16.12.1960
Sameinað þing: 25. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í B-deild Alþingistíðinda. (216)

1. mál, fjárlög 1961

Björn Pálsson:

Herra forseti. Frv. það til fjárlaga, sem hér er til 3. umr., er líkt því, sem samþykkt var fyrir árið 1960. Bæði frv. byggjast á þeim ráðstöfunum, sem gerðar voru með efnahagslöggjöfinni í febrúar 1960. Tekjur og gjöld hækka um 80–90 millj., en þær hækkanir eru einkum vegna þess, að efnahagslöggjöfin og þær ráðstafanir, sem þeirri löggjöf fylgdu, náðu ekki til alls ársins 1960, og vegna þess að gert er ráð fyrir, að skerðingarákvæði almannatryggingalaganna gildi ekki nema til ársloka 1961. Ég hef ekki rætt efnahagsmál á þessu þingi, vegna þess að ég hef álitið, að tæplega væri tímabært að dæma um árangur þeirra ráðstafana, sem stjórnarliðar annaðhvort í háði eða alvöru kenna við viðreisn. Ég álít hins vegar, að nú sé nokkur reynsla fengin í því efni, þó að löggjöfin sé ekki nema 9 mánaða gömul, og afleiðingarnar því engan veginn allar komnar fram enn þá.

Við 2. umr. fjárl. var metingur um það milli núv. hæstv. fjmrh. og fyrrv. fjmrh., hv. 1. þm. Austf., hvor þeirra hefði verið stórtækari í að hækka fjárlög. Taldist svo til, að sá fyrrv. hefði hækkað þau úr 300 millj. kr. í 800 millj. kr. á átta árum, en núv. fjmrh. hefði tekizt að hækka þau um 700 millj. á tveimur árum. Ég ætla ekki að blanda mér í þá deilu, en staðreynd er, að útgjöld eru samkv. ríkisreikningi 1959 954 millj. kr., en áætluð útgjöld 1961 tæpar 1600 millj. Hækkunin er því 650 millj. Frá því ber að draga 113 millj. kr. gjöld vegna niðurgreiðslna, sem ríkissjóður tók að sér vegna útflutningssjóðs. Er því raunveruleg hækkun rúml. 500 millj.

Ég tel vafasamt, hvort réttmætt er að kenna fjmrh. hækkun fjárl. Fjmrh. framkvæmir aðeins ákvarðanir Alþingis. Sé sami ráðherra til margra ára, hlýtur hann eðlilega að ákveða stefnuna að verulegu leyti, en fjmrh., sem tekur við fjárl. í fyrsta sinn, verður ekki sakfelldur, ef um sök er að ræða, frekar en aðrir forráðamenn þeirra flokka, sem að stjórninni standa. Tekjuliðir þeir, sem mest hækka, miðað við 1959, eru söluskattur, verðtollur og innflutningsgjald, sem rennur í ríkissjóð.

Þeir gjaldaliðir, sem mest hækka, eru til félagsmála, á þriðja hundrað millj., niðurgreiðslur, kennslumál og dómgæzla. Eðlilegt má teljast, að gjöld ríkisins hækki nokkuð árlega vegna fólksfjölgunar og að einhverju leyti vegna aukinnar og bættrar þjónustu. Það þarf fleiri skóla, fleiri sjúkrahús, fleiri kennara og fleiri lækna með vaxandi fólkstölu. Nokkur hluti af hækkun fjárl. er af þessum ástæðum. En meginástæðan á rætur sínar í efnahagslöggjöfinni, sem samþykkt var á síðasta þingi. Afleiðingar þeirra ráðstafana eru þó eigi allar komnar fram, því að líklegt er, að vinnulaun eigi eftir áð hækka að mun, og veldur það eðlilega mikilli hækkun fjárlaganna.

Fjmrh. ræddi nokkuð um sparnað í fjárlagaræðu sinni. Ég skal ekki fara mikið út í það hér, aðeins minnast á örfá atriði. Hann ræddi mikið um fækkun nefnda og ráðgerði m.a. að leggja niður allar skattanefndir í sveitum og kauptúnum. Vafalaust eru margar nefndir til, sem lítið gagn gera og sumar e.t.v. ógagn. Er eigi ástæða til að lasta það, þó að slíkar nefndir séu niður lagðar. Ég er hins vegar eigi sammála fjmrh. um, að til bóta sé að leggja niður skattanefndir í dreifbýlinu. Kostnaður við þær er 1.5 millj. Vafasamt er, hvort um sparnað væri að ræða, þó að verkefni þeirra væri unnið á einum stað í hverju kjördæmi. Sveitarfélögin vilja hafa sínar skattanefndir, því að gjaldendurnir vita, að kunnugir geta haft betra eftirlit með framtölum en þeir, sem þekkja ekki til. Tekjuskattur er raunar lítill nú, en óvíst er, hve langæ sú löggjöf verður. Álíti ríkisstj. kostnaðinn við skattanefndirnar of mikinn, er betra fyrir hreppsfélögin að greiða hann að einhverju eða öllu leyti en að skattanefndirnar séu lagðar niður, því að þær eru nauðsynlegar, til þess að eitthvert vit verði í niðurjöfnun útsvara. Undirskattanefndum er greitt í kaup samkvæmt ríkisreikningi 1959 6% af þeirri heildarupphæð, sem eytt er í innheimtu tolla og skatta. Skattstofan í Reykjavík kostar ríkið hins vegar á fimmtu millj. og skattstofur utan Reykjavíkur um 1900 þús. Undirskattanefndir vinna fyrir mjög lágt kaup, ég held 100 kr. á dag. Verk þeirra þyrfti að vinna annars staðar, ef þær væru lagðar niður. Það verk mundi verða verr unnið. Sparnaður mundi því verða vafasamur, en óþægindi mikil fyrir dreifbýlið. Nokkru öðru máli gegnir um yfirskattanefndir. Þar skiptir minna máli, þó að umdæmin verði stækkuð, þó að ég telji tvísýnt, að um sparnað yrði að ræða.

