13.02.1961
Neðri deild: 62. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í C-deild Alþingistíðinda. (2127)

175. mál, hefting sandfoks og græðsla lands

Flm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Meðflm. minn að fyrirliggjandi frv. hefur nú allrækilega svarað ákúrum hæstv. landbrh. í okkar garð. Mér þykir það að sjálfsögðu mjög leitt, ef við flm. höfum orðið til þess með framburði þessa máls að varpa einhverjum skugga á hæstv. ráðh. Ég átti þess sannast sagna ekki von. Ég leit þannig á þetta mál, að þetta væri sameiginlegt velferðarmál allrar þjóðarinnar, sem okkur alþingismönnum, hvort sem við erum ráðherrar eða ráðherrar ekki, er mjög umhugað að koma fram í meginatriðum. Þess vegna kom mér furðulega fyrir sjónir eða þótti mér furðulegt á að hlusta hæstv. landbrh.

Fyrst og fremst kom hann hingað upp í ræðustól til þess að áfellast okkur flm. fyrir að hafa gripið þetta frv. af borði ráðh. og flutt það hingað inn í Alþingi. Ég get engan veginn skilið það, að við flm. höfum farið offari í þessu efni. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er í megingreinum, og það sagði ég í minni frumræðu, — samhljóða því frv., sem við lögðum fram í fyrra og hæstv. landbrh. þá sá enga ástæðu til þess að hnýta í né okkur þá við meðferð málsins, heldur tók hann málinu mjög vel og kvaðst mundu reyna að koma ákvæðum frv. þannig fyrir með tilstyrk landbn., að það mætti komast þá í gegnum Alþingi. Hann taldi málið þess virði og meira en það, taldi það svo eðlilegt og sjálfsagt, að því yrði undanbragðalaust haldið í gegnum Alþingi og til fullra laga og síðan framkvæmdar. Ég var einmitt núna í morgun að lesa þessa ræðu hæstv. landbrh. frá því í fyrra fyrir ári, og þótti mér til hennar koma. Þess vegna kemur þetta eins og reiðarslag yfir okkur flm. og hv. alþm. í þessari deild, þegar ráðh. tekur svo í þetta mál nú.

Ég þekki þennan hæstv. ráðh. mjög vel, og við höfum deilt um margvísleg efni, en ég hef í mun og veru ekki lyst á því að deila um slíkt mál sem þetta, þar sem það er aðeins hégóminn einn, sem mér virðist bera á milli. Ég lít alls ekki á þetta mál sem neitt einkamál eins ráðh. né annars. Þetta mál var í höndum opinberra nefnda og hefur þrisvar, jafnvel fjórum sinnum, verið flutt í hv. Alþ. áður og er því ekkert sérlegt nýmeti og sannast sagrna kominn tími til þess að koma því nokkurn veginn ósködduðu í höfn. En hafi ég með flutningi þessa máls inn á þing nú í þetta sinn og við flm. alls óvitandi tekið skrautfjöður úr hatti hæstv. ráðh., þar sem þetta mál er, þá vil ég beiðast afsökunar á því út af fyrir sig. En við áttum þess ekki von, að þetta mál væri neinn skartgripur sérstaklega á hæstv. landbrh., heldur ætti það að verða skartgripur þjóðinni allri til góðs á næstu árum og áratugum. Ég vil þessum hæstv. ráðh. allt hið bezta, og ég vonast til þess, að hann geti, ekki nú, heldur þá einhvern tíma síðar á betri stund og heppilegri, vottað um það, að ég ann honum alls hins bezta og vil sízt verða til þess að kasta rýrð á hann eða skugga. En mér þykir hans metnaður í þessu efni vera um skör fram. Og ég veit það líka, að lok ræðunnar, sem hann flutti hér áðan, eru næst hans hjarta, en upphafið fjærst. Og ég vil eiga þess von og við flm., að einmitt hæstv. landbrh., sem er dugmaður hinn mesti í málum, sem hann tekur upp og ber fyrir brjósti, komi til liðs við okkur þm., — ekki aðeins okkur flm., því að það verða margir, sem munu hjálpa honum að ýta þessu máli úr höfn og koma því vel á flot. Og hann skal hafa vísan stuðning okkar flm. og ég veit fjölda annarra þingmanna. Þetta er vissulega ekki hápólitískt mál og því varla hægt að gera ráð fyrir, að þm. greinist eftir stjórnmálaflokkum. Þetta er alþjóðarmál, sem flestir, ef ekki allir þm. munu líta á líkum augum og við flm., og enda hæstv. landbrh. líka, þegar allt kemur til alls.

