07.02.1961
Neðri deild: 57. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í C-deild Alþingistíðinda. (2055)

144. mál, áfengislög

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég gerði mér það fyllilega ljóst, þegar ég flutti þetta frv. eða lagði það hér fram, að um það mundi verða mjög mikill ágreiningur. Þess vegna kaus ég að ræða málið á sem breiðustum grundvelli strax í framsöguræðu, og reyndar má segja, að flestum þeim atriðum, sem komið hafa fram hjá þeim hv. þm., sem andmælt hafa og mælt gegn þessu frv., hafi þegar verið svarað í fyrri ræðu minni. Það eru samt sem áður nokkur atriði úr ræðum þeirra hv. þm., sem mælt hafa gegn frv., sem mig langar til að fara nokkrum orðum um.

Ég vil þá fyrst og fremst benda á, að það hefur komið fram hjá tveimur hv. þm., að einmitt það, að frv. skyldi vera lagt fram, hafi þó orðið til nokkurs góðs, þess, að um þetta mál hafi skapazt umræður, sem eftir lýsingum a.m.k. tveggja hv. þm. bera það með sér, að á því hafi verið full þörf.

Ég vil leyfa mér að þakka hv. 3. þm. Vesturl., Halldóri Sigurðssyni, fyrir hans innlegg í þessar umr. Þar koma að vísu fram skoðanir aðrar en ég aðhyllist, en það var þó talað á móti málinu öfgalaust og frá hans bæjardyrum með fullum rökum. Ég vil fyrst snúa mér að nokkrum fullyrðingum, sem hann hélt fram í ræðu sinni.

Hann flutti mjög athyglisverðan inngang að sinni ræðu, þar sem hann tók fram, að sín skoðun á þessu máli eða á samþykkt frv. mundi byggjast á því, hvort það yrði til þess að draga úr áfengisneyzlu eða ekki. Hann sagði og frá því, eð þegar hann fór að kynna sér ástand þessara mála hér á landi, hefði hann séð, að það ástand var miklu verra en hann hefði talið. Hann vitnaði svo í þessum inngangi sínum í mjög athyglisverða grein, sem birtist í Morgunblaðinu fyrir skömmu, eftir einn af okkar ágætu læknum, Helga Ingvarsson yfirlækni á Vífilsstöðum. Hann vitnaði einmitt í málsgrein í þessari grein, sem ég ætlaði mér að vitna í, og ég held, að góð vísa sé aldrei of oft kveðin, en í þessari mgr. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Í Svíþjóð, Frakklandi og mörgum öðrum menningarlöndum fer nú fram ýtarleg rannsókn á útbreiðslu drykkjuskapar og áhrifum hans á heilsufar, siðferði og glæpahneigð. Mest er haft á orði, að rannsóknir þessar og gagnráðstafanir, sem boðaðar eru, séu gerðar vegna þess, að sívaxandi drykkjuskapur kvenna og unglinga sé uggvekjandi.“

Ég benti einmitt á í framsöguræðu minni, að slíkar rannsóknir hefðu þegar farið fram í nokkrum löndum, þ. á m. í Finnlandi, og þar hefðu þessar rannsóknir leitt til ákveðinnar niðurstöðu, sömu niðurstöðu og t.d. Tékkar virðast hafa komizt niður á í meðferð sinna áfengismála. En þessi ágæti læknir sagði meira í þessari grein. Hann sagði í niðurlagi hennar, með leyfi forseta:

„Ég legg til, að ölfrv. sé frestað, en í þess stað geri ríkisstjórn og Alþ. gagngerðar ráðstafanir til, að rannsökuð sé þegar í stað útbreiðsla drykkjuskapar hér á landi og samband alkohóls við óknytti og glæpi, örbirgð og ýmsa sjúkdóma, einkum geðveiki. Almenningur á heimtingu á að fá að vita það sanna í öllu, sem lýtur að alkohólinu. Ég veit, að það mundi opna augu margra. Að lokinni slíkri rannsókn legg ég til, að ábyrgar tillögur milliþinganefndar eða annarra tilkvaddra aðila til úrbóta verði lagðar fram, svo fljótt sem unnt er.“

Þessi læknir virðist vera alveg óhræddur við það, að slík rannsókn verði látin fara fram og að milliþinganefnd, eins og hann vill, leggi síðan slíkar niðurstöður fyrir hæstv. Alþ.

Ég benti einmitt á það í lok framsöguræðu minnar hér á dögunum, þegar ég lagði til, að málinu yrði vísað til allshn. og 2. umr., að ég óskaði eindregið eftir því, að hv. n., sem málið fengi til meðferðar, kynnti sér til hlítar, hverjar skoðanir væru uppi um þessi mál hjá þeim menningarþjóðum, eins og ég orðaði það, sem virðist þó heldur vera dregið í efa í hv. d. af sumum hv. þm. að séu það, — að þessi nefnd kynnti sér þær niðurstöður, sem hefðu orðið til vegna raunhæfs mats vísindamanna, sem, eins og ég orðaði það, störfuðu á ári kjarnorku og tunglferða, en ekki með það að leiðarljósi, sem mótað var í þessum málum fyrir síðustu aldamót.

