03.02.1961
Neðri deild: 55. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í C-deild Alþingistíðinda. (2050)

144. mál, áfengislög

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Nú á síðari árum hefur verið fremur hljótt um áfengismál hér í sölum hv. Alþingis. Má segja, að síðan 1947 hafi nær engar umræður farið hér fram um framleiðslu þess og sölu hér á landi. Sú var þó tíðin, að það mál var mikið hita- og baráttumál, bæði úti á meðal þjóðarinnar og hér á hv. Alþingi. Sú barátta endaði að lokum með samþykkt hinna svokölluðu bannlaga, sem stefndu að því að útrýma innflutningi, framleiðslu og neyzlu áfengra drykkja í landinu. Bannlögin töldu bindindismenn og aðrir andstæðingar vínneyzlunnar mikinn sigur og gerðu sér vonir um, að með þeim væri opnuð leið til útrýmingar áfengisneyzlunni og því mikla þjóðfélagsböli, sem svo mjög fylgir henni í svo mörgum myndum.

Bannlögin voru vitanlega frá upphafi gölluð, og andstæðingar þeirra lögðu ekki heldur árar í bát, heldur hömuðust gegn þeim á hvern þann hátt, sem tiltækilegt var og þeim þótti fært, og því er ekki að leyna, að það hefur margur talið, að óbeinan stuðning hafi þessir aðilar fengið í of mörgum tilfellum með áhuga- og afskiptaleysi þeirra, sem gæta áttu laga og sjá um, að þau væru í heiðri höfð.

Síðar barst andstæðingum áfengisbannsins kærkominn liðsauki, þegar Spánverjar kröfðust innflutnings á vínframleiðslu þeirra og hótuðu ella að hætta að kaupa af okkur saltfisk, sem þá var okkar stærsta útflutningsvara og gott verð fékkst ætíð fyrir á Spáni. Það, sem hér var um að ræða, var vín, sem framleitt var fyrst og fremst á Spáni og mun innihalda frá 10–20% af vínanda, en þó e.t.v. allt niður í 6–8%.

Þessi krafa Spánverja var auðvitað mjög alvarlegs eðlis, og niðurstaðan varð sú, að ráðamenn þjóðarinnar beygðu sig fyrir henni og leyfðu innflutning hinna svokölluðu Spánarvina. Og þar með var áfengisbannið í raun og sannleika úr sögunni, þótt enn væri í gildi bann við innflutningi sterkari drykkja.

Margir bannmenn börðust mjög á móti þessari niðurstöðu, en andstæðingar létu sér vel líka. Þeir töldu það vafalaust, að þjóðin væri þess allsendis ómegnug að taka á sig afleiðingar af innflutningsbanni Spánverja á saltfiski, og þeir hömpuðu líka mjög öllu því, sem þeir töldu sig geta fært áfengisbanninu til foráttu samkv. þeirri reynslu, sem þeir töldu að væri fengin af þeim lögum.

Bannandstæðingar töldu, að með tilkomu Spánarvínanna mundi upp renna merkilegt tímabil, ekki aðeins vegna þess, að þjóðin endurheimti þá mikilsverðan þátt athafnafrelsis með því að mega velja og hafna um notkun áfengis eftir geðþótta hvers og eins, heldur kæmi það einnig til, að menn mundu læra hóflega drykkjumenningu að hætti suðrænna þjóða, svo sem Spánverja, Frakka og Ítala, sem gegnum aldirnar hefðu lært að neyta hinna svokölluðu léttu vina sér til áhættulausrar gleði og gagns. Þessu til sönnunar var fullyrt, að hægt væri að ferðast um þessi lönd þver og endilöng án þess að rekast nokkurn tíma á ölvaðan mann, hvað þá drukkinn. Væri þar sjón í þessu efni um hóflega drukkið áfengi sögu ríkari. Í svipuðum stíl við þetta heyrðum við rétt áðan frásögn hv. flm., þar sem hann sagði sína ferðasögu og sína reynslu af því, sem fyrir augu hans bar í hinum ýmsu höfnum Evrópu, þar sem hann taldi, að hann hefði varla séð drukkinn mann, hvað þá ofdrukkinn. Þá var því einnig haldið fram, að hið væntanlega frelsi um notkun léttra vína mundi útrýma öllum lögbrotum á sviði ólöglegrar bruggunar áfengs öls og vínanda og jafnframt mundi áfengissmygl mikið hverfa. Þessar fullyrðingar voru vafalaust af mörgum settar fram í góðri trú og óraunhæfri óskhyggju, en svo hafa aðrir verið, sem hugsa ekki um annað en skreyta þetta áhugamál sitt þeim búningi, sem líklegur var til þess að ganga í augu fólksins.

Og vínið kom. Það lét ekki á sér standa. En hins vegar lét svokölluð drykkjumenning á sér standa. Og einnig var því þá haldið fram, að bruggun öls og áfengis mundi mikið hverfa. En það virtist ekki minnka, því að einlægt varð vart við áfengisbrugg í ýmissi mynd, fyrir utan þá staðreynd, sem var þá þegar fyrir hendi, áður en veitt var leyfi fyrir innflutningi Spánarvína, að víðs vegar um landið þekktist líka hið svokallaða læknabrennivín og konsúlaáfengið.

