09.02.1961
Neðri deild: 58. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í C-deild Alþingistíðinda. (2059)

144. mál, áfengislög

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég býst nú ekki við, að mér takist að verða jafngamansamur í sambandi við þetta mál og hv. 1. þm. Norðurl. v., enda kannske ekki þess að vænta. Ég hef hlýtt hér á svarræðu hv. flm. og ekki orðið miklu fróðari af því, sem þar hefur verið fram flutt. En þegar eru tekin út öll persónuleg hnotabit, sem ég tel ekki að sé vert að vera að eyða tíma hv. þm. í og ég mun leiða hjá mér að svara, sýnist mér, að þessi meginatriði standi eftir.

Fyrst, að engin ný rök hafi komið fram frá hv. flm., sem styðji þá nauðsyn, að frv. verði samþykkt. Engin ný rök. Endurtekning fyrri raka, sem að langmestu leyti voru engin frambærileg rök, eru engin ný rök. Þar er aðeins um endurtekningu að ræða. Og rökleysi verður ekki að rökvísi, þó að það sé margendurtekið.

Hins vegar hafa mörg orð fallið hér af vörum hv. flm., sem beinlínis styðja það, að ekki eigi að samþykkja þetta frv., eins og það liggur fyrir, heldur verður þá að breyta því á þann hátt, sem ég legg til í brtt. minni hér í Alþingi, og skal ég nokkuð benda á það.

Hv. flm. lagði sjálfur til í seinni ræðu sinni, að samþykkt þessa frv. skuli frestað, en í stað þess verði skipuð milliþinganefnd til þess að rannsaka málið, — segist hafa bent hv. þingmönnum á þessa leið. Ég tel, að það sé ekkert útilokað að fá samkomulag um slíka afgreiðslu málsins. En ef samkomulag ætti að nást á þessum grundvelli, þarf að samþykkja mína brtt. og bæta svo við frv. nýrri grein sem bráðabirgðaákvæði um að skipa nefnd til þess að athuga ástandið í áfengismálunum og bera fram raunhæfar tillögur til úrbóta og m.a. sé þá athugað, hvort sala á sterku öli innanlands geti bætt ástandið, eins og það er í dag. Ég er tilbúinn til þess að ræða við hv. flm. um þessa afgreiðslu málsins. En ég segi: hvers vegna var þá verið að bera frv. fram í þessari mynd, ef það hefur legið á bak við hjá hv. þm. að vilja fara þessa leið? Ég skal ekki ræða frekar um það, en ég er fullkomlega til viðtals um, að málið sé þannig afgreitt.