Fjmrh. talaði um að koma rekstri ríkisskipa fyrir á annan og hagkvæmari hátt en verið hefur, og sagðist hafa fengið norskan mann til að athuga, á hvern hátt það mætti verða. Ég hef takmarkaða trú á að fá erlenda menn til að gefa okkur fyrirmæli um, hvernig eigi að reka hluti hér á landi. Staðhættir eru ólíkir og strjálbýlið meira en í flestum öðrum löndum. Nokkrir útlendingar hafa verið fengnir og fæstir orðið að miklu liði. Veldur þar e.t.v. nokkru um, að oft er erfitt að framkvæma skynsamlega hluti fyrir flokkadrætti og ósanngjörnum kröfum. Ég hygg, að Íslendingar eigi nóga menn með hagnýtum gáfum, en ráðamennirnir hafi ekki verið nógu fundvísir á þá, enda í sumum tilfellum sýnt nokkurn áhuga á því að losa sig við þá. Ég vil þó engan veginn gera lítið úr viðleitni ráðherrans í að spara, þó að árangur hafi enginn orðið hér til. Ég get vel gengið inn á, að reka megi Skipaútgerð ríkisins á hagkvæmari hátt en verið hefur, án þess að þjónustan við fólkið verði lakari. En hvort það verður framkvæmt á réttan hátt, það er annað mál.

Ég skal einnig viðurkenna, að ýmsar ábendingar frá meiri hl. fjvn. eru skynsamlegar og geta orðið til bóta. En hvorki fjvn. né ráðherrann hafa bent á atriði, sem valdið geta verulegri lækkun á fjári. Þeir minnast t.d. ekki á fjölskyldubætur með tveim fyrstu börnum, sem kosta um 100 millj. Og þeir tala ekki um, að ríkið greiðir til atvinnuleysistrygginga yfir 26 millj. kr. og bæjarfélög og fyrirtæki þurfa að greiða svipaða upphæð. Sjóður þessi greiddi hálfa millj. í bætur árið 1959. Vaxtatekjur þessa sjóðs eru sennilega 10–20 millj. í ár, þannig að eignir hans aukast um 60–70 millj. Við þurfum ekkert atvinnuleysi að hafa, ef vel er stjórnað. Vextirnir einir eru nægilegar tekjur fyrir þennan sjóð. Atvinnuleysisstyrkir geta ekki gefið einstaklingunum þá lífsgleði og heilbrigði, sem vinnan gerir. Þess vegna þurfa allir að hafa vinnu, sem vinnufærir eru. Fólkið í landinu greiðir gjöldin til atvinnuleysistryggingasjóðsins í gegnum vörukaup og útsvör. Útgerðarmenn, fiskvinnslustöðvar og aðrir atvinnurekendur greiða sinn hluta. Gjald þetta hefur ekki mátt taka lögtaki hjá skipum. Það líkaði jafnaðarmönnum illa og laumuðu því ákvæði í lögin, svo að nú má selja bátana, ef gjaldið er ekki greitt. Jafnhliða því, sem fé er mokað í þennan sjóð, er lagt hátt útflutningsgjald á útfluttan fisk. Væri það fært niður, gæti fiskverðið hækkað um 20 aura pr. kg. Vitanlega væri hægt að fella útflutningsgjöldin niður og ná peningunum á annan hátt, ef þeirra er þörf, enda gera fáar þjóðir það að skattleggja útflutningsvörur sínar. Útgerðarmennirnir heimta hærra verð fyrir fiskinn. Þeir hafa fengið fleiri og fleiri krónur, en jafnframt minni krónur, þannig að hagur þeirra hefur ekki batnað. Þetta er vafasamt stjórnarfar.

Ég gat þess, að ástæðan fyrir hækkun fjárl. væru ráðstafanir þær í efnahagsmálum, sem gerðar voru í byrjun þessa árs. Það er því ekki úr vegi að athuga tilgang þeirra og áhrif. Gengið var fellt frá því, sem það raunverulega var, til þess að koma rekstri atvinnuveganna á traustan og heilbrigðan grundvöll, og var talið, að gengislækkunin væri miðuð við þarfir vélbátaflotans. Á landssambandsfundum ísl. útgerðarmanna um daginn var talað um þetta, og útgerðarmenn voru að tala um, að þeir þyrftu að fá meira fyrir fiskinn. Þetta er víst venja. En þeir báru sig nú óvenjulega illa. Formaður landssambandsins sagði, að það mundi ekki vera hægt að fá ríkisstj. til þess að leggja fé fram til að hækka fiskverðið. Það var talað um að fá ríkisstj. til þess að greiða tryggingargjöldin, og ég vil taka það fram hér, að nefnd sú, sem talaði við ríkisstj., lýsti því yfir, að hún hefði fengið þvert nei viðvíkjandi því. Hins vegar var fundin lausn á því máli, eins og þið vitið allir. Og þeir peningar eru ekki teknir frá ríkinu, það er misskilningur. Þetta eru peningar, sem útgerðarmenn áttu raunverulega, sem búið var að taka af þeim í gegnum fiskverðið. Þeir áttu þessa peninga. Það, sem gert var, var aðeins, að ríkisstj. féllst fyrir sitt leyti á, að þetta fé gengi til þess að greiða tryggingar skipanna, enda samkomulag hjá útgerðarmönnum að láta 21/2% gjaldið gilda til áramóta og nota það svo til að greiða tryggingarnar af bátunum. En formaður landssambandsins gat þess, að eina ráðið til þess að útvega útvegsmönnum betri kjör, það væri að fella krónuna meira. Ég var satt að segja hálfhissa, því að öll þessi ár, síðan ríkisstj. fór að hafa einhver afskipti af verði fisksins, þá er alltaf verið að fella gengið. Útgerðarmennirnir hafa fengið fleiri og fleiri krónur fyrir fiskinn, en jafnframt minni krónur, og ekkert batnar hagur útgerðarinnar. Ég hélt því, að menn væru búnir að fá nóg af þessu. En á landssambandsfundinum kom þetta fram hjá formanninum, að hann áleit, að það væri til bóta fyrir útgerðarmennina að fella gengið meira. Ég vildi því aðeins sýna fram á það í örfáum orðum, hve mikil fjarstæða þetta er.

