07.12.1960
Sameinað þing: 22. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í B-deild Alþingistíðinda. (207)

1. mál, fjárlög 1961

Geir Gunnarason:

Herra forseti. Ásamt hv. 3. þm. Reykv, flyt ég á þskj. 184 fjórar brtt., sem ég vildi gera grein fyrir með nokkrum orðum.

Fyrsta tillagan er, að framlag til styrktar íslenzkum námsmönnum erlendis og við Háskóla Íslands hækki úr kr. 6 millj. 595 þús. í 3 millj. kr. Sú gengislækkun, sem lögfest var s.l. vetur, hefur valdið stórfelldri kjararýrnun hjá öllum almenningi í landinu. Enn stórkostlegri gjaldaaukning en almenningur hefur orðið fyrir, lendir þó á þeim Íslendingum, sem erlendis dveljast tekjulausir og greiða þurfa erlendan gjaldeyri með íslenzkum krónum. Framlög til íslenzkra sendiráða erlendis hafa verið hækkuð um 50–70% vegna efnahagsráðstafananna. Sú útgjaldahækkun, sem af efnahagsráðstöfunum leiðir, er í því tilfelli að fullu greidd af ríkissjóði. En íslenzkir námsmenn, sem erlendis dveljast, hafa fengið nálega 1/3 hluta af námskostnaði sínum frá ríkissjóði, af þeim lið, sem hér er lagt til að verði hækkaður. Að vísu hafa íslenzkir stúdentar erlendis fengið með hækkuðum fjárveitingum á fjárl. bætur fyrir kostnaðarauka af verðhækkunum, sem svarar til þess hluta námskostnaðar, sem þeir hafa greitt með framlagi ríkissjóðs. En sú fjárveiting dugir ekki nema til 1/3 hluta af námskostnaði, og fyrir því, sem á vantar, hafa námsmenn séð með aðstoð aðstandenda sinna og ýmsir þeirra einnig með sumarvinnu hér heima. En efnahagsráðstafanirnar hafa lent á fjölskyldum þeirra og aðstandendum hér heima af slíkum þunga, að þeir aðilar geta sízt af öllu aukið sinn hlut af greiðslu námskostnaðarins. Þá hafa fargjöld hækkað svo verulega, að naumast er lengur um það að ræða, að námsmenn geti farið heim til sumarvinnu, eins og einstaka þó áður gerði. Það horfir því þunglega fyrir íslenzkum námsmönnum erlendis, og hér er um alvarlegt vandamál að ræða. Um þörf þjóðarinnar á sérmenntuðu fólki ætla ég, að ekki sé þörf að ræða hér, en vildi þó mínna á, að spádómar um framtíðarviðgang hinna ýmsu þjóða eru í dag ekki hvað sízt miðaðir við það, hversu margt sérmenntað fólk þeim bætist á ári hverju. Það er því alvarlegt mál, að nú blasir það við, að vegna aðgerða Alþingis í efnahagsmálum s.l. vetur verði hópur námsmanna, sem nú þegar hafa sjálfir og þjóðin öll kostað miklu til langskólanáms, beinlínis að hverfa frá óloknu sérnámi, og auk þess mun að sjálfsögðu draga úr því, að ungir, efnilegir námsmenn geti hafið sérnám erlendis.

Vegna hins stóraukna kostnaðar við nám erlendis og þeirra alvarlegu viðhorfa, sem af því leiðir, hafa íslenzkir stúdentar, sem nám stunda þar, gengizt fyrir stofnun samtaka íslenzkra stúdenta erlendis. Í bréfi, sem samtökin hafa sent alþingismönnum, segir m.a. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Snemma í septembermánuði s.l. komu nokkrir framtakssamir stúdentar sér saman um nauðsyn þess, að boðað yrði til almenns fundar með stúdentum, er nám stunda við erlenda skóla, og rætt, hvernig bezt yrði gengið til móts við hinn aukna námskostnað, sem varð eftir gengisfellingu íslenzku krónunnar á s.l. vetri, en láta mun nærri, að allur þorri námsmanna sjái sér ekki leið til áframhaldandi náms, ef ekki verður að gert.“

Og síðar segir svo um viðræður fulltrúa samtakanna við hæstv. menntmrh.:

„Þá lofaði menntamálaráðherra að leggja fram frumvarp á Alþingi um sameiningu lánasjóða stúdenta, er nám stunda heima og erlendis, og beita sér fyrir, að lán og styrkir yrðu hækkaðir, svo að næmi 2/3 hlutum árlegs námskostnaðar, og sérstök yfirfærsla veitt fyrir skólagjöldum.“

Enn hefur ekkert komið fram um efndir á þessu loforði, og á frv. til fjárlaga fyrir næsta ár er námsmönnum ætluð sama upphæð og á þessu ári. Þar sem nú er komið að afgreiðslu fjárlaga og ekkert liggur enn fyrir um umbætur í þessu efni, er því með brtt. þeirri, sem hér er flutt, lagt til, að styrkur til íslenzkra námsmanna erlendis hækki um 1 millj. 405 þús. kr., þannig að til námsmanna erlendis og við Háskóla Íslands verði veittar 8 millj. kr. í stað 6 millj. 595 þús., og er það vægilega í sakirnar farið. Leyfi ég mér jafnframt að vænta þess, að hæstv. menntmrh. geri hv. Alþingi kunnugt, hvernig ætlunin er að efna þau loforð, sem samtökum íslenzkra stúdenta erlendis hafa verið gefin.

Önnur brtt. fjallar um hækkun á framlagi til kennslukvikmyndasafns, þ.e. fræðslumyndasafns ríkisins. Um safn þetta og nytsemi þess var rætt í hv. Nd. fyrir skemmstu vegna frv. til laga um safn þetta, sem nú liggur fyrir Alþingi, og sé ég ekki ástæðu til að endurtaka neitt af því hér. En öll menntmn. Nd. hefur mælt með samþykkt frv. og er einhuga um þörfina á eflingu fræðslumyndasafnsins. Í 3. gr. frv., sem að öllum líkindum verður samþykkt á þessu þingi, eru ákvæði um, að Alþingi skuli í fjárl. veita fjárhæð til safnsins, eigi lægri en sem svarar 4% af skemmtanaskatti umliðins árs. Skemmtanaskattur ársins 1959 nam 7 millj. 889 þús. kr. og virðist ætla að vera mjög ámóta á þessu ári. 4% af þeirri upphæð eru 315 þús. kr., en á frv. til fjárl. eru safninu ætlaðar 250 þús. kr. Þar sem öll líkindi eru á því, að frv. um fræðslumyndasafn ríkisins verði samþykkt á þessu þingi, vildi ég sérstaklega benda hv. fjvn. á þetta misræmi, sem þarna kemur til með að verða. Menntmn. Nd. var sammála um, að lágmarksfjárhæðin, sem tilgreind er í frv. um fræðslumyndasafn ríkisins, sé of naum, en var hins vegar ekki að öllu leyti sammála um leiðir til þess að bæta úr því. Ég hefði talið eðlilegast, að fjárveitingin til safnsins verði á fjárlögum ákveðin nokkuð fyrir ofan lágmarkið, sem lagafrv. gerir ráð fyrir, og legg ég til, að framlag til safnsins verði á árinu 1961 350 þús. kr. í stað 250 þús. á fjárlagafrv. og nálega 315 þús., sem lagafrv. gerir ráð fyrir, og er þar ekki gengið lengra en svo, að ég leyfi mér að vænta þess, að hv. alþm, geti almennt fallizt á þá hækkun.

