28.02.1961
Neðri deild: 70. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í C-deild Alþingistíðinda. (2141)

187. mál, almannatryggingar

Flm. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Ásamt hv. 4. landsk. þm., Hannibal Valdimarssyni, hef ég flutt á þskj. 357 frv. til l. um breyt. á l. um almannatryggingar, á þann veg, að til viðbótar ákvæði, sem er í 38. gr. l. varðandi almennar slysa- og dánarbætur með 90 þús. kr. hámarksbótagreiðslu, komi sérákvæði um sjómenn, sérákvæði, sem tryggi öllum sjómönnum, sem lögskráðir eða ráðnir eru á íslenzk skip, bætur vegna allra slysa, hvort þau heldur verða um borð í skipi eða í landi, að upphæð 200 þús. kr., miðað við fulla örorku eða dauða. Samkv. frv. er gert ráð fyrir því, að almannatryggingarnar kosti þessa sértryggingu að hálfu, en útgerðarmenn að hálfu samkv. nánari reglugerð, sem félmrh. setur að fengnum tillögum tryggingaráðs.

Um þær lífshættur, sem íslenzkir sjómenn eru að staðaldri í við störf sín, þarf ekki að ræða. Á þær eru þeir minntir of oft og óþyrmilega til þess, að þær gleymist, og mikilvægi þeirra starfa, sem sjómenn inna af höndum, er einnig augljósara en svo, að á það þurfi að minna. Í fáum orðum: auk þess að sjómenn vinna mikilvægustu störfin í þjóðfélaginu, þá vinna þeir jafnframt hættulegustu störfin. Fyrir hætturnar, sem harðri sjósókn fylgja, verður trauðla girt. Þjóðin í heild hefur sýnt í verki, að hún vill leggja sig fram um að draga úr þeim hættum. En þrátt fyrir að landsbúar geri það, sem unnt er í þeim efnum, verður ekki hjá því komizt, að fórnir séu færðar, og fyrir fram er vitað, að slysum á sjó linnir ekki, þó að úr þeim takist að draga. En sú vitneskja, sem hverjum sjómanni er ljós, dregur á engan hátt úr sjósókn. Þótt við séum ekki fær um að bægja hættunum frá sjómönnum, ætti okkur að vera skylt að sýna þeim, þótt í litlu væri, að þjóðin metur og virðir það, að jafnhliða því, sem þeir gegna erfiðustu störfunum í þjóðfélaginu, taka þeir á sig sérstaka lífshættu fram yfir aðra þjóðfélagsþegna. Okkur ætti að vera skylt að sýna, að þjóðin metur það og virðir, með því að slysatryggja þá fjárhagslega betur en aðra, með því að bæta þeim og fjölskyldum þeirra fjárhagslega eð nokkru þau slys, sem okkur er um megn að koma í veg fyrir og einhverjir úr stétt sjómanna eru fyrirsjáanlega dæmdir til að verða fyrir á sama hátt og hermenn á vígvelli.

Þeirri spurningu, hvort eðlilegt sé, að slysatrygging fari hækkandi í hlutfalli við aukna áhættu, svara í rauninni flestir fyrir sjálfa sig, ef á reynir, þegar þeir telja sig stofna sér í sérstaka lífshættu um takmarkaðan tíma, t.d. í ferðalögum. Reglan mun vera sú, að af þess háttar tilefnum tryggja menn sig sérstaklega með hárri líftryggingu, ferðatryggingu, meðan sú hætta varir. Sjómenn eru að staðaldri í eigi minni lífshættu en um er að ræða í ferðalögum og því eðlilegt, að líftrygging þeirra sé hærri en almennt gerist.

Sjómenn eiga sannarlega rétt á því, að þetta sjónarmið um sértryggingu vegna séráhættu verði viðurkennt gagnvart þeim við störf þeirra, störf, sem afkoma allra landsbúa byggist á.

Sú hefur um skeið verið krafa stéttarsamtaka sjómanna, að tekið væri tillit til þessarar sérstöðu sjómanna á þann hátt, að þeir eða e.t.v. réttara sagt fjölskyldur þeirra nytu líftryggingar, sem næmi eigi minna en 200 þús. kr., við fulla örorku eða dauða, og munu margir geta fallizt á, að þeirri upphæð sé í hóf stillt. Með tilstyrk stéttarsamtaka sinna hafa sjómenn á togurum og farskipum, yfirmenn á vélbátum og hásetar sums staðar á landinu fengið þessari kröfu fullnægt í tímabundnum kjarasamningum. Ég vil taka það fram, að í grg., sem fylgir þessu frv., eru hásetar á togurum ekki taldir í þessum hópi. En það þarf leiðréttingar við, því að togaraeigendur hafa boðið út hjá tryggingafélögunum 200 þús. kr. tryggingu fyrir alla togarasjómenn, og eru þeir í dag tryggðir fyrir þeirri upphæð. Síðan frv. þetta var lagt fram, hafa yfirmenn á vélbátum með verkfalli náð fram 200 þús. kr. tryggingu, svo og hásetar í nokkrum verstöðvum, en aðrir sjómenn á vélbátum og smærri bátum njóta ekki sérstakrar tryggingar umfram hina almennu slysatryggingu almannatrygginganna.