Ég vil geta þess, að þessi framburður málsins, sem nú er orðinn, var alls ekki að ófyrirsynju né án þess, að hæstv. ráðh. vissi af. Ég verð að segja þetta, og er mér heldur leitt að þurfa að vera að vitna í viðtöl við einn og annan og koma með slíkt hingað upp, en ég verð að gera það og sé mig til neyddan. Ég átti tal við hæstv. ráðh., að vísu voru víst engir, sem á hlýddu, um þetta mál og spurðist fyrir um, hvort hann mundi flytja það á þessu yfirstandandi þingi. Hann kvað nei við því. Og þá lét ég hann af því vita, að við flm. mundum halda þessu máli áfram, því að okkur væri það ekki aðeins rétt, heldur og skylt, svo sem við leyfðum okkur að flytja það á Alþingi í fyrra, og mátti ég ekki heyra á hæstv. ráðh., að hann hefði neitt við það að athuga, enda hin eðlilegustu viðbrögð, eins og á stóð.

Ráðh. spurðist fyrir um það hjá okkur flm., hver væri munurinn á frv. frá því í fyrra og frv. nú. Það veit ég að sjálfsögðu, að ráðh. er mjög kunnugt um það, hver er sá munur og að hann er ekki ýkjamikill. Munurinn er í fyrsta lagi sá, að verkefnið er fært út þannig, að í fyrra frv. var gert ráð fyrir því, að stór landsvæði og auðnarlönd yrðu tekin til uppgræðslu, en í því frv., sem fyrir liggur núna, er gengið lengra, þar sem gert er ráð fyrir, að svæði, þar sem er lélegur gróður, en þó nokkur, séu tekin fyrir til uppgræðslu, m.a. með dreifingu áburðar, og er þetta náttúrlega mikilsvert aukið verkefni. Þá er í öðru lagi gert ráð fyrir því, að sandgræðslustjóri eða sandgræðslustjórn landsins hafi yfirumsjón með spjöllum af völdum stórvirkra vinnuvéla við mannvirkjagerð, þannig að sandgræðslan. geti hverju sinni gripið inn í, ef hætta er á landspjöllum í sambandi við margs konar mannvirkjagerð. Þetta er líka mikilsvert nýmæli og mjög nauðsynlegt. Og í þriðja og síðasta lagi eru það leiðirnar til fjáröflunar, sem eru ólíkar, og lýsti síðari flm. frv. því mjög rækilega áðan. Nefndin kemst að þeirri niðurstöðu, að hyggilegast sé einmitt að beita 5 króna aukaálagi á áfengi. Hafði hæstv. landbrh. einmitt komið fram með þá hugmynd, og sýnist mér hún vera mjög nýtileg og a.m.k. umtalsverð. Í grg. n. segir: „Þó telur n. að fram komnu sjónarmiði landbrh. sjálfsagt að virða það í þeirri öruggu von, að það tryggi framgang frv. og eflingu sandgræðslunnar.“ Og það er þessi hugmynd ráðh. m.a. um breytta fjáröflunarleið, sem var mjög eðlileg að mínu áliti og margra annarra. Hitt má svo vera, að það verði deilt um þetta atriði og kannske allt of lengi, með hverjum hætti skuli standa undir þeim mikla kostnaði, sem verður af framkvæmd þessa frv., ef það verður að lögum. Það er ekki nema eðlilegt, og það er jafneðlilegt t. d., að hæstv. fjmrh. þurfi jafnvel að hugsa sig um andartak, áður en hann samþykkir þessa leið, sem gert er ráð fyrir, enda þótt það sé ekki leið, sem stefnir að því, að aflað verði fjármagns beint úr ríkissjóði. Hitt var svo annað, að við flm. töldum, að nál. hefði legið nægilega lengi til athugunar hjá hæstv. landbrh., og við töldum enn fremur, að það mundi vera málinu til góðs og hæstv. ráðh. nokkuð til geðs, að við í stjórnarandstöðunni hjálpuðum honum og öðrum góðum mönnum til þess að koma málinu fram.

Ég vil að lokum láta þá ósk mína í ljós hér, að þetta mál þurfi ekki að vera frekar deiluefni. Það er ekki þess eðlis. Þetta er mál alþjóðar, það er eitt af mestu hagsmunamálum þjóðarinnar, að að þessum málum verði unnið af röggsemi og dugnaði, festu og þekkingu, svo mjög sem auðið er, og hverju sinni stigið það skrefið, sem bezt er álitið að beztu manna yfirsýn. Ég vil vænta þess, að á þessu þingi megi ganga þannig frá þessu máli, að það náist nokkurn veginn óskaddað í höfn, svo að hefja megi hið blómlega ræktunarstarf hið fyrsta, sem hlýtur að verða undirstaða þess, að íslenzk þjóð geti búið vel og giftusamlega í sínu landi um ár og aldir.