Þar sem ég þekkti til í sveitum og í þorpum, var ekki um teljandi áfengisneyzlu að ræða á bannárunum. En fljótlega eftir tilkomu Spánarvínanna fór að bera á slíku. Held ég þó, að slíkt hafi ekki eingöngu stafað af neyzlu Spánarvínanna, heldur ekki síður, að í skjóli þeirra var hægt að neyta annarra áfengra drykkja, hvernig sem þeir voru fengnir. Skapaðist þá smátt og smátt það almenningsálit, að ekki þótti tiltökumál, þótt fyrir kæmi, að ölvun ætti sér stað á almannafæri. Allt slíkt var útskýrt sem eðlileg afleiðing af frjálsri neyzlu Spánarvínanna. En alvarlegasta afleiðingin af innflutningi léttu vínanna mun þó ef til vill hafa verið sú, að með þeim var það áberandi, hvað áfengisneyzlan jókst meðal kvenfólks og unglinga. Spánarvínin urðu eins konar tízkudrykkur, miklu meira en góðu hófi gegndi, og sá hópur stækkaði smátt og smátt, sem í skjóli Spánarvínanna og neyzlu þeirra heimtaði einnig að fá sterkari drykki.

Það var öllum ljóst, að með tilkomu Spánarvínanna var áfengisbannið raunverulega úr sögunni, og það höfðu líka margir sagt fyrir. En eins og ég gat um áðan, þá stóð á þeirri drykkjumenningu, sem formælendur léttu vinanna höfðu spáð að þeim mundi fylgja. En gallarnir aftur á móti við tilkomu Spánarvínanna létu ekki á sér standa. Andstæðingar vínbannsins sáu því fljótt leik á borði að fá þau bannákvæði afnumin, sem eftir voru, og bentu þeir enn á, að ólögleg neyzla áfengra drykkja ætti sér stað og það í vaxandi mæli, þrátt fyrir léttu vínin, sem að dómi sömu manna áður áttu að vera til að bæta drykkjumenninguna, en voru raunverulega til að brjóta niður möguleikana til að standa á móti innflutningi sterkra drykkja. Þeir töldu því nú eina bjargráðið að afnema hömlur og leyfa sölu og neyzlu enn þá sterkara áfengis, og eins og komið var í þessum málum, kostaði það ekki mjög mikla eða langa baráttu að fá innflutningsleyfi og söluleyfi fyrir sterkum drykkjum.

Það er athyglisvert, að á hverjum tíma hefur komið fram viss tegund manna, sem hafa gert hróp að ástandinu í áfengismálum hér á landi og hafa einlægt haft mikið til síns máls út af fyrir sig, því að löngum hefur verið af nógu að taka í því efni. En kjarninn í umbótatillögu þessara manna hefur í raun og veru verið þessi einn: minni hömlur og meira áfengi.

Strax 1932 mun hafa verið lögð fram tillaga hér á Alþ. um að leyfa bruggun áfengs öls. Ég hef ekki kynnt mér umræður þess máls, en geri ráð fyrir, að meðrökin hafi verið meira persónufrelsi fyrir einstaklinginn um að fá sjálfur óskorað að hafna og velja í sambandi við áfengistegundir og áfengisneyzlu, jafnhliða prédikun um væntanlega siðbót, sem koma skyldi í kjölfar aukins svokallaðs frelsis í þessum málum. Vera má líka, að bent hafi verið á ölið sem álitlegan tekjustofn fyrir ríkið. Hvað sem þessu líður, þá fékk þetta mál samt svo varmar viðtökur hér á hv. Alþ., að það komst aldrei lengra en til 1. umr. í hinni fyrri þingdeild. Þessi ölmál munu svo hafa legið niðri og ekki skotið aftur upp kollinum hér á hv. Alþ. fyrr en 1947, að þrír mikilsmetnir þm. úr tveimur stærstu þingflokkunum báru fram frv. um bruggun öls. Í munni flutningsmanna var þetta mikið mannúðar- og menningarmál. Áfenga ölið átti að fullkomna hið frjálsa val um notkun áfengis, bæta drykkjusiði okkar, og auk þess átti ágóðinn að ganga til mikilsverðra líknarmála víðs vegar um land. En málflutningur flutningsmanna og yfirlýstur tilgangur þeirra með áfenga ölinu nægði ekki til að sannfæra hv. þm. um ágæti málsins, og svo fór eftir langa og mikla 1. umr. í fyrri þd., að málið aðeins skreið upp til 2. umr. og nefndar og kom ekki aftur fram í dagsljósið. Hér höfðu þó verið á ferðinni flutningsmenn, sem voru ekki líklegir til að láta sinn hlut eftir liggja og höfðu skreytt frv. sitt þeim fegurstu fjöðrum að formi og tilgangi, sem þeim hafði hugkvæmzt. En samt fékk málið strax þær móttökur, sem sjaldgæfar eru, nema um mikil óþurftarmál sé að ræða. Það hefði því mátt vænta þess, að unnendur áfenga ölsins hefðu þar með lagt árar í bát og látið málið kyrrt liggja, a.m.k. um langa framtíð. En sú hefur þó ekki orðið raunin á, því að enn hefur þetta mál verið tekið upp hér á hv. Alþ. Það er því enn auðséð, að hverju þeir stefna, unnendur áfenga ölsins. Nú senda þeir fram aðeins einn merkisbera, hinn síðasta úr hinni postullegu tölu fulltrúa höfuðborgarinnar hér á hv. Alþ., 12. þm. Reykv. (PS).