Ég benti á enn fremur, að það væri nauðsynlegt, að hér heima færu fram ýmsar rannsóknir á ýmsum þáttum okkar þjóðlífs, sem einmitt hafa verið bendlaðir við okkar áfengisneyzlu eða dregnar líkingar af ýmsum framkvæmdum í þessum þáttum af henni. Ég benti á það einmitt í lokaorðum míns málflutnings við framsögu málsins, að ég mæltist til, að sú n., sem málið fengi til meðferðar, gerði þetta. Og ég tók einmitt fram í lok ræðu minnar þá, eins og ég held að hafi komið oftar fram hjá mér í þessari framsöguræðu, hverjar skoðanir mínar á áfengismálum væru almennt. En ég sagði, að ég gengi út frá þeirri staðreynd, að áfengi væri til og yrði á boðstólum hér á landi um ókomin ár, og ég endaði þau orð mín með því að segja, að áfengið mætti kalla eitur, bölvald eða sáluhjálparmeðal, eftir því sem hver vildi, en tilvist þess væri staðreynd og okkur bæri að aðhæfa okkur á sem beztan hátt þeirri staðreynd, reyna að forða ungum og öldnum frá því að neyta þess í óhófi, en umgangast það, eins og ég orðaði það, á vitrænan menningarhátt, sér og sínum að skaðlausu. Ég tók það fram, að ég héldi því fram í sambandi við áfengismál, að það væri hægt að umgangast það á vitrænan menningarhátt, en það, sem við þyrftum að gera í okkar áfengismálum til varnar, er að varna því, að einstaklingar og hópar verði ofneyzlunni að bráð.

Ég býst við, að út frá þessum orðum mínum hafi hv. 3. þm. Vesturl. ályktað, að ég hafi sagt, að með þessu frv. væri stuðlað að drykkjumenningu, eða þá frá þeim lokaorðum í grg. frv., sem virðast hafa farið mjög alvarlega í taugar sumra hv. þm., sem um málið hafa rætt, en þar sagði ég m.a., að slíkt bann sem nú sé á áfengu öli væri móðgun við menningarþroska og frelsiskennd íslenzkra þegna. Nú má vera, að einhverjir hv. þm. hafi misskilið þetta, en ég tel, að það sé móðgun við okkar menningarþroska að álíta, að við verðum, eins og þeir vilja halda fram, ofneyzlu áfengis að bráð og sjúklingar ölneyzlu, á sama tíma og sú áfengislöggjöf, sem hér hefur verið nokkuð lýst og hennar tilorðningu, gefur okkur tækifæri, ungum sem öldnum, vil ég segja, til þess að kaupa og neyta eldsterkra áfengra drykkja, með þeim afleiðingum, sem hér hefur nokkuð verið bent á.

Þá var einn misskilningur, sem hann kom inn á. Hann sagði, að ég hefði haldið því fram, að ölið mundi útrýma sterkum drykkjum. Það hafa aldrei verið mín orð. Hins vegar hef ég bent á það, að ef öl kæmi hér á markað innanlands, áfengt öl, gæti það orðið til þess að draga úr neyzlu sterkra drykkja. Ég benti þessu máli mínu til stuðnings á tölulegar staðreyndir frá tveim nágrannalöndum okkar, sem þegar hefur verið vitnað í. Ég benti á það, að í Finnlandi hefði árið 1952 neyzla áfengis, miðað við alkohóllítra pr. mann pr. ár, verið 1.87 lítrar, og þá hefði fyrir skömmu verið leyft sterkt öl. Alkohólmagnið jókst nokkuð á fyrstu árunum eftir þetta, en síðan fór það minnkandi og var komið árið 1955 niður fyrir það heildarmagn alkohóls, sem neytt var í Finnlandi, þegar sterka ölinu var veitt inn á markaðinn þar. Og mér hefur verið tjáð, að hlutur ölsins í þessari neyzlu, sem var árið 1959 1.72 1, hafi verið 18% af heildarneyzlunni, svo að þarna hefur gerzt tvennt, eins og raunar líka gerðist í Svíþjóð, þegar bjór var leyfður þar eða áfengt öl, að alkohólmagnið, sem neytt var, hafi minnkað og jafnframt hafi sterka vínið verið í minna mæli, þess hafi verið minna neytt á þessum markaði en áður var. Ég benti á það með Svíþjóð, að áður en öl var gefið frjálst þar, hafi heildarneyzlan verið 3.71 alkohóllítri af sterkum og léttum vínum, en eftir að fimm ár voru liðin, var þessi neyzla á sterkum og léttum vínum komin niður í 2.90 1 og heildarneyzlan aðeins 3.76, eða það sama og hún var, áður en ölinu var veitt inn á þann markað.

