12.12.1960
Neðri deild: 35. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í C-deild Alþingistíðinda. (2039)

129. mál, sjúkrahúsalög

Flm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Þetta frv. til breyt. á l. um sjúkrahús er flutt af okkur fjórum þm. Suðurlandskjördæmis í þessari deild.

Í þessu frv. felst það, ef að lögum verður, að þá fær sjúkrahús Vestmannaeyja sömu fyrirgreiðslu af hálfu ríkissjóðs, bæði um stofnkostnað og rekstrarstyrk, sem fjórðungssjúkrahúsum er ætluð í lögum.

Í Vestmannaeyjum ríkir mikill áhugi fyrir því, að byggt verði sem fyrst nýtt og hið fullkomnasta sjúkrahús, með öllum hinum bezta og nýtízkulegasta aðbúnaði. Sjúkrahús það, sem Vestmanneyingar og aðrir, sem þangað koma og þurfa á sjúkrahjálp að halda, hafa búið við, er yfir 30 ára gamalt, byggt á sínum tíma af hinum mesta myndarskap, en talið nú mjög úr sér gengið og ófullnægjandi á ýmsa lund.

Svo sem kunnugt er og ekki þarf að rekja, hefur læknavísindum fleygt mjög fram á síðustu áratugum og kröfur til læknis- og sjúkrahjálpar síaukizt. Og það er eðlilegt, að fólkið sætti sig ekki við í þessum efnum nema það bezta. Og víða er sjálfsagt þessum málum vel fyrir komið. En þó er það vitað, að margt er eftir enn, sem kallar á, og þetta eru ákaflega fjárfrekar framkvæmdir, og það má sjá það í fjárlögum og í frv. til fjárlaga, sem hér hefur legið fyrir og liggur fyrir, að af hálfu ríkissjóðs er mörg skuldin enn ógoldin, og hefur þó ríkissjóður mjög á sig lagt, því verður ekki neitað. En hitt er svo annað mál, að það þarf að búa betur að þessum málum og koma t.d. þeim sjúkrahúsum, sem nú eru í hálfu kafi, upp og til fullkomins vegs. Þetta kostar mikið fé, en við verðum að hafa auga fyrir því, að þessar þarfir fólksins þurfum við alveg sérstaklega að taka til greina og reyna að uppfylla með öllum þeim hætti, sem auðið er á hverjum tíma. Í Vestmannaeyjum er það þannig, að að sjálfsögðu mun fólkið þar ekki sætta sig við annað en það, sem bezt og fullkomnast má telja annars staðar. Og það er ekki aðeins gert fyrir almenning, heldur líka þá, sem starfa við sjúkrahúsin, að búa sem bezt að, og því aðeins getum við vænzt þess að fá nýta og góða lækna að sjúkrahúsum, sem og í önnur læknisstörf, að sem bezt sé að búið, bæði þeim, hjúkrunarliði og öðru starfsfólki. En ef í þessum efnum er öllu vel til skila haldið, þá er það auðsætt, sem er í raun og veru og að sjálfsögðu aðalatriðið, að hagsmunum sjúklinganna verður þá bezt borgið. Allt er þetta mjög auðsætt.

Vestmannaeyjar hafa verið mjög afskiptar, svo sem allir vita, bæði sakir legu sinnar og afstöðu til annarra byggðarlaga, og einangrunin því verið hlutskipti þess fólks, sem þar býr, þó að hún hafi verið rofin að nokkru og í ýmsu reynt að bæta úr eftir föngum. En þrátt fyrir greiðari samgöngur er fullljóst, að bæjarfélagið verður í sjúkrahúsmálum sem mörgum öðrum málum, en þó fyrst og fremst í þeim málum að búa sem bezt og mest að sínu, svo sem verið hefur, og hér er auðsæilega um algera sérstöðu að ræða. Það er auðsætt, að hvorki sjúkrahúsið á Selfossi, sem væntanlega verður fjórðungssjúkrahús, né sjúkrahúsin í Reykjavík koma að haldi Vestmanneyingum nema að mjög takmörkuðu leyti. Íbúatala í Eyjum er um 4700. Á vetrarvertíð sækir fjöldi manna að til starfa þar, sennilega hátt á annað þúsund manns á hverri vetrarvertíð og kannske meira, enn fremur kemur þar fjöldi skipa að með hundruð manna innanborðs, sem þurfa að leita hvers konar þjónustu og þar á meðal sjúkrahjálpar.

Þá má geta þess, sem á að vera alkunna, að bæjarbúar, Vestmanneyingar, vinna að meginhluta í þágu sjávarútvegsins, og þau störf; sem þeir þannig vinna að, eru að sjálfsögðu hin áhættusömustu. Og þá sakar ekki að geta þess, að verulegur hluti af útflutningsverðmætum þjóðarinnar mun koma úr Eyjum. Sumir hafa talið, að það væri um 20%. Ekki kann ég full skil á því né veit, hvort rétt er, en það væri ekki ólíklega til getið. Einnig í þessu efni eiga Vestmanneyingar því nokkra sérstöðu. Þennan aðstöðumun bæjarbúa á ýmsa lund og þá ekki sízt í sjúkrahúsmálunum ber þjóðfélaginu að jafna sem mest má verða. Og því er ekki aðeins rétt, heldur einnig skylt að koma hér til móts við eðlilegar óskir.

Svo hljóðandi ályktun hefur bæjarstjórn Vestmannaeyja fyrir nokkru samþykkt: „Bæjarstjórnin beinir áskorun til þingmanna Suðurlandskjördæmis um að flytja frv. á komandi þingi um fjárframlag til sjúkrahúsbyggingar í Vestmannaeyjum, og njóti sjúkrahúsið hliðstæðrar fyrirgreiðslu um fjárframlög og réttindi eins og fjórðungssjúkrahús hafa notið eða kunna að njóta.“

Þessari hóflegu ákvörðun af hálfu bæjarstjórnar Vestmannaeyja hafa svo fylgt athafnir, svo sem búast mátti við af hálfu Vestmanneyinga. Þeir munu hafa safnað verulegu fjármagni til byggingar nýs sjúkrahúss, og mér er tjáð, að fjármagnið muni vera, sem þeir hafa handbært í sjóði um næstu áramót, nærfellt 1 millj. kr. Þannig er það auðsætt, að hugur fylgir máli af hálfu bæjarbúa um þetta mál, enda verður ekki um það villzt, að bæði er hér mikið í húfi og mikils um vert, að vel og fljótt tiltakist.

Það er von okkar flm., að þessu frv. verði vel tekið hér í hv. Alþ. og að allt verði gert til þess að koma hér til móts við óskir Vestmanneyinga í þessu efni.

Ég vil svo óska þess, að málinu verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. og heilbr.- og félmn.