Landssambandið — eða stjórn þess — gerir áætlun um rekstur vélbáta fyrir hvert ár. Þetta er lagt fyrir fund. Ég fékk þessar áætlanir. Þær eru í tvennu lagi, bæði fyrir línubát og eins fyrir bát, sem gerir bæði út á net og línu. Það er áætlað, að bátur, sem gerir út á net og línu, hafi í tekjur yfir vetrarvertið, þ.e. frá áramótum og fram í maí, 1453 þús. kr. Er þá miðað við meðalafla, eins og hann var s.l. ár. Ef við athugum svo þá liði, sem eru háðir genginu, þá eru þeir beita, sem er áætluð að fenginni reynslu 59 þús., olía 67 þús., veiðarfæri 445 þús., viðhald skips 92 þús., tryggingar skips 95 þús., fyrningar 179 þús., — því að þær breytast vitanlega við breytt verðlag skipanna, ef endurnýja þarf skipin, þá eru þau orðin dýrari, — og akstur 7 þús. Samtals eru þeir liðir, sem hafa áhrif á gengið eða réttara sagt fylgja genginu, 944 þús. af 1453 þús. kr. tekjum. Og svo kemur nú kaupið. Fyrrv. sjútvmrh., Lúðvík Jósefsson, var þarna staddur, og hann komst svo að orði, að hann væri á móti gengisfellingu, því að það væri ekki nema til þess að stela kaupi af mönnum. Ég var honum algerlega sammála. Ég sá það einnig í Þjóðviljanum um daginn, að hann var að tala um, að gengið hefði verið fellt of mikið. En mér datt bara í hug, að þegar ég flutti tillögu um að fella gengið minna, þá greiddi þessi hv. þm. og fyrrv. ráðherra atkvæði á móti því, og þá var tekið 27% meira af hverjum einasta launamanni í landinu en ástæða var til. Sem sagt, hann greiddi atkvæði á móti því að taka ekki 27% af hverjum einasta launamanni í landinu. En ég var honum alveg sammála um, að fyrst og fremst er gengislækkun til að snuða launþega og sparifjáreigendur, fyrir utan alla þá spillingu og brask, sem gengislækkun hefur í för með sér.

En nú er komið annað í dagsins ljós. Ég skal játa það, að á vertíðinni í fyrra græddum við ofur lítið á gengislækkuninni, af því að þá fengu sjómennirnir jafnmargar krónur og minni krónur, en krónufjölgunin kom í hlut útgerðarinnar, þannig að útgerðarmennirnir græddu dálitið. Sjómennirnir gera skilyrðislaust þá kröfu nú að fá prósentur af brúttóafla. Vegna gengisbreytingarinnar gera þeir þá kröfu. Það er sennilega ómögulegt að komast hjá kauphækkun. Nú reikna ég með að við komumst ekki af með að borga sjómönnunum minna en 30%, og er þá reiknað með orlof og hlutur yfirmanna.

Og 30% af 1453 þús. er 445 þús. Þegar við leggjum saman þessar 445 þús. og 944 þús., sem alveg fylgja genginu, þá eru eftir 60 þús., sem útgerðarmaðurinn getur grætt á því að fá fleiri krónur. Ef um 20% gengislækkun væri að ræða, gæti hann grætt á því 12 þús. og tilsvarandi, ef um annað væri að ræða. Þarna sjáið þið, hve mikil blekking það er að halda, að útgerðin græði á gengislækkun. Þessu fylgja svo öll þau óþægindi, sem skapast af aukinni verðbólgu, aukinni fyrirhöfn við að útvega rekstrarfé.

En sagan er ekki öll sögð, því að síld var veidd í sumar. Ég reiknaði út, hvað meðalbátur hefði fengið í afla, og það var um 390 þús. kr. brúttó, þá er átt við meðaltalið. Af því er hlutur skipverja um 60% eða 234 þús. Hlutur skips er 156 þús. Nú þarf að kaupa nót fyrir 1/2 millj., og vextir af því, miðað við þá vexti, sem nú eru, eru um 60 þús. yfir árið, og afskrift af nót mundi vera hæfileg um 100 þús. Þetta eru 156 þús., þannig að hlutur skipsins fer allur upp í kostnað við vexti og afskrift af nót. Þá eru þeir liðir eftir, sem hækka vegna lækkandi gengis, og það er viðhald skips, sem ég reikna á 50 þús. — viðgerðir og annað slíkt, tryggingar af nót og bát og skipi að þeim hluta, sem kemur af síldarútveginum, ég reikna þetta á 70 þús., og olía á 40 þús. Þetta er um 160 þús. Sú upphæð, sem tapast vegna gengislækkunarinnar, er um 160 þús. á síldarútgerð, en við græðum 60 þús. á vertíðinni, þannig að fyrir útgerðarmann í ár mundi þetta þýða, að hann tapaði sem svaraði 100 þús. kr. á gengisfellingu, m.ö.o. ef það væri fellt um 50%, þá mundi hann verða að borga 50 þús. kr. meira vegna gengislækkunarinnar. Ég bý ekki þessar tölur til, þetta er staðreynd, þetta er gert eftir áætlun landssambandsins um fiskinn, en hitt reiknaði ég út sjálfur. Ég skal taka það fram, að þetta er bátur, sem bæði veiðir með línu og net, og veiðarfærakostnaðurinn er meiri við hann.