Hann fór nokkrum orðum um það, hv. 3. þm. Vesturl., hvort ekki væri sama misræmið í því eftir sem áður, þó að leyft yrði að brugga og selja 3½% sterkt öl hér á innanlandsmarkaði. Nú skal ég viðurkenna, að þessi tala, sem þarna er valin af mér sem flm. frv., miðast nokkuð við persónulegt mat á gæðum drykkjarins, og ég skal viðurkenna það líka, að jafnframt miðast það við, að taka eigi fullt tillit til þeirra, sem mæla varnaðarorðum gegn þessari tegund áfengis, eins og ég hef raunar bent á í öllum mínum málflutningi. Þess vegna hef ég og haldið mig við það fyrirkomulag og einmitt bent á og undirstrikað, að það ætti að taka fullt tillit til þeirra manna, sem hefðu mótað 1. gr. áfengislöggjafarinnar, en þar segir, eins og hér var bent á áðan, að vinna eigi gegn misnotkun áfengis, en aftur á móti ekkert, sem bendir á það, að það eigi að banna það.

Ég vil nú aðeins geta þess út af þessum orðum hv. 3. þm. Vesturl., að þó að ég kunni ekki að fara með þann efnafræðilega „prósess“, sem liggur til grundvallar, þá er mjög mikill munur á tilbúningi öls og víns og vín allt annar drykkur.

Hann benti réttilega á það, að mergur málsins væri auðvitað framkvæmd áfengismála. En hann fór mörgum varnaðarorðum um, að ef ekki væri tekið fram í frv., hvernig sölumeðferðin á ölinu ætti að vera, mundi fljótlega koma fram sú eftirgjöf núverandi eða væntanlegra ríkisstjórna, að þessi sala yrði leyfð á frjálsum markaði, sem ég tel þó ekki ástæðu til að óttast, ef sú viljayfirlýsing kæmi fram hjá Alþingi, að sölumeðferðin ætti að vera á þann veg, sem ég hef mælt með. Og ég hef mælt með því og þóttist gera nokkra grein fyrir þeim skoðunum mínum, af hverju ég vildi hafa hér vissar hömlur á sölu áfengra drykkja, og auðvitað, eins og ég hef þegar bent á, mun öl, sem er 3½% að styrkleika, vera talið áfengi eftir núverandi áfengislöggjöf.

Hann kom síðan nokkuð inn á þessar svokölluðu finnsku rannsóknir, sem ég vitnaði í, í minni framsöguræðu, og dró fram þá skoðun sína, að hin deyfandi áhrif ölsins væru það, sem hættulegt væri. Nú held ég, að hv. þm. hafi ekki tekið eftir öllu því, sem ég las úr þessum skýrslum, og t.d. ekki því, að munurinn á viðbrögðum manna, sem drukku brennivínsblöndu og öl, væri mjög mikill, þótt vínandaprósenturnar, eins og ég benti á, væru alltaf þær sömu í því, sem neytt væri. Þannig dró ég það fram úr þessum skýrslum, að þeir, sem drykkju brennivínsblönduna, sýndu meiri tilfinningar, og einkum bar meira á árásarhneigð hjá þeim en hinum, sem drukku ölið. Þeir, sem fyrir þessari rannsókn stóðu, bentu á, að ölið hefði ekki komið mönnum jafnmikið úr jafnvægi og sterku drykkirnir, en tóku fram réttilega, að ef einhvers magns af öli er neytt, áfengu öli, þá auðvitað kemur það mönnum alveg jafnt úr jafnvægi og annað áfengi, enda væri hlægilegt að reyna að fara að verja það, — það er alveg sama, hvort það er þessi tegund áfengis eða önnur, ef þess er neytt í óhófi, þá kemur það auðvitað jafnmikið að sök.

Þetta atriði, sem hv. þm. benti á og hann virtist óttast mjög mikið, að ölið mundi verða fáanlegt á öllum stöðum og mundi orsaka, að það yrði notað til daglegrar neyzlu, — ég fæ nú satt að segja ekki séð betur en við þessu megi sporna. Málið er aðeins til 1. umr. Það á eftir, ef þingmeirihluti er fyrir, að ganga hér í gegnum þrjár umr. og svo aðra d. með þremur umr. Ég get ekki séð annað en að undir þennan leka megi setja í meðförum málsins.

