að hægt sé að segja, að þar sé farið með neinu ábyrgðarleysi að. Þetta skal játað.

Ég hef í framsöguræðu minni gert ýtarlega grein fyrir því, hvaða ástæður hafa legið til hækkunar fjárlaga, fyrst og fremst árið 1960 með gengisbreytingunni og síðan þeirri hækkun, sem verður á fjárlögum nú, miðað við þær tillögur, sem eru í fjárlagafrv. sjálfu og brtt. þeim, sem fjvn. öll stendur að, og hirði ég ekki að rekja hér aftur þær röksemdir, sem ég þar flutti fram, þar sem ég taldi mig hafa sýnt fram á það, að ef ekki hefðu komið til útgjöld nú, sem eru tengd sérstaklega við afleiðingar efnahagsráðstafana frá því í vor, en komu ekki fram í fjárlögum þessa árs, svo sem fjölskyldubæturnar og önnur framlög til almannatrygginga, sem eru meginhluti þeirrar hækkunar, sem nú verður á fjárlögum, þá mundi hækkun fjárlaga nú, miðað við fjárlög ársins 1960, ekki verða nema um 2%. Ég hygg, að sú hækkun sé svo hófleg, að menn verði að viðurkenna, sem sanngirni vilja sýna, að þar sé fyllilega haldið sér innan þess ramma, sem telja má að lengst sé hægt að komast varðandi takmörkun útgjalda. (Forseti: Má ég spyrja hv. þm., hvort hann fellst ekki á að gera hlé á ræðunni? Það var ætlunin að hafa fundarhlé, kaffihlé milli ellefu og hálftólf.) Jú, það er sjálfsagt, ef forseti óskar þess. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða í einstökum atriðum þær hækkunartillögur, sem hv. minni hlutar n. gera. Það eru vissulega allt þarfir hlutir, sem þar er að vikið, og hefði verið ánægjulegt að geta sinnt þeim verkefnum, en þar sem, eins og ég áðan gat um, sparnaðartillögur þessara hv. nefndarhluta eru ekki þess eðlis, að þess sé að vænta, að þær geti orðið framkvæmdar á næsta ári og skilað þeim sparnaði á móti, sem þar er gert ráð fyrir, þá tel ég, að enginn möguleiki sé til þess að samþykkja umræddar hækkunartillögur.

Það hlýtur að vekja töluverða athygli í sambandi við þessar umræður, hversu einkennileg viðbrögð hv. stjórnarandstæðinga eru í sambandi við þá viðleitni til sparnaðar í ríkisútgjöldum, sem hæstv. ríkisstj. hefur unnið að og meiri hluti nefndarinnar hefur leyft sér að taka undir og benda á allmörg atriði til viðbótar, sem talið er rétt að taka til athugunar í því sambandi. Það er talað um það hér, og gegnir einna mestri furðu, að þar skuli vera um að ræða þann mann, sem lengst hefur verið fjmrh., að allt þetta sparnaðartal sé skrípaleikur og þar fram eftir götunum. Að vísu er það þó kannske ekki svo undarlegt, að þessi fyrrv. hæstv. ráðh. skuli hafa þessi viðbrögð, því að reyndin er sú og hefur verið undanfarið meðan hann gegndi embætti fjmrh., að þá sá hann sjaldnast nokkra möguleika til þess að draga úr ríkisútgjöldum og fann yfirleitt flestum tillögum um það efni allt til foráttu. Ég skal fúslega játa, að ef það ætti að verða útkoman úr hugleiðingum manna um sparnað í ríkisrekstrinum nú, sem varð reyndin eftir gengisbreytinguna 1950, þegar hv. 1. þm. Austf. gegndi embætti fjmrh, og taldi þá upp í æði mörgum atriðum í fjárlagaræðu sinni — og fannst það víst ekkert hlægilegt þá — mörg atriði, sem hann sagði að ríkisstj. væri með til athugunar í sparnaðarátt, og skýrði þar jafnframt frá því, — sem mörgum þykir nú vera til lítils vegsauka fyrir núverandi hæstv. ríkisstj., — að það hefði verið ákveðið að fá bandarískan sérfræðing til þess að leiðbeina stjórninni um sparnað í ríkisrekstrinum, — ef ætti ekki að verða meira úr þessum sparnaðarhugleiðingum nú en varð þá, þá er hægt að taka undir það, að það hefði verið verr af stað farið en heima setið, því að allar þær mörgu hugleiðingar, sem þá voru uppi um sparnað, runnu gersamlega út í sandinn.