Þess vegna verðum við að gera okkur ljóst, að það er gersamlega ómögulegt að bæta hag útgerðarinnar og í raun og veru íslenzka þjóðarbúsins nema með því að reka útgerðina á hagkvæmari hátt. Það er ekkert nema fíflaskapur að ætla alltaf að heimta fleiri og fleiri krónur. Við verðum að hafa skip, sem henta til veiðanna, við verðum að reyna að komast af með minni kostnað í veiðarfæri, við verðum að reyna að gera afurðirnar sem beztar, þannig að það sé hægt að selja þær fyrir sem hæst verð, og við verðum að reyna að afla þeim sem beztra markaða. Þetta er undirstaðan undir allri okkar velmegun í framtíðinni og undirstaðan undir því að mestu leyti, hvort við eigum að vera sjálfstæð þjóð fjárhagslega eða ekki. Ég skal játa það, að þeir græddu á gengislækkuninni, sem mest öfluðu á síldinni. En þeir, sem minna öfluðu, töpuðu líka enn meira. Viðvíkjandi togurunum ætla ég líka að benda á það, að þeim mun minna sem þeir afla, þeim mun meira skaðast þeir á gengislækkun, vegna þess að þeir verða að kaupa jafnvel meira en bátarnir af hlutum, sem háðir eru genginu.

Þegar ástandið er eins og nú, að togararnir afla lítið, þá skaðast þeir á gengislækkuninni. En ef þeir afla mjög mikið, sem sagt ef þeir græða, þá græða þeir auðvitað fleiri krónur, en um leið minni krónur. Allar kenningar um, að það sé hægt að leysa eitthvert vandamál útvegsins með gengislækkun, eru því ekkert nema helber vitleysa. Hins vegar er ekki hægt að ásaka þessa stjórn eingöngu fyrir það, vegna þess að þetta hefur verið gert áður. Það hefur verið látið undan og jafnvel sumir fúsir að láta undan. Það var meira að segja í tíð hinnar ágætu vinstri stjórnar, að alltaf var látið undan. Útgerðarmennirnir heimtuðu fleiri og fleiri krónur, og það var gengið að þeirra kröfum, — það kom allt fram sem gengislækkun. Þá voru hækkaðar tekjur útflutningssjóðs, hækkað yfirfærslugjaldið, sem þýddi ekkert annað en gengislækkun. Og árangurinn er, að ástandið hefur aldrei verið verra. Ég hitti útgerðarmann úr Vestmannaeyjum um daginn hérna á götunni. Hann sagði mér, að það sæist varla króna í Vestmannaeyjum. Ég fór að inna hann eftir því, hvernig á þessu stæði. Jú, það kemur í ljós, að þeir höfðu ekki fengið eitt einasta net í fyrra fyrr en eftir gengislækkun. Vestmanneyingar eru stórreiðir yfir þessu. Hér fengu þeir netin að mestu leyti áður en gengið breyttist, í Vestmannaeyjum alls ekki. Það eyðast mikil veiðarfæri í Vestmannaeyjum. Útkoman er þessi, að gengislækkunin og hin mikla verðhækkun á netunum verður til að skaða þá.

En þetta eru ekki einu ráðstafanirnar, sem eru til erfiðleika fyrir íslenzkt atvinnulíf. Vextirnir eru eftir. Að meðaltali voru vextir hækkaðir um 4%, og vaxtahækkunin var tiltölulega meiri á afurðalánin en á almenn lán, þannig að afurðalán hækkuðu úr 5% eða 51/2% upp í 9 og 91/2, en víxlar úr 71/2 í 111/2, eftir því, hvort þeir voru framlengdir eða ekki. Þetta er stærri liður fyrir atvinnulífið í landinu en menn gera sér í fljótu bragði ljóst. Fyrir verzlanir, sem þurfa að liggja með vörubirgðir, þýðir þetta 50—80% hækkun á öllum vinnulaunum. Fyrir fiskvinnslustöðvarnar þýðir þetta 10—15% hækkun á vinnulaunum, og meira ef húsin eru að miklu leyti í skuld. Fyrir bónda, sem kaupir vörur sínar að mestu leyti snemma á vorin, þýðir þetta 5—6 þús. kr. útgjöld, bara á hans rekstrarvörum, og ef hann er í miklum lausaskuldum, þá er það auðvitað miklu meira.

Útgerðarmaður á skip, við skulum reikna með gömlu skipi, og skuldar milljón í lausaskuldum. Vaxtagreiðslur hans hækka um 40 þús. Útgerðarmaður kaupir nýjan bát, sem kostar 6 millj. Við skulum segja að hann fái 2/3 úr fiskveiðisjóði. Þá þýðir þetta með verðhækkunum, með því, sem skipið hækkaði vegna gengisbreytingarinnar, og vátryggingarhækkun um 300 þús. kr. útgjöld.