En þegar nú hv. flm. hefur flúið úr öllum varnarstöðvum og hann hefur enn fremur viðurkennt, að við þurfum að varna því, að einstaklingar og hópar verði ofdrykkjunni að bráð, því að þetta hefur hann viðurkennt í umr., að málið sé ekki svo einfalt, að sanngjarnt sé, að hann svari slíkum spurningum og þeim, er ég beindi til hans í minni ræðu í sambandi við umbætur á ástandinu, — því hefur hann einnig haldið fram, — og í þriðja lagi, að sala sterks öls hér geti ekki dregið úr ofnautn áfengis og því síður útrýmt henni, heldur í hæsta lagi bætt eitthvað drykkjumenninguna, því að betra sé þó að drekka öl en brennivín, — þegar allt þetta liggur fyrir og það liggur fyrir skjallega hér, er þá nokkuð ósanngjarnt að spyrja hv. flutningsmann hvað knúði hann til þess að flytja þetta frumvarp og það í því formi, sem það er flutt? Hvaða aðilar eru það, sem hafa svo brennandi áhuga á þessu máli, að það nái fram að ganga í því formi, sem það var flutt, að hv. flm. þætti rétt og teldi nauðsynlegt að flytja það? Það hefur ekki komið fram hér í umr. Hv. þm. er einn af þm. Reykjavíkurbæjar. Ég spyr hann því: Var það Sjálfstfl., sem óskaði eftir því, að hann bæri þetta frv. fram? Mér er a.m.k. ekki kunnugt um það. Og þar til annað kemur fram, mótmæli ég því, að það hafi verið að hans tilhlutan, að málið hafi verið borið fram í því formi, sem það er, eða í nokkru formi. Ég spyr: Var það hæstv. dómsmrh.? Ég mótmæli því einnig, að það geti verið, og vísa þar til ummæla hæstv. dómsmrh., sem hann hafði um þetta mál, þegar hann sjálfur bar það fram í frumvarpsformi, stjfrv. 1952 og aftur 1953, og tók þó út þetta ákvæði úr frv., sem hafði verið sett inn í af milliþinganefndinni. Ég á ekki von á því, að hæstv. dómsmrh. hafi nokkuð snúizt í því máli síðan, svo að þaðan getur það ekki verið runnið. Eru það þá stéttarbræður hv. flm., eru það þeir, sem hafa óskað eftir því, að málíð væri borið fram hér á Alþingi, sjómennirnir í landinu? Ég fæ ekki trúað því, fyrr en eitthvað annað liggur fyrir til sönnunar því. Er það þá Reykjavíkurborg, eru það forustumenn Reykjavíkurbæjar, sem hafa óskað eftir því? Ég mótmæli því harðlega. Er það lögreglustjóri eða lögreglan í Reykjavík, sem hefur óskað eftir því, að frv. nái fram að ganga, til þess að fá enn meiri vandræði í þeim málum? Ég trúi því ekki. Er það heilbrigðiseftirlitið í landinu, sem hefur óskað eftir því, að það væri gert, m.a. landlæknir? Við höfum svörin frá lækni á Vífilsstöðum. Ég trúi ekki heldur, að læknar eigi þátt í flutningi þessa frv. Eru það þá einhver félagasamtök, t.d. kvenréttindafélögin eða kvennafélögin yfirleitt? Vart trúi ég því. Eru það verkalýðsfélögin í landinu? Hér hefur komið yfirlýsing um það á hv. Alþingi, að það séu ekki þau, sem standi á bak við það. Er það Bláa bandið, sem hefur óskað eftir því, að þetta frv. yrði borið hér fram til þess að hjálpa þeim í þeirra starfsemi? Ekki trúi ég því. Eða templarar? Varla trúi ég því, að það séu þeir. Er það áfengisvarnaráð, sem hefur óskað eftir því, að frv. væri borið fram? Því trúi ég ekki heldur. Eru það þá leynivínsalarnir? Nei, ég trúi ekki því, að þeir hafi heldur gert það. Ekki léttir það göngu þeirra um að græða peninga á smygli. Eða eru það smyglararnir? Eru það samstarfsmenn hans á flotanum, sem — (Hlátur.) Ég er líklega að verða eins gamansamur og hv. 1. þm. Norðurl. v. Eru það þeir, sem hafa óskað eftir því til þess að þurfa ekki að skera í sundur vatnsþéttu skilrúmin í skipunum, þar sem þeir eru að vinna, og fréttir segja um daglega, að sé verið að gera? Því trúi ég ekki heldur. Eru það tryggingafélögin, sem tryggja það tjón, sem ofdrykkjan veldur í landinu? Nei, það er ekki hægt að gera ráð fyrir því. Er það Tryggingastofnun ríkisins, til þess að fá enn fleiri menn í tuga- og hundraða- og þúsundatali til þess að komast á örorkustyrki þar? Nei, því trúi ég ekki heldur. Eru það ökumannafélögin, sem hafa beitt sér fyrir því til að draga úr vínnautninni? Nei, það geta ekki heldur verið þau.