Ég hef átt þess kost að hafa allmikil afskipti af fjármálum ríkisins allt frá árinu 1948, þegar ég starfaði að þeim málum í fjmrn., og hef því átt kost á að fylgjast með þeim hugleiðingum, sem uppi hafa verið um sparnað á hinum ýmsu tímum. Hinn bandaríski sérfræðingur, sem ég minntist á, kom hingað til lands og gerði sínar tillögur til þáverandi fjmrh., sem nú er hv. 1. þm. Austf., og mér er ekki kunnugt um, að neitt af þeim tillögum hafi verið framkvæmt. Síðan voru skipaðar sparnaðarnefndir, og er mér kunnugt um starf þeirra einnig, vegna þess að ég átti í þeim sæti, a.m.k. tveimur þeirra, og þessar nefndir gerðu einnig allmargar tillögur um sparnað og fæstar þessara tillagna hafa verið framkvæmdar eða nokkur tilraun gerð til að framkvæma þær af þáverandi fjmrh., núverandi hv. 1. þm. Austf. Og síðust þessara nefnda — eða kannske öllu heldur næstsíðust — var nefnd, sem starfaði á vegum vinstri stjórnarinnar og skilaði mjög ýtarlegu áliti og greinargóðu um mörg atriði, og þessi bók var upphaflega leyniplagg, sem ekki einu sinni fjvn. mátti sjá, enda kannske ekki undarlegt, því það var engin tilraun gerð til þess að framkvæma neitt af þeim tillögum, sem þar komu fram, nema þessa frægu tillögu, sem alltaf skýtur upp kollinum, að leggja niður Kvíabryggju. Ég held það sé eina tillagan, sem hafi verið framkvæmd, af þeim ábendingum, sem þar komu fram. Þegar þessa er gætt, þá kann vel að vera, að þeir menn, sem hafa haft mest með það að gera að framkvæma þá hluti á undanförnum árum, geti talað um það, að sparnaðarhugleiðingar séu nánast skrípaleikur, ef þeir byggja það á þeirri reynslu, sem þeir hafa um viðbrögð í sambandi við hugleiðingar um sparnað.

Ég vil leyfa mér að fullyrða, að það hafi ekki; eftir að ég fór að kynnast þessum málum, verið unnið að athugun á ríkisrekstrinum með alvarlega viðleitni til sparnaðar í huga af eins mikilli kostgæfni og nú hefur verið gert, og þó að mönnum kunni að þykja árangur þeirrar viðleitni eitthvað magur, þá stafar það ekki af því, að ekki hafi verið að þessum málum unnið, heldur stafar það af hinu, sem hæstv. fjmrh benti á og fyrrv. fjmrh. einnig oft réttilega benti á, hv. 1. þm. Austf., og ég hef einnig bent á hvað eftir annað, síðan ég fór að hafa afskipti af afgreiðslu fjárlaga, að sparnaður, sem á að skila raunverulegum árangri, verður að undirbúast rækilega. Og það er tilgangslaust, og það má segja, að það sé skrípaleikur að varpa fram alls konar tillögum lítt athuguðum, sem jafnvel fyrir fram er séð að ekki er nokkur leið að framkvæma nema þá á löngum tíma. Það má segja, að sé skrípaleikur. En hitt er ekki skrípaleikur, að gera ábendingar um ákveðin. atriði, sem ljóst er að ekki er hægt að vænta framkvæmdar á, nema með skipulagsbreytingum, sem þurfa að gerast með ákveðnum fyrirvörum. Þetta held ég, að allir hljóti að viðurkenna, ef þeir með skynsemi og sanngirni líta á þessi mál.

