10.11.1960
Neðri deild: 19. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í C-deild Alþingistíðinda. (2013)

89. mál, lífeyrissjóður togarasjómanna

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það er vissulega rétt, að breyting sú á l. um lífeyrissjóð togarasjómanna, sem þetta frv. felur í sér, er mjög mikilsverð fyrir þann hluta íslenzkra sjómanna, og það segir mjög réttilega í grg. frv., að lögin, með þessari fyrirhuguðu breytingu áorðinni, mundu stuðla enn frekar að því markmiði, sem lögin m.a. stefndu að í upphafi.

Ekki ætla ég að draga úr því, að þetta frv. nái fram að ganga. En hvort sjómenn almennt og samtök þeirra telji, að þetta breytingaratriði eitt geti samrýmzt óskum þeirra um sanngjarnar og nauðsynlegar breytingar á lögunum um lífeyrissjóð togarasjómanna, það læt ég ósagt um á þessu stigi málsins. En í beinu áframhaldi af fram komnum vilja frá samtökum sjómanna í þessu efni leyfi ég mér að benda á það, að varhugavert geti verið að leita eftir samþykkt þingsins á þessari einu breytingu, þegar fyrir liggja eindregin tilmæli frá sjómannasamtökunum um mjög róttækar breytingar á þessum lögum, sem þessi sjómannasamtök telja stórkostlegt hagsmunamál fyrir meginþorra meðlima sinna.

Ég efa ekki góðan hug flm., sem standa að frv. þessu, og þess vegna veit ég, að hv. flm. muni ekki taka mér það illa upp, þótt ég strax við þessa 1. umr. málsins og áður en málið fer til nefndar, rifji upp þá staðreynd, að haustið 1958 var að tilstuðlan Sjómannasambands Íslands flutt frv. hér í Ed. hv. Alþ. um breyt. á l. um lífeyrissjóð togarasjómanna. Meginbreyt., sem fólst í því frv., miðaði að því, að lífeyrissjóðurinn yrði fyrir alla sjómenn, sem skráðir væru á skip, burtséð frá því, hvaða þátt sjómennskunnar þeir stunduðu. Við 1. umr. var frv. vísað til heilbr.- og félmn. Ed., og sendi sú hv. nefnd ýmsum aðilum frv. til umsagnar, og meðal umsagna, sem bárust, var umsögn frá Sjómannafélagi Reykjavíkur, sem mælti eindregið með samþykkt frv., Samband matreiðslu- og framreiðslumanna sömuleiðis, einnig Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, en þó með nokkrum breyt. Þá tók 26. þing Alþýðusambands Íslands afstöðu til málsins og samþykkti einróma eftirfarandi tillögu, með leyfi hæstv. forseta:

„26. þing Alþýðusambands Íslands skorar á Alþingi það, er nú situr, að samþykkja fram komið frumvarp um, að lögum um lífeyrissjóð togarasjómanna verði breytt þannig, að lífeyrissjóðurinn verði fyrir alla sjómenn, sem lögskráðir eru á íslenzk skip, svo og fyrir sjómenn á landróðrabátum.“

Það kom fljótlega í ljós hjá hæstv. n., að það var við ýmsa erfiðleika að etja, og því til sönnunar má benda á umsögn um þetta frv. frá stjórn lífeyrissjóðs togarasjómanna og Tryggingastofnun ríkisins, sem hljóðar á þessa leið, með leyfi forseta:

„Framangreindir aðilar hafa athugað frumvarpið,“ — þ.e.a.s. stjórn lífeyrissjóðsins og Tryggingastofnun ríkisins, — „og á fundi stjórnar lífeyrissjóðsins hinn 21. þ.m.“ — en bréfið er dags. 22. des. 1958, — „var eftirfarandi fært til bókar:

Stjórn lífeyrissjóðsins telur, að áður en lögfest verður, að allir lögskráðir sjómenn verði sjóðfélagar í lífeyrissjóði togarasjómanna, þurfi að fara fram ýtarleg rannsókn, bæði tryggingafræðileg og varðandi ýmis framkvæmdaatriði, hliðstæð þeirri, sem fram fór, er lög þessi voru upphaflega sett varðandi togarasjómenn. Einkanlega á þetta við um bátasjómenn, sem búa við breytileg kjör og eru mjög fjölmennir. Aðalskrifstofa Tryggingastofnunar ríkisins innheimtir iðgjöld vegna togarasjómanna beint frá útgerðarmönnum, enda eru þeir aðeins rúmlega 20 talsins. Mundi litlu breyta í því efni, þótt lögin tækju einnig til farmanna. En verði lögin einnig látin taka til bátasjómanna, verður ekki aðeins mikil fjölgun sjóðfélaga, heldur munu útgerðarmenn, sem ábyrgir eru fyrir greiðslu iðgjalda til sjóðsins, skipta hundruðum um land allt. Yrði þá ekki hjá því komizt, að umboðsmenn önnuðust innheimtuna, og er nauðsynlegt, að athugað verði vandlega, hvernig því innheimtukerfi verður bezt hagað, og mælt fyrir um það í lögunum.

Þá vekjum vér athygli á því, að allir útreikningar, sem gerðir voru við undirbúning laganna, eru byggðir á athugunum á starfstíma og starfsháttum togarasjómanna. Það er vitað, að árlegum starfstíma a.m.k. margra bátasjómanna er mjög á annan veg háttað en togarasjómanna. Hins vegar mun starf farmanna að jafnaði vera nokkuð stöðugt allt árið og í því efni svipa mun meira til togarasjómanna. Verður því að teljast mjög til athugunar, hvort sömu reglur geti átt við um lífeyrissjóð allra sjómanna sameiginlega eða hvort heppilegra væri og eðlilegra, að um einhvers konar deildaskiptingu væri að ræða, og á þetta einkanlega við um bátasjómenn. Hér verður ekki reynt að telja upp tæmandi þau atriði, sem til athugunar ern, en benda má þó á, að kveða þarf á um iðgjaldagreiðslu eigenda skipa, sem sjálfir eru skipverjar, og þeirra, sem reka útgerð í félagi og eru skipverjar án þess að vera ráðnir upp á samningskjör, aðild landmanna við línuveiðar að sjóðnum o.fl.

Það er því álit vort, að nauðsynlegt sé, að framkvæmd verði gagnger endurskoðun á lögunum um lífeyrissjóð togarasjómanna, áður en lögfest verður, að þau taki til allra lögskráðra sjómanna.“

Síðasta umsögnin, sem þessari hv. n., heilbr.- og félmn. Ed., barst um þetta frv., var frá Sjómannasambandi Íslands, sem hafði haft forgöngu um það, að þetta mál yrði flutt í Ed., og ég vil leyfa mér, áður en ég held áfram máli mínu, með leyfi forseta, að lesa þessa umsögn frá Sjómannasambandi Íslands líka:

„Síðan frumvarp til breyt. á lögum um lífeyrissjóð togarasjómanna var flutt, hefur sú breyt. orðið á, að við samninga um kaup og kjör bátasjómanna varð það að samkomulagi, að nefnd manna yrði skipuð til að gera tillögur um lífeyrissjóð fyrir bátasjómenn, svo að hæpið er, að frumvarp það, sem fyrir liggur, geti haldið áfram óbreytt. Hins vegar er mjög aðkallandi, að lögunum um lífeyrissjóð togarasjómanna verði breytt á þann veg, að sjóðurinn verði einnig fyrir farmenn. Í flestum þeim umsögnum, er hv. heilbr.- og félmn. hafa borizt um frv., eru ekki talin nein vandkvæði á, að sjóðurinn taki einnig til farmanna. En svo stendur á, að á s.l. sumri var svo um samið, að lífeyrissjóður fyrir þá skyldi koma til framkvæmda um áramótin síðustu. Aðeins hjá einu skipafélaganna er þetta komið í framkvæmd.“ — Þetta er skrifað 3. febr. 1959. — „Það er eindregin ósk undirmanna á farskipum að fá að vera í lögskipuðum lífeyrissjóði með öðrum sjómönnum, og því treystum vér hv. heilbr.- og félmn. til þess að gera þá breyt. á frumvarpinu, er með þarf, svo að þetta nái fram að ganga, og þá einnig, að aðild farmanna að sjóðnum taki gildi frá 1. janúar síðastliðnum.“

Þetta var umsögn Sjómannasambandsins.