Þá komum við að einu: Eru það ferðaskrifstofurnar, vegna þess að það auki ásókn erlendra ferðamanna að koma hingað til Íslands og njóta hins ágæta öls? Er það, það? Ég skal ekki segja um það, það getur vel verið. En ég vil aðeins leyfa mér í því sambandi að benda á, að hér voru staddir á síðasta sumri margir erlendir ferðamenn, m.a. í sambandi við Norðurlandaráð, og einnig okkar ágæti Fagerholm. Og þegar þeir fóru héðan, var það tvennt, sem þeir voru mest undrandi yfir. Annað voru þau mörgu grettistök, sem íslenzka þjóðin hafði lyft á þessari öld. Þeir skildu bókstaflega ekki, hvernig svo fámenn þjóð hefði getað lyft öðrum eins grettistökum og hér hefði verið lyft og einkum og sér í lagi á síðustu árum. Þetta var annað, sem þeir voru undrandi yfir. Hitt var, hve mikið var drukkið á Íslandi. Þeir sátu, m.a. allir forsetar ráðsins að undanteknum mér, — ég var ekki með þeim það kvöld, — inni á einu mjög ágætu matsöluhúsi, og sögðu þeir mér, að þeir hefðu séð, sem þeir spurðu mig að, hvort væri venja yfirleitt, fjölda af ungu, glæsilegu fólki byrja með því að drekka vínblöndu, eins og gert er þegar menn fá sér miðdegisverð, drukkið svo eina tegund víns með hverjum rétti, endað með konjaki með kaffinu — og hefðu sjálfsagt einnig tekið öl með, ef það hefði verið fyrir hendi, til þess að njóta allra gæðanna, og endað svo með því að drekka sig kolfulla, kvenfólk og karlmenn, í viský svo lengi sem opið var, og það undruðust þeir mest, hvernig þessi þjóð með slíkri áfengismenningu, eins og varð fyrir þeim hér, á sama tíma gæti verið leiðandi þjóð á mörgum sviðum í atvinnulífinu. Þeir sögðu líka við mig: Þetta hlýtur að vera fádæma gott land að þola þetta og samt sem áður er verið að byggja landið upp.

En hvaða aðrar leiðir eru svo til þess að laða hingað ferðamenn en að flytja sterkt öl inn í landið? Ég skal benda hv. flm. á, að það eru háværar raddir um það í dag, að við töpum milljónum á því að koma ekki betra skipulagi á hótelmenninguna í Keflavík, því að þúsundir manna fara þar um og geta ekki einu sinni fengið öl eða kaffibolla eða neitt til að hressa sig á frá því snemma á kvöldin þangað til snemma næsta morguns. Ég hygg, að hv. flm. ætti að taka sig til og beita sér fyrir því, að það yrði opnað þar fyrir almenning, ekki bjórstofa, heldur bara almennar veitingar, svo að þetta fólk þurfi hvorki að skjálfa í kulda þar né vera miður sín fyrir það, að allt sé lokað á þeim ágæta stað, og um þennan stað fara þúsundir manna. Ég skal gjarnan vera með honum, ef hægt væri að koma því máli í eitthvað betra horf. Ég minnist líka, eins og ég sagði hér um daginn, að það var meginþátturinn í því að leyfa meira frelsi í áfengissölu 1953 en gert var, að það væri hægt að byggja hér upp betri hótel fyrir ferðamenn en áður hefði verið. En hefur það verið gert? Allt það hefur verið vanrækt.