Ég held því, að það sé ekki hægt að tala um það með neinni lítilsvirðingu, þó að bæði hæstv. fjmrh. og meiri hl. fjvn. hafi leyft sér að nefna hér í umr. á Alþingi og koma fram með ábendingar um það, hvaða atriði það væru, sem sérstaklega þyrfti að kanna með hugsanlegan sparnað fyrir augum. Ég skal svo hins vegar játa það, að þetta tal um sparnað, það má að því leyti segja, að það sé ekki raunhæft, að þessi sparnaður á þeim atriðum, sem oftast nær er um talað, þ.e.a.s. á hinum einstöku stofnunum og þar fram eftir götunum, er ekki líklegur til að skila stórum fjárhæðum. Sannleikurinn er sá, að ég hygg, að það séu fáar stofnanir hér í okkar landi, sem sé hægt að segja að sé gersamlega hægt að komast af án, og ég held, að yfirleitt sé starfsmannahald í opinberum stofnunum ekki mikið og mjög nærri því að vera lágmark þess, sem hægt er að komast af með. Það, sem auðvitað ræður hér öllu máli, hvort hægt er að framkvæma verulega lækkun á ríkisútgjöldum, er, hvort menn treysta sér til að fara inn á þá braut að lækka verulega liði, sem eru annaðhvort lögbundnir liðir í sambandi við margvíslega þjónustu, sem fólkinu er veitt, eða þá ýmiss konar framkvæmdaliði, sem eru ekki bundnir. Þessa liði er auðvitað hægt að lækka án fyrirvara. Þjónustuliðina er náttúrlega ekki hægt að lækka nema með lagabreytingum, en það er auðvitað hægt að lækka lið — við skulum segja eins og vegagerð og brúargerð. Það er ekki löggjafaratriði, og það er hægt að gera án nokkurs sérstaks undirbúnings. Því miður hefur líka reyndin orðið sú, og það er engin sérstök stjórn, sem á þar sök á, heldur vegna þess, hvers eðlis útgjöldin eru, að þegar að hefur þrengt, þá hafa þessir liðir verið skertir. Hitt er svo aftur annað mál, sem er sjálfsagt að gera sér grein fyrir og framfylgja, eins og ég benti á í framsöguræðu minni, að leita sérhverra úrræða til þess að koma starfsemi ríkisins fyrir á sem hagkvæmastan hátt, þannig að þjóðfélagsborgararnir hafi tilfinningu fyrir því, að skynsamlega sé varið þeirra fé og ekki eytt í óþarfa. Þetta eru þau atriði, sem er verið að vinna að og þarf með fullum krafti að fylgja eftir. og miðað við það, hve allt slíkt hefur á undanförnum árum átt erfitt uppdráttar og tekið langan tíma, þá verð ég að segja, að sá árangur, sem þegar er orðinn af þeim athugunum, er meiri en við hefði mátt búast, en ekki minni.

Þá vil ég að lokum aðeins víkja nokkrum orðum að þeim fullyrðingum, sem fram hafa komið um, að það hafi ekki verið hægt, eins og hv. 1. þm. Austf. sagði og raunar einnig frsm. 1. minni hl. fjvn., að mynda sér nokkra yfirsýn yfir tekjuhorfur á næsta ári, vegna þess að það hafi verið leynt einhverjum ákveðnum upplýsingum fyrir n. Ég skal þá fyrst taka það fram, að þær upplýsingar, sem við í meiri hl. n. höfðum til að byggja okkar álit á, voru þær hinar sömu og n. var gerð grein fyrir af ráðuneytisstjóranum í efnahagsmrn. og n. síðan afhent grg. um. Aðrar eða frekari upplýsingar um það efni höfðum við ekki, og ég hef því ekki leynt n. einu né neinu í því efni. Ég vil hins vegar ekki skrifa undir það, að það hafi ekki verið hægt á grundvelli þeirra upplýsinga að gera sér grein fyrir því, hverjar tekjuhorfur mundu verða á næsta árl. N. var skýrt frá því, hvað gert væri ráð fyrir að innflutningur gæti orðið mikill á árinu, og sú áætlun var að sjálfsögðu byggð á þeim gjaldeyristekjum, sem taldar voru geta orðið til ráðstöfunar, ella hefði enginn kostur verið þess að gera sér neinar hugmyndir um það, hver innflutningurinn gæti verið, og það er auðvitað fyrst og fremst innflutningurinn, sem skiptir máli í þessu sambandi. Menn geta svo að sjálfsögðu haft sínar grunsemdir um, að það hafi verið einhver skekkja í þeim áætlunum og ekki hafi verið reiknað með öllum gjaldeyristekjum í því sambandi. En hafi það verið gert, sem ég vil ganga út frá að hafi verið gert, þá að sjálfsögðu var þetta sú tala, sem n. skipti máli að fá, og á undanförnum árum hefur hún ekki haft aðrar tölur, að því fráskildu, að í fyrra var gerð nákvæm greiðslujafnaðaráætlun, sem lá fyrir n., þegar hún vann að undirbúningi fjárlfrv. þá, og raunar í hittiðfyrra líka, en bæði þessi ár voru fjárl. afgr. löngu eftir áramót.

