07.02.1961
Neðri deild: 57. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í C-deild Alþingistíðinda. (2054)

144. mál, áfengislög

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Ég vil strax í upphafi máls míns taka það fram, að ég er algerlega andvígur frv. því, sem hér liggur fyrir og flutt er af hv. 12. þm. Reykv. Ég leyfi mér að halda því fram, að Íslendinga vanti flest annað en áfengan bjór. Hér á landi er engin vöntun á áfengi, því miður, og þeir, sem það vilja og telja sig hafa á því efni, geta án minnsta fyrirvara keypt sér áfengi, drukkið sig góðglaða, ef þeir vilja, eða þá útúrfulla, allt eftir því, sem menn telja við eiga í það og það skiptið.

Hér á landi er því miður drukkið meira áfengi en góðu hófi gegnir, og það er sízt ástæða til að stefna að auknum drykkjuskap unglinga og fullorðinna með því að leyfa innlenda framleiðslu á áfengum bjór til sölu hér innanlands. Menn deila mjög um það, hvort sala á áfengum bjór muni auka á drykkjuskap eða jafnvel draga úr neyzlu sterkra drykkja. Ekki er ég í neinum vafa um það, að sala á áfengum bjór mundi gera ástandið í áfengismálum þjóðarinnar stórum verra en það er nú. Áfengan bjór tel ég öruggustu leiðina til þess að kenna ungu fólki að drekka áfengi. Margur unglingur, sem máske hefur ekki efni á að kaupa sér heila flösku af „svartadauða“, mundi telja sig aftur á móti hafa efni á því að kaupa t.d. tvær eða fleiri flöskur af áfengum bjór, en þar með er brautin rudd. Það er alkunna, að eftir að menn hafa fengið sér tvo–þrjá bjóra og farnir að finna fyrir áhrifum, endar slíkt vanalega með því, að keypt er eitthvað sterkara, sem svo oft og tíðum endar með því, að þeir verða ofurölvi. Það er vitað, að áfengur bjór og sterk vín eiga mjög illa saman, þannig að maður, sem drekkur hvort tveggja á sama tíma, getur orðið útúrfullur, áður en hann veit af.

Einhvers staðar sá ég því haldið fram, að áfengur bjór væri mjög hollur drykkur, jafnvel betri en mjólk. Björn L. Jónsson læknir hefur í blaðinu Nútímanum sýnt fram á, að eggjahvítuefni í öli séu 0.4%, eða 1/18 af eggjahvítuefni mjólkur. Til þess að fullnægja eggjahvítuþörf sinni þyrfti fullorðinn maður 2 lítra af mjólk, en 16 lítra af öli á dag. Þá segir læknirinn, að kolvetni sé 4% í öli eða álíka mikið og í mjólk. Kolvetni notar líkaminn einvörðungu sem hita- og orkugjafa. Það, sem umfram kann að verða, safnast saman sem fita, en hún er líkamanum til byrði meira en góðu hófi gegnir og ofreynir m.a. hjarta og lungu. Sjálfsagt eru þessar upplýsingar læknisins réttar, enda er allur samanburður á áfengu öli við mjólk hvað hollustu snertir hrein fjarstæða, þar hefur mjólkin margfalda yfirburði.

Því er haldið fram, að vínbann og allar hömlur á sölu áfengra drykkja séu skaðlegar, slíkt sé frekari skerðing á frelsi manna, það eigi að vera hverjum einum í sjálfsvald sett, hvort hann neyti víns eða ekki. Í öllum þjóðfélögum eru til margvísleg bönn og takmarkanir. Það er t.d. bannað að flytja inn og selja vissar tegundir eiturlyfja. Er nokkur, sem vill halda því fram, að sjálfsagt sé að afnema slíkt bann? Ég býst ekki við því. Þannig er ótalmargt, sem er bannað í okkar þjóðfélagi. Áfengið er í sjálfu sér ekkert annað en eiturlyf, sem full ástæða væri til að banna innflutning á eða a.m.k. að setja mjög strangar reglur um sölu þess. En víndýrkendurnir hér á landi og annars staðar eru á allt annarri skoðun. Þeir vilja afnema öll bönn og afnema allar takmarkanir á sölu áfengra drykkja. Þessir sömu menn vilja láta leyfa framleiðslu á áfengum bjór og telja því margt til gildis. Áfengur bjór er talinn af þessum mönnum hinn hollasti drykkur, eins og ég hef áður bent á.

