06.02.1961
Neðri deild: 56. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í C-deild Alþingistíðinda. (2090)

164. mál, bókasafnasjóður

Fram. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Um frv. þetta er hið sama að segja og hitt, sem mælt var fyrir áðan: það er flutt af menntmn. öðru sinni samkv. beiðni menntmrh., og einstakir nm. áskilja sér venjulegan rétt til að fylgja eða flytja brtt.

Í þessu frv. er fjallað um stofnun bókasafnasjóðs, um það, hvernig honum skal aflað tekna og hvernig þeim tekjum skal síðan varið. Frv. er í nánu samhengi við frv. um almenningsbókasöfn, sem hér var fjallað um áðan.

Samkv. þessu frv. skal afla tekna til bókasafnasjóðs ríkisins með þrennu móti. Í fyrsta lagi skal greiða gjald af öllum blöðum, nema dagblöðum, og tímaritum, sem út eru gefin á íslenzku af einstökum mönnum, hlutafélögum eða sameignarfélögum og einkum flytja frásagnir og skemmtisögur, frumsamdar eða þýddar, fróðleikstíning ýmiss konar, getraunir, myndagátur og ljósmyndir, enn fremur af þýddum skemmti- og glæpasögum, gefnum út í heftum eða bókaflokkum. Gjaldið skal vera 10% álag á útsöluverð 3/4 hluta af upplagi þessara rita. Skal prentsmiðja sú, sem prentar ritið, innheimta gjaldið hjá útgefanda. Í öðru lagi er ætlunin, að greitt sé gjald af öllum erlendum blöðum og ritum, sem einkum flytja skemmtisögur, léttan fróðleik og myndir, enn fremur af erlendum skáldritum, sem gefin eru út í bókaflokkum með sama eða svipuðu sniði. Gjaldið skal vera 10% álag á útsöluverð 75% af innfluttum eintakafjölda slíkra blaða, rita og bóka. Menntmrn, úrskurðar, hvaða blöð og rit skulu vera gjaldskyld, og skal Innkaupasamband bóksala og aðrir innflytjendur senda ráðuneytinu skrá yfir blöð og rit, sem inn eru flutt, og einnig bókaflokka, sem innfluttir eru, og leita úrskurðar þess um gjaldskyldu. Í þriðja og síðasta lagi er bókasafnasjóði áætlað árlegt framlag úr ríkissjóði, sem skal vera 15 kr. á hvern íbúa í landinu samkv. niðurstöðutölum síðasta manntals, áður en fjárlög eru afgreidd hverju sinni.

Þá kemur að hinni hlið málsins, hvernig verja skal tekjum þessa bókasafnasjóðs. Í fyrsta lagi er það til greiðslu á framlögum samkvæmt lögum um almenningsbókasöfn. Í öðru lagi til húsabóta handa almenningsbókasöfnum, skulu framlög aldrei fara fram úr 40% byggingarkostnaðar og ekki fram úr 30% til annarra húsabóta. Í þriðja lagi til bæjar- og héraðsbókasafna vegna greiðsluskyldu af íslenzkum bókum. Í fjórða lagi til héraðsbókavarða vegna eftirlitsferða samkv. tillögum bókafulltrúa og úrskurði menntmrn. Í fimmta og síðasta lagi til að verðlauna barna- og unglingabækur.

Ég sé ekki ástæðu til að fara orðum um önnur ákvæði frv., en þessi er kjarni þess.

Samkv. áætlun, sem gerð hefur verið um tekjur bókasafnasjóðs af skatti á innlend og erlend blöð og rit, ættu þær að vera sem hér segir: 1) Af 10% álagi á ca. 75% af söluverði upplags íslenzkra blaða og tímarita 1 millj. 130 þús. 2) 10% gjald af söluverði erlendra blaða og tímarita 450 þús. Áætlað er því, að þessi gjöld mundu veita 1 millj. 580 þús. kr. tekjur.

Hér er einnig áætlun um tekjur og gjöld bókasafnasjóðs samkv. frv., og sé ég ekki ástæðu til að lesa það allt, en vil aðeins geta þess, að þar er framlag ríkisins samkv. áætlun um mannfjölda í lok 1960 talið verða ca. 2 millj. 575 þús. kr.

Um þetta frv. gegnir sama máli og 1. mál dagskrárinnar í dag, að menntmn, óskar eftir að fá að fjalla um það frekar milli 1. og 2. umr. og mun væntanlega óska eftir umsögnum ýmissa aðila, sem þetta mál mundi snerta, og væntir þess því, að það verði ekki tekið til 2. umr., fyrr en hún hefur lokið þeirri athugun.