03.11.1960
Neðri deild: 15. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í C-deild Alþingistíðinda. (2004)

81. mál, áætlunarráð ríkisins

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég flyt hér á þskj. 90 frv. til l. um áætlunarráð ríkisins. Ég hef áður flutt frv. mjög svipað og upp á síðkastið nokkurn veginn alveg eins og þetta og gert mjög ýtarlega grein fyrir höfuðatriðunum í þeim frv. Ég vil að þessu sinni ræða þetta frv. með hliðsjón af því ástandi, sem nú er í efnahagsmálum landsins og að hve miklu leyti felst í þessu frv. lausn á þeim erfiðleikum og leið út úr þeim vandræðum, sem nú er stýrt í, en að öðru leyti vísa til fskj. I, þar sem saga baráttunnar fyrir þessu frv. er allmikið rakin.

Það hefur af hálfu ýmissa þeirra, sem deila um efnahagsmálin í okkar þjóðfélagi, verið sagt, að það væri þarna um tvennt að ræða, um tvennt barizt: annars vegar þá leið, sem alþýðusamtökin og flokkar alþýðunnar venjulega hafa lagt til að fara, leið skipulagningar, leið heildarstjórnar á þjóðarbúskapnum, en hins vegar um frelsi, um það að láta hina einstöku aðila og þeirra samtök um það, hvað gerist í þjóðarbúskapnum.

Ég vil taka það fram, ef einhverjir í þessari hv. d. skyldu halda, að það hafi verið farið inn á þá leið að hætta afskiptum ríkis og gefa allt frjálst í þjóðfélaginu með þeirri stefnu, sem hæstv. núv. ríkisstj, tók upp fyrir tæpu ári, þá vil ég leggja áherzlu á, að því fer mjög fjarri. Það er ekki um það að ræða í þjóðfélaginu nú, hvort annars vegar skuli taka upp þá stefnu, sem felst í þessu frv. um áætlunarráð, eða hins vegar, hvort koma skuli á algeru frelsi, heldur um hitt, hvers konar skipulagningu og hvers konar ríkisafskipti skuli hafa, að hverju þau ríkisafskipti skuli miða og í þágu hverra þau skuli framkvæmd.

Nú sem stendur er það svo, að sérstaklega á fernan hátt skiptir hæstv. ríkisstj. og hennar ríkisvald sér af efnahagslífi þjóðfélagsins og stjórnar því á sinn undarlega máta í þágu þeirra, sem ég nánar mun koma inn á:

1) Hér er ríkjandi það ástand, að allir bankarnir eru ríkisbankar, meira eða minna undir pólitískri stjórn, sem sýnir sig í öllum daglegum rekstri bankanna að vera háð ríkisstj. og hennar fyrirmælum og hennar óskum, þannig að í gegnum ríkisbankana, — og hér er um lítt annað að ræða en ríkisbanka, — þá stjórnar ríkisstj., eins og sakir standa, öllum lánsfjármálum þjóðarinnar. Það, sem nú er skapað í þjóðfélaginu, — við skulum segja lánsfjárkreppan og allt annað slíkt, — er þess vegna bein, skipulögð ráðstöfun ríkisvaldsins, ríkisstjórnarinnar, sem framkvæmd er í krafti þess, að bankarnir eru allir ríkisbankar.

2) Allur útflutningurinn er háður leyfum. M.ö.o.: verzlunin er ófrjáls. Það þýðir, að það er ríkisstj., sem með afskiptum sínum af útflutningnum stjórnar og ber ábyrgð á útflutningnum og ræður þeirri helstefnu, sem núna ríkir í útflutningnum.

3) Leyfi til þess að taka erlent lánsfé er háð leyfum ríkisstj., þannig að hún stjórnar algerlega því, hvaða erlent lánsfé kemur inn í landið, hve mikið og í hvaða tilgangi. M.a. stjórnar hún t.d. því, að mikið erlent lánsfé hefur streymt inn í landið á þessu ári, en allt þetta lánsfé farið eingöngu til neyzlunnar og í verzlunina, en ekkert af því til þess að byggja upp framleiðslu landsmanna.

4) Ef einhver skyldi halda, að hér ríkti verzlunarfrelsi, þá er rétt að minna á það, að sú skylda hvílir á öllum þeim, sem framleiða gjaldeyri í þjóðfélaginu, að afhenda hann ríkisvaldinu, þannig að enginn af þeim mönnum, sem gjaldeyrinn framleiða, er, svo að við vitum, frjáls um sinn gjaldeyri.

M.ö.o.: ríkisstj. hefur með sínum afskiptum tekið að sér ábyrgðina og stjórnina á efnahagslífinu. Það er ekkert venjulegt frelsi, eins og ella tíðkast í svokölluðum auðvaldslöndum í þessum efnum, en afskiptum ríkisstj. er að mínu áliti hagað hins vegar með það fyrir augum að skapa betri aðstöðu gagnvart lítilli, pólitískri klíku peningamanna í landinu. Og til þess að skapa þessa betri aðstöðu fyrir þessa litlu valdaklíku er með þessum skipulögðu ríkisafskiptum verið að framkalla fyrirbrigði, sem eru mjög óheppileg.