Og svo skulum við athuga, hvort þetta muni vera hyggilegt fyrir þjóðarbúið. Þetta leggst svo að segja allt á atvinnulífið í landinu. En hverjir græða? Það eru nú mörg hundruð millj. í sjóðum hér. Það eru þeir, sem græða, og það er fyrst og fremst þeirra sparifé, sem vex nú, ef um aukningu er að ræða: Seðlabankinn græðir. Það er raunar mjög ýkt, hve mikið hann græðir, því að hann græðir í raun og veru ekki nema á seðlaveltunni, vegna þess að hann greiðir hærri innlánsvexti en hann gerði áður, þannig að þar er varla um meira en tæplega 20 millj. kr. að ræða yfir árið. Svo græða vitanlega sparifjáreigendur. En það er bara takmarkað fé, sem hinar starfandi hendur eiga í landinu. Það eru fáeinir menn, sem eiga mikla peninga, en þeir, sem taka þátt í atvinnulífinu og framkvæmdunum, eiga ekki peninga, annaðhvort litla eða enga. Þannig eru það þeir aðilar í þjóðfélaginu, sem meira starfa, þeir, sem þrýsta blóðinu út í þjóðarlíkamann, með því að auka framleiðsluna, það eru aðallega þeir, sem greiða þetta, en hinir dauðu aðilar, sem græða, eða þeir, sem minna hafast að, að ógleymdum okrurunum, því að þetta eru góðir tímar fyrir þá. Þetta verðum við að gera okkur ljóst.

Sjútvmrh. lofaði í byrjun þessa árs, að útgerðin skyldi búa við sömu kjör og hún hefði gert undanfarið. Ég efast ekkert um, að ríkisstj. ætlaði að efna þetta loforð. En mér var strax ljóst, þegar sjútvmrh. lofaði þessu, að þá gat hann ekki leyst verðbólguna. Í framkvæmdinni varð þetta þannig, að það var reiknað út, hvað þeir áttu að fá, útgerðarmennirnir, fyrir fiskinn, en það var bara ekki tekið tillit til áhrifa vaxtanna, — og þegar til framkvæmdanna kom, þá eðlilega neita frystihúsin að greiða eins og ætlazt var til að þau gerðu, þannig að útkoman er sú, að útgerðarmennirnir fá í kringum 20 aurum lægra verð en upphaflega var reiknað með að þeir þyrftu að fá, til þess að þeir hefðu sömu. kjör og áður. Það er eðlilegt, að þeir séu ekki ánægðir í Vestmannaeyjum og útkoman sé slæm hjá þeim. Þeir þurftu að kaupa netin, eftir að gengið breyttist, og vaxtahækkunin hefur verkað þannig, að þeir fá um 30 aurum minna fyrir hvert kg af fiski en þeir hefðu annars fengið.

Ég efast ekki um, að ríkisstj. ætlaði sér að standa við loforðin, en það bara var ekki gert. Nú biðja útgerðarmennirnir um hærra verð fyrir fiskinn. Ég sé ekki, að það sé nokkur vegur að leysa þann vanda öðruvísi en lækka vextina. En með vaxtalækkun það verulegri, að vextir verði svipaðir og þeir voru, geta þeir fengið kjarabætur, sem svara til 30 aurum á hvert fiskkíló. Það var rætt töluvert um þetta á landssambandsfundinum, og ég hélt því fram, að við ættum ekki að gera aðrar eða meiri kröfur en það, vegna þess að ef væri farið að heimta framlög, hvort sem væru myndaðir sjóðir til þess að greiða framlög eða ekki, þá endurnýjaði það bara verðlækkun krónunnar og nýja verðbólgu.

Það er ekki úr vegi að líta yfir þá mánuði, sem liðnir eru, frá því að þessar efnahagsráðstafanir voru gerðar, og athuga í stórum dráttum árangurinn. Ég hef aðeins reynt þetta. Ef við tökum útflutning og innflutning, þá er það þannig miðað við sama tíma í fyrra, að þá var greiðslujöfnuður á út- og innflutningi óhagstæður um 300 millj., en er nú óhagstæður um 422 millj. Nú er krónan minni, okkur ber að gæta þess, en svo kemur annað til greina, og það er, að það voru miklar birgðir síldarafurða á áramótum og þær hafa verið fluttar út. Það er búið að flytja út meginið af síld og lýsi eða mikið af því. Peningar fyrir það eru sennilega ekki nema að nokkru leyti komnir inn, en samt sem áður gefur þetta dálítið villandi hugmynd. Greiðslujöfnuðurinn var óhagstæðari en venjulega í fyrra, en það lá að mestu leyti í því, að birgðir höfðu aukizt. Skipainnflutningur hefur verið talsverður í þessari upphæð, yfir 300 millj., en enn á eftir að koma skipainnflutningur á hagskýrslur fyrir allan síðari hluta ársins. Ég get ekki fullyrt, hvað hann verður mikill, en það er alveg gefið mál, að vegna skipainnflutningsins verður greiðslujöfnuður mjög óhagstæður í desember. Það er ekki ólíklegt, að innflutningur skipa á árinu verði 500 millj. kr. Þó get ég ekki fullyrt um það. Nú er ekki nema gott eitt um þetta að segja, ef það væri brýn þörf fyrir öll þessi skip, en það er það bara ekki. Ef við lítum yfir tímabilið, frá því að vinstri stjórnin sagði af sér, þá horfir það þannig við, að þá var greiðslujöfnuður hagstæður um 49 millj, kr., og þá voru fastar skuldir ríkis, einstaklinga og stofnana 726 millj. Það eru tvö ár liðin síðan. Ég get ekki fullyrt, hvernig það stendur nú, en eftir því sem ég kemst næst, þá voru fastar skuldir á s.l. áramótum 934 millj. Það er ekki hægt að fullyrða, hve mikið skuldir hafa vaxið á þessu ári, en það mun láta nærri, að af þeim lánum, sem tekin voru í fyrravetur, sé búið að eyða um 2/3 hlutum, og svo hafa safnazt miklar skuldir fyrir skip, sem keypt hafa verið á árinu. Það er lánað sennilega 60% af verði báta og um 80–90% af verði togara. Það skiptir ábyggilega hundruðum milljóna. Það er því hætt við, að á þessum tveimur árum hafi skuldirnar aukizt um 70%. Ég hygg, að það viti eiginlega enginn nákvæmlega, hverjar skuldirnar eru, vegna þess að það hafa verið tekin vörulán, eftir því sem hægt hefur verið, ytra, vegna hinna háu vaxta hér innanlands, og peningaþenslan hefur því orðið á þann hátt, að það hafa myndazt erlendar skuldir bæði fyrir skip og vörur, í stað þess að mjög takmarkað var að því gert áður.

