12.12.1960
Neðri deild: 35. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í C-deild Alþingistíðinda. (2036)

122. mál, varðskip landsins

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 168 að flytja frv. til laga um breyt. á lögum nr. 32 9. jan. 1935, um varðskip landsins og skipverja á þeim. Sú breyting eða sú viðbót, sem í frv. þessu felst, er á þá leið, að þeir löggæzlumenn, sem stunda löggæzlustörf fyrir íslenzka ríkið á sjó, varðskipsmenn, fái sömu áhættuþóknun og löggæzlumenn, sem í landi starfa. Það er tekið fram í grg., að nú um nokkurt árabil hafi löggæzlumenn, sem í landi starfa, notið sérstakrar viðurkenningar á hættum þeim, sem eru starfi þeirra samfara, en hópur löggæzlumanna, sem vinnur störf sín á sjó úti, hefur ekki notið þessarar viðurkenningar. Með þessu frv., ef samþ. verður, er leitazt við að bæta úr þessu misræmi.

Það er enginn vafi á, að fáir munu draga í efa, að skipverjar á varðskipunum búi við sízt minni hættur í sínu starfi en þeir, sem vinna löggæzlustörf í landi, og það má vissulega benda á mörg dæmi því til stuðnings. Það má benda á það, að starf sitt þurfa þeir að stunda í baráttu við óblíð náttúruöfl, og þessi barátta þeirra nær jafnvel fram yfir eða út yfir aðra sjómenn okkar, því að þeirra starf hefur ekki sízt haft þýðingu í sambandi við björgun á sjó, en þá þurfa þeir að vera til taks til starfa, þegar önnur skip geta leitað vars eða til hafna vegna veðurs. Það má líka benda á þær sífelldu hættur, sem vofa yfir, þegar þeir þurfa að vera í sínum löggæzlustörfum, þurfa að fara á milli skipa, oft og tíðum í misjöfnu veðri í litlum bátum. Þeir þurfa að gegna störfum sínum um borð í erlendum skipum, þar sem oft er um að ræða óvinsamlegar og jafnvel beint fjandsamlegar skipshafnir, sem þeir þurfa að fara með, ásamt skipi þeirra, til hafnar. Samkvæmt l., sem gilda um þessa skipverja eða um varðskip ríkisins, sem ég minntist á áðan, eru þeir bundnir kaupi sjómanna á verzlunarskipum, sem eru í strandsiglingum, og þeir mega ekki taka þátt í neins konar kaupdeilu. Ég minnist á það í grg. með frv., að einmitt þetta atriði geti og hafi skapað misræmi á milli þessa starfshóps og þeirra, sem þeirra kaup jafnvel miðast við, og einnig á milli þessara löggæzlumanna og annarra löggæzlumanna, einmitt á þann veg, að skipverjar varðskipanna verða að taka á sig flestar skyldur opinberra starfsmanna, en hafa fengið lítið af réttindum þeirra.

Með þessu frv. er, eins og ég sagði í byrjun máls míns, ef að lögum verður, ætlunin að setja þessa starfsmenn landhelgisgæzlunnar að sama borði og aðra löggæzlumenn, sem stunda áhættusöm störf og fá greidda áhættuþóknun fyrir. Ég vil leyfa mér að stinga upp á því, að þegar umræðu er lokið, verði málinu vísað til hv. fjhn.