Það er í rauninni hneisa, að þeir menn, sem taka að sér erfiðustu, hættulegustu og mikilvægustu störfin í þjóðfélaginu, skuli sjálfir þurfa að standa í harðri baráttu, til þess að sérstaða þeirra í þessum efnum fáist viðurkennd í verki. Fyrir baráttu sjómanna sjálfra hafa sértryggingar þeim til handa smám saman verið að nást fram. En ánægjulegra hefði verið, að sjómenn hefðu ekki þurft að hefja og heyja baráttu fyrir þessu máli. Þjóðfélagið sjálft hefði vitaskuld átt að tryggja með þessum hætti þá, sem í hætturnar ganga fyrir landsmenn alla. En eftir að svo er komið, að hluti af sjómannastéttinni hefur fengið fram sérstaka líftryggingu, en aðrir sjómenn standa utan við, þykir mér löggjafanum hreinlega bera skylda til að tryggja, að sjómönnum sé ekki mismunað í þessu efni.

Það er óviðeigandi og til vansæmdar, að ekki séu allir sjómenn jafnhátt tryggðir, og þau mannréttindi, sem sjómenn hafa náð fram í tímabundnum kjarasamningum, ber löggjafanum að lögfesta á þessu þingi. Baráttumál sjómanna, sem jafnframt eru þjóðfélagsleg framfaramál, hafa ýmist fengizt fram með kjarasamningum við samtök útgerðarmanna og þau síðan verið lögfest á Alþingi eða þá að löggjafinn hefur haft frumkvæðið, og má í sambandi við þau tilvik nefna vökulögin, orlofslögin og lögin um lífeyrissjóð togarasjómanna.

Sú sértrygging fyrir sjómenn, sem hér hefur verið rætt um, ætti að bætast í hóp þeirra réttindamála sjómanna, sem lögfest hafa verið á Alþingi, án þess að litið sé á þá upphæð, sem hér er nefnd, sem endanlegt mark: Í þeim sértryggingum, sem sjómenn hafa fengið fram í samningum við samtök útgerðarmanna með tímabundnum kjarasamningum, er gert ráð fyrir því, að útgerðarmenn greiði kostnað af sértryggingu þeirri, sem þeim er gert að skyldu að kaupa vegna sjómanna, nema þó að segja má, að í samningum yfirmanna á vélbátaflotanum hafi iðgjaldið verið tekið af kaupi þeirra.

Í frv. því, sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir því, að sértryggingar sjómanna falli inn í lögin um almannatryggingar og greiðist að hálfu af þeim, en að hálfu af útgerðarmönnum. Ég tel að öllu leyti tryggara fyrir sjómenn, að tryggingin falli undir almannatryggingarnar, þar sem ella er óljóst um ábyrgðina, ef tryggingin reynist ekki fullgild í einstökum tilfellum, þegar á reynir. Enn fremur næði tryggingin með því móti til sjómanna á smærri bátum, sem ekki er skylda að lögskrá á. En slysatrygging, sem sjómannafélögin hafa náð eða kynnu að ná fram, nær ekki til þeirra smærri báta, þ.e.a.s. undir 12 tonnum að stærð, og er þó slysahættan sízt minni á þeim en öðrum skipum. Þá er ekki óeðlilegt, að kostnaður af sértryggingum sjómanna falli að nokkru á almannatryggingarnar, þar sem hér er um að ræða þjóðfélagslega tryggingu, og í rauninni væri ekki óeðlilegra, að ríkissjóður sæi að einhverju leyti um iðgjaldatryggingu þessa, heldur en vátryggingu alls fiskiskipaflotans, eins og nú virðist stefnt að. Hins vegar vil ég taka það fram, að formið á sértryggingu þessari fyrir sjómenn, hvort heldur er kostnaðarhliðin eða það, hvar tryggt er, er ekki aðalatriðið, heldur lögfesting sjálfrar tryggingarinnar gagnvart sjómönnum og aðstandendum þeirra. Sú nefnd, sem mál þetta fær til athugunar, mun að sjálfsögðu ígrunda þá hlið málsins frekar og bera fram brtt., ef henni sýnist réttara að hafa annan hátt á um formið en hér er lagt til. En ég vænti þess, að ágreiningur um þá hlið málsins komi ekki í veg fyrir lögfestingu slysatryggingarinnar.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. félmn.