11.11.1960
Neðri deild: 20. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í C-deild Alþingistíðinda. (2017)

94. mál, landsútsvör

Flm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Helzti tekjustofn sveitarfélaganna til þess að standa undir sameiginlegum þörfum íbúanna í hverju sveitarfélagi, svo sem eins og gatnagerð, vatnsveitum, skólpræsakerfi, skólahaldi, fátækraframfærslu o.s.frv., hafa útsvörin jafnan verið.

Útsvörin hafa vissulega lagzt á með nokkuð misjöfnum hætti, ekki sízt eftir því, hversu miklar hinar sameiginlegu þarfir hafa verið í hinum einstöku sveitarfélögum. Því færri sem sameiginlegu þarfirnar eru, þeim mun lægri eiga útsvörin að öðru jöfnu að geta verið. En þar kemur einnig fleira til sem gert getur mismun á því, hversu útsvörin leggjast þungt á einstaklingana í hverju einstöku sveitarfélagi. Útsvörin eru jafnan einkanlega tvenns konar, þ.e.a.s. útsvör á fyrirtæki, annaðhvort veltuútsvör eða útsvör á ágóða fyrirtækja, og í öðru lagi útsvör, sem leggjast á tekjur einstaklinganna. Það gefur auga leið, að eftir því sem stærri hluti útsvarsupphæðarinnar er fáanlegur með útsvari á fyrirtæki, þeim mun léttara geta einstaklingarnir komizt út af útsvörum á sínar persónulegu tekjur. Það er geysimikill munur á því, hver aðstaða hinna einstöku sveitarfélaga er til þess að ná útsvari af fyrirtækjum, og fer það ekki allajafna eingöngu eftir því, hversu mikil viðskipti eru í hverju sveitarfélagi, heldur stendur stundum svo á, að allt annað sveitarfélag hefur aðstöðu til þess að ná útsvari af þeirri verzlun, sem einstaklingar í einu sveitarfélagi raunverulega framkvæma.

Það kom líka greinilega í ljós á s.l. vetri, þegar lögfest var fyrir frumkvæði ríkisstj. sérstakt lagafrv. um útsvör, að þar varð að gera ráð fyrir slíkri mismunun á álagningu á einstaklinga, að þrenns konar útsvarsstigar voru þar lögleiddir: einn, sem skyldi gilda fyrir þá íbúa, sem búa í kaupstöðum utan Reykjavíkur, og var sá langhæstur, annar, sem skyldi gilda fyrir íbúa í sveitum landsins og þorpum, og var sá nokkru lægri, og sá þriðji, sem skyldi gilda fyrir íbúa Reykjavíkur, og var sá langlægstur. Þar hafði sem sagt, áður en kom til þess, að meta þyrfti, hversu stóran hluta af tekjum einstaklinganna þyrfti að gera upptækan í útsvar, verið séð fyrir því, að þetta stærsta sveitarfélag landsins ætti þess kost að ná svo stórum fjárfúlgum í útsvör af fyrirtækjum, að hægt var að hafa útsvarsstigann á íbúum þess sveitarfélags, þ.e. Reykjavíkur, lægri en útsvarsstiga allra annarra.

Í framkvæmd má vera, að þetta hafi farið á ýmsa lund, þar sem sveitarfélögin eru ekki lögum samkvæmt bundin til þess að fara nákvæmlega eftir hinum lögleidda stiga, enda þótt til þess sé ætlazt og enda þótt svo hljóti að fara, þegar árin líða, og allt hnígur að því, að hinn lögleiddi útsvarsstigi verði mestu ráðandi um upphæð útsvaranna á hverjum stað.

Því verður ekki móti mælt, enda kemur það glögglega fram í þeim lögum, sem ég hef hér vitnað til, að aðstaða eins sveitarfélags í landinu er öll önnur og miklu betri en allra hinna til þess að ná útsvari af fyrirtækjum. Nú væri að sjálfsögðu ekkert við þessu að segja, ef hér væri raunverulega um þau fyrirtæki að ræða, sem heyrðu til í einu og öllu höfuðborg landsins, ef hér væri um að ræða eingöngu sköttun á þeim viðskiptum, sem Reykvíkingar raunverulega eiga og ekki aðrir. En því er nú svo farið, að Reykjavík hefur samkvæmt lögum og samkvæmt allri sinni aðstöðu möguleika umfram alla aðra og möguleika, sem eru ósanngjarnir gagnvart öðrum sveitarfélögum landsins. Það má vel vera, að Reykjavík veiti ekkert af öllum þeim útsvarsstofnum, sem hún hefur. En um það verður ekki deilt, að það er óréttlátt gagnvart öðrum sveitarfélögum, að Reykjavík skuli t.d. ein allra sveitarfélaga landsins hafa möguleika á því að skattleggja fyrirtæki eins og t.d. Tóbakseinkasölu ríkisins. Tóbakseinkasala ríkisins er fyrirtæki, sem skiptir við alla landsmenn, öll tóbakskaup í landinu fara í gegnum þetta fyrirtæki, og þar af leiðandi er augljóst, að það er aðeins minni hlutinn af þeim viðskiptum, sem eru viðskipti við Reykvíkinga sjálfa, enda þótt Reykjavík ein allra sveitarfélaga hafi möguleika til þess að gera þessa verzlun að sínum útsvarsstofni, en það hefur Reykjavík samkvæmt sérstökum lögum um aukaútsvar ríkisstofnana. Sama máli gegnir um áfengiseinkasölu ríkisins að öðru leyti en því, að örlítið brot af því útsvari, sem hún greiðir, fer til þeirra fáu staða á landinu utan Reykjavíkur, þar sem áfengisútsala er. En eins og allir vita, eru viðskipti þessa fyrirtækis ekki bundin við íbúa þeirra staða einna, þar sem fyrirtækið hefur útsölu eða skrifstofu, heldur er þetta verzlun við alla landsmenn. Á sama hátt hefur Reykjavík möguleika til þess að gera að sínum tekjustofni tekjur eða veltu fyrirtækja, sem eru sameign svo að segja allra landsmanna eða manna hvaðanæva að af landinu, eins og til dæmis að taka sambönd eins og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Samband ísl. samvinnufélaga og fleiri slík fyrirtæki, sem að vísu hafa aðalskrifstofu sína eða aðsetur sambands síns hér í Reykjavík, en verzlunin eða viðskiptin, sem þau reka, eru ekki viðskipti, sem tilheyra Reykjavík frekar en öðrum landsmönnum, og í sumum tilfellum má segja, að síður sé en svo.