Jónas Haralz kom á landssambandsfundinn til okkar og sagði þar, að á næstu árum og á þessu ári, skildist mér, þá færu 20% af útflutningsverðmæti þjóðarinnar í greiðslu vaxta og afborgana af skuldum. En í aths. eða í grg., sem fylgdi efnahagsmálafrv. í fyrravetur, er gert ráð fyrir, að hæst geti það komizt í 15.8% af útflutningnum og af heildargjaldeyristekjunum í 11.4%. En nú kemur Jónas Haralz og segir, að það þurfi 20% af heildarútflutningi þjóðarinnar, í staðinn fyrir að í efnahagsmálafrv. er gert ráð fyrir, að það þurfi í mesta lagi 15.8%. Þannig er auðséð, að þetta hefur stórversnað. Það fer náttúrlega eftir því, hvað á að borga mikið af skuldunum á hverju ári, hversu mikið þarf, en auðséð er á þessu, að hagurinn út á við hefur stórversnað. En í grg. fyrir þessu efnahagsmálafrv. var þetta talin óhæfa. Þegar vinstri stjórnin sagði af sér, var þetta ekki meira en í mesta lagi 10—12%, sem hámarkið átti að verða. Á þessum tveimur árum, því að skuldir uxu um nærri 200 millj. árið 1959, hafa ástæður þjóðarinnar versnað þannig, að það hefur farið úr 10—12% af útflutningsverðmæti þjóðarinnar, sem þurfti, þegar vinstri stjórnin sagði af sér, en nú þarf um 20%, eftir því sem Jónas Haralz segir sjálfur, og ég hygg, að þetta muni láta nærri, þannig að ég sé ekki, að við séum á uppleið. Þegar þurfti um 10—11% af útflutningsverðmæti þjóðarinnar til að standa undir vöxtum og afborgunum, þá sagði hagfræðingurinn, að við værum að fara fram af brúninni. En hvert erum við komnir nú? Erum við ekki komnir fram af henni?

Menn eru misjafnlega góðir fjárhirðar. Sumir eyða litlu heyi og hafa hjörðina í góðu lagi. Aðrir eyða miklu heyi, og hjörðin þrífst illa hjá þeim. Það fyrsta, sem hygginn bóndi gerir, ef hann er heytæpur og þarf að spara heyið, er að líta eftir öllu vel sjálfur. Ég álít, að það, sem ríkisstj. hefði átt að gera, því að náttúrlega var sjálfstæðismönnum það ljóst, eftir því sem þeir sögðu sjálfir, að við værum komnir nálægt brúninni, þegar vinstri stjórnin segir af sér, þá áttu forráðamenn þessara flokka að setja sig rækilega inn í málin og athuga, hvað bæri að gera, áður en ráðizt væri í nokkurn hlut. Menn eru misjafnlega slysnir. En af hverju kemur slysnin? Hún kemur af því, að menn athuga ekki nógu vel, hvað þeir ætla að fara að gera. Þeir athuga ekki, hvar þeir stíga og hvað þeir gera. Menn eru fyrst og fremst slysnir af því. Það, sem forráðamenn þessara flokka áttu að gera, var að athuga í byrjun, hvað þurfti að gera. En í stað þess er ráðizt í að kaupa fleiri tugi af skipum. Það eru tvennar kosningar þetta ár. Það var tilkynnt, að verðbólgan væri stöðvuð, og fólkið trúði því. Það þurfti að koma sér vel við kjósendurna, og það þurfti að skapa eldmóð. Þá er mönnum gefið leyfi til að kaupa og bankarnir ábyrgjast greiðslu á tugum af skipum án tillits til þess, hvort við þyrftum þeirra með eða ekki. Þetta er í raun og veru verðbólgustefna. Þetta miðar að því að auka atvinnulífið í landinu og festa fé. Það er ekki nema gott um þetta að víssu leyti að segja, en þetta þarf bara að vera í hófi. En svo líður árið, og þá er tekin upp alveg þveröfug stefna. Þá er tekin upp kyrrstöðustefna, þá er farið í aðra átt, og þá eru gerðar ráðstafanir, sem gera þeim mönnum, sem hafa ráðizt í þessi skipakaup, ómögulegt að reka skipin. Slysin verða nefnilega af því, að hlutirnir eru ekki athugaðir fyrir fram, og margt af þessum mönnum getur áreiðanlega ekki borgað skipin, því að það er gersamlega ómögulegt að reka þau, það veit hver einasti maður. Það er hægt fyrir menn, sem eru ríkir, þeir geta náttúrlega látið eitthvað af eignum sínum í þau og baslað áfram án þess að fara á hausinn, en menn, sem eiga ekki fjármagn, geta ekki rekið þau. Fyrst er mönnunum leyft að flytja inn skipin, og það er stefnan að auka atvinnulífið og það er verðbólgustefna, en svo eru gerðar ráðstafanir til þess, að þeir geti ekki rekið skipin á heilbrigðan hátt. Þetta er að athuga ekki hlutina nógu vel, áður en lagt er upp í ferðalagið. Þetta getur verið dýrt og er of dýrt fyrir litla þjóð. Það má vel vera, að vinstri stjórninni hafi mistekizt um ýmislegt og þeim stjórnum, sem á undan henni voru, en það var yfirleitt athugað, þegar farið var að kaupa skip, að það væri hægt að borga þau.

