26.01.1961
Neðri deild: 50. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í C-deild Alþingistíðinda. (2073)

156. mál, siglingalög

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Frv. það um breyt. á siglingalögum, sem hér liggur fyrir, hefur áður verið flutt í hv. d. að beiðni sjútvmrh. árið 1958. Frv. hlaut þá ekki afgreiðslu, og mun hafa verið til þess ætlazt, að mönnum gæfist kostur á að kynna sér þennan mikla lagabálk milli þinga, og kom þetta raunar fram í framsöguræðu. Frv. hefur verið sent nokkrum aðilum til umsagnar, og liggja fyrir bréf frá eftirtöldum aðilum, sem mæla með samþykkt þess: Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Eimskipafélagi Íslands, Sambandi ísl. samvinnufélaga, skipadeild.

Sjútvn. flytur frv. nú á ný að beiðni hæstv. sjútvmrh., en einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja brtt. við það eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma.

Siglingalög þau, sem nú eru í gildi, eru frá árinu 1914, og hefur þeim nokkuð verið breytt með lögum nr. 67 1919, lögum nr. 40 1930 og lögum nr. 30 1936. En veigamesta breytingin, sem á þeim hefur orðið, er sú, að kaflinn um skipshöfn var tekinn til endurskoðunar og gerður að sérstökum lögum, þ.e. sjómannalögunum nr. 41 frá 1930. Að öðru leyti eru siglingalögin frá 1914 óbreytt, en þau voru upphaflega að mestu samhljóða sams konar löggjöf á hinum Norðurlöndunum, sem samræmdu sín lög um þetta efni þegar á síðari hluta 19. aldar. Danmörk, Noregur og Svíþjóð hafa síðan sameiginlega endurskoðað siglingalög sín og breytt þeim til samræmis við alþjóðlegar samþykktir, en siglingar eru í eðli sínu svo alþjóðleg starfsemi, að það er til mikils hagræðis fyrir þau lönd, sem samskipti hafa á því sviði, að réttarreglur séu sem víðast hinar sömu, einkum að því er kaupför snertir.

Árið 1948 fól þáv. samgmrh., Emil Jónsson, þeim Þórði Eyjólfssyni hæstaréttardómara, Gunnari Þorsteinssyni hæstaréttarlögmanni, Guðbjarti Ólafssyni hafnsögumanni og Sigurjóni Á. Ólafssyni alþingismanni að endurskoða hin íslenzku siglingalög, og var Þórður Eyjólfsson skipaður formaður nefndarinnar. Nefndin frestaði störfum, meðan beðið var eftir árangri af endurskoðun siglinga- og sjómannalaga á hinum Norðurlöndunum, og meðan störf n. lágu niðri, bar að fráfall Sigurjóns Á. Ólafssonar, en hinir nm. luku við að semja frv. í þeirri mynd, sem það nú er.

Það er ekki á mínu færi að gera hv. d. eins ýtarlega grein fyrir þessu frv. og vert væri, en ég skal nefna örfá atriði til að sýna fram á, að endurskoðun siglingalaganna er tímabær og nauðsynleg.

Sum ákvæði l. frá 1914 eru komin svo langt frá veruleikanum, að dómstólar hafa neyðzt til þess að dæma þau ógild. VII. kafli laganna frá 1914 fjallaði um sjólán eða bodmeri, þ.e.a.s. skipstjóranum var gefið víðtækt vald til þess að taka lán og veðsetja skip og farm, ef á þyrfti að halda, til þess að tryggja áframhald ferðarinnar. Þetta gat stundum reynzt nauðsynlegt, ef skip voru fjarri heimahöfn og eitthvað það kom fyrir, sem ráða þurfti fram úr, áður en hægt væri að hafa samband við skipseigandann. Nú á dögum getur skipstjóri alltaf haft samband við útgerðina með símtölum eða skeytum, svo að segja hvaðan sem er af hnettinum, og eru þessi ákvæði þess vegna úrelt orðin. VII. kaflinn í heild er þess vegna felldur niður í frv.

Ákvæði um rétt skipstjóra og skipverja til þess að reka eigin verzlun á farskipum eru afnumin og skipverjum gert óheimilt að hafa með sér söluvarning á skipi fyrir sjálfa sig eða aðra, án leyfis útgerðarinnar.

Ákvæði um skyldu skipstjóra til að gefa sjóferðaskýrslu eru sumpart rýmkuð og sumpart aukin. Bætt er við, að skipstjóra sé skylt að gefa sjóferðaskýrslu, þegar slys verður á mönnum, sem vinna í þágu skips eða skipi fylgja, hvort sem slysið verður innanlands eða utanlands. Einnig skal gefa sjóferðaskýrslu, ef skip veldur tjóni á hafnarmannvirkjum. Þessi ákvæði eru mikilvæg, bæði í sambandi við tryggingar og bótaskyldu.

Gildandi ákvæði um heimild skipstjóra til að selja af farmi skips, þegar fjár er vant til að halda áfram ferð, eru þrengd í frv. og heimild skipstjóra til að selja skip, eftir að það hefur verið dæmt óbætandi, eru felld niður. Skilyrði þau, sem nú eru fyrir hendi, til þess að skipstjóri geti haft samband við skipseiganda, gera ákvæði sem þessi óþörf lengur, sbr. það, sem áður var sagt um sjólán.

