07.12.1960
Sameinað þing: 22. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í B-deild Alþingistíðinda. (200)

1. mál, fjárlög 1961

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt þremur öðrum þingmönnum Norðurl. v. að flytja brtt. á þskj. 184 við till. hv. fjvn. á þskj. 162. Till. okkar er 3. till. á þskj. 184 og fjallar um það, að tekið verði upp framlag til íþróttahúss á Siglufirði að upphæð 200 þús. kr. Bygging þessa íþróttahúss hófst árið 1958 og er enn ekki lokið. Kostnaður við bygginguna fram til þessa hefur numið 1 millj. 328 þús. kr., og hefur bæjarsjóður Siglufjarðar greitt alla þá upphæð að undanteknum 34 þús. kr., sem íþróttasjóður hefur greitt. Heildarkostnaður við bygginguna er áætlaður 2.2 millj. kr. Siglufjarðarbæ er því um megn að ljúka byggingunni, nema til komi framlög frá ríkissjóði.

Íþróttahúsið er reist yfir sundlaugina á Siglufirði og hún því ónothæf, meðan á byggingunni stendur. Leiðir af þessu, að sundkennsla getur ekki farið fram á Siglufirði, á meðan svo standa sakir. Gátu Siglfirðingar t.d. ekki tekið þátt í Norrænu sundkeppninni á s.l. sumri. Íþróttahús þetta verður að miklu leyti notað fyrir gagnfræðaskólann á Siglufirði, og er því réttmætt að viðurkenna það sem skólahús. Menntmrh., fræðslumálastjóri og íþróttafulltrúi eru því meðmæltir og hafa allir lagt til, að framlag til hússins verði veitt á fjárl. Þessi meðmæli hafa þó ekki fundið náð fyrir augum hæstv. fjvn.

Þess finnast mörg dæmi, að hliðstæð íþróttahús í öðrum kaupstöðum landsins, svo sem Akureyri, Hafnarfirði og Seyðisfirði, hafi fengið framlög úr ríkissjóði. Verður ekki annað séð en setja eigi Siglufjörð skör lægra en aðra kaupstaði í þessum efnum. En það er einmitt sá hlutur, sem við flm. þessarar brtt. teljum ófært að una við.