09.02.1961
Neðri deild: 58. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í C-deild Alþingistíðinda. (2060)

144. mál, áfengislög

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki misnota tímann lengur. Það er þó sannarlega gott, að eftir allar þessar umr. séu menn svo gamansamir sem þeir eru, sérstaklega 1. þm. Norðurl. v. Ég sakna þess sannarlega, að Framsfl. skuli ekki velja hann til þess að verða meðreiðarmann 1. þm. Vestf. í pylsuveizlu Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn, sem hefst innan skamms.

Ég tek undir það, sem hv. 1. þm. Vestf. sagði í sinni ræðu, að hér hafa ekki komið nein ný rök fram. Það hefur ekkert komið hér fram, sem ég hef ekki verið búinn að fara orðum um áður. En það er misskilningur í orðum 1. þm. Vestf., sem ég vil leiðrétta. Ég dró fram niðurlagsorð Helga Ingvarssonar yfirlæknis á Vífilsstöðum um, að hann óskaði eftir, að mþn. fjallaði um málið, vegna þess að ég hafði einmitt lokið minni framsöguræðu á því, að sú þingnefnd, sem fengi málið til meðferðar, tæki málið til ýtarlegrar meðferðar og skoðunar og kynnti sér einmitt þær nútímastefnur, sem uppi væru í þessum málum í nágrannalöndum okkar.

Þeirri löngu upptalningu hv. síðasta ræðumanns og spurningalista um það, hverjir hafi fengið mig til þess að flytja þetta frv., — að ég tali nú ekki um hið smekklega innskot hv. þm. um sína eigin stéttarbræður, sem eru einu mennirnir á íslenzkum farskipum, sem hafa logsuðutæki í höndum, þau hefðu verið betur ósögð, — ég get svarað því fljótt, þessari spurningu hv. þm., hver hafi fengið mig til þess að flytja þetta frv. Það er sannfæring mín. Ég hef ekki aðeins heimild til þess, heldur líka skyldu samkv. stjórnarskrá Íslands, og ég tel, að einmitt þessi gamli, æruverðugi þm. hafi það ekki síður en ég. Þess vegna hef ég aldrei leyft mér einu sinni að bera fram slíka spurningu við þennan hv. þm. í þessari hv. d., jafnvel þótt ég hafi oft séð ærna ástæðu til þess að spyrja hann að því, hver hafi fengið hann til þess að bera sum af þeim málum inn í þessa deild, sem hann hefur borið hér fram:

Ég ætla að taka það fram að lokum, að ég held mig við þá till. mína, að málinu verði vísað til allshn. Það er mesti misskilningur, að ég hafi mælt með því, að hans till. væri samþykkt í þeirri mynd, sem hann hefur borið hana fram. Ég tel hins vegar, að þessi till. eða efni hennar ætti að samþykkjast, og því skal ég vera með. Þess vegna má hans till. fara til menntmn. En ég held fast við mína till., að þessu frv. verði vísað að umr. lokinni til allshn.