Hv. ræðumaður, 3. þm. Vesturl., spurði, hvort menning væri í áfengisneyzlu. Ég gerði fulla grein fyrir þeim skoðunum mínum í framsöguræðu, að ég teldi, að íslenzku þjóðinni jafnt sem öðrum þjóðum væri það ábyggilega fyrir beztu, að áfengi hefði aldrei verið til. En ég sagði hins vegar, að vegna þess að tilvera þess væri staðreynd, ættum við að reyna að umgangast það, eins og ég hef þegar bent á í þessari ræðu, á það sem ég orðaði vitrænan menningarhátt. Mig langar að spyrja þennan hv. þm. aftur: Finnst honum vera ómenning í hóflegri neyzlu áfengis? Nú er obbinn af Íslendingum, sem neyta áfengis í einni eða annarri mynd, og því hefur verið haldið fram og ég held með nokkrum rétti, að fjórir af hverjum fimm Íslendingum neyti áfengis í einni eða annarri mynd. Eru þetta allt saman ómenningaraðilar, eru þetta menningarsnauðir Íslendingar? Ég held ekki. Ég held hins vegar, eins og ég hef þegar bent á og rækilega undirstrikað í minni framsöguræðu, að það sé ofneyzlan, sem sé hinn mikli þáttur í ómenningunni. En samt sem áður hef ég talið og tel enn, að ef áfengi væri ekki til, værum við a.m.k. ekki aftar á menningarstiginu en við erum nú.

Það er rétt, sem hv. 3. þm. Vesturl. sagði í lok sinnar ræðu, að það er mjög varasamt fyrir okkur að vitna í stórar þjóðir, og allra sízt ættum við að fara lengra í þeim samanburði en til þeirra þjóða, hverra lönd eru ekki aðeins lík okkar landi landfræðilega séð, heldur og menningarlega og efnahagslega, og jafnvel að þær þjóðir séu skyldar okkur a.m.k. í framkomu og menntun.

Hv. 11. landsk. þm. hélt hér skörulega ræðu, sem ég er búinn að heyra oft áður. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara út í þau rök, sem hann flutti fyrir sínu máli. Ég vil þó aðeins benda honum á það, að þegar hann, eins og hann orðaði það, sagði, að andbanningar hefðu ráðið innreið Spánarvínanna, þá vil ég halda því fram, að þar hafi margt fleira komið til greina en bara einhver drykkjusýki ákveðinna manna. Ég vil benda honum á, að það voru margir góðir bindindismenn, sem áttu þátt í því að samþykkja það leyfi.

Hv. 1. þm. Vestf. flutti hér langa og skörulega ræðu, svo sem von og vísa var úr því horni. Hv. 1. þm. Vestf. er einn af þeim mikilvirku og samvizkusömu þm., sem einmitt við hinir yngri þm. eigum að bera og berum fulla virðingu fyrir, enda er hann og einn af þeim þm., sem láta sér fátt mannlegt óviðkomandi, enda rétt að hlíta í sem flestu því, sem hann hefur til mála að leggja. Nú er það svo í þessu máli, að hv. 1. þm. Vestf. virðist eftir máli sínu vera á móti allri neyzlu áfengis. Það er ég hins vegar ekki, ekki að svo stöddu, vil ég leyfa mér að segja, því að ég vil taka það einmitt fram hér, að ef ég sæi fram á, að það væri framkvæmanlegt að koma hér á banni við allri sölu og neyzlu áfengis, þá er ég ekki frá því, að ég mundi styðja það, en mig langar að fara nokkrum orðum um ræðu þessa hv. þm.

Hann sagði að vísu í þessari ræðu, — og það er nú í annað skiptið og við annan þm. hér í dag, — að ég hefði farið með rangt mál. Hann var búinn að nota þessi eða lík orð við hv. 4. þm. Reykn. Ég vil nú leyfa mér að andmæla þessum ummælum hans. Hann vitnaði í framsöguræðu mína og fór nokkrum orðum áður um væntanlegan útflutning á öli. Mér er fullkunnugt um, hvaða reglur hafa gilt hér um áfengt öl fram að þessu. Það hefur, eins og það er orðað, verið heimild til útflutnings á því, og það hefur verið heimild til sölu á þessu áfenga öli til varnarliðsins. Hins vegar hefur alls ekki verið framkvæmanlegt að flytja þetta út, vegna — ja, við skulum kalla það staðhátta, en hins vegar er það orðið framkvæmanlegt nú með samþykkt laganna um tollvörugeymslur á síðasta þingi, og mun nú á næstunni verða tekin upp sala og neyzla þess í íslenzkum flutningatækjum, bæði skipum og flugvélum. Ég orðaði útflutning í sambandi við öl í minni framsöguræðu á þá leið, að eftir að hér hefðu stóraukizt hingað komur erlendra ferðamanna, mundi sú innanlandssala á áfengu öli, sem í miklum mæli mundi fara til þeirrar neyzlu, skapa stórkostlegt og ómetanlegt auglýsingagildi. Þetta voru mín orð, svo að þarna hefur þessi ágæti og mikilvirki þm. hlaupið langt yfir skammt.