Samkv. frv. er víða breytt einstökum orðum, sem lýsa vel þróuninni frá setningu laganna. Þar sem áður stóðu orðin „konsúll“ eða „danskur konsúll“, „konungur“ og „konunglegar tilskipanir“ koma nú, eftir því sem við á, orðin „ræðismaður“, „íslenzkur ræðismaður“, „ráðherra“ og „reglugerð“. Í stað orðanna „gufuskip“ og „kolabirgðir“ koma orðin „vélskip“ og „eldsneytisforði“.

Samkv. frv. á V. kafli l., sem er mjög langur og ýtarlegur, að fjalla um flutningasamninga, en þeir greinast í farmsamninga um flutning á vörum og í farmsamninga um flutning á farþegum. Þessi ákvæði eru í frumvarpinu samræmd alþjóðasamþykkt, sem sett var í Brussel árið 1924. Meðal nýmæla í þessum kafla eru ákvæði um tímabundna farmsamninga, „time charter“, og eru þau ákvæði byggð á venjureglum, sem myndazt hafa um slíka samninga. Varðandi farþega er það nýmæli í frv., að lögð er skylda á farsala að sjá farþegum fyrir flutningi til áætlunarstaðar, hvort heldur með öðru skipi, flugfari eða flutningi á landi, ef skipi hlekkist svo á á leiðinni, að verulegum töfum valdi. Einnig er það nýmæli, að farsala ber að bæta tjón, sem farþegi bíður við það, að skip ferst eða er dæmt óbætandi eða af því, að för skips seinkar verulega. Þetta verður bótaskylt, nema ætla megi, að hvorki farsali né hans menn hafi átt sök á tjóninu. Sú regla er afnumin samkv. frv., að farmsamningshafi geti riftað farmsamningi hvenær sem er og sloppið með að greiða hálft farmgjaldið. Í stað þessa gamla ákvæðis er sett um þetta almenn bótaregla, og verður sá farmsamningshafi, sem riftar farmsamningi að ástæðulausu, að greiða fullar skaðabætur.

Engar verulegar breytingar eru gerðar á þeim kafla l., sem fjallar um sjótjón. Breytingar á kaflanum um tjón af árekstri eru aðallega í því fólgnar, að úr honum eru felld ákvæði, sem nú eru í öðrum lögum. Gerðar eru í frv. smávægilegar breytingar á X, kafla siglingalaganna um björgun, og gerir n., sem frv. samdi, ýtarlega grein fyrir afstöðu sinni til þessa atriðis í tilefni af því, að frv. um breytta skiptingu á björgunarlaunum var til hennar vísað. Niðurstaða n. er þessi, með leyfi hæstv. forseta:

„Hér hefur verið gerð grein fyrir því í aðalatriðum, hvaða sjónarmið hafa verið látin ráða skiptingu björgunarlauna í siglingalöggjöf þjóða. Við athugun á þeim hefur n. ekki séð ástæðu til að víkja frá núgildandi reglum, sem eru í samræmi við það, sem aðrar þjóðir og okkur skyldar hafa í sínum lögum, enda hafa þær látið þessi ákvæði haldast óbreytt, þrátt fyrir nýlega endurskoðun laganna.“

Þetta var niðurstaða nefndarinnar í grg. um 10. gr. frv.

Í 11. gr. frv. er gert ráð fyrir nýjum kafla í siglingalögunum undir fyrirsögninni „Um takmarkaða ábyrgð útgerðarmanna“, og segir í grg. n., að þarna sé að finna þýðingarmestu breytingarnar frá gildandi siglingalögum, sem í frv. felast. Reglur um takmarkaða ábyrgð útgerðarmanna hafa meðal annarra þjóða verið settar með hliðsjón af því, að útgerð er áhættusamur atvinnurekstur og að útgerðarmaður getur oft ekki sjálfur haft hönd í bagga, þegar stofnað er til skuldbindinga, sem á hann kunna að falla, heldur á hann þar mest undir öðrum. Rakið er í grg., hvaða reglur hafa gilt um þetta hjá ýmsum einstökum þjóðum og einnig samkv. alþjóðlegum samþykktum. Tillaga n. í frv. er sú, að persónuleg ábyrgð útgerðarmanns á nánar tilteknum kröfum verði eingöngu miðuð við verð skips og farmgjalds og tvöfalda þá upphæð, þegar um tjón á mönnum er að ræða, og verði farmgjaldið ávallt talið 10% af skipsverðinu. Verði þessi regla um takmörkun ábyrgða lögleidd, leiðir af því, að útgerðarmenn verða að hafa skip sín vátryggð sem ábyrgðinni svarar.

Kaflinn um sjóveðsrétt og fyrningu á sjóveðskröfum hefur verið umsaminn í heild til samræmis við önnur ákvæði frv.

Loks er í frv. gert ráð fyrir kafla um refsingar og önnur viðurlög, og vil ég geta þess, að sjútvn. mun m.a. þurfa að athuga ákvæði þess kafla nánar með tilliti til frv. þeirra um breytingu á refsiákvæðum laga, sem lögð voru fyrir hv. d. í upphafi þings og hafa nú verið afgreidd til hv. Ed. Trúlega eru það fleiri atriði, sem skoða þarf betur, og leyfi ég mér að vænta þess, að hæstv. forseti hafi um það samráð við sjútvn., hvenær frv. verður tekið á dagskrá til 2. umr. Að svo mæltu legg ég til, að frv. verði vísað til 2. umr. og að það hljóti afgreiðslu á þessu þingi, þannig að við þurfum ekki lengur að búa við siglingalög, sem eru orðin langt á eftir tímanum.