02.03.1961
Neðri deild: 71. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í C-deild Alþingistíðinda. (2157)

198. mál, búnaðarháskóli

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Eins og hv. flm. þessa frv. vék lauslega að, hefur starfað að Hvanneyri í Borgarfirði um nokkurra ára skeið framhaldsdeild í menntun í búvísindum. Þegar Bjarni heitinn Ásgeirsson var ráðherra á árunum 1947–49, var það eitt af hans verkum að koma þessari framhaldsdeild á stofn. Á þeim árum var sú starfsemi að byrja, að ræktunar- og búnaðarsambönd voru að fá sér starfsmenn til að leiðbeina bændum bæði í ræktun og búvísindum, og skorti þá mjög menn til þess.

Framhaldsdeildin á Hvanneyri, sem nú hefur starfað á annan áratug og hefur útskrifað nokkra tugi manna, hefur komið að góðu liði í sambandi við þessa starfsemi. Flestir þeir menn, sem útskrifazt hafa frá henni á þessu tímabili, hafa orðið starfsmenn við búnaðar- og jarðræktarsambönd. Deildin hefur því bætt úr mannaskorti, sem þarna hefði orðið, og er því nú þegar búin að vinna mikið og gott starf í þágu íslenzks landbúnaðar.

Það hefur verið hugsun þeirra manna, sem að þessu stóðu í upphafi og síðar hafa að því unnið, að framhaldið yrði það, að hér yrði stofnsettur landbúnaðarháskóli eða menn þeir, sem stunduðu búfræði, ættu kost á því að læra landbúnaðarvísindi við þann skóla. Um það hefur hins vegar verið deilt, hvort rétt væri að halda áfram á þeirri braut, sem hafin er á Hvanneyri fyrir meira en áratug, eða hvort slík deild ætti að vera stofnsett við háskólann hér í Reykjavík. Báðir þeir aðilar, er um þetta hafa deilt, hafa leitt fram sín rök, og ég hef ekki enn þá fundið rök fyrir því, að ástæða væri til að breyta frá þeirri þróun, sem í upphafi var hafin með stofnun framhaldsdeildarinnar á Hvanneyri. Það hafa ekki komið fram neinar skýringar, sem réttlættu það að breyta frá þeirri stefnu, er þá var tekin.

Eins og hv. flm. tók hér fram, var þetta mál undirbúið af milliþn. og var lagt hér fram á síðasta hv. Alþ., þá af landbn. þessarar hv. d., að tilhlutan hæstv. landbrh. Ég verð að segja það, að ég bjóst við því, að þetta mál yrði lagt hér fyrr fyrir á þessu þingi, og það kom mér mjög á óvart, þegar ég sá, að það var flutt hér af einum hv. þm. úr stjórnarliðinu. Ég gerði ráð fyrir því, að hæstv. landbrh. mundi hafa forustu um að flytja þetta mál hér á hv. Alþ., ef einhver von ætti að vera um, að það næði fram að ganga. Nú vildi ég því spyrja um það hjá hv. flm., sem að vísu tók fram, að hæstv. ráðh. væri kunnugt um það, að hann flytti þetta frv., hvort á flutning hans á málinu bæri að líta á þann veg, að hæstv. ráðh. hefði ekki talið ástæðu eða haft áhuga fyrir því að flytja málið hér á hv. Alþ. Ef svo er, virðast mér ekki góðar horfur um góðan byr fyrir þessu máli hér á hv. Alþ. og teldi þá heppilegra, að það hvíldi sig um sinn, heldur en að Alþ. gengi af því dauðu, ef útlitið væri á þann veg. En ég vildi gjarnan fá að heyra álit hv. flm. á því, hvort áhugaleysi ráðherrans hefði komið til, að hann sá ekki um flutning málsins, eins og eðlilegt hefði verið, og að hv. þm. tók það að sér þess vegna.