Hann tók undir það með mér, sem ég undirstrikaði rækilega í framsöguræðu minni, að öll ofnautn áfengis væri stórkostlegt böl. Undir það skal ég taka með honum. Hann sagði, að ástandið hefði versnað, frá því að hömlunum var aflétt á sínum tíma, og hann sagðist hafa spáð þessu þá og margoft bent á það. En nú langar mig að spyrja þennan hv. þm.: Voru ekki einhverjar forsendur fyrir því, að þessum hömlum var létt af? Voru ekki einhverjar forsendur fyrir því, að skömmtuninni var aflétt? Það er eins og mig minni, að það hafi verið og jafnvel núv. 12. þm. Reykv. hvergi komið þar nærri, hvorki með þær forsendur né aðstoð í því að koma núverandi áfengislöggjöf í gegn.

Hann benti á og undirstrikaði rækilega, að það, sem tryggja hafi átt árangur núgildandi áfengislaga, hafi verið stórlega vanrækt. Hann benti t.d. á, að sú fræðsla, sem hefði átt að fara fram í skólum landsins, sem mig minnir að hafi verið ein klukkustund á viku í áfengislögunum, að það sé alls ekki meira en 45 mínútur á öllu skólaárinu. Undir þetta get ég tekið með hv. ræðumanni og undirstrikað jafnvel enn betur, og kannske er þá komið að einum af mínum meginröksemdum, þegar ég bendi á, að þegar ofneyzla eigi sér stað, þá sé ekki áfengið alltaf orsökin, heldur sá skortur á fræðslu og þekkingu, sem við þyrftum einmitt að búa okkar æsku og unglingum, og einmitt kannske þess vegna mæli ég eindregið með, að sú efnislega brtt., sem hann gerir við áfengislöggjöfina, verði samþ. Ég vil hins vegar taka fram um það, sem hann hafði á orði, að ég hefði ekki vitað um tilganginn með hans brtt., þá er það rétt, að þegar hann sagði mér frá því á fyrsta degi mínum hér í þinginu eftir mín veikindi, þá hafði ég ekki séð annað um þessa brtt. en það, sem í blaði birtist, og þar var ekki getið um, í hvaða formi þessi brtt. var, þannig að ég gat ekki annað en hvað við hv. þm., þegar hann dró þessa fullyrðingu fram, og þótti nú lítið leggjast fyrir kappann, þegar eftir það, sem hann hér hefur lýst og sagt frá að sé hið stórkostlegasta vandamál, sem þjóðin hafi nokkru sinni búið við, og ég skal að nokkru leyti taka undir, þá er hans brtt. við áfengislöggjöfina að koma upp þessu fræðslumyndasafni, sem ég annars skal ekki draga úr, því að það getur ábyggilega gert sitt gagn, og er alveg sjálfsagt að framkvæma það og kannske fyrst og fremst, eins og hann benti réttilega á, að framkvæma núgildandi lög um meðferð og notkun áfengis og fræðslu fólks um áfengi.

Hann spurði mig nokkurra spurninga. Hann spurði mig, hvort sá vandi mundi lagast, sem hér væri til staðar, hvort hér mundi fækka afbrotum og glæpum o.s.frv. Nú álít ég, að þetta mál sé ekki svo einfalt, að það sé eiginlega hægt áð varpa fram svona spurningu, heldur ætti frekar að benda á, eins og ég gerði að vísu í minni grg. og þessi hv. þm. margbenti á, en hann benti þar á þau orð mín, er ég segi, að glæpir vaxa, afbrotum fjölgar, sívaxandi drykkja meðal unglinga valdi stórauknum glæpafaraldri meðal þeirra, slysum og jafnvel manndrápum. Hann gleymdi að vísu að lesa það, sem var undanfari þessarar setningar, en það voru þessi orð: „enda liggur sú staðreynd fyrir, að á sama tíma og öl er forboðinn ávöxtur á Íslandi, þá eykst vínneyzla með hverju ári, bæði sú, sem sést í skýrslum, og einnig hin, sem aldrei sést öðruvísi en í raun.“ Ég tel, að það megi heita, að verið sé að eltast við rófuna á sér, þegar farið er að benda á áfengt öl sem væntanlegan orsakavald um þessa þætti, sem hafa verið lagðir til grundvallar eða taldir mjög skyldir áfengisneyzlu, en ekki bent á, að þessi staðreynd liggur fyrir við núverandi skipan áfengismála.

Mér finnast ekki svaraverðar þær fullyrðingar hjá hv. þm., að ég sé að reyna að blekkja hv. þdm. með því að leggja þetta frv. fram eða þá grg., sem fylgir frv. Mér finnst fráleitt, að aldraður og virðulegur og lífsreyndur þm. skuli koma með svona lagað fram og það við 1. umr. málsins, þegar verið er að leggja það fyrir til umr. Mér finnst þetta alveg fráleitt.

