06.02.1961
Neðri deild: 56. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í C-deild Alþingistíðinda. (2085)

163. mál, almenningsbókasöfn

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Menntmn. þessarar hv. d. flutti á síðasta þingi samkv. beiðni menntmrh. frv. til laga um almenningsbókasöfn. Frv. náði þá ekki fram að ganga, enda kom það seint fram. Nú flytur n. það öðru sinni samkv. ósk hæstv. ráðh. með litlum breyt.

Um þetta frv. gildir eins og flest frumvörp, sem nefndir flytja samkv. óskum ráðherra, að einstakir nm. áskilja sér allan rétt til að bera fram eða fylgja brtt., og ég vil taka fram strax í upphafi, að n. óskar eftir að fá að athuga þetta mál, eða þessi mál bæði, fyrsta og annað mál dagskrárinnar, milli 1. og 2. umr., enda þótt málið sé frá henni komið.

Þegar lög um almenningsbókasöfn voru samþ. fyrir nokkrum árum, var um að ræða algera nýsmíði. Um þessi mál höfðu engin heildarlög verið til fyrr, og má það merkilegt teljast, því að Íslendingar eru af fáu eins stoltir og því að geta kallað sig bókaþjóð. Árið 1937 voru samþykkt lög um lestrarfélög, þar sem ákveðið var að innheimta skemmtanaskatt með 15% álagi og 2/3 hlutar álagsins skyldu renna til lestrarfélaga. Þessu fé var úthlutað af fræðslumálaskrifstofunni gegn skilyrðum um reikningsskil og skýrslugerð um aukningu bókakosts og tölu útlánaðra binda. Fræðslumálaskrifstofan gekk ríkt eftir, að þessi skilyrði væru uppfyllt, og um leið örvaði þessi lagasetning allmikið starfsemi lestrarfélaganna, komst mun betri skipan á þau mál en áður hafði verið. Þessi skipan fékk þó ekki að haldast, því að að því kom, að lestrarfélögin misstu aftur nokkuð af þeim tekjum, sem þeim höfðu veríð tryggðar. Starfsemi bæjar- og sýslubókasafna var ekki háð neinu eftirliti af ríkisins hálfu, þó að lestrarfélögin væru krafin um reikningsskil og skýrslugerð, enda var ríkisstyrkur til þessara safna nauðalítill. Í sumum bæjum var almenningsbókasöfnum allmikill sómi sýndur, en í öðrum lítill eða enginn, og fæst af hinum gömlu sýslubókasöfnum voru starfandi. Sum, sem áður höfðu starfað af myndarskap og átt mikinn þátt í menningarlífi sinna héraða, voru nú lokuð inni í mismunandi hæfum, stundum algerlega ónothæfum húsakynnum, og almenningi gafst ekki kostur á því að nota þessi söfn. Ástandið í bókasafnsmálum Íslendinga var því algerlega ósæmandi og engan veginn sambærilegt við það, sem tíðkast í nágrannaríkjum okkar, sem við berum okkur oftast saman við. Jafnvel í þeim bæjum hér á landi, þar sem bezt var búið að almenningsbókasöfnum, voru þau að húsakosti og möguleikum til virkrar starfrækslu langt fyrir neðan það meðallag, sem talið er hæfilegt og ríkir um slíkar stofnanir hjá frændþjóðum okkar á Norðurlöndum, að ekki sé skírskotað til safna í öðrum löndum, þar sem áherzla hefur verið lögð á góð almenningsbókasöfn.

Þegar lögin um almenningsbókasöfn voru sett 1955, var flestum ljóst, sem að þeim stóðu, að hér væri aðeins um byrjun að ræða, þessum lögum þyrfti að breyta, eftir því sem reynsla fengist, og sérstaklega gerðu menn sér grein fyrir, að söfnunum var fjárhagslega þröngur stakkur sniðinn, ættu þau að ná þeim tilgangi, sem menn óskuðu eftir, yrði að gera breytingar í þá átt að auka nokkuð fjárráð þeirra til bókakaupa og bættrar aðstöðu. Þegar lögin komu til framkvæmda, sýndi sig, að þau juku að miklum mun tekjur flestra lestrarfélaga, auk þess sem þau höfðu í för með sér stofnun sveitabókasafna, þar sem slík söfn höfðu ekki verið til áður. Lögin endurvöktu lestrarfélög, sem höfðu verið starfslaus um langt árabil, komu á bættri skipan og starfsemi margra safna í sveitum og þorpum og vöktu aukinn áhuga á bókasafnsstarfinu. Þá voru stofnuð bæjar- og héraðsbókasöfn, þar sem engin voru fyrir, og gömlu sýslubókasöfnin endurvakin, oft með nýjum nöfnum. Einnig jókst fyrir tilkomu laganna starfsemi flestra þeirra bæjarbókasafna, sem starfrækt höfðu verið.

