02.03.1961
Neðri deild: 71. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í C-deild Alþingistíðinda. (2158)

198. mál, búnaðarháskóli

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég skýrði frá því í framsöguræðu minni, að málið væri flutt með vitund og samþykki hæstv. landbrh. Þetta hefur verið annatími í stjórnmálunum á þingi. Bæði í landbúnaði og á öðrum sviðum hefur mikill fjöldi mála kallað að. Þess vegna var það, að þegar leið á þingið og ég sá ekki, að þetta mál hefði komið á ný fram á sama hátt og í fyrra, spurði ég ráðherra að því, hvort ekki væri sjálfsagt, að þetta kæmi fram. Hann gaf samþykki sitt til þess, að ég sem einn af nm. þeim, sem höfðu undirbúið málið, flytti það, og get ég ekki túlkað það, að hans undirtektir hafi sýnt annað en áhuga á málinu. Ég lít því svo á, að það séu einhverjar aðrar ástæður fyrir því, eins og með sum önnur mál, sem varða landbúnaðinn og hafa sínar fjárhagshliðar o.fl., að hann hefur ekki tekið upp frumkvæði á þessum vetri. Ég geng út frá því, að við megum vænta þess, að stuðningur ráðh., sem kom fram, er hann hafði frumkvæði um flutning málsins í fyrra, sé óbreyttur. Hins vegar eru fordæmi fyrir því hér í þinginu, að þm., sem setið hafa í n., sem hafa undirbúið mál, hafa til þess að vekja athygli á máli og halda því vakandi flutt það sjálfir. Það er hið eina, sem hefur gerzt að þessu sinni, og von mín er sú fyrst og fremst að fá landbn. til að ræða þetta mál allýtarlega, sem hún gat ekki gefið sér tíma til að gera í fyrra, svo að það komi fram, eins og hv. 3. þm. Vesturl. sagði, hver hugur manna er, og er þá hægt að sjá til um framgang málsins.