01.11.1960
Neðri deild: 14. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í C-deild Alþingistíðinda. (2001)

80. mál, sveitarstjórar

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Með lögum nr. 19 14. febr. 1951 er sveitarstjórnum í hreppum, sem hafa 500 íbúa eða fleiri, heimilað að ráða sér framkvæmdastjóra, sem í lögunum er nefndur sveitarstjóri. Þessi heimild hefur verið notuð á allmörgum stöðum, þar sem svo stendur á, að íbúar í hreppi eru fleiri en 500, og er það aðallega eða eingöngu í kauptúnahreppum. Þar sem þessi heimild er notuð, verður starf oddvita svipað og starf forseta bæjarstjórnar í bæjum, þar sem ráðinn er sérstakur bæjarstjóri eða borgarstjóri. Þessi lög voru sett og þessi heimild veitt á sínum tíma vegna þess, að það þótti sýnt, að störf oddvita, einkum í hinum fjölmennari hreppum, hefðu aukizt svo mjög, að þess væri varla að vænta, að hægt væri að sinna þeim eingöngu sem aukastarfi.

Nú er okkur flm. kunnugt um það, að sums staðar hafa verið uppi óskir um það að ráða slíka framkvæmdastjóra, en hefur strandað á því, að íbúatalan náði ekki 500. En þannig getur staðið á sums staðar, að enda þótt íbúatala sé ekki þetta há, þá séu störf oddvita eigi að síður mjög mikil og meiri en almennt gerist og engu minni en í hreppum, sem, hafa 500 íbúa eða fleiri. Hér kemur það til m.a., að sums staðar er mikill atvinnurekstur einhvern hluta úr árinu og fjöldi af aðkomufólki kemur á staðinn til þess að leita sér atvinnu í sambandi við atvinnurekstur, sem aðeins er árstíðabundinn, og þetta hefur í för með sér að sjálfsögðu mikla aukningu á störfum oddvita í þeim hreppi, meðan á þessu stendur, og jafnvel allt árið. Á öðrum stöðum hagar þannig til, og þetta hvort tveggja á nú einkum við þá hreppa, þar sem meginbyggðin er í þorpum við sjávarsíðuna, að hreppar hafa með höndum miklar framkvæmdir, eins og t.d. hafnargerðir og vatnsveitur, húsabyggingar eða annað þvílíkt, sem stundum stendur yfir árum saman, og þetta hefur í för með sér mikil umsvif fyrir hlutaðeigandi oddvita.

Nú leggjum við það til, flm. að þessu frv., að heimildin til þess að ráða sveitarstjóra verði ekki lengur bundin við,að hlutaðeigandi hreppur hafi 500 íbúa eða fleiri, heldur sé heimildin einnig til staðar, ef atvinnurekstur í hlutaðeigandi hreppi er svo mikill, að störf oddvita séu að dómi ráðuneytisins mun meiri en almennt gerist. Við gerum ráð fyrir, að til þess að nota heimildina þurfi leyfi rn. hverju sinni, enda verður einhver aðili að dæma um það, hvort skilyrði greinarinnar sé fullnægt, og er eðlilegt, að það sé ráðherra.

Í 2. gr. frv. leggjum við svo til, að hreppum, sem hafi færri íbúa en 500, sé heimilað að gera samkomulag sín á milli um það að ráða sér framkvæmdastjóra eða sveitarstjóra sameiginlega. Við teljum það eðlilegt, að svona heimild sé í lögum, enda þótt við gerum ekki ráð fyrir því, að hún mundi verða mikið notuð fyrst um sinn. Ef hreppar eru þannig í sveit settir eða þannig settir, að þeir gætu sameinað sig með eðlilegum hætti um einn mann sem sveitarstjóra, þá sýnist ekki nema eðlilegt, að þeim væri heimilað að gera það samkomulag og ráða manninn. Ef sú heimild yrði notuð, mundi gangur málsins væntanlega verða sá, að sveitarstjórinn væri ráðinn sameiginlega af hlutaðeigandi hreppum, hvort sem þeir nú væru tveir eða þrír eða fleiri, og hefði þá aðsetur á þeim stað, sem samkomulag yrði um, en hreppsnefndirnar héldust auðvitað eins og áður, og í hverri hreppsnefnd væri oddviti, sem boðaði til fundar í hreppsnefndinni, þegar þess þætti við þurfa, og þessi sameiginlegi framkvæmdastjóri yrði þá að mæta á fundum hinna einstöku hreppsnefnda. Ég held, að það sé sanngjarnt, að hreppsnefndir hafi þessa heimild, ef þær geta notað sér hana, og áreiðanlega miklu heppilegra en fara inn á þá leið, sem nokkuð hefur bryddað á, að sameina með lögum fámenna hreppa. Það hygg ég, að muni almennt ekki verða vinsælt og ekki ástæða til að ganga á sjálfstæði sveitarfélaganna. En þarna kynni að vera um úrræði að ræða, sem þær gætu notað sér til hagræðis.

Ég legg svo til fyrir hönd okkar flm., að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.