21.02.1961
Neðri deild: 67. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í C-deild Alþingistíðinda. (2117)

167. mál, verðflokkun á nýjum fiski

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Austf. bar mér það á brýn, að ég sneri út úr 3 þessu máli, þegar ég héldi því fram, að með frv. væri lagt til að lögfesta reglur um gæðaflokkun á nýjum fiski. Ég get ekki betur gert til að sanna mitt mál um þetta en að leiða hv. 4. þm. Austf. sem vitni gegn sjálfum sér, en í grg. með frv. hans stendur þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir, að verðflokkun fisks verði algerlega byggð á gæðamati ferskfiskeftirlits ríkisins, en í reglum þeirrar stofnunar er einmitt ákveðin sú þriggja stiga gæðaflokkun, sem í frv. þessu er lagt til að verði einnig verðflokkun. Flokkunarákvæði þessa frv. eru tekin beint upp úr 37. gr. reglugerðar um ferskfiskeftirlit, útgefinnar hinn 13. jan. 1961.“

Ég veit ekki, hvað er að lögfesta reglugerð, ef það er ekki einmitt það, sem þarna er.

Þá hélt hv. 4. þm. Austf. því fram í síðustu ræðu sinni, að ástæðan til þess, að tekið var upp á sínum tíma sérstakt skiptaverð, hafi verið sú, að útvegsmenn hefðu stungið undan svo og svo miklu af fiskverðinu. Ég verð að segja, að ég þekki ekki þann praksis, og veit ekki til, að þetta hafi tíðkazt í því byggðarlagi, þar sem ég á heima. Það kann að vera, að hv. 4. þm. Austf. hafi meiri þekkingu á þessu úr sinni heimabyggð.

En ég vil í þessu sambandi biðja menn að athuga, hvað skiptaverðið var. Skiptaverðið var einmitt viðurkenning á því, að útgerðin þyrfti að fá meira úr aflanum en hún gat fengið með þágildandi ráðningarsamningum. Þegar ákveðið er sérstakt skiptaverð, er í raun og veru verið að semja um það að „stinga undan“ svo og svo miklu af aflaverðmætinu, eins og hv. 4. þm. Austf. orðaði það. Með þeim samningum, sem nú hafa verið upp teknir, er þessi regla afnumin. Nú eiga sjómenn eftirleiðis að fá hlut úr fullu andvirði fisksins, og þar af leiðir, að þeir hljóta eftirleiðis að verða aðilar að fiskverðssamningunum.

Ég hygg, að það sé ekki rétt, sem kom fram hjá hv. 4. þm. Austf., að sjómenn hafi ekki að þessu sinni gjarnan viljað vera aðilar að fiskverðssamningum, en það lá í hlutarins eðli, eins og ég gerði grein fyrir um daginn, að meðan ekki var búið að koma sér niður á afnám sérsamninga um skiptaverðið, voru þeir ekki orðnir aðilar að fiskverðssamningunum við kaupendur.

Að lokum vil ég aðeins bæta því við að gefnu tilefni frá hv. 4. þm. Austf., að á Vestfjörðum róa nú um 40 bátar með línu og veiða fisk, sem eingöngu á að fara í fyrsta flokk, og ég veit ekki til þess, að þeir séu í neinum vandræðum með að losna við afla sinn.