Ég tel það í raun og veru hraustlega gert, eins og þessa hv. þm. er von og vísa, að standa hér einn sem flm. að þessu mikla óþurftarmáli, og ef það er réttdæmi, að hér sé um óþurftarmál að ræða, þá er það ekki sízt gagnvart Reykjavík, og hefði því mátt vænta þess, að þessi ungi og upprennandi þm. reyndi að finna eitthvert mál til að berjast fyrir, sem líklegra væri til hagsældar og aukinnar menningar fyrir höfuðborgina og þá um leið fyrir allt landið. En sennilegast er, að hv. flm. hafi ekki nægilega hugleitt, hvað það er, sem hann hefur tekizt á hendur, og eru slíks auðvitað mannadæmi. En þótt hv. þm. standi að forminu til einn að þessu máli við flutning hér á hv. Alþ., veit hann sennilega af samherjum hér innan Alþ., bæði innan síns þingflokks og annarra, þótt þeir menn hafi ekki kært sig um að tengja svo mjög málið við sitt nafn með því að gerast meðflutningsmenn. Ekki er heldur ósennilegt, að hinir þorstlátu þreyjendur áfenga ölsins, sem utan þings standa, og þeir sem vænta sér nokkurs hagnaðar af framleiðslu þess og sölu, hafi átt sinn þátt í að ýta hv. þm. á stað og af stokkunum í þessu máli. Þetta skiptir auðvitað ekki svo mjög miklu máli.

En það er nú svo, að þegar furðuleg fyrirbæri gerast, þá þykir mörgum það forvitnilegt að íhuga líklegar ástæður og tildrög.

Þetta ölfrv., sem hér liggur fyrir til umr., er að formi mjög frábrugðið þeim ölfrv., sem áður hafa legið fyrir Alþ., og á ég þá fyrst og fremst við frv. frá 1947. Það frv. var tiltölulega ýtarlegt, eins og vera bar, og sagði fyrir um margt, sem máli skipti, um framkvæmd málsins o.s.frv. Þetta frv. er á annan veg að heiman búið: aðeins breyting á áfengislöggjöfinni, sem á að heimila ríkisstj. að leyfa að láta brugga hér áfengt öl til neyzlu innanlands og einnig með útflutning fyrir augum. Og enn fremur er það tekið fram, að það öl skuli innihalda 3½% af vínanda miðað við rúmmál. Þá á ríkisstj. einnig að vera heimilt að láta brugga áfengt öl af ótakmörkuðum styrkleika til sölu erlendis og til innanlandsneyzlu fyrir hið svokallaða varnarlið. Ekkert er vikið að því, hvernig skuli til haga um framleiðslu ölsins eða hvert skuli vera gjald af því til ríkisins, og ekki heldur, hvernig skuli að farið með dreifingu þess og sölu innanlands. Allt þetta og reyndar hvað eina nema áfengismagn ölsins, sem ætlað er innanlandsmönnum til drykkju, á að vera á valdi ríkisstj. án íhlutunar Alþingis. Það er rétt, að ýmis fordæmi eru um það í núgildandi áfengislöggjöf, að ríkisstj. hafi nokkurt ákvörðunarvald um framkvæmd einstakra þátta þeirrar löggjafar, en ég held, að nóg sé komið af slíku, ekki sízt þegar um er að ræða að kveða á um, hvernig eigi að fara með þessa tiltölulega mjög hættulegu áfengistegund.

Við þekkjum þær reglur, sem nú gilda um meðferð áfengis hér á landi, um innflutning þess, tilreiðslu þess í hendur neytenda, sölustaði, álag ríkisins á þessar vörur og annað fleira. Um ýmis þau atriði eru nú þegar skiptar skoðanir, og hafa t.d. ýmsir borið fram tillögur, sem þeir trúa að séu til bóta í sambandi við áfengisneyzluna, svo sem að gera falt minna áfengi í einu en nú er, að hafa áfengisbúðir lengur opnar daglega til þess að draga úr sölumöguleikum leynivínsalanna o.s.frv. Þetta eru dæmi sem sýna, að ýmsir vilja leggja eitt og annað til málanna, sem þeir trúa að frekar en hitt sé til að færa sitthvað til betri vegar, þótt sjálfsagt í litlu sé, þegar um er að ræða þann mikla vanda, sem þjóðin er í vegna óhóflegrar áfengisneyzlu allt of margra landsmanna.

Mér finnst það því ekki til of mikils mælzt, þegar um er að ræða nýja hætti um framleiðslu og sölu áfengis, að betri grein sé gerð fyrir málinu og ýtarlegri ákvæði sett en fram kemur í þessu ölfrumvarpi. Og ég tel það í raun og veru að misbjóða þingmönnum að kasta svona frv. inn til þeirra og ætlast til þess, að þeir gini yfir þeirri flugu. Allt á valdi ríkisstj., segir hv. flm. En ég ætla, að ekki muni öllum sýnast það forsvaranlegt ráð, að Alþingi kasti svo höndum til afgreiðslu þessa máls, að það geti látið sig engu skipta, hvernig slík heimild sem þessi ætti að framkvæmast í öllum meginatriðum. Mun það líka mála sannast, að hér ætti að vera um sérstök ýtarleg lög að ræða fremur en fáorða lagabreytingu. Hér ætti því að vera um ýtarlegt lagafrv. að ræða, þar sem fram væri tekið allt það, sem máli skipti í sambandi við hið áfenga öl.

