07.12.1960
Sameinað þing: 22. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í B-deild Alþingistíðinda. (208)

1. mál, fjárlög 1961

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Þar sem ég mun vera síðasti ræðumaður hér í nótt og nú er alllangt liðið á nóttu og menn eru búnir að hlusta á samfelld ræðuhöld frá því kl. hálftvö í gær, þá skal ég reyna að stytta mál mitt, eftir því sem ég get.

Við 3. þm. Norðurl. v. höfum leyft okkur að flytja brtt. á þskj. 185, IV. Brtt. er við 13. gr., undir liðnum: Til millibyggðavega. Við leggjum sem sagt til, að til Siglufjarðarvegar ytri séu veittar 500 þús. kr. af fé því, sem áætlað er til millibyggðavega, í stað 200 þús., eins og fjvn. lagði til.

Þegar athugaðar eru till. fjvn. um það, hvernig því fé skuli varið, sem áætlað er til byggingar vega milli héraða, sést, að Siglufjarðarvegur ytri hefur ekki átt miklu fylgi að fagna hjá fjvn. og vegamálastjóra, hvað sem því veldur. Sjálfsagt er það allmiklum örðugleikum bundið að skipta þessu fé, svo að ekki sé hægt að benda á ósamræmi á milli hinna ýmsu staða og vega, sem lagt er til að féð verði veitt til. Þá er og vitað, að alþm. hinna ýmsu héraða og aðrir forustumenn viðkomandi sveitarfélaga sækja það mjög fast að fá sem hæstar fjárveitingar til hinna ýmsu vega. Þörfin fyrir lagningu nýrra vega á milli héraða er að sjálfsögðu mikil. En hinu vil ég þó leyfa mér að halda fram, að óvíða muni vera meiri þörf fyrir lagningu vegar á milli héraða en til Siglufjarðarvegar ytri. Sú vegarlagning er ekki eingöngu miðuð við áhuga- og nauðsynjamál okkar Siglfirðinga, heldur er lagning vegarins beinlínis lífshagsmunamál fyrir það fólk, sem búsett er í útsveitum Skagafjarðar, þ.e.a.s. það fólk, sem á heima í Fljótum, Sléttuhlíð og Höfðaströnd. Þessar sveitir hafa til skamms tíma verið langt á eftir öðrum sveitum Skagafjarðar með ræktun. Bændur þar hafa að langmestu leyti stundað fjárbúskap og það oft og tíðum við mjög erfið skilyrði, m.a. vegna mikilla snjóa og siðast, en ekki sízt, vegna lélegs vegasambands. Nú er að verða á þessu allmikil breyting. Nú er kominn sæmilegur vegur út í Haganesvík, og vonir standa til, að þegar þeirri vegarlagningu verði lokið, sem væntanlega verður á komandi sumri, verði bílfært meiri part vetrar til Haganesvíkur. Bændur í útsveitum Skagafjarðar stefna nú að því að stórauka ræktun og koma upp stærri mjólkurbúum en þeir hafa haft hingað til og þá með það fyrir augum að geta selt mjólkina frá búum sínum til mjólkursamlags.

Nú er það öllum ljóst, sem til þekkja, að bezta og nærtækasta sölusvæði þeirra bænda, sem búsettir eru í Fljótum og Sléttuhlíð, er Siglufjörður, enda binda bændur í þessum sveitum vonir sínar við það að geta selt afurðir búa sinna þangað og þá fyrst og fremst mjólkurafurðir. Er nú þegar hafinn undirbúningur að því að koma þar upp mjólkurvinnslustöðvum. Til þess að sala bændanna á mjólk til Siglufjarðar geti orðið örugg, þannig að hægt verði að flytja mjólkina daglega til Siglufjarðar allt árið, þarf vitanlega vegasamband við Siglufjörð að breytast allmikið frá því, sem nú er. Til þess er aðeins ein leið fær, og hún er sú að leggja veg, nýjan veg, sem reyndar er byrjað á, út Almenninga og í gegnum fjallið Stráka. Þetta mikla hagsmunamál Siglfirðinga og Skagfirðinga hefur verið dagskrármál um nokkur ár, en því miður hefur það ekki náð að öðlast þann skilning hjá ráðamönnum þjóðarinnar, sem æskilegt væri. Ég skal fúslega viðurkenna, eins og ég reyndar tók fram hér áðan, að ríkissjóður hefur í mörg horn að líta og þeir eru margir staðirnir á landi voru, sem

þurfa að fá bætt vegarsamband, en þegar tekið er tillit til allra aðstæðna og sérstaklega þegar það er þá haft líka í huga, hver hlutur Siglufjarðarkaupstaðar er í atvinnulífi þjóðarinnar, fullyrði ég, að enginn staður á landinu hefur meiri rétt til bættra samgangna en Siglufjörður. Þetta viðurkenna flestir, sem til þekkja. En það er oft annað að viðurkenna staðreyndir en framkvæma þær. Þrátt fyrir það, þó að fjvn. hafi ekki séð sér fært að leggja til, að veitt verði hærri fjárveiting til Siglufjarðarvegar ytri en raun ber vitni, viljum við flm. þó vænta þess og vonast til þess, að hv. alþm. sjái sér fært að styðja till. okkar og greiða henni atkv.

Um aðrar þær brtt., sem ég er meðflm. að og hér hefur verið mælt fyrir, mun ég ekki ræða frekar, en mæli eindregið með því, að þær verði samþ.

Um fjárlagafrv. sjálft mætti að sjálfsögðu margt segja. Ýmislegt er þar á annan veg en við þm. Alþb. hefðum óskað að væri. Nægir þar að benda á, að um raunverulegan samdrátt er að ræða á flestum liðum til verklegra framkvæmda, miðað við þær aðstæður, sem fyrir hendi eru. Er þetta því verra sem það er vitað, að nú þegar er farið að gæta alimikils samdráttar og minnkandi atvinnu í sumum atvinnugreinum, svo sem í húsbyggingum, iðnaði o.fl. Því miður stefnir að því hröðum skrefum, að atvinnuleysið láti á sér bæra. Þetta eru alvarlegir hlutir, ekki eingöngu fyrir það fólk, sem nú sér atvinnuleysisvofuna nálgast hröðum skrefum, heldur fyrir þjóðina alla. Sú þjóð, sem býr við atvinnuleysi, er sannarlega illa á vegi stödd. Verður að vænta þess, að hæstv. ríkisstj. og Alþ. geri allt, sem hægt er, til þess að forða þjóðinni frá böli atvinnuleysisins. En því miður verður að segja það eins og það er, að fátt bendir þó til þess, að stjórnarvöldin hafi gert sér grein fyrir því, hvert stefnir, ef áframhald verður á þeirri óheillabraut, sem nú horfir, en óhjákvæmilega hlýtur að stefna að samdrætti á flestum sviðum atvinnulífsins og þar með að almennu atvinnuleysi. Á móti slíkri óheillaþróun mun hið vinnandi fólk í landinu beita sér af alefli. Ísland er svo auðugt land, að það er hrein fjarstæða, ef hér á eftir að koma atvinnuleysi. Slíkt óheillaástand verður ekki þolað. Sú ríkisstjórn, sem getur ekki stjórnað landinu á þann veg, að allir, sem geta og vilja vinna, hafi nægilega atvinnu og hana sæmilega borgaða, á engan tilverurétt. Slíkri ríkisstjórn ber að segja af sér tafarlaust.