Þá er því haldið fram, að með tilkomu bjórsins mundi stórlega draga úr neyzlu hinna sterku vína og þar með batna ástandið í áfengismálunum stórlega frá því, sem nú er. Hér þarf að koma á hófdrykkju, segja menn. En mér er nú spurn: Sýnir það einhvern sérstakan menningarþroska að drekka áfengi? Getur neyzla áfengra drykkja, jafnvel þótt í hófi sé, aukið á menninguna í landinu? Allir hljóta að viðurkenna, að neyzla áfengra drykkja er í langflestum tilfellum skaðleg fyrir þann, sem þess neytir. Áfengið hefur lamandi áhrif á þann, sem neytir þess. Samkv. gildandi lögum er t.d. bílstjórum, sem aka bíl, bannað að neyta áfengra drykkja. Bílstjóri, sem staðinn er að því að aka bíl undir áhrifum, er umsvifalaust tekinn úr umferð, vegna þess að af honum er talin stafa hætta fyrir öryggi sjálfs sín og annarra vegfarenda. Um þetta eru allir sammála. Vínneyzla á vinnustað er alls staðar talin óæskileg. Maður, sem neytir víns við vinnu, er í langflestum tilfellum látinn hætta. Ef slíkt endurtekur sig í mörg skipti, á viðkomandi maður á hættu að missa atvinnu sína fyrir fullt og allt. Vínnautn er talin skaðleg og hættuleg við öll störf. Ég þekki ekkert það starf, sem væri betur unnið af manni eða mönnum undir áhrifum áfengis en þeim, sem væru ekki undir áhrifum.

Því miður er saga áfengismálanna á Íslandi ein sorgarsaga. Allt frá því að land vort byggðist, hafa Íslendingar neytt áfengra drykkja úr hófi fram. Drykkjuveizlur fornmanna munu flestum kunnar. Fornsögur vorar skýra frá drykkjuveizlum, þar sem allt endaði í upplausn og illindum, en afleiðingar þess urðu svo vígaferli, útlegðardómar og stór fjárútlát.

Ekki virðist ástandið í áfengismálum Íslendinga hafa batnað eftir því, sem á aldir leið. Til eru í gömlum bókum og handritum skráðar lýsingar af drykkjumenningu veraldlegra og kirkjulegra valdhafa frá fyrri tímum, og eru sumar þær lýsingar hinar hroðalegustu. Á einokunartímabilinu var það alsiða, að kaupmenn hugsuðu fyrst og fremst um að birgja upp verzlanir sínar með brennivíni og áfengum bjór, en á sama tíma vantaði sömu verzlanir matvörur og aðrar nauðsynjar eða þá vörurnar voru stórskemmdar, svo sem maðkað mjöl, fúið timbur og ónýtt járn. Höfðingjar og kaupmenn og ruddalegir valdsmenn riðu útúrfullir um héruð og kúguðu alþýðu manna á hinn freklegasta hátt.

Eftir að rofa tók í verzlunarmálum Íslendinga, virðist lítið sem ekkert hafa dregið úr innflutningi áfengra drykkja, enda var aldarandinn sá, að sá þóttist maðurinn mestur, sem mest gat drukkið. Drykkjuveizlur voru tíðar. Má í því sambandi benda á brúðkaupsveizlur heldri manna, sem oft og tíðum stóðu dögum saman. Fátæklingarnir reyndu eftir beztu getu að líkjast höfðingjunum, og dæmi eru til þess, að örsnautt fólk hélt fjölmennar brúðkaupsveizlur og lét veita vín í ríkum mæli, sem kostaði það á eftir mörg ár að greiða upp. Þá voru erfisdrykkjur landsfrægar fyrir drykkjuskap viðstaddra, enda flaut þá vínið og bjórinn í stríðum straumum.