En þótt hv. flm. láti sig litlu eða engu skipta um framkvæmd þessa máls, bara að hann fái áfenga ölið, þá trúi ég ekki, að hann hafi ekki hugleitt eitt og annað í sambandi við framkvæmd málsins, bæði sem veit að ríkinu og almenningi. Því vil ég spyrja hann og biðja um hreinskilin og undanbragðalaus svör. Í þessum fyrirspurnum mínum eru að vísu atriði, sem hann hefur vikið að, þ.e. í sambandi við, hvaðan áfenga ölið ætti að seljast, — ég endurtek það ásamt öðrum spurningum mínum, því að sú skoðun hans, sem hann lét í skína í sambandi við sölu ölsins, má gjarnan koma gleggra fram. Mínar fyrirspurnir eru þessar:

Hvað um framleiðslu ölsins? Á framleiðslan að vera öllum frjáls og þar með ríkja fullt athafnafrelsi í þessu efni? Ef ekki, ætlast flm. þá til, að ríkið hafi einkarétt á framleiðslunni? Og sé svo, er þá ætlazt til þess, að ríkið láti þann rétt af höndum til einstaklinga eða fyrirtækja — eða fyrirtækis — sem sagt eins eða fleiri? Hvað ætti slík leyfisveiting að gilda mörg ár, og ætti að koma fyrir gjald einu sinni fyrir allt eða árlega og t.d. miðast við framleiðslumagn? Og ef ríkið á að veita einkafyrirtæki einkaleyfi á framleiðslunni, hvernig skal þá að fara? Á að auglýsa eftir tilboðum, sem síðan verði valið úr, eða á ríkisstjórnin að fara hér eftir geðþótta og afhenda umboðið til þess aðila, sem hún hefur velþóknun á í þessum efnum? Ef ekki á að framleiða áfengt öl eftir einhverri slíkri leið, er þá ætlazt til þess, að Áfengisverzlun ríkisins framleiði það, og þarf hún þá ekki að koma sér upp ölgerð með öllu því, sem slíku tilheyrir? Og gæti þá ekki komið til álita, að slík ölgerð verði þá einnig látin framleiða óáfengar öltegundir og aðra óáfenga svaladrykki? Og gæti þá ekki jafnvel komið til greina, að slíkt ríkisfyrirtæki, eftir að það væri einu sinni stofnað, fengi einkaleyfi á gerð ýmissa slíkra drykkja, ef talið væri, að með því væri hægt að gera það arðbærara fyrir ríkið. Enn fremur: Hvað telur flm., að framleiðslugjaldið til ríkisins eigi að vera mikið af hverjum lítra, og á það að vera jafnt á hinu veikara og sterkara öli? Hvernig á svo eftirlitið með framleiðslunni að vera? Telur ekki flm., að óhjákvæmilegt sé að hafa strangt eftirlit með því, að ekki sé látið ganga út til almennings annað en fullgerjað öl, sem innihéldi ekki meiri vínanda en lögheimiluð 3½% að rúmmáli? Og á svo að treysta framleiðendunum einum í því efni, að þetta gangi svo til, eða á ríkið að hafa á framleiðslustað löggiltan smakkara og mælingamann?

Hvernig á svo að haga smásöludreifingu hins áfenga öls? Eins og ég tók fram, þá vék flm. aðeins óljóst að þessu, og vildi ég gjarnan fá skýrari svör við þessu. Á að vera hægt að fá þetta öl í hverri matvörubúð, hverjum greiðasölustað og hverri sjoppu? Það skildist mér raunar á flm. að væri ekki meiningin. Og á hverjum einum að vera heimilt að kaupa án tillits til aldurs? Það er ekki lítið atriði að fá að vita það. Eða á að haga sölu ölsins eins og nú tíðkast um sölu annarra áfengra drykkja hér á landi? Og á þá samkv. því aðeins að vera leyfilegt að hafa ölið á boðstólum í vínbúðum ríkisins og þeim greiðasölustöðum, sem hafa vínveitingaleyfi? Mér finnst ekki óeðlilegt, þótt fram komi fsp. til hv. flm., hvernig hann hafi hugsað sér þetta atriði í framkvæmd, og mætti auðvitað um fleira spyrja, og sýnir það, hvað hér er flausturslega að unnið og af lítilli fyrirhyggju og ábyrgðartilfinningu í jafnviðkvæmu og vandasömu máli og hér er um að ræða. Mér skilst, að samkv. íslenzkum lögum teljist sá drykkur óáfengur, sem inniheldur mest 2¼% vínanda að rúmmáli. Samkv. þessu frv. á að heimila tilbúning og neyzlu áfengs öls, sem inniheldur 3½% vínanda að rúmmáli.

Flm. gerir því að till. sinni, að heimilað verði að framleiða öl til innanlandsneyzlu, sem inniheldur nálægt 50% meira áfengi en það, sem fyrir er. Hér er um stórt stökk að ræða. Samt mun mega telja þennan fyrirhugaða bjór með veikustu tegund þess áfenga öls, sem framleitt er. En hann er ekki síður hættulegur fyrir byrjendur, sem með neyzlu hans komast því auðveldara á það bragð, sem leiðir margan áfram til frekari áfengisneyzlu. En þessi 3½% bjór, er hann sá, sem þeir sækjast eftir, sem komnir eru á bragðið og þrá áfengan bjór? Ég held ekki, og styðst ég þar: m.a. við ummæli ýmissa, sem telja, að ekkert sé varið í bjór til hressingar, nema hann innihaldi minnst 4% vínanda og helzt 56%, veikari bjór sé aðeins til að svala þorsta, en til þess sé hann í raun og veru allra drykkja óheppilegastur, því að það sé einn af leyndardómum bjórsins, að menn þyrsti af honum og hafi tilhneigingu til þess að fá sér meira, ef byrjað er að drekka. Ekki vil ég nú kalla bjór með 3½% vínanda heppilegan svaladrykk. En hitt mun mega fullyrða, að slíkur bjór mun vera furðu lævís og eggjandi og vekur löngun margra til framhaldsdrykkju. Getur það saman farið, að slíkur áfengur drykkur vekur löngun til meira áfengis, og einnig hitt, að í honum sé efni, sem viðheldur þorsta fremur en að slökkva hann.