Frá þeim degi, að þessi umsögn barst til hv. heilbr.- og félmn. Ed., virðist sögu þessa máls vera lokið hér í þinginu. En þessi saga er ekki öll þrátt fyrir það. Hæstv. félmrh. setti nefnd manna til að reyna að finna grundvöll, sem byggja mætti á viðunanlega lausn í þessu vandasama og að ýmsu leyti viðkvæma máli. Þessi nefnd, sem hæstv. félmrh, skipaði, var skipuð fulltrúum frá sjómannasamtökunum, útgerðarmönnum og frá Tryggingastofnun ríkisins. Nú er mér kunnugt um, að þessi nefnd klofnaði og skilaði tveimur álitum. Voru fulltrúar sjómannasamtakanna annars vegar með sérálit. Ég get persónulega að mörgu leyti skilið, að það færi svo, enda eru satt að segja ýmis ljón á veginum, sem í fljótu bragði virðist mjög örðugt að yfirvinna, og má þar bæði nefna lagalega og tryggingafræðilega örðugleika, auk beinna hagsmunaatriða og jafnvel líka tilfinningamála í sambandi við þá lífeyrissjóði sjómanna, sem fyrir eru.

Fyrir skömmu var sagt frá því í blöðum hér í bæ, að minni hl. stjórnar Alþýðusambands Íslands hefði lagt fram kröfur, sem var vísað frá þar, en í þessum kröfum var m.a. farið fram á, að komið yrði á almennum lífeyrissjóði fyrir alla launþega.

Með hliðsjón af þessu og einnig vegna þess máls, sem ég hef verið hér að ræða, hef ég leyft mér nú í dag að leggja fram fyrirspurn í Sþ. til hæstv. félmrh. um störf nefndar, sem skipuð var í ágúst frekar en í desember 1958 og átti að framkvæma athugun, sem Alþ. hafði ályktað þann 31. maí 1957 með samþykkt sinni að framkvæmd yrði. En þetta var athugun um stofnun lífeyrissjóðs fyrir sjómenn, verkamenn, bændur, útvegsmenn og aðra þá, sem nytu ekki lífeyristrygginga hjá sérstökum lífeyrissjóðum. Þessi nefnd hlýtur að hafa rekið sig á sömu örðugleikana og nefndin, sem fjallaði um breytingarnar á lífeyrissjóði togarasjómanna, og væntanlega hefur hún lagt fram tillögur til ríkisstjórnarinnar um, hvaða úrbóta yrði þörf, áður en auðið væri að koma slíkum sjóði eða slíkum lífeyrissjóðum á stofn.

Ég hef dregið fram í stórum dráttum gang þessa máls hér á þingi, frá því að áðurnefnt frv. kom fram í Ed., vegna þess að það eru eindregin tilmæli mín til þeirrar hv. nefndar, sem fær þetta mál til meðferðar, eftir að umr. um það er lokið hér, að hún kanni vandlega sögu þessa máls og reyni að leita úrræða, sem geti leyst þennan vandræðahnút, sem málið er komið í nú.

Ég vil svo endurtaka, áður en ég lýk máli mínu, að ég er ekki með þessum orðum mínum að leggjast gegn frv. hv. flutningsmanna, sem er hér til umr. Ég er aðeins að benda á þá staðreynd, að það geti verið varhugavert að gera tiltölulega smávægilega breytingu á lögunum um lífeyrissjóð togarasjómanna, meðan sú meginbreyting, sem ég hef lýst, er ekki komin lengra áleiðis en raun ber vitni um, þrátt fyrir það, að það er eindregin ósk alls þorra starfandi sjómanna.