Í lok 19. aldarinnar fóru að heyrast raddir einstakra manna, sem töldu drykkjuskap Íslendinga hina mestu þjóðarógæfu. Fyrr fundust vitanlega menn, sem töldu hina miklu áfengisneyzlu landsmanna þjóðarböl, sem bæri að vinna á móti. En svo virðist sem slíkir menn hafi talað fyrir daufum eyrum, a.m.k. dró lítið úr drykkjuskap landsmanna, enda neyttu veraldlegir valdsmenn og kirkjunnar áfengis í ríkum mæli. Má segja, að hvað höfðingjarnir hafast það, hinir ætla sér leyfist það.

Eftir að góðtemplarareglan festi hér rætur, en hún var stofnuð hér árið 1884, tók að rofa til í þessu svartnættismyrkri áfengisneyzlunnar. Góðtemplarareglan hafði þegar í byrjun mörgum góðum mönnum á að skipa, sem ótrauðir sögðu Bakkusi stríð á hendur og kröfðust þess, að hann yrði útlægur ger. Templurum óx brátt fiskur um hrygg, og svo var komið árið 1909, að sett voru á Alþingi lög um algert aðflutningsbann á áfengi að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu um málið, sem var samþykkt með 60% gegn 40. Ég hef ekki kynnt mér baráttusögu góðtemplaranna frá þessum árum að neinu ráði. Hitt er mér ljóst, að þar hefur margur ágætur maður að verki verið. Í þessu sambandi má nefna nöfn eins og Skúla Thoroddsen, Jón Ólafsson, Björn Jónsson ráðherra, Einar Hjörleifsson skáld, Sigurð regluboða, Ottó Þorláksson skipstjóra, Sigurð Eggerz ráðherra, Pétur Ottesen alþingismann, Jón Baldvinsson alþingismann, Jónas Jónsson fyrrv. ráðherra, Jörund Brynjólfsson fyrrv. alþingismann og síðast, en ekki sízt Sigfús heitinn Sigurhjartarson alþingismann, sem allra manna bezt vann á móti útbreiðslu áfengra drykkja og varð einn af aðalforustumönnum bindindismanna um langan tíma. Allir þessir menn ásamt ótalmörgum ágætismönnum öðrum voru eindregnir baráttumenn á móti áfengisflóðinu. Sumir þessara manna voru með að samþykkja á Alþingi bann við sölu og innflutningi áfengra drykkja. Aðrir, sem á eftir komu, voru ötulir forustumenn bannlaganna. Síðar, er farið var fram á að gefa hinar og þessar undanþágur, heltust menn úr lestinni, og enn síðar, þegar Spánarvínaundanþágan var veitt, voru allmargir, sem áður höfðu staðið mjög vel á móti áfengisflóðinu, sem biluðu.

Ég skal taka það fram, að ég er ekki meðlimur í samtökum bindindismanna. Þrátt fyrir það er mér vel ljóst, að góðtemplarareglan svo og önnur samtök bindindismanna, svo sem félagsskapur sá, sem stendur fyrir Bláa bandinu, bindindissamtök í skólum landsins og fleiri, hafa unnið mikið og gott starf í þágu lands og þjóðar. Vonandi halda þessi félagasamtök áfram sínu ágæta starfi, láta hvergi undan síga í baráttunni á móti áfengisneyzlunni.