Hann spurði mig jafnframt, hvort ég héldi, að rússagildi og önnur skólaböll fengju meira menningargildi, ef þetta 3½% öl yrði leyft. Ég er alveg sannfærður um og það er mín skoðun, að sú menning, sem ég vildi nú helzt hafa í gæsalöppum, sú menning, sem oft kemur fram á þeim stöðum, mundi alls ekki versna við tilkomu öls. Og ég vil hiklaust halda því fram, að það væri sízt verra fyrir unga menn og konur, ef þau vildu neyta áfengis á annað borð, að neyta öls heldur en brennivíns. Þetta er mín einlæga skoðun.

Það hefur nokkuð verið vitnað í fund, sem hér var haldinn á vegum stúdentafélagsins fyrir skömmu í Sjálfstæðishúsinu. Þar stóð upp ungur maður, sem á börn. Hann vitnaði í blaðafréttir frá hópi ungmenna í Þórsmörk í sumar, sem þóttu svo ofboðslegar, að blöðin sáu sig til neydd að geta um þetta hópferðalag. Þessi ungi maður sagði sama og ég segi: Ég vildi heldur, ef unglingar, sem væru mín börn, færu til fjalla og teldu sig endilega þurfa að hafa áfengi með sér, að þau hefðu með sér öl en brennivín. — Og þar er ég honum sammála, þótt ég hins vegar mæli algerlega á móti því, að börn eða fullorðnir séu að fara út um sveitir í okkar yndislegu náttúrufegurð til að kynnast henni með áfengisflösku í rassvasanum.

Hann minntist einnig á sölufyrirkomulagið, og svo sagði hann einnig, að ég hefði haldið því fram, að ölið drægi úr ofnautn áfengis. Þetta hafa aldrei verið mín orð. Þetta er algerlega rangt hjá þm., að ég hafi sagt, að ölið mundi draga úr ofneyzlu áfengis. Ég var hins vegar með ákveðnar skoðanir um það, af hverju ofneyzla áfengis skapaðist, en að ölið drægi úr ofneyzlu áfengis, hef ég aldrei sagt. Ég hef hins vegar bent á, að ölið gæti dregið úr neyzlu sterkra drykkja, og það eru staðreyndir, sem liggja fyrir frá nágrannalöndum okkar.

Hin hugljúfa postilla hans um andblæ raunveruleikans og sannleikans og samanburð af handahófi læt ég þm. einan um að dæma. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara orðum um þær röksemdir. Mér finnst þær einmitt vera af handahófi. En hann minntist þarna á þau orð mín, að ég hefði aldrei séð ölvaðan verkamann í enskum höfnum. Þessi orð hv. þm. eru eins og fleira, sem hann hefur gripið úr minni framsöguræðu, algerlega úr lausu lofti gripin — og þó ekki algerlega, því að ég sagði þetta, en setningunni var bara ekki lokið, þegar þessi hv. þm. skaut henni hér fram. Ég sagði eitthvað á þá leið, að ég hefði ekki séð meira af drykkju verkamanna í enskum höfnum en ég hefði séð hér í Reykjavík, og þóttist geta, eins og ég sagði, um það dæmt, eins og ég veit að þessi hv. þm. getur líka. Hann benti á það, sem ég efa ekki að sé rétt hjá honum, að vegna ofneyzlu öls og annarra áfengra drykkja hafi á sínum tíma verið settar þær hömlur á áfengissölu að loka fyrir hina svokölluðu bjórbari í Englandi. Ég ætla ekki að rengja þetta. Þetta hins vegar styður það, sem ég hef haldið fram gagnvart mörgum þeirra, sem vilja hömlulausa sölu áfengis. Ég hef alltaf verið með vissum hömlum, og það sést kannske bezt á þessu atriði. Þarna eru settar vissar hömlur, það er ekki bannað, hvorki öl né sterkir áfengir drykkir, heldur settar vissar hömlur. Og þá kemur sú staðreynd, sem hv. 1. þm. Vestf. mótmælti ekki, — þá kemur sú staðreynd í ljós, sem ég held fram, að það sé ekki meira um drykkju verkamanna, sem vinna við losun og lestun skipa í Englandi, heldur en hér í Reykjavík í dag.

En hann tók mjög réttilega fram einmitt í þessu sambandi, að þótt svo væri, — ég held ég fari rétt með það, — þótt svo væri, að þetta fyrirbrigði þekktist ekki, verkamenn undir áhrifum áfengis í Englandi, þá væri það ekki vegna ölsins, heldur hins vegar vegna aldalangrar kennslu og fræðslu, sem hefði stuðlað að þessu. Þarna kemur að því meginatriði, sem ég hef haldið fram og hann virðist vera mjög sammála um, en það er, að það sé ekki ástæðan fyrir ofneyzlu eða of mikilli neyzlu verkamanna eða annarra, hver víntegundin sé, sem sé fyrir hendi, heldur hitt kannske frekar, þekkingarleysið og fræðsluleysið, sem þessir menn sem aðrir búa við í þessum málum. Einmitt þess vegna get ég fyllilega tekið undir þær skoðanir hv. þm., sem hann hefur látið í ljós um, að það liggi við, að það megi vera vítavert, að ekki skuli hafa verið framfylgt til fullnustu þeim ákvæðum núgildandi áfengislaga, sem hafa einmitt bent á ákveðnar leiðir til þess að halda þessari fræðslu og þekkingu uppi.

