23.03.1961
Neðri deild: 80. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í C-deild Alþingistíðinda. (2063)

144. mál, áfengislög

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Þann 10. febr. var vísað til allshn. 144. máli, um breytingu á áfengislögum, nr. 58 24. apríl 1954, ásamt brtt. frá mér á þskj. 277, sem er þess efnis, að í staðinn fyrir meginmálsgreinina í l. komi inn sérstök grein, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Áfengisráð lætur gera kvikmyndir um öll þau atriði, sem talin eru upp í 1, mgr. þessarar greinar. Skal fræðslumálastjórninni skylt að sjá um, að skólarnir eigi jafnan kost á að sýna kvikmyndir þessar í heild eða kafla úr þeim, eftir því sem við á á hverju skólastigi, og að þeir eigi enn fremur aðgang að hentugum kennslubókum og öðrum kennslukvikmyndum til fræðslu um áhrif áfengisnautnar, enda sé hér haft fullt eftirlit með því, að haldið sé uppi slíkri fræðslu í öllum skólum landsins. Kostnaðurinn við kvikmyndagerðina greiðist úr gæzluvistarsjóði.“

Af þeim umr., sem fóru fram um málið hér á Alþingi, varð ljóst, að málið sjálft hafði ekki þingfylgi. Hins vegar mátti gera ráð fyrir, að þessi brtt. hefði fullt fylgi í þinginu, og hefði því átt að vera búið að afgreiða málið. Nú er sýnilegt, að málið fær tæplega afgreiðslu á þessu þingi. Baráttu fyrir breytingu á löggjöfinni til þess að varna því böli sem áfengið veldur í landinu, verður ekki hætt. Ég vil því mælast til þess við hæstv. forseta, að hann knýi hv. allshn. til þess að gefa a.m.k. út nál. um þetta mál, áður en þingi lýkur. Þá liggja þó fyrir nokkur gögn til leiðbeiningar á næsta þingi, því að þá verður reynt á ný að knýja fram umbætur á löggjöfinni. — Ég vænti þess, að hæstv. forseti taki þessu vel.