Kunningi minn sem átti orðræður við mig um þetta, sagði: Nei, má ég þá heldur biðja um ómengað Gvendarbrunnavatn, ef það á að vera svaladrykkur, en svokallað áfengt öl með 3½% vínanda. — Ég minnist á þetta hér vegna þess, að hér er brugðið upp þeirri kröfu, sem á bak við býr. Markmið ölmannanna er ekki 3½% áfengt öl, heldur á með því að brjóta niður varnarmúrinn á þessum vettvangi, og á eftir á að vera hægur leikur að fá það sterkara öl, eins og reyndist með hið sterkara áfengi, eftir að það léttara var komið í landið. Frá þessu sjónarmiði er þetta ölfrumvarp m.a. mjög hættulegt og lævíst. Og er ekki með því verið að boða þann sterka bjór, sem hv. flm. minnist á í grg. sinni, þ.e. bjór, sem innihaldi 4½–6% af vínanda, og ef til vill, eins og hjá sumum öðrum þjóðum, til hátíðabrigða öl, sem hefur allt að því 12% áfengisstyrkleika?

Í grg. segir. hv. flm., að það sé lítið samræmi í því, að Alþingi hafi leyft sölu hinna sterku drykkja, — hann minnist ekki á hina léttu, en banni Íslendingum neyzlu hins léttasta áfengis, sem sé ölið. Og mér skilst, að flm. telji fjarstæðuna kórónaða með því jafnframt að heimila tilbúning áfengs öls til útflutnings og neyzlu hérlendis handa hinu svokallaða varnarliði. Hv. flm. er svo sem ekki að finna að því, að tilbúningur áfengs öls sé heimilaður hér með þeim takmörkunum, sem þar um gilda, heldur hrópar hann: Hér er óþolandi ósamræmi í íslenzkri löggjöf, og ég krefst þess, að hér sé bót á ráðin og allir þjóðfélagsþegnar njóti góðs af. — Og leiðin er samræmi í áfengislöggjöfinni, en að vera nógu hógvær og biðja um nógu lítið í byrjun, því að þá muni allt hitt veitast fyrr en varir.

Þá víkur hv. flm. sér að þeim, sem vilja ekki stuðla að aukinni áfengisneyzlu meðal þjóðarinnar með því að vilja ekki leyfa áfengan bjór. Flm. er enn með samræmi og telur því samræmislaust, að slíkir menn skuli ekki líka beita sér fyrir banni á sölu og neyzlu áfengra drykkja. Hv. flm. svarar sér í raun og veru sjálfur í grg. og telur, að slík tilraun sem áfengisbann mundi engan árangur bera í okkar þjóðfélagi, og það er ekki laust við, að maður skynji, að flm. hlær hugur í brjósti við þá tilhugsun. Ég geri ráð fyrir, að tilraun til áfengisbanns sé ekki tímabær nú hjá okkur frekar en mörgum öðrum þjóðum, og ég tel, að áfengið og áróður þeirra, sem vilja hafa það óskorað, ráði nú yfir hugum of margra, til þess að vænta megi árangurs af vínbanni, og yfir þeirri staðreynd getur hv. flm. og aðrir skoðanabræður hans glaðzt. Já, þeir geta vafalaust hlakkað í kyrrþey og í heyranda hljóði, um leið og þeim frammi fyrir fólkinu þykir samt vissara að berja sér á brjóst og hástöfum harma það böl, sem ofnautn áfengisins hefur leitt yfir þjóðina.