Það frv., sem hér er flutt, gerir ráð fyrir því, að þetta misræmi í aðstöðu sveitarfélaganna verði í aðalatriðum jafnað með því, að tekin verði upp álagning landsútsvara á fyrirtæki, sem reka viðskipti við landsmenn í heild, og renni þau útsvör í jöfnunarsjóð sveitarfélaga, og skiptist heildarupphæð þeirra á milli sveitarfélaganna í réttu hlutfalli við íbúatölu þeirra hvers um sig. Þau fyrirtæki, sem lagt er til að greiði landsútsvar, eru fyrst og fremst stofnanir, sem eru reknar í þjónustu landsmanna allra eða manna hvarvetna á landinu, svo sem skipafélög, heildsölufyrirtæki, útflutningssamtök, tryggingafélög, verzlunarstofnanir ríkisins og þau önnur fyrirtæki, sem ráðuneytið úrskurðaði hverju sinni, að samkv. eðli málsins ættu að falla undir landsútsvör, að samþykktu því frv., sem hér liggur fyrir.

Það er gert ráð fyrir því, að niðurjöfnun þessara útsvara færi fram á vegum nefndar, sem Samband ísl. sveitarfélaga skipaði, og síðan er gert ráð fyrir því, að landsútsvarið ætti að leggjast á eftir þeim lögum, sem þar um gilda, gagnvart fyrirtækjum í Reykjavík á hverjum tíma.

Þá er gert ráð fyrir því, að þau fyrirtæki, sem lagt væri á landsútsvar, ættu þess kost að kæra útsvarsálagninguna eins og aðrir útsvarsgjaldendur, fyrst til þeirrar nefndar, sem jafnaði útsvörunum niður, en síðan, ef þau vildu ekki sætta sig við hennar úrskurð, þá ættu þeir útsvarsgreiðendur málskotsrétt til ríkisskattanefndar.

Þá gerir frv. ráð fyrir því, að landsútsvörin ættu að innheimtast á vegum félmrn., en það ráðuneyti hefur yfirstjórn þeirra mála, sem sveitarfélögunum eru sameiginleg, og má þá gera ráð fyrir því, að það ráðuneyti mundi fela innheimtuna einhverri ákveðinni stofnun, eins og t.d. jöfnunarsjóði sveitarfélaganna, og væri það ekki óeðlilegt.

Þá kveður þetta lagafrv. svo á, að þau fyrirtæki, sem gjaldskyld væru talin um landsútsvar, skyldu að sjálfsögðu vera undanþegin því að þurfa jafnframt að borga sveitarútsvör.

Og að lokum gerir lagafrv. þetta ráð fyrir því, að um leið og frv. tæki gildi sem lög, væru úr gildi felld lögin um sérstakt aukaútsvar ríkisstofnana, þ.e.a.s. þau lög, sem ákveða það, að ríkisstofnanir eigi að gjalda 5% af hreinum ágóða sínum til þeirra sveitarfélaga, þar sem þau hafa aðsetur, sem í framkvæmd er svo að segja eingöngu að gjalda 5% af ágóða sínum til Reykjavíkur. En sá einn tekjustofn nemur nú sjálfsagt fram undir 14 millj., og er það allmiklu hærri upphæð en öll útsvörin t.d. í Vestmannaeyjum nema árlega.

Frv. er, svo sem ég hef áður tekið fram, flutt í þeim tilgangi að jafna þann aðstöðumun, sem nú er hjá hinum einstöku sveitarfélögum til þess að geta náð réttlátlega útsvari af verzlun sinna þegna, og vænti ég þess, að þetta frv., ef að lögum yrði, bætti þar algerlega um og jafnaði þessa aðstöðu. Væntum við flm. þess að fá við jafnaugljóst réttlætismál og þetta er stuðning allra þeirra alþm., sem vilja líta af réttsýni á, hvernig þessum málum er eðlilegast fyrir komið.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að þessu frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til heilbr: og félmn.