Það, sem nú er verið að skipuleggja í íslenzku þjóðfélagi, er í fyrsta lagi kreppa, og það er vert að gera sér það ljóst, að sú kreppa, sem hæstv. ríkisstj. er nú að skipuleggja á Íslandi, á engar eðlilegar orsakir, heldur er einvörðungu framkölluð annaðhvort af vítaverðu gáleysi og stjórnleysi ríkisstj. eða vísvitandi. Í öllum auðvaldslöndum í kringum okkur, Danmörku t.d. og öðrum slíkum, er það, sem kallað er á kapítalistísku máli há-konjunktur, eða m.ö.o. tiltölulega mjög mikil atvinna og mjög öflug og greið viðskipti, þ.e. góðir tímar, eins og kallað er á efnahagsmáli.

Það, að kreppa skuli vera að ríða í garð hér á Íslandi, er einvörðungu vegna þess, að ríkisstj. er að skipuleggja þessa kreppu. Hún er að framkalla hana með þeim ráðstöfunum, sem hún hefur gert í krafti þess valds og í krafti þeirra afskipta, sem hún hefur af efnahagslífi landsins. Það er sérstök íslenzk kreppa, sem þessi kreppustjórn framkallar.

Hér ríkir stjórnleysi, sem ríkisstj. skipuleggur, og það er e.t.v. undarlegasta fyrirbrigðið í því efnahagsástandi, sem við búum við. Ríkisstj. hefur allt valdið enn þá til að stjórna efnahagslífinu, en hún kýs að beita þessu valdi og þessum afskiptum sínum, þessu valdi sínu yfir bönkunum, úthlutuninni á lánsfénu og gjaldeyrinum, til þess að koma á stjórnleysi, skipulagsleysi í efnahagslífinu. Sú ringulreið, sem nú er að skapast í efnahagslífinu, er beinlínis framkölluð með beinum ráðstöfunum ríkisstj.

Hér er að verða efnahagslegt hrun. Menn þurfa ekki nema líta í Lögbirtingablaðið. Hér eru sem stendur tugir, ef ekki hundruð manna, sem á undanförnum árum hafa lagt í það að reyna að koma upp yfir höfuð sér þaki, reynt að eignast íbúðir, hér eru þeir á góðri leið með að missa þessar íbúðir og jafnvel sumir búnir að missa þær. Það er sívaxandi fjöldi uppboðsauglýsinganna í Lögbirtingablaðinu á íbúðum, og það er sífellt erfiðara að selja íbúðir, vegna þess að það hefur verið skipulagt kaupgetuleysi og kaupgetuminnkun, sem gerir það að verkum, að menn geta ekki keypt slíkt. M.ö.o.: það er verið að skipuleggja efnahagslegt hrun hjá þeirri millistétt, sem dreymdi um það að verða efnahagslega sjálfstæð og trúði því m.a., sem Sjálfstfl. hafði sett sem sitt efnahagslega takmark, að hver maður ætti að geta eignazt sína eigin íbúð. Það er verið að framkalla hér fjöldagjaldþrot.

Í öðru stjórnarblaðinu stóð 1. nóv. með stærsta fyrirsagnaletri á fyrstu síðu, í Alþýðublaðinu: „Bátaflotinn allur á uppboði.“ M.ö.o.: annað stjórnarblaðið og það einmitt blað hæstv. sjútvmrh. lýsir því yfir, að allur bátaflotinn sé nú á uppboði, og það er vitað, að það stendur til að bjóða upp meginið af bátunum í landinu, ef farið er eftir þeim venjulegu reglum, sem ríkisstj. segir að nú skuli fara eftir, að hver maður, sem á bát, skuli standa á eigin fótum. Sú ríkisstj., sem slíkt segir, hlýtur að vita það, að útvegsmenn á Íslandi hafa aldrei staðið á eigin fótum. Þeir hafa alltaf fengið að standa á fótum ríkisins. Það hafa verið ríkisbankarnir á Íslandi, allt frá því að fyrsta bankanum er komið hér upp, sem hafa skoðað það sem sitt verkefni að sjá um, að útgerðin gæti gengið. Og þegar menn hafa gert einhverjar tilraunir um að láta þetta verða frjálst, þá hafa menn orðið svo hvekktir við afleiðingarnar, eins og sýndi sig bezt í kreppunni 1931, að menn hafa sem skjótast afnumið slíkt frelsi og ekki komið því á aftur.

Hér vofa yfir fjöldagjaldþrot. Þessi fjöldagjaldþrot eru ekki afleiðing neinnar eðlilegrar kreppu, heldur afleiðing kreppu, sem skipulögð er af ríkisstj. með afskiptum ríkisstj. af efnahagsmálum þjóðfélagsins með lánsfjárkreppu, sem hún fyrirskipar ríkisbönkunum að koma á í þjóðfélaginu.