Eitt m.a., sem hv. flm. telur til afsakana áframhaldandi áfengisneyzlu hér á landi, er það, að ríkissjóður hafi stórfelldan hagnað af áfengissölunni, sem gangi til margs konar menningar- og framfaramála. Af mér er það að segja, að ég kannast ekki við, að það fé, sem í ríkissjóð kemur vegna áfengissölu, gangi fremur öðrum tekjum ríkissjóðs til menningar- og framfaramála þjóðarinnar. Ég veit ekki betur en Alþ. og ríkisstjórn hafi yfir þessum áfengispeningum sem öðru ríkisfé alveg óskorað úthlutunarvald og að áfengisgróðinn gangi því ekki síður en annað til ríkisrekstrarins og þar á meðal, svo að maður nefni dæmi, til efnahagsmálaráðuneytisins og Kvíabryggju, svo að aðeins tvær virðulegar ríkisstofnanir séu nefndar. Hér fer því hv. flm. á athyglisverðan hátt með rangt mál, — eða meinar hann þetta óbeint þannig, að ef ekki væri um áfengistekjur að ræða, þá væri ríkið ekki fært um að leggja fram þær fjárfúlgur, sem nú eru veittar til menningar- og framfaramála — og má segja, að ljótt væri, ef satt væri? Hér er vissulega um ljótan og hættulegan áróður að ræða til framdráttar áfengisneyzlunni, sem maður að vísu hefur áður heyrt lítillega haldið á lofti, en mun tæplega fyrr hafa verið látinn á þrykk út ganga í skjölum Alþingis. Er það skoðun hv. flm., að ríkið sé orðið svo háð áfengistekjunum, að það geti ekki án þeirra haldið uppi framlögum til menningar- og framfaramála og þurfi þá væntanlega, ef vel á að vera, að auka þær tekjur með ágóða af sölu áfengs öls? Vill ekki hv. þm. hugleiða ásamt með skoðanabræðrum sínum, hvort þessu atriði sé ekki í raun og veru öfugt farið og verið geti, að Íslendingar væru betur, en ekki lakar settir í menningar- og framfaramálum, ef þeir hefðu ekki við það að stríða, sem í smærri eða stærri stíl er of almennur fylgifiskur áfengisneyzlunnar? Og vill ekki þessi hv. þm. einnig hugleiða það, hvað þessar áfengistekjur ríkissjóðs eru dýru verði keyptar? Hvað fara t.d. mörg dagsverk vinnandi manna á ári til spillis, og hvað eru mörg dagsverk, sem nýtast illa á ári af völdum áfengisneyzlunnar, og hvað þarf þjóðin að verja miklu fé árlega til aðstoðar þeim mönnum og þeim, sem þeir eiga fyrir að sjá, sem spilla eða eyðileggja heilsu sína með áfengisneyzlu? Hvað fara miklir fjármunir hér á landi forgörðum beint og óbeint af völdum vínneyzlunnar? Hvað þarf svo þjóðfélagið árlega mikið af mörkum að leggja til að halda niðri eða reyna að hindra hvers konar slys og glæpi, sem eiga rót sína að rekja til áfengisneyzlu? Og hvaða tjón hefur svo þjóðfélagið beðið við að missa að fullu og öllu af afleiðingum ofdrykkju góða og starfhæfa borgara? Svona má vitanlega halda áfram að telja eða spyrja, þó að maður aðeins haldi sig við þau atriði, sem að einhverju leyti er hægt að mæla á kvarða beinna verðmæta. Og ég held, að ef bara þessi hlið málsins væri skoðuð, mundi í ljós koma, að minna en lítið væri eftir af áfengisgróða ríkisins. En þá er eftir óskoðað og ógetið þeirra afleiðinga, sem ætíð munu ómældar eftir fjármunalegum leiðum. Það er allt það böl og öll sú eymd, sem er fylgifiskur ofdrykkjumannsins og hans skylduliðs. Ég held, að meðhaldsmenn áfengra drykkja ættu ekki að telja áfengistekjur ríkissjóðs sínum málstað til tekna, og þjóðin mun einhvern tíma sannfærast um það, að þær eru of dýru verði keyptar. Hitt er annað mál, að tekjur af áfengi eiga hvergi annars staðar heima en í ríkissjóði, meðan það er selt.

Hv. flm. frv. heldur áfram máli sinu í grg. og telur, að mikið leynibrugg áfengs öls eigi sér stað og einnig mikill óleyfilegur innflutningur. Það er ekki ótrúlegt, að óleyfileg áfengisbruggun eigi sér stað í landinu, bæði í líki öls og annarra sterkra drykkja, þótt ég hafi ekki nú fremur en áður heyrt borið orð á slíkt, þar sem ég þekki til. Og það er mín skoðun, að ekki sé mikið um slíkt yfir landið í heild. Að áfengu öli sé smyglað inn í landið í jafnstórum stíl og ætla mætti eftir orðum hv. þm., dreg ég líka stórlega í efa. Hv. þm. skýrir frá því, að hin starfandi ölgerð hér hafi ekki þurft að flytja flöskur inn síðastliðin fjögur ár, þótt t.d. hafi á síðastliðnu ári verið tappað á 4 millj. flaskna. En ég tel, að hv. flm. þurfi að segja þessa sögu nákvæmar, áður en menn geta dregið af henni nægilega traustar ályktanir. Og kemur þá m.a. þetta til athugunar: Hverjar voru flöskubirgðir fyrirtækisins eftir síðasta innflutning, og hverjar eru þær nú? Hver er eðlileg rýrnun á þessum flöskum? Og hafa ekki sjómenn á fiski- og kaupskipaflotanum fengið óátalið að flytja inn: a.m.k. einn kassa af öli í hvert sinn, sem þeir koma úr siglingu? Þetta getur væntanlega hv. flm. upplýst. Og er ekki líklegt, að slíkum tómflöskum sé einmitt haldið til haga vegna þess, hve vel er greitt fyrir þær, ef þær eru á annað borð hæfar til notkunar fyrir þessa ölgerð? Og síðast, en ekki sízt. Fer flöskuþörfin ekki eftir umsetningarhraðanum? Mér virðist, að vitanlega þurfi því færri flöskur til, sem umsetningarhraðinn er meiri og oftar á ári er hægt að láta í sömu flöskuna.

Hvað sem þessu líður og öðru í sambandi við ölsmygl, getur hv. flm. vitanlega engar fullnægjandi líkur fært fyrir því, að ölsmyglið minnki eða hverfi, þótt hér yrði farið að framleiða 3½% sterkan bjór. Og m.a. má vitna í það, sem ég gat um áður, fullyrðingu þeirra, sem vilja hafa áfengi sem fjölbreyttast, — fullyrðingu þeirra, þegar var verið að vinna að því að fá heimilaðan innflutning sterku drykkjanna, og þetta er alveg sambærilegt hvað snertir ölið.