Það sagði við mig einn ágætur maður í gær í samtali, að ástæðan fyrir því, að hann væri fylgjandi þessu frv., — þetta var einn af ágætum hv. þm., — væri sú, að hann eins og flestir aðrir, sem hefðu kynni af því, hvers vegna unglingarnir í dag héngju á sjoppunum, eins og kallað er, og drykkju þar gosdrykki, sem þeir blanda með brennivíni, telji sér skylt að vera með því, að þetta frv. nái fram að ganga. En ég vil spyrja: Er nokkur von til þess, ef þessir sömu unglingar hafa þá nákvæmlega sömu aðstöðu og e.t.v. sömu tilhneigingu til þess — ekki að blanda gosdrykkina með brennivíni, heldur ölið með brennivíni, af því að þeim þyki það ekki nógu sterkt, — er nokkur von til þess, að það verði til þess að minnka ósiðina í sambandi við drykkju í landinu? Ég held ekki. Ég held, að það verði mikil og stór hjálp til þess að auka þá stórkostlega, og þess vegna er ég á móti samþykkt frv. Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að benda hv. flm. á, sem ég veit að hann mun þekkja, hver er reglan í þeim löndum, sem hann er svo kunnugur, — ég þekki nokkuð vel til líka, — þegar haldið er hádegisverðarboð með köldum rétti. Hver er reglan? Hún er almennt sú að byrja að drekka brennivín með síldarréttunum og á eftir brennivín með bjór, sterkum bjór, drekka síðan konjak með kaffinu og þar næst sterkari drykki á eftir. Ég hef ekki séð, að bjórdrykkjan við þessi hóf hafi dregið nokkuð úr viskýdrykkjunni, eftir að hádegisverðinum er lokið. Ég hef ekki séð það, og það sannar mér ekki, að það batni við bjórinn, nema síður sé, og það hefur hv. flm. viðurkennt, að það sé versta blanda, sem hægt sé að drekka, þegar farið sé að drekka bjór, sem blandaður sé sterkari tegundum, og það hafi hinar vísindalegu tilraunir í Finnlandi sýnt, að þar séu verst áhrif á taugakerfi manna og líkama allan, svo að ekki eigum við að óska eftir því.

En síðustu rökin og einu rökin, sem að nokkru leyti er hægt að hlusta á í sambandi við þetta mál, eru þó þau, að það sé hægt fyrir ríkissjóðinn að græða allmikið fé á þessari bjórsölu. Ég trúi því ekki, að núv. hæstv. fjmrh. hafi lagt á það áherzlu eða það sé frá hans brjósti runnið að flytja málið til þess að ná þannig nýjum tekjum í ríkissjóðinn. Ég trúi því ekki. En sé það aðalástæðan að fá nýtt fé í sambandi við sölu á þessari vöru, þarf náttúrlega frv. að verða miklu ýtarlegra en það er og alls ekki að láta þau mál koma fram í reglugerð, heldur í lögunum sjálfum.

Þá vil ég spyrja þá hv. þm., sem ef til vill kunna að fylgja þessu frv. í gegn, sem ég veit ekkert um, og þá hv. flm.: Vilja þeir vera til umr. við okkur hina, sem viljum ekki ölið, að allur sá gróði, hver einasti eyrir, fari til þess að útrýma áfengisbölinu á Íslandi?

Ég er rétt að ljúka mínu máli, herra forseti. Hv. flm. var að núa mér því um nasir, að ég væri með ofstæki í þessu máli. Ég er alveg viss um, að ef hann hefði varið jafnlöngum tíma til þess að kynna sér það böl, sem áfengið hefur skapað í þessu landi, og ég hef gert, og er þó engan veginn nema brot af þeim tíma, sem þyrfti að verja til þess, þá væri hann á nákvæmlega sama máli og ég í þessu máli, — nákvæmlega sama máli. En þegar hann fer með ummæli mín þannig, að ég hafi sagt hér fyrr í minni ræðu, að þetta ætti jafnvel að koma hér í staðinn fyrir móðurmjólkina, þá finnst mér nú skörin vera farin að færast upp í bekkinn, því að orð mín um það féllu sem hér segir, með leyfi hæstv. forseta, og eru tekin beint upp af segulbandinu:

„Alger afneitun öls og annars vínanda um meðgöngutímann og fram yfir þroskaskeið móður, frá því að móðir hættir að næra barnið með brjóstmjólkinni, er áreiðanlega miklu sterkari vernd en dagleg neyzla öls, sem inniheldur 3½%.“

Er nokkurt ofstæki í þessum orðum? Ég held, að hv. flm. verði að finna orðum sínum betri stað eða hafa einhver sterkari rök en þetta til þess að stimpla mig sem einhvern sérstakan ofstækismann.

Ég skal svo verða við þeirri ósk hv. 1. þm. Norðurl. v. að ræða þessi mál mjög ýtarlega við herra Fagerholm, þegar við komum saman eftir 14 daga og hittumst þar yfir öli og pylsum, ef hv. Alþingi vil] bíða eftir þeim ummælum, sem frá honum kynnu að koma.