21.02.1961
Neðri deild: 67. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í C-deild Alþingistíðinda. (2116)

167. mál, verðflokkun á nýjum fiski

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það er náttúrlega alveg vitatilgangslaust að ætla sér að elta ólar við hv. 4. þm. Austf., því að hann er fljótur að slá úr og í, og ég skal þess vegna ekki ræða hér nema örfá atriði úr hans síðustu ræðu.

Hv. þm. sagði síðast, að það væri alveg fjarri lagi að bera saman tekjur sjómanna við Lófótveiðar og tekjur sjómanna á Íslandi, vegna þess að útgerðin væri rekin þar allt öðruvísi en hún er rekin hér á Íslandi og að mestu leyti á smábátum. Þetta vitum við. En þetta getur vissulega haft þýðingu, þegar athugað er, að hv. flm. till. um rannsókn á fiskverði hér og í Noregi hafa algerlega skotið undan í sínum málflutningi og grg. einu mjög veigamiklu atriði, sem eru verðuppbæturnar norsku. Þeirra er hvergi getið í grg., en það eru einmitt verðuppbæturnar, sem hafa mikla þýðingu í sambandi við það, hvað hlutur sjómannanna í Noregi er lítill. Því verður ekki móti mælt, að heildartekjur fiskimannanna við Lófót á vertíðinni 1960 hafa reynzt þetta, sem ég sagði, í kringum 10 þús. ísl. kr. eða 1900 norskar krónur rúmar. Árið 1958 komust þær niður í 1200 norskar kr., og það náttúrlega gefur enn meira tilefni til þess fyrir ríkisvaldið í Noregi að styrkja þær veiðar, sem skila ekki meiri árangri en þetta, til þess yfirleitt að geta haldið mönnunum við veiðarnar. Í þessu sambandi hafa upplýsingarnar um heildartekjur sjómannanna vissulega þýðingu. En þeir létu sig hafa það, þessir hv. flm. tveir, hv. 4. þm. Austf. og hv. 6. þm. Sunnl., að skjóta því alveg undan, að það væru nokkrar uppbætur greiddar á aflann í Noregi. Annað er það, sem þeir hafa líka leikið, og það er að bera saman hæstu verðflokkana í Noregi við það meðaltalsverð, sem á Íslandi var greitt árið 1960. Þetta er líka rangur samanburður, því að samanburðurinn er ekki réttur, fyrr en svipaðir verðflokkar á Íslandi eru bornir saman við svipaða verðflokka í Noregi. En hvað verður um verðið í ár, skal ég ekki segja, ég hef ekki haft aðstöðu til þess að afla fullnægjandi upplýsinga um það, en eins og ég sagði hér áðan, ég vil taka upplýsingum hv. þm. með mjög miklum fyrirvara. Svo eru aðeins tvö smáatriði önnur.

Hv. þm. sagði, að því aðeins væri hægt að tala um, að 2. gr. í frv. þeirra gerði ráð fyrir gerðardómi í vinnudeilum, að einhverjar vinnudeilur hefðu átt sér stað út af fiskverðinu. Og hann fullyrti, hv. þm., að engin slík deila hefði átt sér stað, og hann skoraði á mig og hv. 5. þm. Vestf. að nefna dæmi um það, að hér á Íslandi hefði nokkurn tíma staðið yfir vinnudeila út af fiskverði. Það þarf ekki að fara langt aftur í tímann til þess að benda hv. þm. á þetta. Ég man ekki betur en þegar tillögur samninganefndanna í sjómannadeilunni hér síðast voru bornar undir félögin, þá hafi þær verið felldar í félögunum, ekki vegna þess, að heildarsamningurinn í sjálfu sér hafi verið óaðgengilegur, heldur vegna þess, að fiskverðið var ekki á þann hátt, að meðlimir félaganna gætu við það unað. Þetta skeði hér í nágrannaverstöðvunum allt í kringum okkur, svo að ég vænti þess, að það hafi ekki farið fram hjá hv. þm. Við þetta er svo því einu að bæta, að þetta samkomulag, sem hafði verið gert um fiskverðið, var nokkuð lagfært í þá átt, sem sjómennirnir óskuðu eftir, og ég veit ekki annað en um þetta sé nú komið fullkomið samkomulag, sem þurfi ekki að setja neina löggjöf um. En það er vissulega rangt hjá hv. þm., að það hafi ekki átt sér stað átök um fiskverðið, bæði nú og áður. Og hann getur náttúrlega aldrei komizt fram hjá því, að 2. gr. er ekkert annað en gerðardómur í þeirri deilu, sem kann að rísa um fiskverðið, sem eru vinnulaun sjómannsins. Fyrir utan, hversu það prinsip er varhugavert, hef ég áður bent á, hversu fráleitt það er að gera sáttasemjara ríkisins þar að oddamanni, og hv. þm. hefur ekki treyst sér til þess að rökstyðja það neitt nánar eða koma inn á það í sínum langdregna málflutningi fyrir þessu máli. Það verður þess vegna ekki um það deilt, að 2. gr. gerir ráð fyrir gerðardómi einmitt í vinnudeilu, sem það auðvitað má kallast að ákveða fiskverðið, sem er vinnulaun sjómannsins.

Þá sagði hv. þm. loks, að það væri rangt hjá okkur hv. 5. þm. Vestf., að það væri í frv. verið að lögfesta matsreglurnar. Það væri ekki verið að lögfesta matsreglurnar, því að það væri bara verið að ákveða, að verðflokkunin væri í samræmi við flokkunarreglur fiskmatsins. En það er vissulega meira gert í greininni en þetta. Þar er ákveðið, hvað flokkarnir eiga að vera margir. Þar er nokkuð tekið upp úr reglugerðinni, sem sjútvmrn. hefur gefið út um fiskmatið, en í reglugerðinni er líka haldið opnum möguleikum fyrir fleiri flokka. Og ég vil segja hv. þm. og öðrum það, að það getur vel komið til mála, að flokkaskipun gæðamatsins verði breytt, og t.d. má nefna í því sambandi, að það er uppi, að mér er tjáð, sú viðleitni í Noregi nú að ná þar fram einum flokki, sem þeir kalla úrvalsgæðaflokk, sem meiri kröfur séu gerðar til en mesta gæðaflokksins nú. Og ég er ekkert frá því, að þegar tími líður og kannske ekki mjög langur, þá væri mögulegt fyrir okkur að taka upp einhverja svipaða skiptingu. Ég held þess vegna, að það verði ekki heldur fram hjá því komizt, að það sé óheppilegt að setja í lög ákvæði um, hvað flokkarnir eigi að vera margir, hvernig flokka skuli, þó að það sé talið í samræmi við núverandi flokkunarreglur ferskfiskeftirlitsins.

Ég skal svo ekki fara neinum frekari orðum um þetta mál. Ég tel, að það sé flutt á sinn hátt eins og þessi hv. þm., sem hér talaði síðastur, oft gerir, meira af vilja til þess að gera sig góðan framan í einhverja aðila, sem málið skiptir, heldur en af umhyggju fyrir framgangi sjálfs málsins. Málið er afgreitt núna með þeim samningum, sem gerðir hafa verið, og þess vegna eru lög alveg óþörf.