Að lokinni umsögn sinni um ölsmyglið kemst hv. þm. inn á það að ræða hættu þá, sem ýmsir telja stafa af áfenga ölinu, og að menn hafi þá ekki sízt unglingana í huga. Flm. telur slíkan ótta ástæðulausan. Hann telur, að unglingar séu í minni hættu af áfenginu, eftir að áfenga ölið væri komið til sögunnar. Flm. telur sem sé, að nú séu engar hömlur, sem varni unglingum að komast yfir eldsterkt áfengi, í allt að 60% styrkleika. Hér held ég, að hv. flm. taki ef til vill 60% of sterkt til orða og það sé aðeins afsakanlegt með því, að meira sé kapp en forsjá í málafylgju. Ég veit eins og hv. flm. og aðrir, að eftirlit með framkvæmd áfengislaganna þyrfti og ætti að vera meira og betra en á sér stað, en sérstaklega þyrfti ábyrgðartilfinning fullorðna fólksins skilyrðislaust að vera meiri en oft er, þegar áfengi og unglingar eru annars vegar. Og vitanlega eru allt of mörg sorgleg dæmi um áfengisneyzlu unglinga. En ég mótmæli algerlega, að það, sem hv. flm. segir í þessu efni, eigi sér yfirleitt stað um æsku landsins, enda má nú fyrr vera en svo sé. En svo getur líka hver heilvita maður, sem eitthvað þekkir til áfengis, sagt sér það sjálfur, að óharðnaðir unglingar munu undantekningarlítið fremur sækjast í byrjun eftir að neyta áfengis með því að drekka mikið áfengt öl en rammt og eldsterkt brennivín, sem flm. minnist á, — og því fremur að grípa til ölsins, þar sem í eyrum unglinganna klingir við frá mörgum, hversu 3½% áfengt öl sé æskilegt, hættulaust og hollt. Slíkur áróður fyrir 3½% áfengu öli væri ekki ólíklegur til þess að bera einhvern árangur í hugum barnanna og unglinganna. Og ég gæti ætlað og hef orðið þess var, að þessi áróður um ágæti 3½% áfenga ölsins sé þegar eitthvað farinn að grípa um sig í hugum unglinga og barna. Ég heyrði það fyrir nokkrum dögum, að 13 ára skóladrengur hélt því fram, að þeir krakkarnir þyrftu endilega að fá þetta áfenga öl, það væri einhver munur að hafa svona drykk til þess að rífa sig upp á morgnana, áður en þau færu í skólann, og enn fremur væri þetta hentugt fyrir heimilin líka. Það væri ólíkt handhægara að grípa til ölsins á búrhillunni en þurfa að fara að hita og búa til kaffi eða te.

Svo víkur hv. flm. sér að verkamönnunum og telur það hneyksli og móðgun við þá stétt, að fram hafi komið sú skoðun, studd af erlendri reynslu, að verkamönnum sé mikil hætta búin af áfengu öli, ef það yrði á boðstólum. Það má eyða löngum tíma að ræða um þetta, en ég sé ekki mikla ástæðu til þess. Hv. flm. vill gera mikið úr því, að verið sé með þessum orðum að móðga verkamannastéttina, að telja henni nokkra hættu búna af áfengu öli. En það er auðvitað mesta fjarstæða, að það sé verið að halda því fram, að því sé þannig varið, að það sé alveg sérstök ástæða til þess að óttast, að verkamenn fari illa út úr neyzlu ölsins. En þrátt fyrir það er réttilega undirstrikað, að það sé ekki sízt ástæða til að óttast afleiðingar ölsins í sambandi við verkamenn. Það er þó síður en svo verið að kasta rýrð á verkamannastéttina, þó að á það atriði sé bent. Og það er öllum vitanlegt, að það geta verið margar þær aðstæður hjá verkamönnum, að það geti verið handhægt fyrir þá að grípa til áfengs bjórs sér til hressingar, ekki sízt ef honum er haldið að þeim með því, að hann sé þeim heilnæmur, vítamínríkur og hollur drykkur. En það yrði þá ekki væntanlega látið fylgja með, að þeir skyldu athuga það, að mjór væri mikils vísir, að það mundi verða með verkamennina eins og aðra, að hættulegt sé að gera of mikið að neyzlu áfengs bjórs, vegna þess að það væru allt of mörg dæmi um allar jarðir, að slíkt leiddi til frekari og meiri áfengisneyzlu. Og það er svo sem ekki, að þetta álit, þessi ótti í sambandi við verkamennina sé orðinn til hér á landi. Það eru fróðir og óvilhallir menn, sem þekkja til þessara hluta erlendis, sem hafa gert athugun á þessum málum og varað við afleiðingum sterka bjórsins eða áfenga bjórsins í sambandi við verkamenn. Það má líka benda á, og það vita allir, að pyngja verkamannsins er ekki venjulega það full, að hann þoli að staðaldri að verja fjármunum til slíkra hluta eins og að kaupa áfengi. Það er þess vegna vafalaus staðreynd, að verkamenn hafa ekki síður en aðrir ástæðu til að óttast áfenga ölið og ættu ekki síður en aðrir að hugsa til gamla spakmælisins: Í upphafi skyldi endinn skoða.

Þá víkur hv. flm. að vínneyzlunni í landinu og kveður það staðreynd, að hún aukist hér ár frá ári og jafnframt fari slys og glæpir vaxandi og jafnvel sérstaklega af völdum unglinga. Hv. flm. vék að þessu í framsöguræðu sinni meir og ýtarlegar en hann kom að í grg. Manni getur ekki annað skilizt en til umbóta í þessu efni sé ekki sízt og líklega helzt það að fá áfenga ölið. Og hv. flm. kom reyndar víðar inn á það að láta skína í, að ölið væri lítið hættulegt og jafnvel ágætt. Og það mátti gera sér í hugarlund, að hans hugsanagangur væri sá, að áfengið sterka ætti að hverfa, en ölið eitt koma í staðinn. Hvers vegna útfærir þá hv. flm. ekki þessa hugsun með því að banna sterku drykkina og fá heimild fyrir, að 3½% ölið eitt væri hér til staðar í framtíðinni?