N. var skýrt frá því, að ákveðin greiðslujafnaðaráætlun hefði ekki verið gerð umfram það, sem ráðuneytisstjórinn skýrði frá, heldur hefði aðeins verið gerð ákveðin áætlun um það, miðað við reynslu þessa árs og miðað við þær gjaldeyristekjur, sem væntanlegar væru á næsta ári, að svo miklu leyti sem hægt er um þær að segja, hvað ætla mætti að innflutningurinn gæti orðið í ár og hvað ætla mætti um samsetning innflutningsins.

Það er alveg rétt hjá hv. minni hlutum n., að áætlun meiri hl. um tekjur af aðflutningsgjöldum er mjög tæp, þó að segja megi auðvitað, að hún geti vel staðizt. Um það getum við ekkert sagt, vegna þess, eins og hæstv. fjmrh. sagði, að þá er þar þó ekki um að ræða nema 2% breytingu frá því, sem áætlun efnahagsmrn. er, og á undanförnum árum hafa ætíð orðið æði miklu meiri breytingar en nemur 2% til og frá í sambandi við þær áætlanir, sem gerðar hafa verið.

Um þetta getum við auðvitað endalaust deilt, hvort þarna sé raunveruleg tala fengin eða ekki og hvort tekjurnar muni verða nokkrum milljónatugum lægri eða hærri. En ég held ekki, að við græðum mikið á því. Ég held, að það sé rétt, sem hv. minni hlutar segja, að sú áætlun, sem okkur var gerð grein fyrir, muni vera mjög nærri lagi; það geti svo aftur munað nokkrum milljónum til eða frá í þeirri áætlun. Það er t.d. veruleg breyting, sem þar er gerð til lækkunaráttar frá fjárl. í sambandi við ríkisstofnanirnar, sem byggist á sölu núna síðasta mánuðinn. Það getur vel verið, að sú þróun verði áfram, — það vitum við ekki, — en það getur eins verið, að hún breytist, og það hefur því ekki þótt ástæða til þess að breyta frá þeirri áætlun, enda virðist allt benda til þess í þessum umr., að menn greini yfirleitt ekki mikið á

um það, að þessar áætlanir séu nokkuð nærri lagi, og a.m.k. virðist það ljóst, að menn hafi ekki þá skoðun, að hér sé verið að fela neinar tekjur, sem vissulega hefur oft verið gert á undanförnum árum í sambandi við afgreiðslu fjári. Hér er gersamlega tíundað allt það, sem líkur eru til að fram komi, og því er ráðstafað fyrir fram af Alþingi í fjárl.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja hér umr. meira. Það eru margir hér enn á mælendaskrá, og sé ég ekki ástæðu til þess að fara að ræða hér sérstaklega almennar hugleiðingar, sem fram komu hjá hv. frsm. minni hlutanna um fjármálastefnuna yfirleitt.. Um hana ræddi ég í minni framsöguræðu og sé því ekki ástæðu til þess að taka upp. aftur þau orð, sem ég hafði um það mál þá. Að svo miklu leyti sem einstakar tillögur, sem hér hefur verið útbýtt á sérstökum þskj:, gefa tilefni til, þá mun ég síðar ræða þær í þessum umr., en tel rétt áður, að hv. flm. þeirra till. geri grein fyrir þeim.