Þriðja brtt. er um hækkun á framlagi til skálda, rithöfunda og listamanna úr 1 millj. 260 þús. í 21/2 millj. kr. Það er alkunna, að á sama tíma og þjóðin hefur undanfarin ár varið stöðugt hærri upphæðum jafnt til efnalegrar uppbyggingar og fræðslu- og menningarmála ýmiss konar, þá hafa framlög ríkisins til skálda, rithöfunda og listamanna dregizt aftur úr öðrum fjárveitingum. Hvort sem miðað er við verkamannalaun eða annað, kemur í ljós, að listamenn hafa dregizt stórlega aftur úr öðrum. Spurt kann að vera, hvort þjóðin hafi efni á því að hækka listamannalaun. En hitt er eðlilegra, að spurt sé, hvort hún hafi efni á því að hækka þau ekki. Ef til vill hefur þjóðinni aldrei fremur en nú verið brýn þörf að meta réttilega nauðsyn á öflugu starfi skapandi listamanna. Það, sem veitir okkur rétt til að kallast sérstök þjóð, er tunga okkar og sjálfstæð menning. Þegar landið liggur nú í þjóðbraut og erlend áhrif og hvers kyns innflutt erlend menning og ómenning flæðir yfir, þá er þjóðinni ekki hvað sízt þörf á starfi skapandi íslenzkra listamanna. Rithöfundar, skáld og listamenn eru í fremstu víglínu í varnarbaráttu þjóðarinnar fyrir sjálfstæðri menningu og eigin tungu. Þess vegna meðal annars megum við ekki láta framlag til þessara aðila dragast stöðugt aftur úr.

Lagt hefur verið fram á Alþingi frv. um úthlutun listamannalauna. En stærsti gallinn við það frv. er sá, að það tryggir ekki hærri fjárveitingu til skálda, rithöfunda og listamanna en verið hefur til þessa. Og frv. er lítils virði, án þess að sú fjárveiting hækki, og það er ekki til neins að setja nýjar reglur um skiptingu á listamannafé, þegar svo til engu er að skipta. Hér er því lagt til, að framlag til rithöfunda, skálda og listamanna verði hækkað í 21/2 millj. kr. Væri sú fjárhæð samþykkt, yrði það lítils háttar undirbygging undir hin væntanlegu lög um úthlutun listamannalauna.

Fjórða brtt. er um hækkun á framlagi til ríkisútgáfu námsbóka úr 1 millj. 350 þús. kr., sem er 1/3 kostnaðar við útgáfuna, í 4 millj. og 50 þús., og er þá gert ráð fyrir því, að ríkið kosti að fullu ríkisútgáfu námsbóka, en innheimta sérstaks námsbókagjalds falli niður. Er það í samræmi við frv. til laga, sem ég hef flutt í hv. Nd. um niðurfellingu þess. Ég tel námsbókagjaldið vera óréttlátan nefskatt, sem lendir eingöngu á barnafjölskyldum, jafnt fátækum sem ríkum. Útgáfu ríkisins á námsbókum á að greiða með almennum tekjum ríkissjóðs, en óeðlilegt að taka þann þátt af útgjöldum ríkisins út úr og láta barnafjölskyldur greiða hann sérstaklega. Álagningu og innheimtu skattsins fylgir óþarfa skriffinnska, og ógerlegt er t.d. að beita skýrsluvélum við álagningu hans, heldur verður að tina sérstaklega út úr manntali þá heimilisfeður, sem greiða eiga skattinn. Þá má á það mínna, að hæstv. ríkisstj. hét því við afgreiðslu efnahagsmálanna s.l. vetur að fella niður skatt þennan, en við það loforð hefur enn ekki verið staðið. Hæstv. menntmrh. hélt því að vísu fram í Nd. fyrir skömmu, að úr þeim svikum hefði verið bætt með auknum niðurgreiðslum, sem jöfnuðu upp skattinn. Hafi niðurgreiðslurnar verið auknar til þess að mæta námsbókagjaldinu, þá hafa þær áður verið gleyptar af öðrum hækkunum, sem eru fram yfir það, sem ráðgert hafði verið, og lítið verður eftir af þeim upp í námsbókagjaldið, þegar ríkisstjórnarflokkarnir hafa framlengt bráðabirgðasöluskattinn að upphæð 168 millj. kr., sem átti að vera til bráðabirgða, en samkvæmt frv. á sá skattur að haldast, þótt almenningur hafi verið látinn trúa því, að hann ætti aðeins að gilda árið 1960, enda gilda rökin fyrir honum aðeins varðandi það ár. Ég held því, að ríkisstjórnarflokkarnir ættu að standa við loforð sitt um niðurfellingu námsbókagjaldsins og gera á fjárlögum ráð fyrir því, að ríkið greiði allan kostnað af ríkisútgáfu námsbóka. Það loforð var ekki stærra en svo, að jafnvel núverandi hæstv. ríkisstj. ætti að vera fært að standa við það.