Ég hef grun um, eftir mínum kunnugleik af bankamálunum á Íslandi, að það sé meiningin, að pólitískir bankastjórar eigi síðan að velja á milli, þegar að þessum fjöldauppboðum kemur, hverjir skuli lifa og hverjir skuli deyja, hverjir skuli missa sína báta og hverjir skuli halda bátum og í höndum hverra eign bátanna sé saman safnað. Ég þori auðvitað ekkert um það að segja, hvort þetta er tilætlun ríkisstj. „Oss er ei nýrnanna rannsókn veitt.“ En ef þeir menn, sem ráða þeirri pólitík, sem nú er rekin í efnahagsmálunum, þeirri skipulagningu kreppunnar, sem nú er framkvæmd, kunna ekki að leggja saman tvo og tvo, ef þeir kunna ekki að gera sér ljósar afleiðingar verka sinna, þá eru þeir sannarlega ekki færir um að vera að skipta sér af stjórnmálum á Íslandi, þannig að það verður að ætla þeim mönnum, sem valda nú fjöldagjaldþrotum og eignaráni, að þeir stefni að þessu. Það verður að ætla þeim, að þeir geri þetta vitandi vits. Það verður frekar að gruna þá um græsku heldur en að frýja þeim vits.

Þetta, sem ég nú hef mælt, snertir skipulagningu kreppunnar fyrst og fremst hjá atvinnurekendum og hjá millistéttinni og þeim, sem hafa reynt að verða bjargálna. Fyrir utan það hefur ríkisstj. gert beinar ráðstafanir til þess að minnka kaupgetuna í landinu með því að rýra þannig lífskjör almennings, að hann gæti ekki keypt það, sem honum væri nauðsynlegt. Ég skal taka það fram, að það hafa alltaf, allan þann tíma, sem rætt hefur verið um efnahagsmál og vandamál þeirra, sérstaklega síðustu 20 árin, á Íslandi, verið til tvær leiðir að fara í þessum efnum til þess að koma á jafnvægi í þjóðarbúskapnum út á við. Önnur leiðin hefur verið að auka framleiðslu landsmanna, þannig að íslenzka þjóðin yrði að ríkari fyrir og hverjum einstaklingi hennar liði betur. Hin leiðin hefur verið sú að minnka kaupgetu landsmanna. Það er á því gamla máli að gera menn fátækari, skipuleggja fátæktina, til þess þannig að minnka það, sem menn keyptu inn til landsins. Hið síðarnefnda hefur alltaf verið mjög þægileg leið fyrir þá, sem kæra sig ekki um framfarir eða lífskjarabætur. Og sú leið hefur nú verið skipulögð. Ég segi: skipulögð. Eins og ég hef þegar sýnt fram á, eru það bein afskipti ríkisins og ríkisvaldsins, sem til þess leiða, að þessi kaupgetuminnkun hefur nú verið framkvæmd. Ég hef látið reikna út, hver sú kaupgetuminnkun er, miðað við tímakaup verkamanns, eftir þeim mælikvarða, sem reiknað hefur verið undanfarin ár, og ég hef birt sem fskj. II með þessu frv. þennan útreikning. Ég hirti hann líka með því síðast, og ég man sérstaklega eftir, að annað stjórnarblaðið, Alþýðublaðið, fagnaði mjög þeim útreikningi og birti hann í sínu blaði mér til mikillar ánægju, og ég vonast til þess, ef það er einhver Alþýðuflokksmaður hér inni, að þeir birti líka þennan útreikning. Þá birti Alþýðublaðið útreikninginn undir þeirri fyrirsögn, að þegar Alþfl. væri í stjórn, þá væri auðsjáanlega kaupmáttur tímakaupsins mjög hár. Og nú er rétt að lesa þróunina, með leyfi hæstv. forseta, eins og hún hefur verið nú 1960. Miðað við kaupmátt 1945 sama sem 100, hefur hún verið þessi í hverjum mánuði 1960: janúar 99, febrúar 99, marz 98, apríl 93, maí 92, júní 89, júlí 88, ágúst 88, september 88, þ.e. 87.5 hækkað upp, október 86, eða nákvæmlega séð 86.2. M.ö.o.: í október er vísitalan um kaupmátt tímakaupsins komin niður í 86. Hún hefur aðeins á tveim árum síðustu tuttugu árin verið lægri. Það var á árunum 1951 og 1952. Þá var hún 84.7 og 84.9, sem sagt tæp 85. Það munar rúmlega einu stigi, að hún sé að komast niður í það sama. Árin 1951 og 1952 voru árin rétt eftir gengislækkunina, árin áður en verkalýðssamtökin höfðu gert nokkrar stórfelldar ráðstafanir til hækkunar, árin þegar upp undir 2000 manns voru atvinnulausir í Reykjavík, árin þegar aftur fór að sjá á börnum verkamannafjölskyldnanna hérna í Reykjavík, vegna þess að þau höfðu ekki nóg að borða, í fyrsta skipti þá í tíu ár.

