29.11.1960
Neðri deild: 30. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í C-deild Alþingistíðinda. (2026)

102. mál, sömu laun kvenna og karla

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem ég nú flyt ásamt 5 þm. Alþb., er þess efnis, að löggjafinn viðurkenni fullt launajafnrétti kvenna og karla. Í grg. er frá því skýrt, hvernig flutningi þessa frv. hefur áður verið hagað, í þau þrjú skipti, sem það hefur áður verið borið fram á Alþingi, allt frá því að það var fyrst flutt árið 1948. Í grg. er á það bent, að Ísland hefur, bæði með aðild sinni að Sameinuðu þjóðunum og aðild sinni að Alþjóðavinnumálastofnuninni, skuldbundið sig til þess að vinna að launajafnrétti kvenna og karla. Þar er einnig frá því skýrt, að Alþjóðasamband frjálsra verkalýðsfélaga, sem Alþýðusamband Íslands er aðili að, hafi lagt fyrir öll meðlimasambönd sín að berjast ötullega fyrir því, hvert í sínu landi, að sama kaup verði greitt konum sem körlum.

Málinu var vissulega dauflega tekið, þegar það var fyrst flutt á Alþingi fyrir 12 árum, en síðan hefur því aukizt fylgi með ári hverju.

Það eru ekki nema nokkrir áratugir, síðan það var algild regla hér á landi, að konur skyldu hafa um það bil hálft kaup á móti körlum, jafnvel þótt þær gengju að nákvæmlega sama verki og karlmenn, t.d. bæru fiskbörur við fiskvinnu móti karlmanni. Nú er það hins vegar orðin lögfest meginregla, að allar konur, sem eru opinberir starfsmenn, skuli hafa sömu laun og karlar. Aðeins skortir nokkuð á enn þá um, að þetta sé alls staðar komið í framkvæmd. En ekki efa ég, að það hlýtur að komu innan skamms tíma, enda er í 2. gr. þessa frv. ákvæði, sem ætti að gera ókleift að sniðganga ákvæði gildandi laga, þ.e.a.s. ákvæðið um færslu milli launaflokka, þegar konur eiga í hlut. En það er einmitt í sambandi við það, sem launajafnrétti kvenna er ekki enn þá komið í framkvæmd.

Þegar ég flutti þetta mál á þinginu 1954 og þá nákvæmlega samhljóða þessu frv., voru meðflm. mínir að því hæstv. núv. sjútvmrh., Emil Jónsson, hæstv. núv. menntmrh., Gylfi Þ. Gíslason, og hv. 10. þm. Reykv., Eggert Þorsteinsson. Hef ég enga ástæðu til þess að ætla, að þeir hafi skipt um skoðun í þessu máli á þeim 6 árum, sem síðan eru liðin, og tel ég slíkan stuðning hæstv. ráðherra og áhrifamikils þm. úr röðum stjórnarliðsins mjög þýðingarmikinn fyrir framgang málsins.

Enn er þess að geta, að á þinginu 1954 fluttu einir 6 þm. Sjálfstfl., — ef ég man rétt, var núv. hæstv. fjmrh., Gunnar Thoroddsen, meðal þeirra, — þáltill., þar sem skorað var á ríkisstj. að beita sér fyrir fullgildingu alþjóðasamþykktarinnar um jöfn laun kvenna og karla af hendi Íslands. Var því haldið fram, að þegar jafnlaunasamþykktin væri þannig orðin viðurkennd af Íslandi og prinsipið um sömu laun kvenna og karla viðurkennt, þá yrði auðvelt og næsta sjálfgert að koma á algeru launajafnrétti kvenna og karla eftir það. Þannig er ekki annað vitað en málið eigi vísan stuðning eins af núv. ráðherrum Sjálfstfl. og að hópur manna í þingliði þess flokks sé málinu einnig fylgjandi.

Nú hefur það einmitt gerzt, að Ísland hefur fullgilt alþjóðasamþykktina um jöfn laun kvenna og karla, og íslenzk verkalýðshreyfing hefur lýst því yfir hvað eftir annað, að launajafnréttismálið sé hér eftir ekkert sérmál kvenna, heldur sé það almennt jafnréttis- og mannréttindamál, sem varði verkalýðshreyfinguna alla, og hafi hún gert þetta mál að sínu sameiginlega baráttumáli.

Smátt og smátt hefur verkalýðsfélögunum tekizt að minnka kaupmismuninn milli kvenna og karla, þótt allt of hægt miði í þá áttina. Nú er almennt kvennakaup 78.08% af karlmannskaupi, þegar miðað er við kaup þeirra í almennri verkamannavinnu, en nálægt ¼ hluti af vinnu kvenna í fiskiðnaðinum er nú þegar goldinn með karlmannskaupi. Á liðnu sumri var samið um, að greiða skyldi karlmannskaup við alla síldarvinnu norðanlands, sem enn þá væri framkvæmd í tímavinnu. Þá hefur, svo sem kunnugt er, öll ákvæðisvinna við fiskþvott og síldarsöltun lengi verið greidd eftir afköstum einum, en alls ekki með tilliti til þess, hvort vinnan væri framkvæmd af karli eða konu. Og nú er krafa verkakvennafélaganna í landinu sú, að almennt kvennakaup verði ekki lægra en 90% af kaupi karla og jafnframt verði fjölgað nokkuð þeim vinnuflokkum, sem karlmannskaup er nú greitt fyrir.

Með þessum kröfum er sýnt, að verkalýðssamtökin hafi ákveðið að afmá launamisrétti kvenna í tveimur lokaáföngum: koma kvennakaupinu nú úr 80 eða um það bil í 90% af kaupi karla í næstu samningum og síðan úr 90% í 100%. Það er því hjáróma rödd og á eftir tímanum, sem vart verður við í öðru frv., sem flutt er nú á þessu þingi, þar sem gert er ráð fyrir að byrja fyrst á árinu 1962 að minnka bilið milli kvenna- og karlakaupsins og taka síðan einn sjötta af kaupmismuninum á ári hverju úr því, þar til hann sé horfinn á árinu 1967. Þetta munu konurnar áreiðanlega tákna með orðunum: Of seint og of lítið. — Einmitt nú er þetta að mínu áliti eins og eins konar hnífstunga í bak kvennasamtakanna.

Ég tel rétt að láta þess getið hér, að ein þeirra krafna, sem danska alþýðusambandið ber nú fram, er algert launajafnrétti kvenna og karla.

Ég treysti á, að þeir hæstv. ráðherrar, sem áður hafa flutt frv. shlj. þessu, og þeir aðrir þm. og ráðherrar, sem auk þess hafa lýst stuðningi við málið, þegar búið væri að fullgilda fyrir Íslands hönd alþjóðasamþykktina um sömu laun kvenna og karla, tryggi frv. þessu sigur og það hljóti örugga afgreiðslu og fljóta á þessu þingi. Um stuðning stjórnarandstöðunnar við málið leyfi ég mér að efast ekki á nokkurn hátt.

Málið er nú komið á slíkt lokastig, bæði hér á landi og í nágrannalöndum okkar, að sjálfsagt virðist, að löggjafinn fylgist með þróun tímans og lögfesti launajafnrétti kvenna og karla. Það mundi vissulega verða Íslandi fremur til sóma á alþjóðavettvangi.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.