Það er sagt um Ameríkumenn, að þeir séu fljótir að byggja, en þeir séu lengi að athuga, hvernig þeir eigi að byggja. Það tekur miklu lengri tíma að teikna húsið og gera allar áætlanir viðvíkjandi því heldur en að byggja það. En þetta veldur því, að húsið getur gert sitt gagn og er ef til vill gallalítið, þegar búið er að byggja það.

Annað slys, sem vill til, er í afurðasölunni. Það hefur verið mikið fjasað um það, hve síldarafurðir hefðu fallið. En hvað gerist? Árið 1959 áttu þeir, sem áttu síldarmjöl, kost á að selja fyrir 17 kr. próteineiningu. Þetta er upplýst. En það er ekki gripið tækifærið. Og svo er beðið með mikið af þessum síldarafurðum, þangað til þær kolfalla, bæði lýsi og síldarmjöl, og svo er loks selt fyrir 11 kr. próteineiningin. Sumir hafa sagt mér, að þetta væri af því, að þeir hefðu ekki fengið nógu fljótt afgreitt leyfi til að selja síldarmjölið. Ég efast nú um, að það sé, — ég skal ekki segja um það, ef ríkt hefði verið gengið eftir því, — en ef svo er, þá er þarna einhver klaufaskapur á ferðinni. En svo kemur árið 1960. Þá skyldi maður nú ætla, að ekki væri gerð vitleysa. Jú, ójú, þá fer síldarmjölið að hækka, en þá flýta Íslendingar sér að selja, áður en það hækkar. T.d. hækkaði lýsið úr 49 sterlingspundum tonnið í £ 62 eða eitthvað svoleiðis. Sumir seldu fyrir í kringum £ 50, og aðrir komust upp í £ 56, en það er varla nokkur, sem hefur komizt í hámarkið. Ég er ekki að kenna einstökum mönnum um þetta og alls ekki ríkisstj., en ég segi: Þetta er of dýrt fyrir okkur. Það er miklu nær að hafa í sendiráðum okkar úti í löndum slynga verzlunarmenn heldur en að hafa þar einhverja menn, sem gera ekki neitt. Og það borgar sig ekkert betur fyrir okkur en að hafa slynga verzlunarmenn, launa þá vel. Þeir þurfa að hafa beint samband við framleiðendur hér á landi, svo að svona vitleysur komi ekki fyrir. Norðmenn gripu tækifærið, þegar stóð á því, að Íslendingar seldu, og fylltu í skarðið og ef til vill fleiri aðilar. Þegar Íslendingar ætluðu að selja, þá var búið að fylla markaðinn. Þeir hafa haft menn, sem voru betur vakandi. Frumskilyrði fyrir þjóð, sem hefur jafnmikla utanríkisverzlun og við, er að hafa slynga verzlunarmenn, og við erum ekkert of góðir til að borga þeim sæmilega. Það þarf bara að velja þá vel, og þeir þurfa að vera vakandi. Það er svo mikið undir þessum mönnum komið. Ég bendi ekki á þetta til að ásaka neinn, heldur af því, að við höfum ekki efni á þessu. Norðmenn gátu borgað síldina sína þrefalt hærra í sumar en við og vafalaust að einhverju leyti vegna þess arna.

Ef við lítum nú yfir þetta allt, þá sé ég ekki, að árangurinn sé mikill af þessum miklu ráðstöfunum, sem gerðar voru hér í fyrra. Þær hafa gert mörgum mönnum erfitt fyrir. Þetta er reiknað út hér allt saman, e.t.v. af hagfræðingum og að einhverju leyti af öðrum, ég skal ekkert fullyrða um það, en þetta er allt saman reiknað út. Útgerðarmennirnir úti á landi ráða engu um þetta, bændur í sveitum ráða engu um þetta, en þetta hefur þau áhrif á alla þeirra lífsafkomu, að það gerbreytir henni, og það er anzi hart fyrir mistök, vitlausa útreikninga og ástæðulausar athafnir að skapa þeim mönnum, sem standa í hörðustu lífsbaráttunni í þjóðfélaginu, erfiðleika, sem þeim er illmögulegt að ráða við. Ég veit, að það er ekki gert af illvilja, en það er bara hörmulegt, að það skuli koma fyrir.

Ég hitti kaupfélagsstjóra í gærkvöld frá einu allra efnasterkasta félagi á landinu, og hann sagði mér, að bændur hefðu aldrei átt eins erfitt og nú síðan 1935 á sínu verzlunarsvæði. Og hvað hefur skeð? Þetta er eitthvert allra bezta ár, sem hefur komið. Það hlýtur einhver klaufaskapur að vera í hirðingunni á hjörðinni.