Nú er undir þessari stjórn kaupmáttur tímakaupsins að nálgast hið sama. Og fram undan blasir atvinnuleysi, byrjað nú þegar víða úti á landi, orðið tilfinnanlegt fyrir t.d. þær stúlkur í hraðfrystihúsunum, sem sérstaklega hafa byggt á þeirri vinnu, þannig að það, sem er kórónan á skipulagningu þeirri, sem núv. ríkisvald er notað til að framkalla, atvinnuleysið, er þegar á næstu grösum.

Ég ræði hér ekki um sviðin, sem að vísu snerta efnahagsmálin, en eru enn nánar tengd menningarmálum þjóðarinnar. En ég býst við, að flestir þm. eða a.m.k. hafi þingflokkarnir fengið þá aðvörun frá Sambandi íslenzkra barnakennara, að þegar sé í hættu uppeldisstarfið í barnaskólum þjóðarinnar og jafnvel fleiri skólum, og þegar er farið að minnka kennslu sums staðar á landinu, af því að efnahagsráðstafanir ríkisstj. hafa bitnað þannig á kennurum, að það fást ekki lengur nægilega margir menn til þess að inna kennslu af hendi í því landi, sem eitt sinn stóð einna fremst í Evrópu um alþýðufræðslu. Ég ætla ekki heldur að fara inn á, hvað þetta þýðir fyrir listamenn og menntamenn okkar. Það er líka búið að sýna nægilega vel fram á, að það, sem einu sinni voru sultarlaun á Alþingi fyrir skáld, á tímum Þorsteins Erlingssonar, 600 krónurnar, það er nú langt fram yfir það, sem nokkurt skáld dreymir um að komast í í dag. En við skulum láta það eiga sig.

Ég býst við, að það sé nokkurn veginn skýrt af því litla, sem ég hef um þetta sagt, að sú skipulagning, sem nú er verið að framkvæma, er skipulagning kreppunnar, skipulagning fátæktarinnar á Íslandi. Og í þágu hverra? Í þágu þeirra auðmanna á Íslandi eða pólitískra valdamanna, sem hafa þann aðgang að bönkunum að geta farið að kaupa upp eignir annarra, þegar þær nú verða boðnar upp, og safnað í sínar hendur því valdi, sem felst í því að ráða atvinnutækjunum í þjóðfélaginu.

Það, sem nú ríkir í þjóðfélaginu, er ekki frelsi, heldur vísvitandi skipulagning kreppu og fátæktar með það fyrir augum að skapa hér alræði nokkurra peningamanna og pólitískra braskara. Spurningin, sem nú liggur fyrir, er, hvort þessari skipulagningu, svona ríkisafskiptum, í þágu þessa fólks, þessa valds, skuli haldið áfram, eða hvort skuli horfið að því ráði, sem ég legg til að sé tekið upp með þessu frv.

Það, sem þetta frv. miðar við, er að sameina þjóðina um stórfellt átak í hennar efnahagsmálum til að skapa stórkostlegar efnahagslegar framfarir á Íslandi, að leggja ákveðna áætlun til grundvallar, sem allar stéttir og allir flokkar þjóðarinnar, allt ríkisvald og allt almannavald í landinu sé sameinað um að hrinda í framkvæmd. Það hafa verið gerðar smátilraunir í þá átt áður hér á Íslandi, og þessar litlu tilraunir, sem aðeins hafa þó verið tilraunir og aðeins fengið að standa skammt, hafa þó sýnt, að með þeim hefur verið hægt að leggja þann grundvöll í þjóðfélaginu, sem enn er staðið á. Þetta frv. miðar að því að skipuleggja slíkt átak hjá þjóðinni, sameina hana til slíkrar stórfelldrar, efnahagslegrar uppbyggingar og efnahagslegra framfara, fullrar atvinnu og skipulagðra atvinnuframkvæmda, í stað þess að skipuleggja fátækt og kreppu.

