07.12.1960
Sameinað þing: 22. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í B-deild Alþingistíðinda. (205)

1. mál, fjárlög 1961

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Í fjárlagafrv. er á 17. gr. kostnaður vegna framkvæmdar orlofslaga áætlaðar 500 þús. kr., og er það 125 þús. kr. lægra en á núverandi fjárl. Í aths. við frv. segir, að lækkun þessi sé vegna þess, að í undirbúningi sé frv. um að breyta lögum um orlof í þá átt, að hætt verði að greiða orlof með orlofsmerkjum. Af þessu tilefni hef ég leyft mér, ásamt þrem öðrum þm., að flytja á þskj. 184 brtt. um að hækka þessa fjárveitingu úr 500 þús. í 625 þús. eða það sama og nú er.

Ég veit ekki, hvort menn gera sér almennt ljóst, hvað er hér á ferðinni: Hér er verið að breyta orlofslögunum eða boða breytingu á orlofslögunum, en tilgangur orlofslaganna er í fyrsta lagi sá að ákveða mönnum ákveðið sumarleyfi og í öðru lagi að sjá svo um, að fyrir hendi sé orlofsfé, þegar að sumarleyfinu kemur. Þetta gerist með tvennu móti. Menn í föstum störfum, á föstum launum, halda launum sínum óskertum orlofstímann. Hinir fá greitt með orlofsmerkjum og leysa síðan orlofsféð út, þegar að sumarleyfinu kemur.

Með því nú að fella niður orlofsmerkin, eins og boðað er, þá má segja, að þetta fólk sé raunverulega svipt orlofsfénu, og þá geta sennilega flestir gert sér í hugarlund, hve miklir möguleikar þessa fólks eru til þess að nota sér sumarleyfið, þegar orlofsfé er ekki fyrir hendi, því að með þessu móti verður það aðeins eyðslueyrir, borgað út með kaupi jafnóðum, og því eyðslueyrir, en ekki geymslufé til orlofstímans. Með þessu er tilgangur orlofslaganna stórkostlega skertur.

Það var flutt frv. þessa efnis hér í Alþingi í ársbyrjun 1959. Í grg, fyrir því frv. var sagt, að sá háttur að greiða orlofið út með kaupi hefði mikið farið í vöxt. Nokkuð er til í þessu. En ég hygg þó, að einmitt síðan þá hafi þetta þó frekar færzt í hina áttina aftur, að meira hafi verið greitt í orlofsmerkjum. Fyrir utan það, að með þessu er orlofsféð gert að eyðslueyri, þá er hættan á því, að menn glati orlofsfé, miklu meiri. Og ég vil benda á, að núna á síðustu tveim árum hefur það t.d. komið fyrir hér í Reykjavík, að fyrirtæki, sem hafa haft þann hátt á að greiða ekki í orlofsmerkjum, fyrirtæki, sem hafa haft allar skyldur til þess, en geymt þó orlofsféð, þannig að menn áttu að fá það greitt síðar, þessi fyrirtæki urðu gjaldþrota, og þetta var um leið glatað fé fyrir þá, sem áttu það inní.

Ég held, að það væri miklu frekar, eins og öll mál horfa núna, skylda ríkisstj. að herða á því, að farið væri eftir orlofslögunum með því að greiða í orlofsmerkjum, en hitt að afnema þessa skyldu.

Þegar frv. þetta kom fram í ársbyrjun 1959, mætti það mjög eindregnum mótmælum allrar verkalýðshreyfingarinnar, og þar greindust menn ekki neitt í afstöðu sinni til þessa eftir pólitískum skoðunum. Þar voru allir á einu máli. Þetta frv. dagaði uppi þá, og ég verð að segja, að það má alveg furðulegt heita, að hæstv. ríkisstj. skuli nú hreyfa þessu máli á ný án þess að gera minnstu tilraun til þess að hafa um það samráð við verkalýðshreyfinguna á einn eða neinn hátt, þar sem hún þó vissi, hver afstaða hennar er til málsins.

Það má vel vera, að kostnaður við framkvæmd orlofslaganna sé að einhverju .leyti óhæfilega mikill eða óþarflega mikill. Um það vil ég ekkert fullyrða. En hitt vildi ég fullyrða, að verkalýðshreyfingin er áreiðanlega reiðubúin til að athuga alla möguleika, sem þar gætu orðið til sparnaðar, — en aðeins sparnaðar, sem ekki leiðir til neinnar skerðingar á þeim mikilvægu réttindum, sem verkafólki eru tryggð eða eiga að vera tryggð með orlofslögunum.

Ég vil því biðja þm. mjög alvarlega að athuga, hvað hér er á ferðinni. Þetta er ekkert smáatriði. Þetta er ekkert stór upphæð og hreinn hégómi í þeim miklu upphæðum, sem nú eru á fjárlagafrv. En hér er um að ræða að skerða verulega réttindi og möguleika fólks, þess fólks, sem sízt mætti við því, til þess að geta notað sér orlofsréttindin á viðeigandi hátt.

Ég vil því undirstrika það, að menn athugi gaumgæfilega, hvað hér er á ferðinni, og ég vonast til þess, að menn sjái sér fært að samþ. þessa brtt:, og teldi eðlilegast og heppilegast fyrir málið á allan hátt, að hæstv. ríkisstj. sæi sig um hönd í þessu efni, og ef möguleikar eru þarna til sparnaðar, að það yrði þá gert í samráði við verkalýðshreyfinguna. Og þó að þessi auralækkun standi ekki í fjárl. sjálfum, þá yrði það ekkert siður sparaður eyrir fyrir hæstv. ríkisstj., ef möguleiki er til sparnaðar.

Ég vildi þess vegna sérstaklega vonast eftir því, að hið boðaða frv. sjái ekki dagsins ljós, og ég ætla a.m.k. þangað til að geyma mér öll stóryrði, sem annars væru ákaflega nauðsynleg, og alvöruorð, sem þyrfti annars að segja um þetta mál.