Þá vil ég minna á, að frá fyrstu tíð hafa verkalýðssamtökin stutt bindindisstarfsemina í landinu, enda voru margir af forustumönnum þeirra áhrifamenn í bindindissamtökum landsmanna. Forustumönnum verkalýðssamtakanna hefur verið og er það fullljóst, að áfengið er einn mesti bölvaldur alþýðuheimilanna. Ég vil leyfa mér að færa þessum orðum mínum örlítið meiri stað. 31. jan. s.l. birtist í dagblaðinu Þjóðviljanum grein eftir einn af stjórnendum verkamannafélagsins Dagsbrúnar, Tryggva Emilsson. Í þeirri grein segir Tryggvi m.a.:

„Minnugir mættu verkamenn og sjómenn vera þess, að það var með fyrstu gerðum alþýðusamtakanna og raunar þá einn höfuðgrunnur að stofnun þeirra að berjast gegn drykkjuskap og afleiðingum hans, en fyrir bindindi. Verkalýðshreyfingunni varð mjög ágengt við hlið annarra bindindissamtaka að kveða niður drykkjuskap, sem var þá einn höfuðbölvaldur alþýðuheimila og niðurlægjandi ástand. Verkamenn og sjómenn fengu með bindindi og þar með mannlegri reisn kraft og kjark til baráttunnar fyrir bættum kjörum og minnkandi þrælkun. Ég er sannfærður um, að nú í dag stendur verkamönnum og sjómönnum og reyndar allri alþýðu manna sinni nær að spyrna nú hart gegn boðum launaskerðingar og fátæktar og draga hlut sinn í land en ljá eyru ákalli um aukinn drykkjuskap, sem skemmir manninn og minnkar og spillir lífsgleðinni.“

Síðar í sömu grein segir:

„Ég vil leyfa mér að beina þeirri áskorun til alls vinnandi fólks að ljá aldrei eyru þeirri firru, að bruggað verði hér áfengt öl til sölu innanlands, og mætti þar hver hugsa til síns heimilis og sinna barna, sem hver heilbrigður maður vill forða frá áfengisneyzlu.“

Þessi hógværa og vel skrifaða grein er sannarlega orð í tíma töluð og mætti verða til þess, að forustumenn verkalýðssamtakanna létu áfengisbölið enn meir til sín taka en gert hefur verið að undanförnu, enda eiga verkalýðsfélögin fjölmarga áhugasama bindindismenn, sem sjá og skilja, hvílíkur voði áfengisneyzlan er fyrir alþýðuheimilin.

Þá hefur annar þekktur forustumaður verkalýðssamtakanna, Eggert G. Þorsteinsson, hv. 10. þm. Reykv., tekið mjög ákveðna afstöðu á móti framleiðslu og sölu á áfengum bjór. Í viðtali, sem blaðið Nútíminn hafði við hv. þm., segir hann m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Það er hægt að drekka ákveðið magn af ákveðnu öli á hverjum einasta degi og samfellt án þess að um teljandi og finnanleg áhrif sé að ræða. Í þessari staðreynd felst að mínu áliti höfuðhættan af sölu áfengs öls. Þannig veldur bjórinn þeim lymskulegustu áhrifum, að starfsfélagar mínir erlendis í byggingariðnaði vilja telja hann beint og óbeint valdan að 40% slysa á vinnustað og hættulegastan þar, sem mestrar nákvæmni er krafizt. Áhrif sterkra drykkja leyna sér ekki og blekkja tiltölulega fámennan hóp. Bjórinn aftur á móti vinnur sitt verk á þann sérlega hátt, að hann getur blekkt flesta. Þess vegna er fyllsta ástæða til að spyrna fótum við slíku flóði yfir landið og þá öllu heldur gegn fylgikvillum þeirrar holskeflu.“

Við þessi ummæli hv. þm. er ekki miklu að bæta. Annars er full ástæða til að undirstrika það sérstaklega, að bjórdrykkjan hefur sljóvgandi áhrif á menn. Menn verða máttlausir, viðbragðsflýtir þeirra minnkar og menn verða miður sín og þreyttir. Bjórdrykkjan mundi því auka á slysahættuna stórlega frá því, sem nú er, auk þess sem bjórinn mundi stórlega auka á drykkjuskap ungra sem gamalla. Finnst þó flestum ástandið í áfengismálum okkar fullalvarlegt, eins og það er nú, og sízt ástæða til að vinna að aukinni áfengisnautn með setningu nýrra laga þar um.