Þetta frv. og þær framkvæmdir, sem samkv. því yrðu gerðar, ættu að hafa það sem höfuðtilgang að tryggja bætur á lífskjörunum. Það eðlilega, sem hægt væri að skipuleggja í því sambandi á Íslandi, ef rétt væri stjórnað í þágu þjóðarheildarinnar og fjöldans, er kauphækkun eða lífskjarahækkun, með hverju móti sem hún er framkvæmd, sem mundi samsvara frá 3% upp í 8% á ári, og þá náttúrlega án allrar verðbólgu, án allrar rýrnunar á sparifé, án allrar verðbólgu í þjóðfélaginu, þ.e. raunveruleg kauphækkun eða raunveruleg lífskjarabót frá 3–8% á ári. Meira að segja í ýmsum auðvaldslöndum í kringum okkur hefur verið knúin fram lífskjarabót, sem hefur samsvarað upp í um 3% á ári, og samt hefur á þeim tíma sá gróði, sem runnið hefur til auðmannastéttarinnar af framkvæmdunum í þjóðfélaginu, orðið hlutfallslega miklu meiri en þessar lífskjarabætur almennings. Í þeim sósíalistísku þjóðfélögum, sem eru að byggja upp á grundvelli sósíalismans sinn þjóðarbúskap, hefur sú lífskjarabót, sem eins og sakir standa er verið að framkvæma þar, verið frá 6% og jafnvel upp undir 8% á ári. Ég minni, um leið og ég segi þetta, á það, að á síðustu 18 árum á Íslandi höfum við staðið í stað og nú á þessu ári tekið stór skref aftur á bak í þessum efnum, þannig að væri nú hægt að skipuleggja örugga lífskjarabót, sem á ári hverju samsvaraði eitthvað á þessu bili, sem sagt 5 eða 6%, þá mundi það þýða öruggar áframhaldandi lífskjarabætur án allrar verðbólgu, sem mundi fljótt bæta íslenzkri alþýðu upp það, sem hún hefur nú verið að missa, og mundi koma henni upp á hærra sig lífsafkomu en hún hefur verið á á undanförnum árum. Til þess að framkvæma þetta hins vegar þarf átak allrar þjóðarinnar, það þarf heildarstjórn á þjóðarbúskapnum, og það er það, sem er lagt til að framkvæma með þessu frv.

Ég hef rakið nokkuð áður þær tilraunir, sem gerðar hafa verið í þessa átt, og mun ég ekki fara út í það hér nú, og þá baráttu, sem sérstaklega alþýðusamtökin hafa háð fyrir því, að þetta sé gert, og hef minnt á það í fskj. I. þar sem saga þessa máls er nokkuð rakin. En ég vil aðeins hér skjóta einu inn, ef það mætti verða þeim, sem um þetta mál vilja hugsa af alvöru, til nokkurrar glöggvunar á málinu.

Það hefur verið talað um, að fjárfestingin hafi verið mikil á Íslandi á undanförnum árum og samt hafi lífskjör þjóðarinnar ekki batnað. Og það er alveg óhjákvæmilegt að svara þeirri spurningu, hvernig á því stendur, að svo er. Á bls. 6 í fskj. með þessu frv. mínu eru birtar skýrslur, sem svara þessu algerlega. Þar er sýnt fram á, hvernig fjárfestingin á Íslandi er jafnvel allt upp undir 35% af þjóðartekjunum, en neyzlan hins vegar um 70% og þar í kring. Fjárfesting okkar hefur þess vegna verið með mestu fjárfestingu, sem þekkist í Evrópu. Af hverju hefur þessi fjárfesting ekki gefið þjóðinni eins mikið í aðra hönd og hún ætti að gera? Mitt svar er það: Hún hefur ekki gefið það vegna þess, að hún er stjórnlaus, vegna þess, að hún er ekki skipulögð frá sjónarmiði heildarinnar. Við skulum bara taka dæmi, sem flestir þekkja. Segjum, í einu kauptúni er eitt hraðfrystihús, og þetta hraðfrystihús getur verið hvort heldur er í eigu t.d. kaupfélagsins á staðnum eða í eigu einstaks aðila. Ef það er í eigu kaupfélagsins, höfum við hvað eftir annað rekið okkur á það, að vissir einstaklingar segja: Þetta getur ekki gengið, ég verð að fá að koma upp hraðfrystihúsi. — Ef það er í eigu einstaklinga, þá er máske oft beitt þannig völdunum yfir því, að kannske bæði kaupfélagið og jafnvel stundum sjómenn á staðnum segi: Ég vil fá að koma upp sjálfur hraðfrystihúsi. — Og hver hefur afleiðingin orðið af svona togstreitu? Hún hefur orðið sú, að það hefur risið upp annað hraðfrystihús. Hvaða aðilar það eru, sem valda því, skiptir ekki máli í þessu efni. Það, sem skiptir máli í þessu efni, er, að það er efnahagslega séð ópraktískt upp á rekstur, að á einum litlum stað séu máske tvö hraðfrystihús, sem gætu hvort um sig tekið á móti, jafnvel á hávertíð, öllum þeim fiski, sem þar berst á land, eða jafnvel þótt annað hraðfrystihúsið hefði ekki getað það, þá hefði þó verið praktískara að stækka það hraðfrystihús, sem fyrir er. Spurningin, sem þarna var, var um valdið yfir viðkomandi hraðfrystihúsi. Það, sem var nauðsynlegt viðvíkjandi þessum hlutum, var að tryggja, að almenningur, þjóðarheildin, frá sínu sjónarmiði gæti ráðið þessu húsi, en það væri ekki hægt að nota það í neina einokunarþágu. M.ö.o.: vegna stjórnleysis á þjóðarbúskapnum hefur verið fest miklu meira fé en þarna var nauðsynlegt, og vegna þess að menn þorðu ekki að horfast í augu við það, að þjóðnýting í einu eða öðru formi var óhjákvæmileg ráðstöfun á Íslandi til þess að taka upp skynsamlegasta rekstrarformið á þessum sviðum. Það eru ekki bara hraðfrystihúsin, sem þetta á við. Sama dæmið hefur komið fyrir t.d. um fiskimjölsverksmiðjur. Svo hefur verið komið upp slíkum fyrirtækjum, reksturinn á þeim verið ópraktískur, síðan hefur verið komið til verkafólksins og sagt: Ja, fyrirtækin, með sínum rekstri og sínum vöxtum, sem þau verða að borga, og öllu öðru slíku, þau bera ekki þennan rekstur, og verkalýðurinn verður að lækka kaup. — M.ö.o.: verkalýðnum á að blæða fyrir allt stjórnleysið á atvinnulífinu í þjóðfélaginu, og þetta eru hlutir, sem geta ekki gengið.

