02.03.1961
Neðri deild: 71. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í C-deild Alþingistíðinda. (2156)

198. mál, búnaðarháskóli

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Um alllangt árabil hefur verið um það rætt meðal þeirra, sem fjalla um landbúnaðarmál hér á landi, á hvern hátt hentugast sé fyrir þjóð okkar að tryggja sér nægilegan fjölda af hámenntuðum mönnum til þeirrar starfsgreinar. Svo hefur farið í landbúnaði eins og öðrum atvinnuvegum, að þörfin fyrir vel menntaða menn á ýmsum sérsviðum fer vaxandi ár frá ári. Þótt fjöldi slíkra manna verði aldrei mikill á Íslandi, er engu að síður brýn nauðsyn, að þeir séu fyrir hendi.

Þetta mál komst það langt áleiðis 1958, að búnaðarþing gerði um það ályktun eftir allmiklar umr., bæði á þinginu það ár og næstu búnaðarþingum þar á undan. Var þá talin brýn þörf á, að kennsla í búvísindum hérlendis yrði efld og aukin frá því, sem nú er, stofnaður yrði fullkominn búnaðarháskóli hér á landi og hann staðsettur á Hvanneyri.

Snemma árs 1959 skipaði þáverandi menntmrh. þriggja manna n. til að semja frv. til laga um búnaðarháskóla á Hvanneyri í samræmi við þessa ályktun. Nefnd þá skipuðu Steingrímur Steinþórsson búnaðarmálastjóri, sem var formaður, Benedikt Gröndal og Guðmundur Jónsson skólastjóri á Hvanneyri. N. þessi vann árlangt að málinu, leitaði upplýsinga víða um lönd og kynnti sér aðstæður allar heima og erlendis. Niðurstaðan varð frv., sem flutt var á síðasta þingi, en seint og fékk því ekki afgreiðslu.

Nú hefur farið svo að þessu sinni, að frv. var ekki borið fram fyrri hl. þings, og því tók ég mér fyrir hendur sem einn af nm., er undirbjuggu frv., að flytja það og geri það með vitund og samþykki hæstv. landbrh.

Tilgangurinn með flutningi frv. á þessu stigi er fyrst og fremst að fá um það áframhaldandi umr., því að svo virtist á síðasta þingi sem þeir, er þá fjölluðu um það í n., vildu hugsa málið frekar, og er sjálfsagt, að það hafi þann gang, sem hv. Alþ. telur sjálft þörf á.

Ég sé ekki ástæðu á þessu stigi til þess að rekja nákvæmlega efni frv., en vil taka fram, að grundvallarhugmyndin er, að sú framhaldsdeild, sem um nokkurt árabil hefur starfað við bændaskólann á Hvanneyri, fái að þróast áfram, eftir því sem efni og aðstæður leyfa, þannig að hún fái aðstæður til þess að mennta flesta eða alla þá menn, sem landbúnaðurinn þarf með meiri menntun en bændaskólarnir veita á því sviði. Það er ekki hugmynd þeirra, sem að þessu máli hafa staðið, að samþykkt þessa frv. þýði, að það verði þegar í stað að setja upp umfangsmikla og dýra stofnun með dýrum byggingum, enda þótt ekkert skorti á, að ýmsir þeir, sem hafa stutt þetta mál á hinum ýmsu sviðum, hafi sínar hugsjónir og láti sig dreyma um það, að í framtíðinni verði hér myndarlegur búnaðarháskóli, þar sem jafnframt fari fram allmikið af rannsóknum í þágu landbúnaðarins, sem mun mjög vel geta verið samhliða kennslunni.

Ég mun svo ekki hafa fleiri orð með þessu frv., en vil, herra forseti, leggja til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.