Fyrrv. formaður verkamannafélagsins Dagsbrúnar, Hannes Stephensen, segir í viðtali við sama blað :

„Það er skoðun mín, að núverandi ástand í áfengismálunum hér á landi muni ekki batna með tilkomu og sölu sterks öls. Það mundi heldur verða til þess að auka drykkjuskapinn, sem flestir eru þó sammála um, að sé orðið alvarlegt mál.“

Síðar segir fyrrv. formaður Dagsbrúnar:

„Ölið yrði í fjárhagslegu tilliti til ills fyrir hinn almenna launþega, sem þarf á öllu sínu kaupi að halda sér og sínum til lífsviðurværis.“

Ég hef leyft mér að benda hér á ummæli þriggja forustumanna verkalýðssamtakanna til þessa máls. Afstaða þeirra til frv. bendir ótvírætt til þess, að verkalýðssamtökin muni yfirleitt vera málinu jafnandvíg nú og þau hafa ætíð áður verið.

Þegar bannlögin voru sett á Alþingi, var strax smeygt inn í þau mjög vafasömum atriðum, sem sýndi sig síðar að varð lögunum til mikils hnekkis og andstæðingarnir notuðu sem árásarefni á lögin. M.a. var það ákvæði, að mönnum var heimilt að eiga svo mikið vín sem þeir vildu og gátu keypt, ef þeir höfðu átt það áður en bannlögin gengu í gildi. Þetta ákvæði l. var vitanlega notað sem árásarefni á sjálf lögin, enda ekki útilokað, að menn, sem áttu miklar vínbirgðir áfram, hafi á einhvern hátt misnotað það. Önnur undanþága frá bannlögunum var hið svokallaða konsúlabrennivín. Það var talið ófært að láta fulltrúa erlendra ríkja ekki hafa leyfi til þess að hafa áfengi um hönd að eigin ósk. Þá kom læknabrennivínið, sem mikið var deilt um, þar næst leyfi fyrir íslenzk kaupskip, þ.e.a.s. skip Eimskipafélags Íslands, til vínveitinga í utanlandssiglingum, og að síðustu var svo samþykkt á Alþ. 1922 og 1923 að leyfa innflutning léttra vina, hinna svokölluðu Spánarvína. Sá innflutningur var beinlínis neyddur upp á Íslendinga af Spánverjum, sem að öðrum kosti hótuðu Íslendingum afarkostum í sambandi við kaup þeirra á íslenzkum saltfiski. Ég vil segja, því miður létu Íslendingar undan hinni ósvífnu kröfu Spánverjanna. Alþingi samþykkti þessa undanþágu með öllum atkvæðum gegn 2, 4 voru ekki viðstaddir, þegar atkvgr. fór fram í Nd. Með því að leyfa innflutning á hinum spönsku vínum má segja, að bannlögin hafi verið afnumin. Margt fleira en hér hefur verið bent á stuðlaði að því, að bannlögin voru eyðilögð.

Í umr. um vínbannið á Alþingi 1917 farast Pétri Ottesen orð á þessa leið um eftirlit með bannlögunum og baráttu andstæðinga á móti þeim, með leyfi hæstv. forseta:

„Vitanlega hefur eftirlit með bannlögunum reynzt allörðugt, og liggja til þess ýmsar orsakir, er rekja má á ýmsa vegu. Þegar bannlögin gengu í gildi, var víndrykkja allmikil í landinu. Því var alltaf við því að búast, að drykkfelldir og nautnasjúkir menn mundu fyrst í stað neyta allra bragða til að svala fýsnum sínum og smygla víni inn í landið. Af þessu hefur það oft leitt, að einstöku menn hafa að sögn legið á því lúalagi að smygla inn víni og „spekúlerað“ með því í drykkjugirnd náungans. Tolleftirlitið er ófullkomið hér á landi. Það hefur og leikið mjög á tveim tungum með það, hversu sumir lögreglustjórar hafi verið eftirgangssamir með það að gæta bannlaganna. Þeir hafa sjálfsagt allmiklar málsbætur, en því verður ekki á móti mælt, að allmisjafnlega hefur lögreglustjórunum tekizt í þessu efni.“