Þá kom hann með eina setningu, sem virtist hafa átt að vera orðrétt úr minni ræðu, á þá leið, að ég hefði aldrei átt að sjá ölvaðan verkamann í Kaupmannahöfn. Það er nokkuð einkennilegt að bera þetta fram fyrir hv. þd., þegar ég einmitt er búinn að eyða miklum tíma í að segja frá því, að á þeim stað, þar sem ég hvað oftast kem, — líklega svona 20–30 sinnum á hverju ári, sé einmitt mjög mikið um það, að verkamenn á þessum vinnustað neyti áfengis í óhófi. Hitt hef ég aldrei sagt. Hins vegar dró ég fram þá staðreynd, að á öðrum stöðum við höfnina í Kaupmannahöfn þekktist ekki slík áfengisneyzla sem þarna, og ég einmitt lét í ljós skoðun mína um það, hvað ég teldi skýra þetta.

Hann spurði mig jafnframt, þessi hv. þm., hvort ég hefði aldrei séð ölstofur í Nýhöfn í Kaupmannahöfn. Þegar hann sló fram þessari spurningu, datt mér í hug saga, sem gekk hér um Reykjavíkurbæ ekki alls fyrir löngu og var eitthvað á þá leið, að ógift kona, komin á efri ár, hringdi til lögreglunnar og kvartaði við hana yfir því, að það væri allsnakinn maður á ferðinni í íbúð handan götunnar frá hennar íbúð.

Lögreglan kom upp til hennar og leit út um gluggann og sagði svo við konuna: „Nú, það er alls ekki hægt að sjá inn um þennan glugga.“ „Ef þér farið þarna upp á fataskápinn, þá má sjá þetta,“ sagði konan. Þessi hv. þm. benti einmitt á þessar ölstofur í Nýhöfn, sem ég tók einmitt til meðferðar og talaði um sem skemmtistaði, sem mikið væru sóttir í Kaupmannahöfn og það ekki af verkamönnum frekar en öðrum, ekki frekar en bara íslenzkum ferðamönnum, sem koma til Kaupmannahafnar. En ég get sagt honum frá öðrum fyrirtækjum í Nýhöfninni. Ég get sagt honum frá því, að í Nýhöfn Kaupmannahafnar er stofnun, sem heitir Söfartsklubben, sem er rekin fyrir sjómenn, bæði danska og erlenda, og einmitt við íslenzkir sjómenn höfum sótt mikið, — og það væri kannske full ástæða til, einmitt vegna þess líka, að hv. 3. þm. Vesturl. kom nokkuð inn á það, sem er líklega eitt mesta vandamálið á meðal vinnandi manna á Íslandi í dag, en það er drykkjuskapur ákveðinnar stéttar, sem ég ætla sízt að draga úr, þó að svo aftur á móti, hvað gera skuli til að forða því, sé annað mál, sem kannske verður tími til þess að hreyfa hér innan tíðar, — þá vil ég benda hv. 1. þm. Vestf. á, að þessi klúbbur, sem ég vitnaði í, er rekinn af stofnun, sem mætti þýða lauslega á íslenzku og kalla Velferðarráð farmanna. Svo er mál með vexti, að fyrr á árum og allt fram í síðustu heimsstyrjöld voru rekin sjómannaheimili í höfnum víða um heim, en sá var galli á gjöf Njarðar, að því er þeir sjómenn, sem áttu að njóta þeirra, töldu, að á þessum stöðum voru sífelldar, — ég hef heyrt marga eldri sjómenn einmitt minnast á þetta, — á þessum stöðum voru sífelldar prédikanir um eina og aðra ofneyzlu, sérstaklega áfengis, og spillingu í tómstundalífi þeirra. Í stríðinu aftur á móti og eftir stríðið var tekin upp ný stefna í þessum málum. Það voru eldri sjómenn, sem gengust fyrir því ásamt skipafélögum og fleiri stofnunum, sem lögðu fé til þess að koma á fót sjómannastofum, ekki aðeins þarna í Kaupmannahöfn, eins og ég hef bent á, og viðar í Danmörku, heldur og í höfnum um allan heim, þar sem t.d. farskip Norðurlandabúa koma. Og hver var meginskoðun þeirra manna, sem réðu þessum sjómannastofum, um áfengismál? Jú, hér höfum við ekki til sölu sterka, áfenga drykki, en við skulum hafa gott öl handa ykkur, og það var til sölu á þessum stöðum. Og hvernig snerust þessir sjómenn við þessu, þegar þeim var boðið upp á þetta? Jú, aðsóknin alveg stórjókst, og þessar sjómannastofur, þar sem komið var fram af nokkrum skilningi á skoðunum þessara manna og jafnvel þörf, — við getum sagt sálarlegri þörf fyrir vissan skammt af áfengi, — það var komið fram af skilningi við þessa menn, þeim var boðið upp á þær tómstundaathafnir, sem eiga að vera á slíkum heimilum, og það hefur líklega fátt gert meira til þess að draga úr því, sem ég kalla ofneyzlu áfengis meðal þessarar stéttar, en ekki var til staðar, áður en farið var inn á þessa braut.