Það varð fljótlega ljóst, að fjárframlög til þessarar starfsemi voru lítil og engan veginn nægileg til, að starfsemi safnanna gæti orðið svipuð því, sem sjálfsagt er talið í öðrum löndum. Fór svo, eftir því sem dýrtíð jókst hér á landi, að bilið milli fjárráða og þarfa bókasafna breikkaði.

Bókafulltrúi, Guðmundur G. Hagalín, sem mikið hefur unnið að þessum málum og lagt þar fram mjög mikilvægt starf, rökstuddi við menntmrn. haustið 1958, að á árunum 1954–58 hefði bókaverð hér á landi hækkað um nærfellt 70% og annað, sem hefur áhrif á rekstur safnanna, um a.m.k. 25%. Síðan hefur bókaverð enn hækkað, svo að hækkunin nemur um 85%. Er af öllu þessu auðsætt, hve aðstaða safnanna hefur farið versnandi ár frá ári, frá því að lögin um almenningsbókasöfn voru samin. Þótt á hafi hallazt á þessum árum, er talið rétt, þegar undirbúin er ný löggjöf um þessi mál, að láta það ekki nægja að koma söfnunum í það horf, sem þau áður voru, heldur reyna að setja markið nokkru hærra og koma þessum málum í viðunanlegra horf en verið hefur með ríflegri fjárframlögum.

Í því frv., sem hér liggur fyrir, er allýtarlega gerð grein fyrir nýjum tillögum um fjárhagsskipun bókasafnanna. Verð ég að láta nægja að vísa til frv. og grg. um þau efni, enda öllu skýrara að lesa á prenti heldur en lesa upp þá talnamergð. Ég vil þó geta þess, að samkv. grg. mun verða allmikil aukning á útgjöldum ríkissjóðs sjálfs vegna samþykktar frv. Samkv. áætlun bókafulltrúa, sem send var menntmrn. 16. júní 1959, munu útgjöld ríkisins til almenningsbókasafna verða á árinu 1960 eins og hér segir: Til bæjar- og héraðsbókasafna 640 þús., til sveitabókasafna og lestrarfélaga 500 þús., til bókasafna í skólum og öðrum opinberum stofnunum 110 þús. eða samtals 1 millj. og 250 þús. Undanfarin ár hafa verið veittar á fjárlögum til byggingar bókasafna og húsabóta handa söfnum 175 þús. kr. árlega. Með þeirri upphæð yrðu þá öll útgjöldin 1 millj. 425 þús. En samkv. þessu frv. hækkaði sú upphæð í 2 millj. 575 þús. Hér er því um að ræða hækkun, sem nemur 1 millj. og 150 þús. kr.

Ég vil að lokum geta þess, að samkv. áliti þeirra manna, sem hafa undirbúið þetta frv. og lagt í það mikla vinnu, mundi með samþykkt þess vinnast eftirfarandi: Í fyrsta lagi, að bæjarbókasöfnin fá öll stórbætt skilyrði til viðhlítandi starfrækslu. Í öðru lagi, að héraðsbókasöfn, sem ekki eru um leið bæjarbókasöfn, öðlast sæmilega möguleika til að verða að gagni, en hafa verið með öllu vanmegnug til þeirrar þjónustu, sem þeim er ætluð. Í þriðja lagi, að bætt er að mun afkoma sveitabókasafna. Í fjórða lagi, að starfsskilyrði bókasafna í heimavistarskólum og hælum eru bætt og öllum barna- og framhaldsskólum gert fært að stofna og starfrækja bókasöfn. Í fimmta lagi, að möguleikar á húsabótum safnanna eru mjög auknir og þar með undir það ýtt, að víkkað verði starfssvið safnanna og stofnað til nýmæla í rekstri þeirra. Í sjötta lagi, að betur en áður er tryggt eftirlit með starfrækslu allra almenningsbókasafna. Í sjöunda lagi, að stuðlað verður að bættum íslenzkum bókakosti handa börnum og unglingum. Og í áttunda lagi, að möguleikar á stofnun og rekstri héraðsskjalasafna eru stórum auknir.

Herra forseti. Frv. þetta er flutt af nefnd og þarf því ekki að vísa til n., en eins og ég tók fram í upphafi máls míns, óskar menntmn. eftir að fá tíma til að athuga frv. ýtarlega á milli 1. og 2. umr.