13.02.1961
Neðri deild: 62. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í C-deild Alþingistíðinda. (2131)

175. mál, hefting sandfoks og græðsla lands

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Nú eru þessar umr. orðnar svo mjúkar, að það er eins og þær séu að fjara út enda er fundartíminn að verða búinn. Ég skal ekki segja mörg orð, en það er í tilefni af vægast sagt fyrirspurn frá hv. 1. þm. Vestf. Hann hafði það rétt eftir mér, að ég sagði, að það gæti vel komið til mála að taka þennan tekjustofn, en það gæti þá líka vel komið til mála að nota annan, og það yrði vel þegið, ef hv. 1. þm. Vestf. benti á tekjuöflun í þessu skyni. Ég veit, að hann er þessu máli velviljaður, eins og hann lýsti hér yfir áðan. En það er líka rétt, sem hann sagði: Það eru býsna mörg mál í okkar þjóðfélagi, sem eru óleyst og vantar fjármagn til, og einmitt vegna þess er eðlilegt, að það taki nokkurn tíma að undirbúa stórmál og ákvarða, hvernig þeim fjármunum, sem við höfum úr að spila, verði bezt varið. En sandgræðslumálið virðist hafa fengið aukið fylgi allra þeirra þingmanna, sem ég hef talað við, núna síðustu mánuðina, og þess vegna trúi ég því, að það fái fyrr lausn en ýmis önnur mál, sem líka eru nauðsynleg.

Ég er alveg á sama máli og hv. 1. þm. Vestf., að það er mikil nauðsyn að bæta úr því, sem hann minntist á hér áðan. Það er mikil nauðsyn.

Í sambandi við vistheimilið að Gunnarsholti, sem við áttum báðir þátt í því að stofnsetja, vil ég aðeins upplýsa það, af því að hann virðist ekki hafa fengið fréttir af því síðustu mánuðina, að það er oftast fullsetið. Það eru um 30 manns, sem eru þarna, sumir af þeim vinna hjá sandgræðslunni, aðrir eru við ýmiss konar iðnað, sem þar hefur verið settur upp. Og ég get glatt hv. þm. með því, að það er þegar sannað, að þarna var gott fyrirtæki sett af stað og hefur sannað tilveru sína og forðað þeim vesalingum, sem hafa verið hér í Hafnarstræti og á Arnarhólstúninu, frá því að vera á almannafæri sér til skammar og sínum til leiðinda, og ýmsir, sem þarna hafa dvalizt, hafa þegar fengið bót sinna meina og orðið nýtir menn.

Í tilefni af þeirri fsp., sem hv. 3. þm. Norðurl. e. varpaði til mín hér áðan um það, hvað væri hæfilegur tími fyrir eina ríkisstj. til þess að undirbúa mál, þá veit ég, að hann gæti fengið lærdómsríkt svar hjá sínum samherjum, sem hafa verið lengur í ríkisstj, en ég, vegna þess að þeir hafa reynsluna af því ekki síður en ég að glíma við mál, sem þeir vildu leysa, en fundu ekki ráð til nema á löngum tíma og kannske aldrei. Þannig hlýtur það að vera með stórmál. Fjármál okkar eru þannig og hafa alltaf verið, að fjármagnið er takmarkað, og skal þess vegna engan undra, þó að það mál, sem við erum nú að ræða um hér í dag, hafi tekið nokkurn tíma hjá ríkisstj. Og ég segi, að það er þar enn í athugun, um leið og ég segi, að það kemur til mála að leggja nýjan skatt á áfengi, og þá kemur og ekki síður til mála að finna nýja leið til úrbóta í þessu máli og tekjuöflunar. En það er eitt, sem ekki kemur til mála, það er að gera ekkert í uppgræðslu landsins og sandgræðslumálum. Það er það, sem ekki kemur til mála. Við skulum þess vegna reyna að finna þá heppilegustu niðurstöðu í þessu, sem getur orðið til frambúðar og góðs fyrir málefnið.