Hv. 1. þm. Vestf. fór nokkuð inn á orð mín og samanburð á verkamönnum Gautaborgar og Kaupmannahafnar. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara inn á það nánar, ég skal aðeins vísa til þeirra orða, sem ég hafði um þetta í framsöguræðu.

Hann kom einnig eins og hv. 3. þm. Vesturl. inn á hina mjög rómuðu skýrslu Fagerholms hins finnska og vildi halda því fram, að hans einkasamtöl við þennan mæta mann væru nokkuð á annan veg en segði í þessari skýrslu. Ég skal ekki fullyrða um það. Ég veit hins vegar, að sá Íslendingur, sem fylgdist með þessum málum, eins og ég sagði frá í framsöguræðu minni, átti viðtal ekki aðeins við þá vísindamenn, sem stóðu að þessum rannsóknum, heldur og umræddan Fagerholm, hann fullyrðir, að hann hafi talað við þennan finnska stjórnmálamann. Þessi stjórnmálamaður, eins og ég gat um í þeim tilvitnunum, sem ég hafði í minni framsöguræðu í þessar rannsóknir eða í það útvarpserindi, sem þessi vísindamaður hér heima ætlaði að halda, en fékk ekki að halda, vegna þess, eins og honum var tjáð í Ríkisútvarpinu, að þá mundu, eins og það var orðað þar, templarar verða bandvitlausir, hann einmitt tók það fram, að í þessari n., sem stóð fyrir þessum rannsóknum, hefði forstjóri áfengisverzlunarinnar, K. A. Fagerholm, átt sæti, og hann lauk þessu erindi á því að minna á orð Fagerholms, en ég vil leyfa mér, með leyfi forseta, að vitna í þetta erindi, en þar segir í lokin:

„Tilgangurinn með öllum þessum rannsóknum er vitanlega sá að fá úr því skorið á hlutlægan hátt, hvaða áfengispólitík muni vera skynsamlegust. Starfsáætlunin“ — þ.e. starfsáætlun þeirra rannsókna, sem fram fóru — „hefst, eins og áður var sagt, með þessum orðum: Áfengisvandamálið er, eins og kunnugt er, eitt hinna erfiðustu og mest aðkallandi allra félagslegra og mannlegra vandamála í Finnlandi. Ákvarðanir, sem gerðar verða í þessu máli, má ekki byggja á tilfinningasemi og ekki heldur á pólitískri valdaaðstöðu, en aðeins á hlutlægum, vísindalegum sannleika.“

Svo segir í lokin:

„Þegar ég spurði Fagerholm, einn þekktasta stjórnmálamann Finna, hvaða afleiðingar þessar rannsóknir, sem senn er lokið,“ — þeim var ekki alveg lokið, þegar hann bauðst til þess að flytja þetta erindi í útvarpið, mundu hafa á áfengispólitík Finna, þá segir þessi höfundur, að Fagerholm hafi sagt, „að á því væri enginn efi, að Finnar mundu reyna að draga úr neyzlu sterkra drykkja, eftir því sem við yrði komið, en það yrði ekki reynt að gera það með banni og höftum, því að slíkt hefði þegar sýnt sig að vera algerlega þýðingarlaust. Finnar mundu reyna að hafa á boðstólum sem víðast létt vín og öl, og væri nú unnið að því að gera tilraunir með ölframleiðslu í því skyni að gera ölið sem allra bragðbezt og aðgengilegast. Ofneyzla áfengis,“ en svo endar erindið, „ofneyzla áfengis og óhappaverk þau, sem unnin væru í ölæði, væru svo mikið þjóðarböl, að sjálfsagt væri að hlíta niðurstöðum vísindanna og gera það, sem skynsamlegast hefði reynzt í slíku máli.“ (Forseti: Nú er spurningin, hvort hv. þm. á mikið eftir til að ljúka máli sínu eða hvort hann geti lokið því á stuttum tíma.) Ég á nú töluvert eftir ósagt. (Forseti: Ætli það væri þá ekki eðlilegast að fresta umræðunum núna, því að það eru sennilega fleiri, sem ætla að taka til máls?) Ég á alveg eftir að svara einum ræðumanni, en ég skal hætta að sinni. [Frh.]