Árangurinn af þessum ráðstöfunum, — ég sé ekki, að hann sé neinn, ekki nokkur einasti. Það aukast skuldirnar. Það er eitthvað að. Og það er m.a. þetta, að þegar ríkisstj. segir fólkinu að spara, þá er búið að gera ráðstafanir til að fjárfesta tugi og hundruð milljóna fyrir hluti, sem eru ekki nauðsynlegir fyrir okkur, og á ég þar við skipin. Og það er búið að gera yfirsjónir í utanríkisviðskiptum. Það er tvennt, sem gert var, sem var óframkvæmanlegt. Það var að lækka gengið svona mikið án þess að auka peningaveltuna í landinu að sama skapi. Það átti að halda útlánastarfseminni hér um bil óbreyttri, en verðfella krónuna jafnmikið og gert var. Þetta var hlutur, sem ekki var hægt að gera. Þetta skapaði mikla lánsfjárkreppu og erfiðleika fyrir atvinnurekendur og öll fyrirtæki í landinu, og það er búið að leika hvert einasta fyrirtæki hörmulega í landinu í mörg undanfarin ár vegna sífelldrar verðþenslu, því að það þarf alltaf meira og meira rekstrarfé, og það er ekki til staðar.

Annað, sem ríkisstj. gerir, er að hækka vextina svona mikið. Ég sé ekki, að árangurinn sé nokkur, bara hreint enginn, nema ef Seðlabankinn hefur grætt fáeinar milljónir, sem hann tapar auðvitað öllum aftur. En því var verið að gera þetta? Og þetta veldur því, að það er ekki hægt að reka svo að segja nokkurn heilbrigðan atvinnurekstur í þessu landi án tekjuhalla.

Það; sem ég álít að eigi að gera nú, það er að draga úr verðbólgunni, hækka gengið um ca. 20%. Það ætti enn fremur að létta af sköttum. Þá þyrfti ekki fjölskyldubætur með tveimur fyrstu börnum. Það mætti draga úr atvinnuleysistryggingum. Ef útgjöld lækkuðu hjá ríkinu, þá væri hægt að lækka söluskattinn. Þetta mundi valda verðlækkun á vörum, sem svaraði 30–40%, og sú verðlækkun mundi hindra það, að menn færu í verkfall.

Það, sem þarf enn fremur að gera, er að lækka vextina, því að það er ógerlegt að reka heilbrigt atvinnulíf með þeim vöxtum, sem nú eru. Ef ríkisstj. lækkar vexti, en gerir ekkert annað, þá koma kaupkröfur. Og hvað gerir ríkisstj. þá? Þá fer hún að taka þær gjafir aftur, sem hún er búin að gefa fólkinu nú. Hún dregur úr fjölskyldubótum og öðrum framlögum til félagsmála, og hún lækkar niðurgreiðslurnar. Hún getur í raun og veru ekkert annað gert. Þetta er leikaraskapur, sem hefur verið að gerast hjá okkur. Það er um það að velja, hvort við eigum að vera með svona leikaraskap eða hvort við eigum að halda verðbólgunni niðri, hafa gengið stöðugt og ganga ekki eins langt og við erum búnir að við að þynna út verðgildi íslenzkrar krónu.

Þriðja leiðin er til fyrir ríkisstj., og það er að gera hreint ekki neitt. En þá verður hún til í þeirri gjá, sem hún stendur í nú, í staðinn fyrir að hún þarf að hafa sig upp úr gjánni með skynsamlegum ráðstöfunum. Ef hún gerir ekki neitt, þá verður hún til í þessari gjá, ef hún ekki einu sinni lækkar vextina, af því að það er ekki von, að fólkið í landinu þoli það, að fáeinir menn reikni út einhverja vitleysu til að gera lífsafkomu óbærilega, til þess að gera ráðstafanir, sem er ekki brýn þörf á að gera.

Að lokum vildi ég svo segja þetta: Ég veit, að það hafa margir erfiðleikar orðið á vegi þessarar ríkisstj. og m.a. aflabrestur togaranna. En það má bara alltaf búast við þessu. Það eru margir sekir, en enginn hefur haft hærra um það en vinur minn, 3. þm. Reykv. (EOl), að það þyrfti að kaupa togara. Það var alltaf allra meina bót að kaupa togara, og vinstri stjórnin byrjaði á því að auglýsa, að hún ætlaði að kaupa 15 stóra togara. Sem betur fer fórst það fyrir, og hygg ég, að það sé okkar ágæta flokksforingja, 1. þm. Austf. (EystJ), að þakka að nokkru leyti, því að honum var aldrei um að taka lán hjá Rússum. En hvað sem um það er, þá er það engin lausn að kaupa togara, ef ómögulegt er að reka togarann, þannig að hann beri sig. Og það er satt að segja ekki hægt að lá þessari ríkisstj. ákaflega mikið, þó að hún keypti 4 togara eftir allt þetta togaramas, sem hefur verið hér. Mér er það fyrir löngu ljóst, að bátarnir eru miklu hentugri atvinnutæki hjá okkur en togararnir, og ef við eigum að vera efnalega sjálfstæð þjóð, þá verðum við að athuga það, að skapa þessum bátum þau skilyrði, að það sé hægt að reka þá á heilbrigðum grundvelli.

Og að lokum, — ég er ekki að tala í landhelgismálinu, en ég vildi bara segja það, að með því að færa inn landhelgina, þá er hætt þessum eina þætti í okkar atvinnulífi, sem við getum treyst á, þannig að við getum verið efnalega sjálfstæð þjóð í framtiðinni. Ef möguleikar fyrir þann lið atvinnulífsins eru skertir, þá er ég hræddur um, að við verðum ekki efnalega sjálfstæðir í framtíðinni. En það er í raun og veru það eina sjálfstæði, sem lítil, varnarlaus smáþjóð getur treyst á.