Um andstæðinga bannlaganna segir hv. þm.: „Svo er og eitt ótalið enn, sem sé það, að í landinu er flokkur manna, sem frá öndverðu hefur verið mjög andstæður bannlagastefnunni, og er það sízt á þá menn logið suma hverja, þótt sagt sé, að þeirra starf hafi lítt að því lotið að glæða virðingu manna fyrir bannlögunum.“

Ég gat þess áðan, að í lögunum hefðu verið glompur, sem andstæðingarnir notuðu til hins ýtrasta. Um þetta atriði segir Pétur Ottesen fyrrv. alþm.:

„Þegar alls þessa er gætt, er það sízt að undra, að nokkuð hafi bannlögin brotin verið. Svo hefur það og komið í ljós við starfrækslu laganna, að ýmsar glompur hafa reynzt á þeim, er lögbrjótarnir hafa snuðrað uppi. Þessar glompur hefur að sjálfsögðu þurft að bæta. Þetta er svo sem ekkert einsdæmi með bannlögin. Svo er það yfirleitt með öll lög og allar lagasetningar, hversu vel sem til þeirra er vandað og hversu vel sem þau eru huguð í byrjun.“

Ummæli Péturs Ottesens og fjölmargra annarra þm. á Alþingi 1917 sýna það, svo að ekki verður um deilt, að andbanningarnir hafa ekki legið á liði sínu með að eyðileggja bannlögin og torvelda á allan hugsanlegan hátt eftirlit með því, að lögin væru ekki brotin.

Eins og ég hef áður bent á, barst andstæðingum bannlaganna nýtt vopn í hendur. Spánverjar, sem höfðu verið allstórir kaupendur að íslenzkum saltfiski og Íslendingar notið beztu tollkjara í sambandi við þau viðskipti, kröfðust þess, að Íslendingar keyptu í staðinn svokölluð Spánarvín, að öðrum kosti mundu Spánverjar hækka tollinn á íslenzkum saltfiski stórlega frá því, sem áður hafði verið. Ég mun ekki eyða tíma í að ræða það mál öllu frekar en ég hef gert hér. Alþingi varð við kröfum Spánverjanna illu heilli, og þar með má segja, að andbanningarnir hafi unnið sinn fyrsta afgerandi sigur í þessu mikla og viðkvæma máli. Nú var brautin rudd, enda notuðu, andbanningarnir sér hin breyttu viðhorf til hins ýtrasta. Áfengissölur voru settar á stofn í helztu kaupstöðum landsins, sumar þvert á móti vilja héraðs- og bæjarstjórna.

Þegar tilskipun um undanþáguna frá bannlögunum var sett, var ákveðið, að undanþágan skyldi aðeins gilda í eitt ár, en á þinginu 1923 var þessu breytt og undanþágan látin gilda áfram óákveðinn tíma.