Verkalýðurinn hefur nú í 18 ár barizt fyrir breytingu á þessu, sýnt fram á, hvernig hægt væri að stjórna þjóðfélaginu skynsamlega. Nú koma valdhafarnir í þjóðfélaginu, sem vilja hindra það, að tillögur verkalýðsins yrðu framkvæmdar, og segja: Verkalýðurinn verður að borga, því að við höfum stjórnað því eins og vitleysingar. — Þetta er nauðsynlegt að þeir menn geri sér ljóst, sem ræða um fjárfestinguna á Íslandi á undanförnum áratug.

Þá er vert líka að minna í því sambandi á annað, og það lagði ég sérstaka áherzlu á í mínu nál. um þetta mál í fyrra, þegar það var afgr. frá fjhn., sem birtist þá á þskj. 513. Ég birti þar tölur um, hvernig fjárfestingin skiptist hjá nágrannaþjóðum okkar. Fjárfestingin er talin skiptast í tvennt: neyzlufjárfestingu, og hún gefur bætt lífskjör í aðra hönd, meiri lífsþægindi, en hún gefur ekki aukna framleiðslu í þjóðfélaginu, — það skiptist sem sé annars vegar í neyzlufjárfestingu og hins vegar í framleiðslufjárfestingu. Hvernig hafa nú þessi hlutföll verið á undanförnum árum, t.d. hjá okkur annars vegar og hjá Dönum og Norðmönnum hins vegar?

Hjá Dönum og Norðmönnum hafa 75%, t.d. á tímabilinu 1950–54, af allri fjárfestingu farið til framleiðslufjárfestingar, en 25% til neyzlufjárfestingar. M.ö.o.: ¼ hjá þessum þjóðum fer í neyzlufjárfestinguna, en ¾ til framleiðslufjárfestingar til þess að bæta þannig lífskjörin.

Hjá okkur eru samsvarandi tölur t.d. 1955 og 1956 þannig, að meiri hlutinn af allri fjárfestingunni fer til neyzlufjárfestingar, 54–56%, en minni hlutinn, eða 44–46%, til framleiðslufjárfestingar.

Þarna kemur í ljós líka afleiðingin af stjórnleysinu í fjárfestingunni. Við, sem fjárfestum einna mest af öllum þjóðum Evrópu, fjárfestum hlutfallslega minna í framleiðslufjárfestingu heldur en okkar nágrannaþjóðir og líklega heldur en nokkur þjóð í Evrópu. M.ö.o.: við, sem fjárfestum einna mest af öllum þjóðum Evrópu, fjárfestum frá framtíðarsjónarmiði þjóðfélagsins vitlausast af öllum. Þetta eru staðreyndir, sem liggja fyrir, — staðreyndir, sem ég lagði hér mjög greinilega fyrir síðasta vetur, þegar þetta frv. var rætt, — staðreyndir, sem enginn af hagfræðingum ríkisstj. hefur treyst sér til þess að hrekja og enginn af fulltrúum ríkisstj. treyst sér til þess að ræða.