Þetta ástand, sem hv. flm. víkur að bæði í grg. sinni og í framsöguræðu, um ómenninguna í drykkjuskap og vaxandi glæpi og fram eftir götunum, það á í raun og veru, eftir því sem manni getur helzt skilizt, að vera að kenna því, að ekki er hér til staðar áfengt öl. Það má nú fyrr vera oftrúin. Og það er raunverulega ekki furða, þótt þessi umbótapostuli komi með þetta frv., ef hann trúir því í hjarta sínu, sem ég læt mér þó ekki detta í hug, að ölið eigi að færa svona mikla blessun í þjóðlífið, því að það er einatt fyrir manni sú röksemdafærsla, sem ekki virðist auðvelt að komast fram hjá, að það er ekki verið að fjarlægja neinar ákveðnar áfengistegundir, hvorki veikar né sterkar, heldur bara heimta meira áfengi. Þá á allt að lagast.

Þá harmar hv. flm. mjög í grg., að það skuli vera meðal þjóðarinnar málsmetandi menn og mikilsvirtir, eins og hann orðar það, sem berjast gegn veiku, en áfengu öli. Ég vona, að þessi hv. þm. verði ætíð að þola það bótalaust, að til séu menn og verði, sem berjast gegn áfenginu og vara þjóðina við of mikilli neyzlu þess og því böli, sem því fylgir. Slíkir menn hafa einlægt verið til og eru, og mér er nærtækt dæmi í huga hér í þingi. Meðal margra annarra ágætra manna vil ég minnast eins, án þess að gera hlut hinna lítinn, það er fyrrv. þm. Borgf., Pétur Ottesen. Og í sambandi við hans nafn vil ég segja það, að mér þykir vera kominn köttur í bjarnar ból, þ.e. Péturssæti Sjálfstæðisflokksins hér á Alþingi, ef dæma má eftir þessu ölfrv.

Þá víkur hv. flm. máli sínu að reynslu annarra þjóða af áfengu öli og telur það hafa bætt áfengisástandið hjá sumum þeirra. Þetta er vitanlega í raun og veru alls ekki svaravert. Slíkar fullyrðingar stríða á móti allri almennri reynslu í sambandi við notkun áfengis.

Þá kemur hv. flm. með það, að þetta áfenga öl hans eigi að vera snar þáttur í að laða erlenda ferðamenn hingað til landsins og um leið verði hér um þjóðlegan drykk að ræða. Já, sér eru nú hver þjóðlegheitin og landkynningin, og illa erum við Íslendingar á vegi staddir, ef okkur dytti í hug að grípa til slíks örþrifaráðs, sem einnig mundi reynast hálmstrá eitt, og yrði að telja, að sá lítilfjörlegi gjaldeyrir, sem gæti aflazt á þann hátt, væri dýru verði keyptur. En vill ekki líka hv. flm. láta sér nægja, svona til að byrja með, þann gjaldeyri, sem heimilt er að afla með því að framleiða áfengt öl til sölu erlendis og til hins svokallaða varnarliðs, og er ekki fróðlegt að reyna fyrst, hvort þetta áfenga öl ryður sér til rúms þar og hvernig það geðjast mönnum, áður en farið er að telja mönnum trú um, að það sé nauðsynlegur þáttur í að laða hingað erlenda ferðamenn?

Að síðustu slær hv. flm. fram í grg. sinni nokkrum stóryrðum, sem hann ætlast til, að dugi málinu til framgangs. (Forseti: Ég vildi spyrja hv. ræðumann, hvort hann eigi langt mál eftir af ræðu sinni.) Nei, ég á það nú ekki. En ég get hætt, herra forseti, það er ekki langt mál, það tekur nokkrar mínútur. (Forseti: Nei, það er rétt að halda áfram, annars er liðið að lokum hins venjulega fundartíma.) — Að síðustu slær svo hv. flm. fram í grg. sinni nokkrum stóryrðum, sem hann ætlast til að dugi málinu til framgangs, og það er hvorki meira né minna en það, að hann dæmir hverja mótspyrnu gegn áfenga ölinu móðgun gegn menningarþroska og frelsiskennd íslenzku þjóðarinnar. Mikið var, að hann skyldi ekki líka telja þessa mótspyrnu hrein landráð, það hefði ekkert fremur munað um það. Í munni hv. flm. heitir það þá móðgun við eina æðstu hugsjón mannsins, þ.e. frelsiskenndina og menninguna, að staðið sé á móti því, að þjóðin fái aðgang að enn meira áfengi og það áfengistegund, sem varað er við af mörgum merkum mönnum, bæði erlendis og hérlendis, og vil ég þar aðeins í því sambandi nefna hérlendis fyrrv. landlækni og núverandi forstöðumann Vífilsstaðahælis.

Það er sagt, að fundartími sé liðinn, og ég vil ekki þreyta hv. þm. á lengri ræðu. Þó að ég hefði haft svo sem löngun til þess að víkja nánar að ýmsu í framsöguræðu hv. flm., skal því sleppt að sinni. En um málið í heild vil ég segja það að lokum, að ég dreg ekki dul á, að hæfilegasta afgreiðsla þessa óþurftarmáls sé, að það verði strax fellt við þessa umr., og ég tel, að með tilliti til málavaxta geti hv. flm. eftir atvikum vel unað þeirri afgreiðslu.