Ekki leið langur tími, þar til andbanningarnir hófu nýja herferð móti slitrum þeim, sem eftir voru af bannlögunum, og var krafizt innflutnings á sterkum vínum. Árið 1933 var svo innflutningur sterkra vína leyfður, en af einhverjum ástæðum var ekki leyft að flytja inn eða framleiða áfengan bjór innanlands. Þessu undu andbanningarnir mjög illa, enda hafa þeir barizt af miklum ákafa fyrir því að fá áfengan bjór framleiddan í landinu sjálfu til sölu. Fyrst er leyfður var innflutningur á sterkum vinum, voru settar ýmsar hömlur fyrir sölu áfengra drykkja. T. d. voru gefnar út áfengisbækur, sem hljóðuðu upp á vissan skammt af áfengi og hver maður gat fengið. Þetta fyrirkomulag reyndist að sumu leyti sæmilega og varð til þess að draga að einhverju leyti úr neyzlu áfengra drykkja. En þetta fyrirkomulag töldu andbanningar algerlega ófært. Fór svo, að þessar hömlur voru afnumdar. Um tíma var hótelum t.d. og kaffihúsum bannað að selja áfenga drykki nema undir sérstökum kringumstæðum, og þurfti þá að sækja um sérstakt leyfi í hverju einstöku tilfelli. Ekki liðu nema nokkur ár, þar til þessu banni var aflétt. Nú er t.d. hér í Reykjavík fjöldi kaffihúsa ásamt Hótel Borg, sem fengið hafa vínveitingaleyfi og selja áfengi í snöfsum á margföldu verði miðað við það, sem áfengið er selt hjá áfengisverzlun ríkisins og þykir þó nægilega dýrt. Þannig hafa andbanningarnir stöðugt verið að færa sig upp á skaftið og notað til þess stuðning þings og stjórnar, sem ekki virðast hafa séð margt í þessu máli annað en auknar tekjur af áfengissölu til handa ríkissjóði. Rétt er þó að geta þess, að frá þessu eru þó allvirðingarverðar undantekningar.

Ekki hafa vinir Bakkusar hætt baráttu sinni fyrir auknu frelsi í áfengismálunum. Nú er hafin á ný barátta og áróður fyrir framleiðslu á áfengum bjór innanlands. Aðalrök bjórmanna eru þau, að fyrst leyfður sé innflutningur á sterkum drykkjum, sé það hin mesta fjarstæða að banna framleiðslu og sölu á áfengum bjór hér innanlands. Á Alþingi hefur verið flutt frv. til laga, eins og ég hef áður getið um, af hv. 12. þm. Reykv. um, að leyft skuli að framleiða hér bjór, sem hafi að innihaldi 3½% að styrkleika. Sá bjór, sem framleiddur er til sölu hér innanlands, mun hafa að innihaldi 2¼% af áfengismagni, svo að munurinn virðist ekki mjög mikill. En af þeirri reynslu, sem við höfum haft af baráttu andbanninganna fyrir að opna allar gáttir fyrir áfengisflóðinu, er ég sannfærður um, að svo framarlega sem þetta frv. yrði nú samþ., mundi ekki líða á löngu, þar til flutt yrði á Alþ. breyt. á l. um það að auka áfengismagnið allverulega frá því, sem þetta frv. gerir ráð fyrir.

Þrátt fyrir það, að Íslendingar drekka mikið áfengi, eru þeir þó enn þá lægstir með prósenttölu á mann í neyzlu áfengra drykkja, miðað við aðrar þjóðir, eftir því sem skýrslur liggja fyrir um. Ef maður athugar neyzlu annarra þjóða á áfengum drykkjum, kemur í ljós, að Frakkar drekka 21.7 lítra af óblönduðu alkohóli á hvert einasta mannsbarn í landinu, Þjóðverjar drekka 6.10 lítra á mann, England 6 lítra, Sviss 8.4 lítra, Ítalía 9.2 lítra, Bandaríkin 5.7 lítra, Svíþjóð 3.76, Danmörk 3.70, Noregur 3.34 og Ísland 1.70 lítra á hvern mann. Á það má þó benda, að á skýrslur kemur sjálfsagt ekki allt það áfengi, sem neytt er, því að töluvert er um smygl að ræða og hefur alltaf verið, sem mun þá hækka prósenttöluna að einhverju leyti. Allar þær þjóðir, sem ég hef hér talið, drekka mikinn bjór, enda er hann framleiddur í löndunum sjálfum. Mér finnst, að þessi dæmi sýni alveg ótvírætt, að áfengur bjór eykur drykkjuskap, en dregur ekki úr neyzlu sterkra drykkja, eins og bjórmennirnir leyfa sér að halda fram í málflutningi sínum.