Ég vil aðeins leggja áherzlu á þetta, vegna þess að þetta eru ein af þeim rökum, sem undirbyggja þær till., sem ég flyt hér f.h. Alþb. um lausn, um algera lausn, framtíðarlausn, á öllum núverandi efnahagsvandamálum Íslands. Ísland á nægan auð, ef hann er rétt notaður. Ísland og íslenzka þjóðin fær nægar tekjur á hverju ári, ef þeim tekjum er rétt stjórnað. Íslendingar fjárfesta nóg á hverju ári, ef þeir fjárfesta það skynsamlega, ef það er hugsað frá heildarinnar sjónarmiði, hvernig þetta er fjárfest. Og ég vil minna á, að þegar hinu svokallaða einkaframtaki hefur verið sleppt lausu á Íslendinga eins og óargadýri, þá hefur fjárfestingin aldrei verið vitlausari en þá. Ég vil bara minna á, þegar sami einkaframtaksfagnaðarboðskapurinn var fluttur við gengislækkunina 1950 eins og núna við gengislækkunina 1960 og einkaaðilarnir áttu að sýna sína vizku og Framkvæmdabankinn var settur á stofn, til þess að einkaaðilarnir gætu látið blessunina af sér leiða. Hvað var eitt aðalatriðið, sem þá var gert og lagt í af hálfu Framkvæmdabankans? Það var glerhöllin, glerverksmiðjan, sem stendur enn þá sem óbrotgjarn minnisvarði yfir framsýni og hyggni einkaauðvaldsins á Íslandi undir amerískri handleiðslu.

Þess vegna væri það æskilegt, ekki sízt ef einhver á meðal hv. þm. ríkisstjórnarflokkanna, ég tala nú ekki um, ef einhver hæstv. ráðh. hefði eitthvert smá samvizkubit út af því, að það væri að verða kreppa og vaxandi eignamissir og kaupgeturýrnun sem afleiðing af pólitík ríkisstj., og hefði ekki ætlazt til þess, þá vil ég biðja þann viðkomandi að íhuga þessi mál, ræða þessi mál, og í fjhn., sem ég legg til að þetta mál fari til, væri tækifæri til þess, ef það er hægt að koma einhverjum rökum að, fá upp einhverjar viðræður um þessi mál, þannig að menn komi ekki á eftir einu sinni enn þá, eins og menn gerðu eftir gengislækkunina 1950, og segi: Við gengum aldrei út frá, að svona mundi það verða.

Ég álít, að með því frv., sem hér er flutt, ef sameiginlegt átak þjóðarinnar yrði framkvæmt um það, væri verið að vinna í alþjóðarþágu að stórkostlegri breytingu og stórkostlegri uppbyggingu á atvinnulífi landsins og til að tryggja öruggar árlegar lífskjarabætur án allrar verðbólgu, sem þýddi, að kjör íslenzkrar alþýðu færu batnandi ár frá ári. Ég álít velferð íslenzka þjóðfélagsins á næstu árum, hina efnahagslegu velferð þess, undir því komna, að þessi stefna verði upp tekin.

Ef hins vegar ríkisvaldið verður nú notað til niðurrifs í atvinnulífinu í staðinn fyrir til uppbyggingar, notað til árása og rýrnunar á lífsafkomu almennings í staðinn fyrir til lífskjarabóta, notað til eignaráns gagnvart þeim, sem hafa verið að reyna að verða efnahagslega sjálfstæðir í þjóðfélaginu, í staðinn fyrir til þess að auka eignir manna og gera þá bjargálna, þá getur hæstv. ríkisstj. og sú valdaklíka, sem bak við hana stendur og nú ætlar að sópa til sín eignum og tekjum landsmanna eða drjúgum hluta af hvoru tveggja, ekki undrazt það, þó að risið verði upp gegn slíku framferði.

Verkalýðssamtökin hafa beðið mjög róleg og rólegri en jafnvel nokkru sinni fyrr, til þess að allir mættu sjá, hvað leiðir af þeirri stefnu, sem tekin var upp af hæstv. ríkisstj.

Ég vil segja eitt í þessu sambandi. Ef hæstv. ríkisstj. eða einhverjir innan hennar skyldu óttast þetta frv. svo mjög vegna þess, að talað er þarna um áætlunarráð og heildarstjórn á þjóðarbúskapnum, og þeim þyki slíkt smakka of mikið af bolsévisma, þótt eitt sinn hafi annar stjórnarflokkurinn ekki verið neitt hræddur við hann — (Gripið fram í.) Það var Alþfl., og jafnvel Sjálfstfl. hefur komið nærri því líka að smakka eitthvað á slíkum áætlunum og áætlunarbúskap. (Gripið fram í.) Alþfl. hefur haft það á sinni stefnuskrá. Já, hann kvað hafa það á sinni stefnuskrá. En það er nú sitt hvað orð og verk. Það er nú sitt hvað teoría og praksís. En ef hæstv. ríkisstj. skyldi nú óttast meira að segja það, sem hún hefur á sinni eigin stefnuskrá, vegna þess að það smakkar um of af bolsévisma, þá vil ég minna hana á, að hér í einu næsta nágrannalandi okkar, Noregi, er starfandi eitt áætlunarráð og er búið að vera starfandi núna í 15 ár. Hvert einasta ár eru skipulagðar af hálfu ríkisstj. í Noregi og áætlunarráðs hennar þær framkvæmdir, sem gera skal í þjóðfélaginu. Það er nákvæmlega útreiknað, hve miklu þurfi að verja til fjárfestingar í hverjum einstökum lið þjóðarbúskaparins, hvort sem það er t.d. nýbygging skipa, nýbygging verksmiðja eða önnur aukning á því, sem þjóðarbúskapnum er mögulegt. Ég hef nú í 15 ár á hverju ári fengið þetta lagafrv., sem er fyrsta málið, sem lagt er fyrir norska Stórþingið á hverju ári, Stortingsmelding nr. 1, Nationalbudgettet 1961, heitir það, sem mér var að berast nú í fyrradag. Ég hef á hverju ári, sem ég hef flutt þetta frv. hér, sagt frá þessu máli og sagt frá því, hvernig Norðmenn vinna að þessu. Þetta, sem þeir leggja fyrir á hverju ári, sem fjmrn. leggur fram sem heildarstefnu í þjóðarbúskapnum, er þingskjal upp á 64 síður, unnið af sérstakri stofnun, áætlunarráðinu, síðan í samráði við bankana, öll möguleg samtök í landinu, eins og gert er ráð fyrir líka í mínu frv., og tekið alveg nákvæmlega til um, hvað gengið sé út frá að verði næsta ár. T.d. í þessu fyrsta þingskjali norska Stórþingsins stendur, þar sem rætt er um áætlunina fyrir 1961, á bls. 4, með leyfi hæstv. forseta:

„Eftir þeim áætlunum, sem fyrir liggja, mun fjárfestingin að fráreiknuðum birgðum 1960 vera hér um bil 35% af heildarþjóðartekjunum.“

35% reikna þeir, að fjárfestingin hafi verið á þessu yfirstandandi ári, og reikna með að minnka hana ekki á því ári, sem fer í hönd, 35%. Norðmenn leggja sjálfir áherzlu á það í næstu greinunum þarna á eftir, að þeir haldi áfram að vera með hæstu fjárfestingarprósentuna af kapítalistískum löndum Evrópu, og jafnvel eru hin sósíalistísku lönd ekki með hærri fjárfestingarprósentu en þetta. Það þýðir m.ö.o.: Norðmenn eru ekkert hræddir við það, þó að fjárfestingarprósentan geti farið upp í 35%. Þeir álíta ekki, að fjárfestingin sé meinið í þjóðarbúskapnum. En þeir taka að sér að stjórna þeirri fjárfestingu, stjórna henni alveg ákveðið, stjórna henni þannig, að það er lagt fyrir þingið af ríkisstj. sem það mál, sem mest liggur á af öllu, mál, sem bókstaflega fylgir fjárlagafrv., hvernig þjóðarbúskapurinn skuli verða næsta ár.

Ég vil vekja sérstaka athygli á því og hef gert það hér ár eftir ár án þess að geta komið vitinu fyrir þær ríkisstj., sem hér hafa verið starfandi, hver nauðsyn er á að taka upp slíka fasta heildarstjórn á okkar þjóðarbúskap. Satt að segja er það, enn nauðsynlegra fyrir okkur en nokkurn tíma Norðmenn.

Ég skal svo ekki fara nánar út í þetta frv., því að um hin einstöku atriði þess hef ég rætt hér svo oft, að þess á ekki að vera þörf. Ég vil aðeins að lokum taka það fram, að ég álít, að eftir afstöðu hv. þm., sem þeir taka gagnvart þessu frv., ráðist það, hvort þeir vilji leggja hönd að verki til þess að skapa hér á Íslandi framfarir á næstunni eða hvort þeir ætla að horfa upp á, að það sé skipulögð hnignun, — ég segi skipulögð hnignun. Það, sem nú er að gerast í þjóðfélaginu, sú hnignun, sem nú er að fara fram, er ekki afleiðing af hinu svokallaða frelsi, þó að hið svokallaða frelsi í efnahagsmálum gæti ósköp vel skapað slíkt fyrirbrigði. Sú hnignun, sem nú er að fara fram, er afleiðing af beinum aðgerðum ríkisstj., af hennar afskiptum, afskiptum ríkisvaldsins af stjórn á efnahagslífinu. Ég vil taka það fram, að undir því, hvaða afstöðu menn taka til þessa frv., er ekki aðeins komin spurningin um, hvort það verða framfarir eða hnignun á Íslandi á næstunni í okkar efnahagsmálum, heldur líka hitt, hvort það verður stríð eða friður í íslenzku efnahagslífi, hvort það verður gert sameiginlegt átak þjóðarinnar um að skapa framfarir og bæta lífskjörin eða hvort það verður haldið áfram, eins og nú er stefnt, að hagnýta ríkisvald þjóðfélagsins til þess að skipuleggja afturför í efnahagslífinu, skipuleggja kreppu í þjóðfélaginu, skipuleggja efnahagslegt hrun hjá millistéttunum, skipuleggja kaupgeturýrnun og launalækkun hjá verkalýðnum í þágu örfárra peningamanna og pólitískra valdamanna í þjóðfélaginu. Það er um þetta, sem baráttan stendur.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. fjhn.