Það væri hægt að tala langt mál um skaðsemi áfengis og um hina miklu nauðsyn þess að stemma stigu við áfengisflóðinu, sem er hinn mesti bölvaldur hvers einasta þjóðfélags. Þau eru ótalin þau mörgu mannslíf, sem orðið hafa áfenginu að bráð. Árlega falla í valinn fleiri eða færri einstaklingar meðal þjóðar vorrar vegna neyzlu áfengra drykkja. Mörg hinna mörgu bílslysa undanfarinna ára má rekja til áfengisneyzlu svo og sumar aðrar slysfarir. Mörg af þeim afbrotum, sem framin eru, eru fyrst og fremst framin undir áhrifum áfengis, og þannig mætti lengi telja. Þó eru til menn og því miður allt of margir, sem halda því fram og það, eftir því sem virðist, í fullri alvöru, að sala á áfengum bjór ásamt hömlulausri sölu áfengra drykkja sé það, sem koma skal. Menn með slíkar skoðanir eru sannarlega ekki að hugsa um velferð meðbróður síns. Vonandi ber þjóð vor gæfu til þess að sigrast á áfengisbölinu, en því aðeins getum við vænzt góðs árangurs af starfi þeirra manna, sem barizt hafa og munu halda áfram að berjast á móti áfengisnautninni, að virðulegasta stofnun þjóðarinnar, Alþingi, láti sig aldrei henda það að samþykkja framleiðslu á áfengum bjór til sölu innanlands eða leyfa innflutning slíks drykkjar. Að leyfa slíkt væri að fara úr öskunni í eldinn. Það sýnir saga vorrar eigin þjóðar frá fyrstu tímum og fram á þennan dag, og reynsla annarra þjóða í þessum málum sannar þetta, svo að ekki verður hrakið með rökum.

Hin ískyggilega mikla áfengisneyzla landsmanna er tvímælalaust eitt mesta vandamál, sem verður ekki komizt hjá að taka til alvarlegrar rannsóknar og leita eftir að finna leiðir til úrbóta. Hin mörgu og tíðu slys, bæði á mönnum og tækjum, sem orðið hafa að undanförnu, verða ekki tölum talin. Íslendingar geta ekki og mega ekki láta slíkt ástand sem nú ríkir í áfengismálum okkar láta fram hjá sér fara án þess að gera nauðsynlegar gagnráðstafanir. Hvert mannslíf, og þau eru því miður sorglega mörg, sem ferst af völdum áfengis, kallar á hvern einasta hugsandi mann til starfs á móti þessum mikla skaðvaldi þjóðfélagsins. Þó eru ótalin þau heimili á Íslandi í dag, sem þjást undir voða áfengisneyzlunnar. Þá eru þau heimilin og ótalin, þar sem áfengisneyzla heimilisföðurins hefur sundrað heimilunum til ómetanlegs og óbætanlegs tjóns fyrir börn, eiginkonu og þjóðfélagið í heild. Áfengisneyzlan breiðist mjög ört út á meðal æskulýðs þjóðarinnar, og virðist stefna í hreinan voða, ef áfram verður haldið á þessari óheillabraut.

Allt þetta, sem ég hef hér minnzt á, og ótalmargt fleira hrópar til hvers einasta heilbrigðs, hugsandi manns um að taka upp harðvítuga baráttu á móti áfengisbölinu og hjálpa til að skapa slíkt ástand, að vínguðinn verði útlægur ger. Íslendingar eru fámenn þjóð, sem býr í landi með mikla möguleika, og ótal verkefni bíða óleyst og okkur vantar meira af dugandi fólki, — en ekki fólki, sem er drykkjusjúkt, — sem er tilbúið til að takast á við ný verkefni, sem okkur vantar að koma í framkvæmd. En okkur vantar ekki meira áfengi, hvorki áfengan bjór né neitt annað slíkt. Fyrir því ber okkur að fella fram komið frv.